Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

63. fundur

Fræðsluráð

Ár 1998, mánudaginn 7. september, kl. 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund í Ráðhúsi Reykjavíkur og var þetta 63. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir, formaður, Guðrún Erla Geirsdóttir, Reynir Þór Sigurðsson, Guðrún Pétursdóttir og Eyþór Arnalds. Auk þeirra sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Hannes Þorsteinsson og Guðrún Sturlaugsdóttir frá Kennarafélagi Reykjavíkur, Kristín Jónasdóttir, fulltrúi Samfoks, og Guðmundur Sighvatsson frá Skólastjórafélagi Reykjavíkur. Einnig sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir, fræðslustjóri, Arthur Morthens, forstöðumaður þjónustusviðs, og Sigurður Þór Jóhannesson, skjalavörður Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur, sem ritaði fundargerð.

1. Formaður bauð velkomna tvo varamenn, Guðrúnu Erlu Geirsdóttur og Reyni Þór Sigurðsson, sem nú sitja fund í fræðsluráði í fyrsta sinn.

2. Lagt fram erindi Sambands ísl. sveitarfélaga um námskeið fyrir skólanefndir, sem haldin verða í haust. Fræðslustjóra falið að kanna möguleika á að halda slíkt námskeið fyrir fræðsluráð Reykjavíkur mánudaginn 19. október 1998 í beinu framhaldi af fundi fræðsluráðs.

3. Fræðslustjóri lagði fram minnisblað um dagskrá í tilefni afmælis Miðbæjarskólahússins á vígsludaginn þann 10. október 1998. Lagt til að þema dagskrárinnar verði skólasagan milli tveggja aldamóta. Fræðslumiðstöð falið að skipuleggja dagskrá á grunni minnisblaðsins og ábendinga sem fram komu á fundinum.

4. Skólaskipan í Grafarholti. Fræðslustjóri lagði fram minnisblað um tvo möguleika á skipan skóla, annars vegar tvo skóla með 10 árganga og hins vegar tvo barnaskóla með 1. - 6. bekk eða 7. bekk og einn unglingaskóla með 7. eða 8. - 10. bekk. Á minnisblaðinu eru dregnir fram kostir hvors fyrirkomulags fyrir sig. Auk þess eru taldar upp athuganir sem Fræðslumiðstöð leggur til að gerðar verði áður en að ákvörðun kemur. Fræðslumiðstöð falið að skoða ákveðna þætti til samanburðar, og athuga með tímamörk.

5. Lagður fram kynningarbæklingur um íþróttaskóla - samstarf íþróttafélaga og grunnskóla.

6. Gjald fyrir leigu á hljóðfærum í skólalúðrasveitum. Skrá liggur nú fyrir um hljóðfæraeign skólahljómsveitanna. Formaður fræðsluráðs lagði fram tillögu um að tekið verði upp leigugjald fyrir hljóðfæri í skólalúðrasveitum. Fræðsluráð samþykkir samhljóða að leigugjald verði kr. 1.500,- á önn frá og með haustönn 1998.

7. Lagt fram til kynningar yfirlit yfir kennaramál sem afgreidd hafa verið af starfsmannadeild Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur.

8. Lagt fram yfirlit forstöðumanns fjármálasviðs Fræðslumiðstöðvar yfir skiptingu kostnaðar á nemanda eftir skólum.

9. Þjónustusamningur við Skóla Ísaks Jónssonar. Samþykkt með þremur atkvæðum fulltrúa meirihluta að gerður verði þjónustusamningur við Skóla Ísaks Jónssonar á þeim nótum sem kynntar voru á síðasta fundi. Fulltrúar minnihluta sátu hjá.

Fulltrúa minnihluta lögðu fram eftirfarandi bókun undir þessum lið: Fyrir fundi fræðsluráðs 31. ágúst 1998 lágu útreikningar Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur um þann kostnað sem ætla má að hljótist af hverjum nemanda í grunnskólum Reykjavíkur. Kostnaður á nemanda er talinn 241 þúsund krónur á ári. Er þá hvorki innifalinn stofnkostnaður né kostnaður við viðhald eða byggingar. Jafnframt lá fyrir fundinum samningur sem Fræðslumiðstöð gerir við Skóla Ísaks Jónssonar, þar sem gert er ráð fyrir að Reykjavíkurborg greiði skólanum 140 þúsund krónur á hvern nemanda á ári.

Sjálfstæðismenn leggja áherslu á mikilvægi þess að hlú að fjölbreytni í skólastarfi, og styðja við það sem vel er gert jafnt í einkaskólum sem öðrum. Í meira en 70 ár hefur Skóli Ísaks Jónssonar starfað við fádæma hylli í Reykjavík og hafa færri komið börnum sínum að en vildu. Í upphafi stóðu skólagjöld undir öllum kostnaði, en ríki og Reykjavíkurborg hafa stefnt markvisst að því að gera skólanum kleift að stilla skólagjöldum í hóf þannig að fjárhagsstaða foreldra yrði ekki ráðandi um það hvort börn gætu sótt skólann.

Ljóst er að gæta verður ítrasta aðhalds í rekstri grunnskóla borgarinnar og eru þeim þó ætlaðar rúmlega 240 þúsund krónur á nemanda. Að ætla skólum nær helmingi lægri fjárhæð til að standa undir rekstri stefnir skólastarfinu í algert svelti, nema skólagjöld verði stórhækkuð. Sjálfstæðismenn telja þetta óviðunandi og skref aftur á bak á tímum þegar setja á sjálfstæði skóla í fyrirrúm. Sjálfstæðismenn gera þá kröfu að málefni einkaskóla í Reykjavík verði tekin sérstaklega til faglegrar umfjöllunar og stefnt að því að styðja mun myndarlegar við starf þeirra en nýgerðir samningar gera ráð fyrir.

Formaður fræðsluráðs óskaði að eftirfarandi yrði bókað: Það er af og frá að verið sé að stefna skólastarfi í Skóla Ísaks Jónssonar í svelti þar sem heildarupphæðin sem skólinn fær er svipuð og skólinn fékk fyrir yfirfærslu grunnskólans til sveitarfélaga að teknu tilliti til kjarasamninga. Almennt hefur framlag til einkaskóla aukist að undanförnu og t.d. hefur framlag til Landakotsskóla tvöfaldast frá því sem áður var.

Fundi slitið kl. 13.20

Sigrún Magnúsdóttir

Guðrún Erla Geirsdóttir Guðrún Pétursdóttir
Reynir Þór Sigurðsson Eyþór Arnalds