Skóla- og frístundaráð
Leikskólaráð
Ár 2008, 16. desember kl. 09:00 var haldinn 48. fundur leikskólaráðs í Tjarnarstofu að Fríkirkjuvegi 1. Fundinn sátu: Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir formaður, Fanný Gunnarsdóttir, Helga Kristín Auðunsdóttir, Einar Örn Ægisson, Oddný Sturludóttir, Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir og Hermann Valsson. Auk þeirra sátu fundinn Helga Þórðardóttir, áheyrnarfulltrúi F- lista, Þórunn Gyða Björnsdóttir, áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra, María Steindórsdóttir, áheyrnarfulltrúi starfsmanna í leikskólum og Ólöf Kristjánsdóttir, áheyrnarfulltrúi samtakanna Börnin okkar. Jafnframt sátu fundinn Ragnhildur Erla Bjarnadóttir sviðsstjóri, Hildur Skarphéðinsdóttir og Ingunn Gísladóttir. Fundargerð ritaði Laura Bergs.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram drög að starfs- og fjárhagsáætlun Leikskólasviðs 2009.
Formaður og sviðsstjóri gerðu grein fyrir málinu.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks óskuðu bókað:
Undanfarna mánuði hefur þverpólitískur aðgerðarhópur vegna stöðu efnahagsmála farið yfir áætlanir allra sviða og fyrirtækja borgarinnar undir dyggri forystu formanns borgarráðs. Undir kringumstæðum eins og þeim sem nú ríkja í þjóðfélaginu er mikilvægt að borgarfulltrúar allir hugi að hag Reykvíkinga og tryggi, eins og borgarstjórn er sammála um, grunngildi til að vinna með í gegnum þessa erfiðu tíma. Samstaða er um að verja grunnþjónustuna, verja störf borgarstarfsmanna og hækka ekki gjöld fyrir grunnþjónustu að svo stöddu. Gott samstarf var í leikskólaráði og pólítískir fulltrúar höfðu hist óformlega og farið yfir allar hugmyndir um hagræðingu.
Drög að fjárhagsáætlun fyrir hvert svið liggja fyrir borgarráði n.k. laugardag og sýna í fyrsta sinn hvernig tekist er á við afleiðingar lækkandi tekna borgarinnar. Fagna ber að náðst hafi að skila hallalausri áætlun. Komið er að erfiðum ákvörðunum um hagræðingu og segja má að nú reyni fyrst á þá pólitísku samstöðu sem áður var nefnd þegar hagræðingaraðgerðir koma til framkvæmda sem snerta beina þjónustu við borgarbúa.
Meirihluti leikskólaráðs vill þakka sérstaklega Leikskólasviði og öllum þeim sem hafa komið að þeirri miklu vinnu sem liggur til grundvallar fjárhagsáætlun og þakkar fyrir faglega og skýra starfsáætlun sem starf næsta árs byggist á.
Fulltrúar Samfylkingar lögðu fram svohljóðandi fyrirspurnir:
a) Í drögum að fjárhagsáætlun eru tillögur borgarstjóra um lækkun launakostnaðar sem fela í sér kröfu um 31#PR meðaltalslækkun yfirvinnugreiðslna. Leikskólasvið er það svið borgarinnar sem hefur lægsta hlutfall yfirvinnu og hátt hlutfall hópa sem hafa lægstu tekjur innan borgarkerfisins. Því er spurt:
Hvernig hefur þessi ákvörðun verið kynnt og samráði verið háttað, t.d. við Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar og Félag leikskólakennara?
Leiðir þessi ákvörðun til launajöfnunar eða aukins ójöfnuðar í launum?
Liggur eitthvað fyrir um áhrif á starfsemi leikskólanna?
Hvað sparast mikið í ramma Leikskólasviðs gangi þessar tillögur eftir?
Hvernig verður framkvæmdin og hvenær kemur þetta til framkvæmda?
b) Í nýjustu drögum að fjárhagsáætlun fyrir árið 2009 er gert ráð fyrir flötum niðurskurði á öll sviðin, sem er viðbót við þær sparnaðartillögur sem þegar höfðu verið kynntar.
Hefur verið haft samráð við starfsfólk leikskólanna og/eða leikskólastjóra?
Á hvaða þætti starfseminnar hefur þetta mest áhrif?
Hverjar eru tillögur borgarstjóra og meirihlutans um hvar þessi flati niðurskurður komi niður?
Hvernig metur meirihlutinn raunhæfni þessara krafna án þess að skerða þá grunnþjónustu sem leikskólar í Reykjavík sinna?
