Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

66. fundur

Fræðsluráð

Ár 1998, mánudaginn 19. október, kl. 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund í Ráðhúsi Reykjavíkur og var þetta 66. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir, formaður, Margrét S. Björnsdóttir, Sigrún Elsa Smáradóttir og Guðrún Pétursdóttir. Auk þeirra sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Hannes Þorsteinsson og Guðrún Sturlaugsdóttir frá Kennarafélagi Reykjavíkur, Óskar Ísfeld Sigurðsson, fulltrúi Samfoks, og Guðmundur Sighvatsson frá Skólastjórafélagi Reykjavíkur. Einnig sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir, fræðslustjóri, Arthur Morthens, forstöðumaður þjónustusviðs og Sigurður Þór Jóhannesson, skjalavörður Fræðslumiðstöðvar, sem ritaði fundargerð.

1. Lagt fram bréf fræðslustjóra dags. 15. okt. sl. um embættisafgreiðslur. 2. Kynnt teikning af viðbyggingu við Fossvogsskóla og nýting Korpúlfsstaða. Arkitekt Fossvogsskóla, Helga Gunnarsdóttir, gerði grein fyrir teikningunum. Fræðsluráð gerir ekki athugasemdir við framlagðar teikningar.

Egill Guðmundsson, arkitekt, kynnti tillögur að nýtingu vesturálmu Korpúlfsstaða undir grunnskólastarf.

Fulltrúi Sjálfstæðisflokks óskaði eftirfarandi bókað: Korpúlfsstaðir eru einstök bygging í borgarlandinu með stórfenglega möguleika. Nýting þeirra skiptir mjög miklu og brýnt að láta ekki tilviljun ráða hvernig henni verður háttað. Það er vel þekkt að bráðabirgðalausnir hafa ríka tilhneigingu til að vara lengur en nokkur ætlaði. Full ástæða er til að ætla að það muni eiga við í þessu tilfelli. Það er ljóst að leysa verður þörfina á skólahúsnæði fyrir Staðarhverfi, en sjálfstæðismenn mótmæla því að sú þörf skuli verða til þess að stigin verða skref sem geta markað framtíðarhlutverk Korpúlfsstaða án undangenginnar stefnumörkunar um það hvernig þessi einstaka bygging og umhverfi hennar verða best nýtt í þágu allra borgarbúa.

Fulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu eftirfarandi bókað: Við þökkum byggingardeild borgarverkfræðings og Agli Guðmundssyni arkitekt fyrir vandaða vinnu við úttekt á vesturálmu Korpúlfsstaða sem bráðabirgðahúsnæði fyrir grunnskólastarf í Víkur- og Staðarhverfi. Við teljum afar mikilvægt að tryggja að skólastarf geti hafist næsta haust í þessum hverfum. Þær lausnir sem til greina koma eru tvær, annarsvegar að setja upp færanlegar kennslustofur í öðru hvoru hverfanna eða nýta vestustu álmu Korpúlfsstaða. Miðað við þær tillögur sem voru kynntar hér á fundinum virðist ekki vera stór munur á kostnaði við þessar leiðir, sérstaklega ef eðlilegt viðhald Korpúlfsstaða s.s. endurnýjun þaks og lagna er tekið af viðhaldsliðum en ekki stofnkostnaði fræðslumála. Fræðsluráð telur því rétt í ljósi þessara tillagna að skoðað verði frekar að gera upp vesturálmu Korpúlfsstaða og nýta húsnæðið undir bráðabirgðaskólastarf fyrir Víkur- og Staðarhverfi.

Áheyrnarfulltrúi foreldra óskaði eftirfarandi bókað: Það er virðingarvert að borgaryfirvöld vilji halda við gömlum byggingum borgarinnar. Korpúlfsstaðir eru á útjaðri skólahverfisins og húsnæðið er ekki hentugt sem kennsluhúsnæði. Því tel ég ekki rétt að hefja skólastarf hverfisins þarna.

Sighvatur Arnarsson sat fund undir þessum lið. 3. Lögð fram tvö erindi frá menntamálaráðuneyti, dags. 15. sept. sl. Arthur Morthens greindi frá að hjá Fræðslumiðstöð Reykjavíkur hefur verið settur á laggirnar starfshópur til að ræða punktakerfi og viðbrögð við agavandamálum. Fulltrúi skólastjóra greindi frá að samskonar starfshópur hafi tekið til starfa á vegum menntamálaráðuneytis. 4. Tilnefning varamanns í stjórn Vinnuskóla Reykjavíkur. Formaður tilnefndi Margréti S. Björnsdóttur. Samþykkt. 5. Tilnefning í dómnefnd um barnabókaverðlaun fræðsluráðs. Sigrún Elsa Smáradóttir, Kristrún Ólafsdóttir og Guðrún Pétursdóttir. Samþykkt. 6. Lagt fram erindi frá skólastjóra Vesturbæjarskóla o.fl. varðandi skóladagatal og viðtöl við foreldra. Fræðslustjóra falið að svara erindinu.

Fundi slitið kl. 14.13

Sigrún Magnúsdóttir

Margrét Björnsdóttir Guðrún Pétursdóttir
Sigrún Elsa Smáradóttir