Skóla- og frístundaráð
84. fundur Fræðsluráð
Ár 1999, mánudaginn 10. maí, kl. 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund í Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og var þetta 84. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir, formaður, Margrét Björnsdóttir, Sigrún Elsa Smáradóttir og Bryndís Þórðardóttir. Auk þeirra sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Guðrún Sturlaugsdóttir og Hannes K. Þorsteinsson frá Kennarafélagi Reykjavíkur og Óskar Ísfeld Sigurðsson, fulltrúi SAMFOKs. Einnig sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir, fræðslustjóri, Ólafur Darri Andrason, forstöðumaður fjárhagssviðs, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður þróunarsviðs, Guðmundur Pálmi Kristinsson, forstöðumaður byggingadeildar borgarverkfræðings, Sighvatur Arnarsson, deildarstjóri á byggingadeild, og Sigurður Þór Jóhannesson, skjalavörður, sem ritaði fundargerð.
1. Lagt fram bréf fræðslustjóra, dags. 7. maí sl., um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa fræðsluráði.
2. Lögð fram teikning að viðbyggingu við Árbæjarskóla. Ingimundur Sveinsson, arkitekt, kynnti teikninguna.
Ingimundur Sveinsson og Þorsteinn Sæberg Sigurðsson, skólastjóri Árbæjarskóla, sátu fund undir þessum lið.
3. Kynnt að nýju þriggja ára áætlun um stofnkostnað fræðslumála. Guðmundur Pálmi Kristinsson kynnti áætlunina.
Fulltrúar Reykjavíkurlista óskuðu að eftirfarandi væri bókað: Þriggja ára áætlun um einsetningu og uppbyggingu skólamannvirkja í Reykjavík er heildarstefnumótun þar sem áformað er að um 4700 m.kr. fari til skólabygginga í borginni til ársins 2002. Meginforsendur áætlunnar eru: -Bygging tveggja nýrra grunnskóla, Borga- og Víkurskóla. -Einsetningu allra skóla verði lokið árið 2002. -Byggt verði við þegar einsetna skóla, þar sem þrengsli eru. Nauðsynlegt er að ítreka að ekki er verið að samþykkja stærð eða framkvæmdahraða hverrar einstakrar byggingar, sú ákvörðun verður tekin þegar forsagnarhópar um rýmisþörf skólanna hafa lokið störfum. Forsagnarhópar hafa verið settir við hvern skóla borgarinnar og stefnt að því að þeir hafi allir kynnt vinnu sína í fræðsluráði fyrir gerð næstu fjárhagsáætlunar. Jafnframt hafi þeir haldið fundi í hverjum einstökum skóla með foreldrum. Á grundvelli þeirra upplýsinga gerir fræðsluráð tillögu til borgarráðs um niðurröðun verkefna innan fjárhagsrammans (ca. 1500 m.kr.) fyrir árið 2000.
4. Lagt fram minnisblað fræðslustjóra og forstöðumanns byggingadeildar, dags. 10. maí sl., um 5 ára áætlun um einsetningu grunnskóla Reykjavíkur. Fræðslustjóri kynnti erindið. Frestað.
5. Lögð fram skýrsla forhönnunarhóps um Laugarnesskóla og Laugalækjarskóla. Fræðslustjóri kynnti skýrsluna.
Lagt fram bréf frá formanni foreldraráðs Laugarnesskóla, dags. 9. maí sl., vegna umfjöllunar um tillögur forsagnarhóps um skólamál í Laugarneshverfi.
Áheyrnarfulltrúi SAMFOKs óskaði að eftirfarandi væri bókað: Fulltrúi foreldra í fræðsluráði lýsir yfir ánægju sinni með það að fulltrúum foreldra í skólunum sem um ræðir hafi verið boðið á fund fræðsluráðs til að segja skoðun sína.
Jón Ingi Einarsson, skólastjóri Laugalækjarskóla, Jón Freyr Þórarinsson, skólastjóri Laugarnesskóla, Ragnhildur Erla Bjarnadóttir, fulltrúi foreldraráðs Laugarnesskóla, og Helga Alexandersdóttir, fulltrúi foreldraráðs í Laugalækjarskóla, sátu fund undir þessum lið.
Guðbjörg Þórisdóttir, áheyrnarfulltrúi skólastjóra, kom á fundinn kl. 13.20.
6. Uppsagnir kennara.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokks óskaði að eftirfarandi væri bókað: Sjálfstæðismenn í fræðsluráði hafa þungar áhyggjur af framvindu skólamála í Reykjavík. Reyndir kennarar eru að hverfa af starfsvettvangi vegna kjaradeilna. Þegar eru byrjaðar að streyma inn hópuppsagnir úr nokkrum grunnskólum borgarinnar. Skriða er farin af stað og óttast skólastjórar að fleiri uppsagnir fylgi í kjölfarið. Stöðugleiki skólastarfs næsta skólaárs er í uppnámi. Við skorum á borgarstjóra að stöðva þessa þróun og leita allra leiða til að bæta kjör kennara. Reykjavík, eins og önnur sveitarfélög, þarf á menntuðum og hæfum kennurum að halda. Staðan er hins vegar sú að aldrei hafa verið fleiri leiðbeinendur ráðnir að skólum borgarinnar en nú. Ennfremur hörmum við framkomu borgarstjóra gagnvart kennurum og trúnaðarbrest milli málsaðila.
Guðrún Sturlaugsdóttir, áheyrnarfulltrúi Kennarafélags Reykjavíkur, óskaði bókað: Ég vil vekja athygli fræðsluráðsmanna á því ástandi sem er að skapast í grunnskólum Reykjavíkur vegna uppsagna kennara. Það virðingar- og skilningsleysi sem borgarstjóri hefur sýnt kennurum og starfi þeirra að undanförnu, hefur leitt til þess að kennarar geta ekki sjálfsvirðingar sinnar vegna, setið undir slíkum ummælum.
Fulltrúar Reykjavíkurlista óskuðu bókað: Fræðsluráð harmar þær uppsagnir sem borist hafa frá kennurum borgarinnar undanfarnar vikur. Alls hafa 52 kennarar sagt upp störfum. Um helmingur þeirra gefur óánægju með sín kjör sem ástæðu uppsagnarinnar. Af hálfu launanefndar sveitarfélaga hefur verið lögð fram tillaga um tilraunasamning, sem færa myndi kennurum umtalsverðar kjarabætur. Fræðsluráð skorar á alla kennara borgarinnar að kynna sér þessar tillögur og vonar að þær geti orðið grundvöllur nýrra samninga við kennara. Tillögurnar verður hægt að nálgast á næstu dögum á heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga.
7. Lögð fram tillaga Fræðslumiðstöðvar að tilfærslum á færanlegum kennslustofum vorið 1999, dags. 9. maí sl. Frestað.
Fundi slitið kl. 14.15
Sigrún Magnúsdóttir
Margrét Björnsdóttir Sigrún Elsa Smáradóttir
Bryndís Þórðardóttir