Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

73. fundur

Fræðsluráð

Ár 1999, mánudaginn 18. janúar, kl. 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund í Ráðhúsi Reykjavíkur og var þetta 73. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir, formaður, Margrét Björnsdóttir, Reynir Þór Sigurðsson, Bryndís Þórðardóttir og Margrét Theodórsdóttir. Auk þeirra sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Hannes K. Þorsteinsson og Guðrún Sturlaugsdóttir frá Kennarafélagi Reykjavíkur, Óskar Ísfeld Sigurðsson, fulltrúi SAMFOKs, og Guðbjörg Þórisdóttir frá Skólastjórafélagi Reykjavíkur. Einnig sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir, fræðslustjóri, Ólafur Darri Andrason, forstöðumaður fjármálasviðs, Arthur Morthens, forstöðumaður þjónustusviðs, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður þróunarsviðs, og Steinunn Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi, sem ritaði fundargerð. Jafnframt sat fundinn Einar Magnússon, skólastjóri Hagaskóla.

1. Lagt fram bréf fræðslustjóra, dags. 15. jan. sl., um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa til fræðsluráðs.

2. Lögð fram fundargerð bygginganefndar skóla frá 14. des. sl.

3. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 5. nóv. sl., varðandi fundartíma fastra ráða og nefnda Reykjavíkurborgar.

4. Lögð fram endurskoðuð fundaáætlun fræðsluráðs.

5. Lögð fram til kynningar samantekt frá Foreldraþingi 1998, landsþingi heimilis og skóla, og ársþingi SAMFOKs.

6. Lögð fram að nýju greinargerð skólastjóra Hagaskóla um atburði í skólanum fyrstu kennsluviku ársins.

Lögð fram greinargerð forstöðumanns þjónustusviðs, dags. í dag, um stuðnings Fræðslumiðstöðvar við Hagaskóla undanfarnar vikur. Forstöðumaður þjónustusviðs fylgdi greinargerðinni úr hlaði.

Lögð fram bréf foreldris barns í Hagaskóla, dags. 14. og 17. jan. sl., varðandi meðferð mála einstaklinga sem tengjast atburðum þar síðustu daga.