Fulltrúar Samfylkingar óskuðu bókað:
Samfylkingin hefur lýst sig reiðubúna frá upphafi fjárhagsáætlunarvinnunnar að sýna fyllstu ábyrgð við þessar erfiðu aðstæður og tekið þátt í að endurskoða hvern þátt starfseminnar með það fyrir augum að yfirvofandi niðurskurður komi sem minnst niður á mikilvægri starfsemi Leikskólasviðs. Því olli það miklum vonbrigðum að örfáum dögum áður en frumvarpið átti að leggja fram í borgarráði komu fram tillögur borgarstjóra um stórfelldan flatan niðurskurð sem skipta átti á sviðin og lækkun yfirvinnugreiðslna um þriðjung. Þessi hægræðingarkrafa leggst ofan á þær hagræðingarkröfur sem sviðin höfðu áður lagt fram.
Ekkert samráð var haft við starfsfólk, stéttarfélög, samtök foreldra né borgarfulltrúa minnihlutans vegna þessara tillagna borgarstjóra og Samfylkingin gerir alla fyrirvara á raunhæfni þeirra. Aðgerðarhópur borgarstjóra mun eiga eftir að taka endanlega afstöðu til fjárhagsáætlunarinnar og vilja fulltrúar Samfylkingarinnar í leikskólaráði koma eftirfarandi ábendingum til hópsins sem nauðsynlegt er að horfa til við lokafrágang áætlunarinnar. Margar þessara ábendinga hafa margoft komið fram hjá fulltrúum Samfylkingarinnar við vinnslu fjárhagsáætlunar Leikskólasviðs Reykjavíkur fyrir árið 2009.
Nauðsynlegt er að aðgerðarhópur endurskoði áætlun um Borgarbörn. Endurgreina þarf þörf á dagvistarúrræðum m.t.t. mönnunar leikskóla og annarra breytinga sem orðið hafa síðustu mánuði. Forgangsraða þarf verkefnum upp á nýtt og sjá fulltrúar Samfylkingarinnar ekki hvernig háum fjárhæðum er hægt að forgangsraða til uppbyggingar ungbarnaleikskóla á sama tíma og önnur þjónusta fyrir ungabörn er í boði. Nauðsynlegt er að aðgerðarhópur endurskoði reglur um þjónustutryggingu/heimgreiðslur. Ekki er gert ráð fyrir niðurskurði í þeim lið þrátt fyrir að forsendur þjónustutryggingar séu brostnar. Athygli vekur að samkvæmt áætlun fyrir 2009 á að skera niður almenna starfsemi leikskólanna um sömu upphæð og áætlað er að heimgreiðslur kosti árið 2009.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna í leikskólaráði getur ekki fallist á þær forsendur sem gengið hefur verið út frá við gerð fjárhagsáætlunar. Tvennt skiptir þar mestu máli; óbreytt útsvarsprósenta og sú ákvörðun að skila rekstri borgarinnar hallalausum.
Vinstri græn leggja þunga áherslu á að skattar verði notaðir sem það jöfnunartæki sem þeim er ætlað að vera, auk þess sem borgin verður að afla sér nauðsynlegra tekna til að standa undir grunnþjónustu. Því er með öllu óásættanlegt að í frumvarpi um fjárhagsáætlun sé ekki gert ráð fyrir 0,25#PR hækkun á útsvari eins og fjárlagafrumvarp fyrir árið 2009 gerir ráð fyrir og gæti skapað borginni 680 milljónir króna í tekjur.
Jafnframt er ljóst að miðað við þær aðstæður sem sveitarfélög búa við í yfirstandandi samdrætti verður ekki komið til móts við tekjuskerðingu án þess að gengið sé á grunnþjónustu umfram það sem ásættanlegt gæti talist. Sú óskilgreinda hagræðingarkrafa sem gerð er í fyrirliggjandi frumvarpi er í raun og veru ekkert nema halli sem meirihlutinn treystir sér ekki til að horfast í augu við og útfæra nánar, enda myndu allar tilraunir til slíks enda með því að meginreglur aðgerðaráætlunar borgarstjórnar, um að standa vörð um störfin og grunnþjónustuna og halda gjaldskrám óbreyttum, yrðu brotnar.
Fulltrúi Vinstri grænna gerir athugasemd við að einkareknir leikskólar virðast halda sínum framlögum og telur rétt að þau séu endurskoðuð í ljósi stöðunnar ekki síður en önnur útgjöld borgarinnar.
