Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

82. fundur

Fræðsluráð

Ár 1999, mánudaginn 19. apríl, kl. 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund í Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og var þetta 82. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir, formaður, Margrét Björnsdóttir, Sigrún Elsa Smáradóttir, Guðrún Pétursdóttir og Eyþór Arnalds. Auk þeirra sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Guðbjörg Þórisdóttir frá Skólastjórafélagi Reykjavíkur, Hannes K. Þorsteinsson og Guðrún Sturlaugsdóttir frá Kennarafélagi Reykjavíkur og Óskar Ísfeld Sigurðsson, fulltrúi SAMFOKs. Einnig sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir, fræðslustjóri, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður þróunarsviðs, Guðmundur Pálmi Kristinsson, forstöðumaður byggingadeildar, Sighvatur Arnarsson, verkefnisstjóri á byggingadeild, og Steinunn Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi, sem ritaði fundargerð.

1. Formaður bauð fræðsluráð velkomið til fundar í fundarherbergi Fræðslumiðstöðvar sem aftur hefur verið tekið í notkun.

2. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 2. mars sl. um samþykki borgarráðs vegna tilnefningar í samráðsnefnd um yfirumsjón með hönnun skóla.

3. Kynnt teikning og líkan að Víkurskóla. Sigurður Gústafsson, arkitekt, kynnti teikningarnar.

4. Kynnt staða byggingaframkvæmda á árinu 1999. Guðmundur Pálmi Kristinsson kynnti stöðuna.

5. Kynnt þriggja ára áætlun um stofnkostnað fræðslumála, dags. 17 apríl sl. Guðmundur Pálmi Kristinsson kynnti áætlunina. Fulltrúar Sjálfstæðismenn óskuðu eftir að eftirfarandi yrði bókað: Sjálfstæðismenn benda á eftirfarandi varðandi kostnað vegna bráðabirgðaúrræða í skólamálum í Grafarvogi: Kostnaður við breytingar á Korpúlfsstöðum hefur þegar vaxið um 25% frá því sem segir í fjárhagsáætlun fyrir 1999, úr 30 m.kr. í 40. m.kr. Ætla má að bráðabirgðaráðstöfun þessi verði enn dýrari þegar endanlegur kostnaður liggur fyrir.

Fulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu eftir að eftirfarandi væri bókað: Ljóst er að kostnaður við endurbætur á Korpúlfsstöðum á efri hæð er enn undir kostnaði sem hlytist vegna 7 færanlegra kennslustofa. Afgreiðslu frestað.

Guðrún Pétursdóttir vék af fundi kl. 14.35. Guðmundur Pálmi Kristinsson og Sighvatur Arnarson viku af fundi kl. 14.55.

6. Lagt fram álit fræðslustjóra, f.h. þriggja manna valnefndar, vegna ráðningar í stöðu skólastjóra Korpuskóla, dags. 16. apríl sl., ásamt útdráttum úr umsóknum, afriti af auglýsingu og viðmiðum við val á milli umsækjenda um skólastjórastöður. Eftirtaldir sóttu um stöðuna: Grímur Bjarndal Jónsson Svanhildur María Ólafsdóttir Sveinbjörn Markús Njálsson Teitur Berþórsson Örn Halldórsson Samþykkt samhljóða að mæla með því við borgarráð að Svanhildur M. Ólafsdóttir verði ráðin í stöðuna.

7. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu eftir að eftirfarandi væri bókað. Sjálfstæðismenn í fræðsluráði harma að kennarar sáu sig tilneydda til að fella niður kennslu fimmtudaginn 15. apríl til að knýja á um kröfur sínar gagnvart borgaryfirvöldum. Ljóst er að reykvískir kennarar hafa staðið í þeirri trú, að verið væri að vinna að endurbótum á misræmi á kjörum þeirra og kennara í öðrum sveitarfélögum, eins og þeir höfðu farið fram á í nóvember 1998. Vonbrigði þeirra urðu því mikil, þegar í ljós kom sl. miðvikudag, að borgaryfirvöld hafa hvorki sinnt þessu né hyggjast gera það. Sjálfstæðismenn minna á að brátt er hálft ár frá bókun og fyrirspurn þeirra í fræðsluráði þar sem þeir óskuðu eftir gögnum svo bera mætti saman kjör kennara í Reykjavík og nágrannasveitarfélögunum. Þrátt fyrir ítrekuð tilmæli hafa þau gögn ekki borist frá Fræðslumiðstöð.

Fundi slitið kl. 14.05

Sigrún Magnúsdóttir
Margrét Björnsdóttir Sigrún Elsa Smáradóttir
Eyþór Arnalds