Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

74. fundur

Fræðsluráð

Ár 1999, mánudaginn 1. febrúar, kl. 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund í Ráðhúsi Reykjavíkur og var þetta 74. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir, formaður, Margrét Björnsdóttir, Sigrún Elsa Smáradóttir, Eyþór Arnalds og Guðrún Pétursdóttir, Auk þeirra sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Hannes K. Þorsteinsson og Finnbogi Sigurðsson frá Kennarafélagi Reykjavíkur, Óskar Ísfeld Sigurðsson, fulltrúi SAMFOKs, og Guðbjörg Þórisdóttir frá Skólastjórafélagi Reykjavíkur. Einnig sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir, fræðslustjóri, Arthur Morthens, forstöðumaður þjónustusviðs, Anna Kristín Sigurðardóttir, deildarstjóri kennsludeildar og Steinunn Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi, sem ritaði fundargerð.

1. Lagt fram bréf fræðslustjóra, dags. 29. jan. sl., um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa fræðsluráði.

2. Lagt fram minnisblað deildarstjóra kennsludeildar, dags. 30. janúar sl., um þátttöku grunskólanna í Reykjavík í verkefninu Reykjavík, menningarborg árið 2000.
Deildarstjóri kennnsludeildar kynnti efni minnisblaðsins.

3. Lagt fram yfirlit deildarstjóra kennsludeildar um helstu verkefni á kennsludeild á árinu 1998.
Deildarstjóri kennnsludeildar kynnti starfsemi deildarinnar.

Ólafur Darri Andrason, forstöðumaður fjármálasviðs, kom á fundinn á eftir þessum lið og Anna Kristín Sigurðardóttir, deildarstjóri kennsludeildar, vék af fundi.

4. Fræðslustjóri kynnti breytingar og aukningu á húsnæði Fræðslumiðstöðvar í Miðbæjarskólanum.

5. Lagt fram, til kynningar, yfirlit yfir umsóknir um styrki til fræðslumála.

6. Lagt fram bréf skólastjóra Hagaskóla, dags. 29. janúar sl., varðandi mál fjögurra pilta sem játað hafa aðild að sprengingum í skólanum.

7. Rætt um uppsögn kennara við Austurbæjarskóla.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu eftir að eftirfarandi væri bókað:
Sá atburður hefur átt sér stað að virtur og vinsæll kennari, sem nýtur fulls stuðnings samkennara, nemenda sinna og foreldra þeirra, hefur hætt störfum við grunnskóla í Reykjavík vegna gersamlega óviðunandi starfsaðstæðna. Ber að harma að ekki tókst að finna farsæla lausn á vandanum. Þeir sem fyrst og fremst líða eru nemendurnir, sem nú hafa misst kennara sinn á miðjum vetri.
Í grein í Morgunblaðinu 26. janúar 1999 lýsir kennarinn mikilli óánægju og vonbrigðum með þátt Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur í þessu máli og er ljóst að trúnaðarbrestur hefur orðið milli þessara aðila. Þess er skemmst að minnast að skólastjóri í Reykjavík sagði sig fara niðurlægðan af fundi Fræðslumiðstöðvar. Sjálfstæðismenn ítreka fyrri bókun um það mál, og árétta mikilvægi þess að traust ríki milli fræðsluyfirvalda og starfsmanna í skólum.
Sjálfstæðismenn í fræðsluráði líta uppsögn kennarans mjög alvarlegum augum. Þessi uppsögn er ekki einstakur atburður, heldur endurspeglar hún margþættan vanda sem brennur á skólakerfinu öllu og fræðsluyfirvöld verða að bregðast við.