Fulltrúinn ítrekar afstöðu sína til þjónustutryggingarinnar, sem getur haft enn alvarlegri samfélagslegar afleiðingar í efnahagsþrengingum en í góðæri. Reynsla nágrannalanda okkar sýnir að heimgreiðslur, sama hvaða nöfnum þær nefnast, hafa bæði kyn- og stéttbundin áhrif til hins verra. Börn foreldra með lægri tekjur öðlast þannig síður möguleika á því þroskandi starfi sem fram fer í leikskólum. Þeir fjármunir sem ætlaðir eru í þjónustutryggingu myndu án efa nýtast börnunum í borginni mun betur, væri þeim varið í uppbyggingarstarf þeirra góðu og faglegu leikskóla sem eru starfræktir í borginni í þeirra þágu. Að síðustu er átalið að meirihlutinn skuli kjósa að halda þessu mikla og dýra úrræði óskertu meðan verið er að endurskoða öll útgjöld. Þannig nálgun meirihlutans vekur efasemdir um að hugur fylgi máli í samstarfi um gerð fjárhagsáætlunar. Þarna er um að ræða umdeildasta úrræði sem kynnt hefur verið til leiks í uppeldi og menntun á vegum borgarinnar um árabil.
Þau sjónarmið sem hér koma fram eru ekki tæmandi listi yfir athugasemdir Vinstri grænna við frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2009 og áskilja fulltrúar flokksins sér rétt til að koma með breytingartillögur á forgangsröðun leikskólamála á seinni stigum fjárhagsáætlunarvinnunnar.
Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra óskaði bókað:
Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra harmar að notuð sé breytt reikniregla við launaúthlutun til leikskólanna fyrir fjárhagsáætlun 2009, á sama tíma og verið er að þenja út kerfið með heimgreiðslum og ungbarnaleikskólum, þegar þjónusta við þennan aldurshóp er að miklu leyti til staðar. Slík skerðing getur sett leikskólana í vanda við að uppfylla gildandi reglugerð, sem skýrt kveður á um ákveðinn barnafjölda á hvern starfsmann.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks óskuðu bókað:
Öll vinna aðgerðarhópsins hefur unnið með grunngildi þau sem áður voru nefnd. Ný þjóðhagsspá út frá forsendum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins setur enn þrengri ramma fyrir sviðin en samt sem áður er verklag skýrt um að tekin er rúmur tími í að innleiða hagræðingaraðgerðir og breytingar í kjölfar fjárhagsáætlunar.
Meirihluti leikskólaráðs heldur við sannfæringu sína að mikilvægt sé að rannsaka notkun, ánægju og afleiðingar þjónustutryggingar hjá Reykjavík og vill ekki að svo stöddu breyta reglum. Afnám þjónustutryggingar er ekki hagræðingartillaga nema síður sé.
Að lokum er mikilvægt að minna á að leikskólaráð og Leikskólasvið hafa unnið að því að rétta stöðu sjálfstætt rekinna leikskóla svo að jafnræði ríki á milli barna óháð vali á leikskóla. Þegar um hagræðingaraðgerðir eru að ræða er því ljóst að sama hagræðing kemur til á borgarreknum leikskólum og sjálfstætt starfandi leikskólum.
Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óskuðu bókað:
Það er athyglisvert að fá það staðfest að meirihluti leikskólaráðs lítur á heimgreiðslur sem hagræðingu fyrir borgarkerfið. Markmið aðgerðarhópsins hafa líka verið að halda uppi atvinnustigi í Reykjavík. Áhrif þess að leikskólar eru betur mannaðir nú en oft áður, sem og áhrif þess að bjóða upp á valkvæðar heimgreiðslur til foreldra, gera það að verkum að fjöldi dagforeldra í Reykjavík situr nú verkefnalaus og stefnir í atvinnuleysi í greininni.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks óskuðu bókað:
Aldrei hefur verið rætt um þjónustutryggingu sem hagræðingu og verður ekki gert. Það er hins vegar ekki hagræðingaraðgerð að fella þær niður. Þetta skilur minnihlutinn greinilega ekki nægilega vel. Foreldrar sem fá ekki leikskólapláss mega nýta sér þjónustutryggingu en hún er valkvæð að tveggja ára aldri barns til að foreldrar geti ráðið sér hjálp í raunhæfan tíma, eins og til dæmis au-pair. Hægt verður að endurskoða þetta eftir að rannsókn lýkur haustið 2009.
Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óskuðu bókað:
Borgin er á pari hvað varðar heimgreiðslur til foreldra og niðurgreiðslu til dagforeldra.
Starfs- og fjárhagsáætlun Leikskólasviðs 2009 vísað til borgarráðs.
Fundi slitið kl. 11:40
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir
Helga Kristín Auðunsdóttir Fanný Gunnarsdóttir
Einar Örn Ægisson Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir
Oddný Sturludóttir Hermann Valsson