Vegna þeirra umræðu sem orðið hefur í kjölfar atburða í Hagaskóla um aga og uppeldismál fer áheyrnarfulltrúi foreldra fram á að eftirfarandi verði bókað: Til þess að starfið í grunnskólum borgarinnar verði farsælt þurfa að koma til margir þættir. Einn af mikilvægari þáttunum er að í skólanum ríki góður vinnu- og samstarfsandi og að þeir sem þar starfa, nemendur og aðrir starfsmenn, beri virðingu og taki tillit hver til annars. Það er á ábyrgð okkar foreldra að ala upp börnin, m.a. að kenna og leiðbeina þeim að fara eftir reglum samfélagsins hvort sem þær eru skriflegar eða óskrifaðar og kenna þeim að meta og flokka þau marvíslegu skilaboð og áreiti sem á þeim dynja í nútímasamfélagi. Okkur til aðstoðar eru m.a. starfsmenn skólanna. Þær raddir heyrast að agavandamál fari vaxandi í skólum landsins. Um það skal ekkert fullyrt hér eða hvað veldur, ef svo er, en það er greinilegt að mikill meirihluti nemenda er til sóma og fer eftir því sem fyrir þá er lagt. Ef það er þannig að lítill minnihluti trufli eða ógni öryggi annarra nemenda og starfsfólks þarf að sjálfsögðu að koma í veg fyrir slíkt. Til þess að góður vinnuandi sé í skólunum þurfa að vera til staðar skýrar og sanngjarnar reglur og ljóst þarf að vera hvaða agaviðurlög gilda við brotum á þeim í hverju tilfelli. Kynna þarf þetta vel fyrir foreldrum, nemendum og starfsfólki skólanna þannig að öllum sé ljóst hvaða skyldur hvíli á þeim. Skólastjórar þurfa að hafa skýrar heimildir til að beita agaviðurlögum til að tryggja öryggi nemenda og starfsmanna skólanna, enda er skólastjóri æðsti stjórnandi hvers skóla og ber ábyrgð á skólastarfinu. Rétt er benda á að slíku valdi fylgir mikil ábyrgð. Því hefur verið sett reglugerð um aga og agaviðurlög sem kveður á um framkvæmd agamála. Í ljós hefur komið að margir skólastjórnendur telja að þessi reglugerð gefi þeim ekki nægilegt umboð til að halda uppi aga í skólum landsins. Því er nauðsynlegt að hraða vinnu sem í gangi er á vegum menntamálaráðuneytis og einnig Reykjvíkurborgar við endurskoðun þessara reglna, skólareglna og agaviðurlaga þannig að til verði sanngjarnar, skýrar og samræmdar reglur og samræmd viðurlög við brotum á þeim og lýst verði í ferilskrá hvernig beri að framfylgja þeim. Að sjálfsögðu þarf að taka tillit til annarra laga og reglugerða sem snerta þessi mál. Hér þarf einnig að skoða vel hvaða agaviðurlög eru vænlegust til árangurs. Bent hefur verið á að brottrekstur úr skóla, sem virðast vera algengustu agaviðurlögin, geti verið tvíeggjaður og leysi sjaldnast raunverulega vandamálið. Brottrekstur um stundarsakir getur þó verið nauðsynlegur til að tryggja öryggi og til þess að gefa ráðrúm til að leita varanlegra lausna. Hér þarf að koma til gott samstarf foreldra og starfsfólks skólanna og trúnaður og samstaða þarf að vera milli þessara aðila. Við þurfum síðan að reyna að greina hinar raunverulegu ástæður vandamálsins sem geta verið fjölmargar; m.a. einstaklingsbundnar en einnig atriði eins og uppeldisþáttinn, blöndun í bekki samfara undirmönnun við kennslu, undirmönnun við gæslu á göngum og í frímínútum, vöntun á námstilboði við hæfi hvers og eins, skortur á samstarfi heimilis og skóla og svo mætti lengi telja. Mikilvægt er fyrir alla aðila að sú umræða sem nú er um uppeldi og aga verði til þess að menn dragi af henni lærdóm og nýti hann til að bæta skólastarfið, til að bæta uppeldið, til að efla samstarf foreldra og skólafólks, nemendum og samfélaginu til heilla.

Vísað til forstöðumanns þjónustusviðs og skólastjóra Hagaskóla að finna máli þessu farsæla lausn.

Einar Magnússon, skólastjóri Hagaskóla, hvarf af fundi eftir þennan lið.

7. Lagður fram úrskurður fræðsluráðs vegna kærumáls foreldris. Sjöfn Kristjánsdóttir, lögfræðingur hjá borgarlögmanni, gerði grein fyrir forsendum úrskurðarins.

Úrskurðarorð eru svohljóðandi: Ákvarðanir skólastjóra Öskjuhlíðarskóla og Vogaskóla hinn 6. október 1998 um að synja kæranda um að hitta syni sína, Bergstein og Aðalstein, innan vébanda skólanna eru staðfestar. Ákvörðun Fræðslumiðstöðvar frá 21. september 1998 um að synja kæranda um afgreiðslu námsgreinaskýrslu um Bergstein er staðfest.

Samþykkt með fjórum samhljóða atkvæðum. (MB sat hjá.)

Sjöfn Kristjánsdóttir sat fund undir þessum lið.

8. Lagt fram yfirlit fræðslustjóra yfir erindi sem borist hafa fræðsluráði frá 29. júní – 7. des. 1998 og afgreiðslu þeirra.

10. Lagður fram til kynningar samningur milli menntamálaráðuneytisins, Fræðslumiðstöðvar og Árbæjarskóla um að Árbæjarskóli verði þróunarskóli í upplýsingatækni. Forstöðumaður þróunarsviðs kynnti samninginn.

Fundi slitið kl. 14.15

Sigrún Magnúsdóttir
Margrét Björnsdóttir Reynir Þór Sigurðsson
Bryndís Þórðardóttir Margrét Theodórsdóttir