Skóla- og frístundaráð
59. fundur
FRÆÐSLURÁÐ
Ár 1998, mánudaginn 29. júní, kl 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund í Ráðhúsi Reykjavíkur og var þetta 59. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir formaður, Margrét Björnsdóttir, Sigrún Elsa Smáradóttir, Margrét Theódórsdóttir og Jóna Gróa Sigurðardóttir. Auk þeirra sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Hannes K. Þorsteinsson frá Kennarafélagi Reykjavíkur, Guðmundur Sighvatsson frá Skólastjórafélagi Reykjavíkur og Óskar Ísfeld Sigurðsson frá Samfok. Einnig sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir fræðslustjóri, Ólafur Darri Andrason forstöðumaður fjármálasviðs, Arthur Morthens forstöðumaður þjónustusviðs og Steinunn Stefánsdóttir upplýsingafulltrúi sem ritaði fundargerð.
1. Lögð fram tillaga formanns um að Margrét Björnsdóttir verði varaformaður fræðsluráðs. Samþykkt með þremur atkvæðum fulltrúa Reykjavíkurlista. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks sátu hjá.
2. Lagt fram að nýju álit fræðslustjóra vegna ráðningar í stöðu aðstoðarskólastjóra við Háteigsskóla ásamt tillögu skólastjóra og umsögn kennararáðs Háteigsskóla. Formaður lagði til að Þórður Óskarsson yrði ráðinn aðstoðarskólastjóri Háteigsskóla. Samþykkt samhljóða.
3. Lagt fram álit fræðslustjóra f.h. matsnefndar um ráðningu í stöðu skólastjóra Vogaskóla ásamt viðmiðum við val á milli umsækjenda um skólastjórastöður og auglýsingu um lausa stöðu skólastjóra Vogaskóla. Einnig lögð fram umsögn kennararáðs Vogaskóla um umsóknir um stöðu skólastjóra. Með tilvísum í álit matsnefndar lagði formaður til að lagt yrði til við borgarráð að Guðbjörg Halldórsdóttir yrði ráðin í stöðu skólastjóra Vogaskóla. Samþykkt samhljóða.
4. Lögð fram tillaga formanns um að fastráða Guðmund Inga Leifsson skólastjóra Dalbrautarskóla.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi tillögu: Fræðsluráð harmar þá óeiningu sem ríkir meðal starfsmanna Dalbrautarskóla og leggur áherslu á að lausn verði fundin hið fyrsta svo tryggja megi farsælt starf skólans. Í ljósi þess að fjórir af fimm sérkennurum skólans muni láta af störfum verði núverandi skólastjóri ráðinn áfram telur fræðsluráð ekki annað fært en að lýsa stöðu skólastjóra Dalbrautarskóla lausa til umsóknar.
Fulltrúar Reykjavíkurlista lögðu fram eftirfarandi frávísunartillögu: Við vísum frá tillögu Sjálfstæðisflokksins um að auglýsa stöðu skólastjóra Dalbrautarskóla lausa til umsóknar.
Frávísunartillagan var samþykkt með þremur atkvæðum fulltrúa Reykjavíkurlista gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks. Tillaga formanns var samþykkt með þremur atkvæðum fulltrúa Reykjavíkurlista gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks.
Fulltrúar Reykjavíkurlista óskuðu eftir að eftirfarandi yrði bókað: Ekki er venja að auglýsa aftur stöður skólastjóra eftir eins árs reynslutíma nema um sé að ræða breyttar forsendur. Ekki er um slíkt að ræða í þessu tilfelli. Varðandi þá staðhæfingu í tillögu Sjálfstæðismanna að fjórir af fimm sérkennurum skólans muni láta af starfi verði núverandi skólastjóri ráðinn skal þess getið að ekkert slíkt hefur formlega borist fræðsluráði Reykjavíkur. Sú óeining sem ríkir meðal einhverra starfsmanna Dalbrautarskóla skal hörmuð og vonast meirihluti fræðsluráðs eftir því að fyrirhuguð endurskoðun á starfi skólans geti stutt farsæl lok þeirrar óeiningar. Að okkar mati hefur Guðmundur Ingi Leifsson allar forsendur, bæði framhaldsmenntun og mikla stjórnunarreynslu til að gegna áfram starfi skólastjóra Dalbrautarskóla, sbr, ráðningu hans fyrir ári.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu eftir að eftirfarandi yrði bókað. Í ljósi umræðna á undanförnum fundum fræðsluráðs er ljóst að mikill vandi steðjar nú að innra skólastarfi Dalbrautarskóla. Þar ríkir mikil óeining. Skjólstæðingar skólans eiga við vandmeðfarin veikindi að stríða og því skiptir miklu máli að höggvið sé á þann hnút sem felst í erfiðum samskiptum starfsmanna skólans með því að fá nýja forystu. Því teljum við brýnt að staða skólastjóra verði auglýst.
5. Lögð fram drög að formi á þjónustusamningi milli Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur annars vegar og tónlistarskóla í Reykjavík hins vegar. Fostöðumaður fjármálasviðs fylgdi samningsdrögunum úr hlaði. Fræðsluráð lýsir sig sammála fyrirliggjandi drögum að þjónustusamningi milli Fræðslumiðstöðvar og tónlistarskóla.
6. Lagt fram minnisblað fræðslustjóra varðandi lausar stofur við grunnskóla Reykjavíkur skólaárið 1998-1999. Fræðsluráð samþykkir að beina til borgarráðs að veitt verði fjárveiting til kaupa á 5-6 lausum kennslustofum fyrir grunnskóla Reykjavíkur til afnota á skólaárinu 1998-1999. Frá skólum borgarinnar komu fram óskir um 20 færanlegar stofur, þar af er brýn þörf fyrir a.m.k. 14-15 stofur. Mögulegt er að flytja 9 stofur milli skóla. Lágmarksþörf er því 5-6 stofur. Reikna má með að hver laus stofa kosti 6-8 m.kr. þar sem lagnir eru fyrir.
7. Lagt fram til kynningar yfirlit um kennaramál sem afgreidd hafa verið af starfsmannadeild Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur.
Fundi slitið 13.35
Sigrún Magnúsdóttir
Margrét Björnsdóttir Sigrún Elsa Smáradóttir
Margrét Theódórsdóttir Jóna Gróa Sigurðardóttir