Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

72. fundur

Fræðsluráð

Ár 1999, mánudaginn 11. janúar, kl. 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund í Ráðhúsi Reykjavíkur og var þetta 72. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir, formaður, Sigrún Elsa Smáradóttir, Eyþór Arnalds og Guðrún Pétursdóttir. Auk þeirra sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Hannes K. Þorsteinsson og Guðrún Sturlaugsdóttir frá Kennarafélagi Reykjavíkur, Óskar Ísfeld Sigurðsson, fulltrúi Samfoks, og Guðbjörg Þórisdóttir frá Skólastjórafélagi Reykjavíkur. Einnig sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir, fræðslustjóri, Ólafur Darri Andrason, forstöðumaður fjármálasviðs, Arthur Morthens, forstöðumaður þjónustusviðs, og Steinunn Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi, sem ritaði fundargerð. Loks sátu fundinn skólastjórarnir Einar Magnússon, Guðmundur Sighvatsson og Ragnar Gíslason, Jón Björnsson, framkvæmdastjóri þróunar- og fjölskyldusviðs, og Hjörleifur Kvaran, borgarlögmaður.

1. Lagt fram erindi skólastjóra Foldaskóla um öryggiseftirlit við skólann. Ragnar Gíslason skólastjóri gerði grein fyrir erindinu.

Ólafur Darri Andrason gerði grein fyrir kostnaði vegna skemmdarverka í skólum.

Hjörleifur Kvaran gerði grein fyrir lagalegum forsendum fyrir uppsetningu öryggismyndavéla í og við skóla.

2. Lögð fram greinargerð skólastjóra Hagaskóla um atburði í skólanum fyrstu kennsluviku ársins. Einar Magnússon, skólastjóri, fylgdi greinargerðinni úr hlaði.

Lagt fram bréf foreldra nemanda í Hagaskóla þar sem kvartað er yfir málsmeðferð og viðurlögum sem barn þeirra var beitt.

Guðmundur Sighvatsson gerði grein fyrir starfi starfshóps á vegum menntamálaráðuneytisins, sem vinnur að endurskoðun á skólareglum og agamálum.

Arthur Morthens gerði grein fyrir starfi nefndar á vegum Fræðslumiðstöðvar um samræmdar skólareglur til viðmiðunar fyrir skóla borgarinnar, framkvæmd slíkra reglna og viðurlög við brotum á þeim. Einnig minnti hann á fyrirliggjandi feril mála vegna misbrests á skólasókn og brottvísunum úr skóla sem skráður var á Fræðslumiðstöð í september 1997.

Hjörleifur Kvaran fjallaði um andmælarétt foreldra þegar börnum þeirra er vísað úr skóla.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu eftir að eftirfarandi væri bókað: Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í fræðsluráði lýsa þungum áhyggjum vegna vaxandi agaleysis í skólum og þeirra atburða sem átt hafa sér stað í Hagaskóla að undanförnu. Mildi má telja að ekki urðu slys á nemendum og starfsmönnum skólans. Ekki þarf að fjölyrða um nauðsyn þess að taka vandamál af þessu tagi föstum tökum frá upphafi. Þar ber fræðsluyfirvöldum að styðja eindregið við bakið á skólastjórnendum. Fræðslumiðstöð Reykjavíkur brást þeirri skyldu sinni í upphafi málsins, þegar mest reið á að fá lögfræðilega ráðgjöf og aðstoð. Ráðgjöf Fræðslumiðstöðvar reyndist á misskilningi byggð, þar sem andmælaréttur víkur þegar nauðsyn ber til að afstýra yfirvofandi hættu. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma að af umfjöllun fjölmiðla varð ekki annað séð, en að Fræðslumiðstöð hefði snuprað skólastjóra Hagaskóla í stað þess að styðja hann í þessu mikilvæga máli. Hér má telja að um nokkurs konar prófmál sé að ræða og brýnt að nýta þá reynslu sem það gefur til að skerpa verklag og samstarf skólayfirvalda gegn þeirri ógn sem öllu skólastarfi stafar af vaxandi agavanda ungmenna. Guðrún Sturlaugsdóttir óskaði eftir að eftirfarandi væri bókað: Í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað um agaleysi í skólum og vandkvæði skólastjórnenda og kennara við að beita viðurlögum við þeim, þá vil ég skora á skólayfirvöld að taka á þessum málum strax og af mikilli festu. Það ástand sem hefur undanfarið verið að skapast í skólunum, þar sem þarfir og réttur hinna fáu er farinn að yfirgnæfa rétt hinna mörgu er óásættanlegt. Skólayfirvöld í Reykjavík, hafa í starfsáætlun Fræðslumiðstöðvar fyrir árið 1999, sett sér að leiðarljósi „að grunnskólar borgarinnar verði í hópi bestu skóla innan lands og utan við upphaf næstu aldar” og jafnframt „að vægi skólastarfs í borgarlífinu aukist og stuðlað sé að jákvæðum viðhorfum til grunnskólans”. Til að hægt sé að tendra þessi ljós og láta þau lýsa í grunnskólum borgarinnar í framtíðinni, verða yfirvöld fræðslumála í samvinnu við skólastjórnendur og kennara að samræma skóla- og agareglur og viðurlög við þeim. Þetta verður að gera á þann hátt að foreldrum, nemendum og starfsfólki skólanna sé ljóst hvaða reglur gildi og viðurlög við brotum á þeim.