Meginþættir vandans eru af þrennum toga:
Í fyrsta lagi er úrræðaleysi vegna nemenda með alvarleg hegðunarvandamál eða sjúkleika sem gerir þeim erfitt að vera í skóla. Þeim vanda er varpað yfir á kennara með fyrirheitum um sérfræðiaðstoð, sem reynslan hefur margsýnt að er alsendis ófullnægjandi. Þetta skapar óþolandi álag á kennara og getur gert þeim nánast ókleift að sinna því starfi sem þeim er fyrst og fremst ætlað að vinna. Aðrir nemendur líða fyrir þetta ástand og fá ekki þá þjónustu sem skólakerfinu ber að veita þeim. Það er skylda fræðsluyfirvalda að taka á þessum vanda og tryggja að raunhæf úrræði séu fyrir hendi í skólunum til að sinna nemendum með sérþarfir. Yfirvöld heilbrigðis- og félagsmála geta ekki skorast undan ábyrgð á þessum málum og hljóta að koma að lausn vandans með fræðsluyfirvöldum.
Í öðru lagi má rekja vandann til húsnæðiskorts skóla, sem er sérstaklega áberandi í kjölfar einsetningar. Dæmið frá Austurbæjarskóla er lýsandi, þar sem miklu hefði mátt bjarga með því að skipta upp stórum bekkjum. Það er hins vegar engin leið, því hvergi er laus smuga. Í svona tilfellum má segja að skólastarfið líði fyrir einsetninguna. Þar við bætist mikil og óvænt fjölgun nemenda, sem víða á sér stað, - ekki síst í eldri hverfum borgarinnar. Ekki getur talist einkamál skólastjórnenda að finna lausn á því, heldur verða fræðsluyfirvöld að hafa svigrúm til að bregðast við slíkum vanda þegar hann kemur upp, þótt ekki hafi verið gert ráð fyrir því í fjárveitingum til viðkomandi skóla.
Í þriðja lagi minna sjálfstæðismenn á nauðsyn þess að bæta kjör kennara í Reykjavík og ítreka fyrri bókun um að aflað sé upplýsinga um launakjör og vinnuskyldu kennara í nágrannabyggðum borgarinnar. Reykjavík stendur í virkri samkeppni við þessi sveitarfélög og mun halda áfram að missa frá sér hæfa kennara, nema vinnuskilyrði og starfskjör kennara í Reykjavík standist þá samkeppni.

Fulltrúar Reykjarvíkurlistans óskuðu eftir að eftirfarandi væri bókað:
Það er fráleitt að Fræðslumiðstöð hafi brugðist þjónustuhlutverki sínu varðandi umræddan bekk í Austurbæjarskóla. Forstöðumaður þjónustusviðs kynnti hér á fundinum hvernig sérfræðingar stofnunarinnar hafa unnið að málefnum tiltekins nemanda undanfarin tvö ár og með bekknum í heild. Sú vinna fór fram í góðri samvinnu við skólastjóra. Eftirfarandi var m.a. gert:
- Skólastjóri ráðstafaði 24 kennslustundum til viðbótar inn í bekkinn (nánast heil sérkennarastaða) til að styrkja bekkjarstarfið. Bekkjarkennari var því einungis 7 kennnslustundir á viku einn með bekkinn (28 nemendum).
- Starfsmenn á Fræðslumiðstöð lögðu mikla vinnu í markvissa greiningu og atferlismótun með nemanda sem bekkjarkennari vildi að vísað yrði úr bekknum. Vinna sem skilaði góðum árangri í námsástundun, námsárangri og breyttri hegðun.
- Á síðustu tveimur árum höfum við stóraukið fjármagn til úrbóta í fjölmennum bekkjum með stundum til sveigjanlegs skólastarfs (sem nemur að meðaltali tveimur stöðugildum á hvern skóla).
- Varðandi húsnæðismál skóla þá var unnin vönduð áætlun um þörfina og er hún nú í endurskoðun. Síðan 1995 hafa um 200 m.kr. farið í endurbætur á Austurbæjarskóla. Þá verður varið 1.100 m.kr í skólabyggingar í ár.
Sá skortur á heildarsýn á málaflokknum sem birtist í bókun sjálfstæðismanna er þeim til vansa. Hingað til höfum við verið sammála um að efla faglegt og fjárhagslegt sjálfstæði skóla. Í því felst meðal annars að skólarnir ráða allt starfsfólk og skipta kennslumagni á bekkjardeildir. Þegar skráning nemenda liggur fyrir á vorin er tekin ákvörðun um hvar sé mest þörf fyrir færanlegar kennslustofur. Við gerð fjárhagsáætlunar í haust komu engar tillögur frá minnihlutanum, hvorki í fræðsluráði né borgarstjórn, um breytingar á fjárhagsramma Fræðslumiðstöðvar eða til skólabygginga. Hins vegar erum við sammála um að það er slæmt þegar góður starfsmaður hættir störfum.

8. Rætt um skipunarmál kennara.

Birgir Björn Sigurjónsson, forstöðumaður kjaraþróunardeildar, og Grétar Jónasson lögfræðingur á skrifstofu borgarlögmanns, sátu fund undir þessum lið

Fundi slitið kl. 14.00

Sigrún Magnúsdóttir
Margrét Björnsdóttir Sigrún Elsa Smáradóttir
Eyþór Arnalds Guðrún Pétursdóttir