Skóla- og frístundaráð
62. fundur
Fræðsluráð
Ár 1998, mánudaginn 31. ágúst, kl. 12:00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund í Ráðhúsi Reykjavíkur og var þetta 62. fundur ráðsins. Fundinn sátu Sigrún Magnúsdóttir, formaður, Margrét Björnsdóttir, Sigrún Elsa Smáradóttir, Guðrún Pétursdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson sem mætti í fjarveru aðal- og varafulltrúa minnihlutans. Auk þeirra sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Hannes Þorsteinsson og Guðrún Sturlaugsdóttir frá Kennarafélagi Reykjavík, Óskar Ísfeld Sigurðsson fulltrúi Samfoks og Guðmundur Sighvatsson frá Skólastjórafélagi Reykjavíkur. Einnig sátu fundinn Ólafur Darri Andrason, forstöðumaður fjármálasviðs á Fræðslumiðstöð, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður þróunarsviðs og Gerður G. Óskarsdóttir, fræðslustjóri sem ritaði fundargerð.
1. Fræðslustjóri dreifði nýrri áætlun um fundi fræðsluráðs og heimsóknir ráðsins í skóla.
2. Lagt fram bréf fræðslustjóra frá 31. ágúst um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa fræðsluráði.
3. Ólafur Halldórsson, arkitekt á Borgarskipulagi, kynnti skipulag Grafarholtshverfis. Fræðsluráð mun síðar taka afstöðu til þess hvort það leggur til að í hverfinu verði tveir grunnskólar með tíu árgöngum eða þrír skólar, þ.e. tveir barnaskólar og einn unglingaskóli.
4. Forstöðumaður þróunarsviðs á Fræðslumiðstöð gerði grein fyrir umfangsmikilli úttekt á starfsemi lengdrar viðveru sem nýtt verður við frekari stefnumörkun um þessa starfsemi. Stefnt er að því að skýrsla um úttektina verði lögð fram á næsta fundi ráðsins.
Guðbjörg Andrea Jónsdóttir vék af fundi eftir þennan lið.
5. Forstöðumaður fjármálasviðs lagði fram svar við fyrirspurn frá síðasta fundi varðandi meðalkostnað á nemanda í grunnskólum Reykjavíkur og forsendur útreikninga sem liggja til grundvallar framlagi til einkaskóla. Því var beint til forstöðumanns að taka saman meðalkostnað vegna einstakra skóla í Reykjavík og aðrar þær upplýsingar sem málið varða. Einnig voru kynnt drög að þjónustusamningi við Ísaksskóla. Málinu frestað til næsta fundar.
6. Staðan 1. sept. varðandi: a) Nemendafjölda o.fl.: Forstöðumaður fjármálasviðs gerði grein fyrir nemendafjölda og úthlutun kennslumags fyrir skólaárið 1998-1999. Endanlegar nemendatölur verða lagðar fyrir fræðsluráð um miðjan september. b) Framkvæmdir: Dreift yfirliti yfir stöðu helstu framkvæmda við grunnskóla Reykjavíkur nú við lok sumars. c) Kennaramál: Sótt hefur verið um undanþágu fyrir 42 leiðbeinendur. Óráðið er í fjórar kennarastöður og ekki er búið að ganga frá ráðningu 20-25 annarra starfsmanna skóla.
Lagt fram til kynningar yfirlit starfsmannadeildar Fræðslumiðstöðvar um afgreiðslu kennaramála dags. í dag.
7. Lagt fram erindi frá skólastjóra Réttarholtsskóla, dags. 7. ág. sl. um styrk fyrir skáksveit Réttarholtsskóla til að fara á Norðurlandamót skáksveita grunnskóla, sem fulltrúi Íslands, og haldið verður í Noregi í haust. Samþykkt að skólinn fái styrk að upphæð kr. 150.000. Fræðslumiðstöð falið að afgreiða með samsvarandi hætti erindi skóla sem í framtíðinni senda nemendur á þetta mót.
8. Lagt fram erindi frá aðilum er standa að Tónlistarskóla íslenska Suzukisambandsins dags. 19.8. 1998 þar sem þess er farið á leit við fræðsluráð Reykjavíkur að það hlutist til um að fulltrúi Reykjavíkurborgar í skólanefnd skólans færi rök fyrir ráðningu nýs skólastjóra. Málinu vísað til Fræðslumiðstöðvar.
9. Lagt fram erindi frá fulltrúum Samtaka foreldra og kennara fyrir faglegum Suzukiskóla, dags. 25.8. 1998, um styrk að upphæð kr. 800.000 til að hefja tónlistarkennslu í grunnskóla nú í haust. Erindinu vísað til verkefnisstjórnar um rekstur tónlistarskóla og skólahljómsveita.
10. Lagt fram erindi frá fulltrúum Samtaka foreldra og kennara fyrir faglegum Suzukiskóla, dags. 25.8.1998, um launastyrk til tónlistarkennslu að upphæð kr. 6.550.000 fyrir næsta fjárhagsár. Erindinu vísað til verkefnisstjórnar um rekstur tónlistarskóla og skólahljómsveita.
Fundi slitið 14.10
Sigrún Magnúsdóttir
Margrét Björnsdóttir Sigrún Elsa Smáradóttir
Guðrún Pétursdóttir Guðlaugur Þór Þórðarson