Formaður fræðsluráðs óskaði eftir að eftirfarandi væri bókað: Fræðsluráð og Fræðslumiðstöð Reykjavíkur hafa beitt sér fyrir úttekt og skilgreiningu á skólareglum allra grunnskóla borgarinnar. Á árinu 1997 beindi fræðsluráð því til skólanna að þeir settu sér allir skólareglur og reynt yrði að gæta samræmis. Í starfsáætlun Fræðslumiðstöðvar fyrir árið 1998 var lögð áhersla á námskeið fyrir kennara í aga- og bekkjarastjórnun. Þetta voru fjölmennustu námskeiðin okkar árið 1998 en alls sóttu 144 kennarar námskeiðin. Úrskurður menntamálaráðuneytisins síðastliðið vor varðandi framkvæmd eins skóla borgarinnar á brottvísun nemanda, sem brotið hafði reglur skólans, var okkur því mikið áfall. Í ljósi þessa úrskurðar var ráðgjöf fræðslustjóra til skólastjóra Hagaskóla mjög eðlileg. Mikilvægast er að fyrirbyggja með öllum ráðum atburði sem þessa í skólum borgarinnar. Samvinna og samstarf allra aðila er þar lykilatriði. Ég les það úr bókun minnihlutans og kennarafulltrúans að vilji til samstarfs er fyrir hendi í fræðsluráði. Verkefni okkar framundan varðandi agastjórnun eru: - að allir skólar borgarinnar hafi sömu grundvallaratriði í skólareglum sínum, - að samræmd verði viðurlög við brotum á skólareglum, - að aga- og bekkjarstjórnunarnámskeiðum verði haldið áfram á árinu 1999, - að leitað verði leiða til að gera starf foreldraráða markvissara og móta viðmið fyrir foreldraráð, - að haldin verði námskeið fyrir foreldra nemenda sem eru að hefja nám á unglingastigi. (sjá 4. kafla í starfsáætlun Fræðlumiðstövar 1999 um útgáfu á viðmiðunarreglum fyrir skóla um umgegni og aga, áherslu á námskeið í aga- og bekkjarstjórnun, mótun viðmiða fyrir foreldraráð og mótun hugmynda um námskeið fyrir foreldra nemenda sem eru að hefja nám á unglingastigi).

Fræðsluráð leggur áherslu á að starfshópur Fræðslumiðstöðvar um samræmdar viðmiðunarreglur um agamál flýti störfum sínum og taki einnig saman ferilslýsingar í þessum efnum.

Fundi slitið kl. 14.25

Sigrún Magnúsdóttir

Sigrún Elsa Smáradóttir Eyþór Arnalds
Guðrún Pétursdóttir