Skóla- og frístundaráð
77. fundur
Fræðsluráð
Ár 1999, mánudaginn 8. mars, kl. 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund í Skúlatúni 2 og var þetta 77. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir, formaður, Sigrún Elsa Smáradóttir, Guðrún Erla Geirsdóttir, Guðrún Pétursdóttir og Eyþór Arnalds. Auk þeirra sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Guðbjörg Þórisdóttir frá Skólastjórafélagi Reykjavíkur, Hannes K. Þorsteinsson frá Kennarafélagi Reykjavíkur og Óskar Ísfeld Sigurðsson, fulltrúi SAMFOKs. Einnig sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir, fræðslustjóri, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður þróunarsviðs, Guðmundur Pálmi Kristinsson, forstöðumaður byggingadeildar borgarverkfræðings, Sighvatur Arnarsson, deildarstjóri á byggingadeild, og Steinunn Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi, sem ritaði fundargerð.
1. Lagt fram bréf borgarritara, dags. 2. mars sl., um samþykkt borgarráðs frá sama degi varðandi samráðsnefnd um yfirumsjón með hönnun skóla og vali á búnaði. Samráðsnefndina skipa formaður fræðsluráðs, fræðslustjóri og forstöðumaður byggingadeildar. Einnig er tilkynnt að bygginganefnd skóla sé lögð niður vegna þess að hún hafi nú lokið hlutverki sínu.
2. Lagt fram yfirlit yfir lóðir við grunnskóla Reykjavíkur. Einar K. Haraldsson, byggingatæknifræðingur á byggingadeild fylgdi yfirlitinu úr hlaði.
Eyþór Arnalds vék af fundi kl. 13.00 og tók Bryndís Þórðardóttir sæti í hans stað.
3. Lögð fram endurskoðuð 5 ára áætlun vegna einsetningar grunnskóla. Egill Guðmundsson, arkitekt, fylgdi áætluninni úr hlaði.
Sigrún Magnúsdóttir vék af fundi kl. 14.05. Guðrún Pétursdóttir tók við fundarstjórn.
4. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 23. febrúar sl., um samþykkt borgarráðs frá sama degi varðandi breytta fjárhagsáætlun á stofnkostnaði fræðslumála.
Óskar Ísfeld Sigurðsson óskaði eftir að eftirfarandi væri bókað: Áheyrnarfulltrúi foreldra lýsir yfir ánægju sinni með að fjárveitingar vegna viðbyggingar við Fellaskóla hækki um 59 milljónir. Jafnframt mótmælir hann því að dregið verði úr fjárveitingum til Víkurskóla og vegna viðbyggingar við Selásskóla. Í Selásskóla eru húsnæðismál óviðunandi og samkvæmt upplýsingum frá skólastjóra er mikil fjölgun nemenda fyrirsjáanleg næsta ár. Gert er ráð fyrir fjórum bekkjardeildum í 1. bekk og þurfa þrjár þeirra að vera eftir hádegi. Það er því ljóst að seinkun á einsetningu Selásskóla er óviðunandi. Varðandi Víkurskóla gerðu áætlanir, sem foreldrar höfðu undir höndum, ráð fyrir lausum skólastofum haustið 1999 og skólabyggingu árið 2000. Nú liggur fyrir ákvörðun um seinkun á framkvæmdum án þess að nokkurt samráð hafi verið haft við foreldra. Þetta er einnig óviðunandi.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu eftir að eftirfarandi væri bókað: Þegar áform um breytingar á fjárhagsáætlun 1999 um stofnkostnað fræðslumála, þar sem færðar eru fjárveitingar frá Selásskóla og Borgaskóla yfir á Fellaskóla, voru kynnt fyrir Sjálfstæðismönnum í fræðsluráði, var það gert með því eindregna fororði að um hliðrun væri að ræða sem ekki mundi seinka verklokum við skólana. Það sem frá þeim væri tekið í ár, yrði bætt upp með samsvarandi hækkun á framlagi á næsta ári. Sjálfstæðismenn gera kröfu til þess að við þessi orð verði staðið. Ennfremur er ljóst af afgreiðslu þessa máls og annarra,- svo sem varðandi skólahald í Víkurhverfi, - að stórbæta þarf kynningu á áformum borgaryfirvalda í skólamálum fyrir skólastjórnendum og íbúum hverfanna, ekki síst þegar breytingar verða frá fyrri áformum, sem menn hafa byggt ákvarðanir sínar á.
Fulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu eftir að eftirfarandi væri bókað: Samþykkt borgarráðs gengur hvorki út á að seinka framkvæmdum við Selásskóla né Víkurskóla. Verið er að skoða þessa dagana hvort fara eigi svokallaða einkafjármögnunarleið við uppbyggingu Víkurskóla í því augnamiði m.a. að reyna að flýta skólabyggingunni. Nemendafjöldi Selásskóla hefur staðið í stað á undanförnum árum, árið 1996 voru þar 439 nemendur, 1997 voru þeir 447 og nú eru þeir 425. Ekkert bendir til mikilla breytinga á nemendafjölda á næstunni Fræðsluráð hefur að leiðarljósi að auka upplýsingar til foreldra og eru kynningafundir liður í því. Þannig stóð fræðsluráð fyrir kynningu sl. vor á skólum og skólastarfi fyrir Borga- og Víkurhverfi og áformaður er fundur með íbúum Víkur- og Staðahverfis 15. mars nk.
5. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Dagvistar barna vegna stækkunar lóðar við leikskólann Seljakot.
Fundi slitið kl. 14.25
Sigrún Elsa Smáradóttir Guðrún Pétursdóttir
Guðrún Erla Geirsdóttir Bryndís Þórðardóttir