Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

83. fundur

FRÆÐSLURÁÐ

Ár 1999, mánudaginn 3. maí, kl 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund í Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og var þetta 83. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Margrét Björnsdóttir, Sigrún Elsa Smáradóttir, Guðrún Erla Geirsdóttir, Margrét Theódórsdóttir og Bryndís Þórðardóttir. Auk þeirra sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Guðrún Sturlaugsdóttir og Hannes K. Þorsteinsson frá Kennarafélagi Reykjavíkur, Guðbjörg Þórisdóttir frá Skólastjórafélagi Reykjavíkur og Óskar Ísfeld Sigurðsson frá SAMFOK. Einnig sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir, fræðslustjóri, Arthur Morthens, forstöðumaður þjónustusviðs, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður þróunarsviðs, Ólafur Darri Andrason, forstöðumaður fjármálasviðs, og Steinunn Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi, sem ritaði fundargerð.

1. Lagt fram bréf fræðslustjóra, dags. 29. apríl sl., um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa fræðsluráði.

2. Lögð fram ný aðalnámskrá grunnskóla, 6 hefti af 12, almennur hluti, íslenska, stærðfræði, list- og verkgreinar, íþróttir - líkams- og heilsurækt og lífsleikni. Hrólfur Kjartansson, deildarstjóri í grunnskóla- og leikskóladeild menntamála-ráðuneytisins, kynnti aðalnámskrána og svaraði spurningum fræðsluráðs.

Ólafur Darri Andrason vék af fundi kl. 12.55.

3. Lögð fram ársskýrsla samstarfsnefndar Reykjavíkur um afbrota- og fíkniefnavarnir 1998 og starfsáætlun 1999. Anna Kristín Sigurðardóttir, deildarstjóri kennsludeildar, kynnti skýrsluna.

4. Lagðar fram tillögur Fræðslumiðstöðvar að úthlutun styrkja til tónlistarskóla, ásamt greinargerð. Lagt er til að eftirfarandi tónlistarskólar hljóti styrki: Tónlistarskólinn í Árbæ (Nýi músikskólinn) 1.477.500 Söngskólinn hjartansmál 500.000 Tónskóli grunnskólanna í Grafarvogi 700.000 Forskóli tónlistarskóla 4.075.000

Einnig lagt fram bréf skólastjóra Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar, dags. 30. apríl sl., um úthlutun styrks til Tónlistarskólans í Árbæ.

Tillögur Fræðslumiðstöðvar samþykktar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks sátu hjá.

5. Lagt fram svar Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur við spurningu 2 frá fulltrúa foreldra í fræðsluráði 15. mars sl.

6. Lagt fram til kynningar yfirlit starfsmannadeildar, dags. í dag, um kennaramál sem afgreidd hafa verið af Fræðslumiðstöð. Einnig lagt fram bréf, dags. í dag, um óskir skólastjóra og aðstoðarskólastjóra um fastráðningu frá 1. ágúst 1999.

7. Sigrún Elsa Smáradóttir óskaði eftir að eftirfarandi væri bókað: Að gefnu tilefni fer ég fram á að fundarsköpum verði fylgt í fræðsluráði þegar kemur að bókunum. Það hefur ítrekað átt sér stað að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óski eftir að leggja fram bókanir sem síðar á að senda fullsmíðaðar til ritara. Steininn tók úr á 82. fundi fræðsluráðs þegar ósk um bókanir kom ekki fram fyrr en fundi hafði verið slitið og stór hluti fræðsluráðsfulltrúa hafði þegar vikið af fundi. Bókanir á að bera upp meðan á fundi stendur; þær eiga að vera stuttar og lesnar upp á fræðsluráðsfundi þannig að þeim megi svara, standi vilji manna til þess.

8. Fulltrúi skólastjóra lýsti áhyggjum skólastjóra í Reykjavík vegna ráðninga danskennara næsta skólaár.

Fundi slitið kl. 14.20

Margrét Björnsdóttir
Sigrún Elsa Smáradóttir Guðrún Erla Geirsdóttir
Margrét Theódórsdóttir Bryndís Þórðardóttir