No translated content text
Skóla- og frístundaráð
85. fundur
Fræðsluráð
Ár 1999, mánudaginn 17. maí, kl. 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund í Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og var þetta 85. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir, formaður, Margrét Björnsdóttir, Eyþór Arnalds og Margrét Theódórsdóttir. Auk þeirra sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Guðrún Sturlaugsdóttir og Hannes K. Þorsteinsson frá Kennarafélagi Reykjavíkur, Guðbjörg Þórisdóttir frá Skólastjórafélagi Reykjavíkur og Óskar Ísfeld Sigurðsson, fulltrúi SAMFOKs. Einnig sátu fundinn Ólafur Darri Andrason, forstöðumaður fjárhagssviðs, Årthur Morthens, forstöðumaður þjónustusviðs, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður þróunarsviðs, Guðmundur Pálmi Kristinsson, forstöðumaður byggingadeildar borgarverkfræðings, Sighvatur Arnarsson, deildarstjóri á byggingadeild, og Steinunn Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi, sem ritaði fundargerð.
1. Lagt fram bréf fræðslustjóra, dags. 14. maí sl., um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa fræðsluráði.
2. Rædd þriggja ára áætlun um stofnkostnað fræðslumála sem frestað var á síðasta fundi.
3. Lagt fram yfirlit forstöðumanns þróunarsviðs, dags. í dag, um áætlaðan nemenda- og deildafjölda skólaárið 1999 - 2000. Lögð fram að nýju tillaga Fræðslumiðstöðvar að ráðstöfun lausra kennslustofa skólaárið 1999 –2000, dags. 9. maí sl. Fræðsluráð felur Fræðslumiðstöð í samvinnu við byggingadeild að ráðstafa endanlega lausum kennslustofum fyrir næsta skólaár.
Helgi Hjörvar tók sæti á fundinum kl. 13.00 og Guðmundur Pálmi Kristinsson og Sigvatur Arnarson fóru af fundi kl. 13.10.
4. Lagt fram, til kynningar, yfirlit forstöðumanns fjármálasviðs, dags í dag, um úthlutun kennslumagns til skóla, skólaárið 1999 – 2000.
5. Lagt fram minnisblað forstöðumanns fjármálasviðs, dags. 7. maí sl., varðandi umsókn Landssambands slökkviliðsmanna um styrk til að standa fyrir brunavarnaátaki í grunnskólum borgarinnar. Samþykkt að veita 250.000 kr. styrk til verkefnisins.
6. Lagt fram, til kynningar, minnisblað forstöðumanns þróunarsviðs, dags. í dag, um tilraunaverkefni til eins árs, samning við Framtíðarbörn um tölvukennslu í þremur grunnskólum í Reykjavík.
7. Lagt fram minnisblað forstöðumanns fjármálasviðs, dags. 10. maí sl., um skipunarmál grunnskólakennara. Vísað til Fræðslumiðstöðvar að senda umsækjendum um skipun í stöður bréf þar sem greint er frá því að umsókn þeirra verði tekin til afgreiðslu þegar lokið er gerð vinnureglna og viðmiða sem nú stendur yfir.
8. Lagt fram minnisblað forstöðumanns fjármálasviðs, dags 10. maí sl., ásamt svari kjaraþróunardeildar Ráðhúss Reykjavíkur, dags sama dag, við spurningum sem fram komu í bókun sjálfstæðismanna í fræðsluráði 16. nóvember sl.
9. Lagt fram minnisblað starfsmannastjóra, dags. í dag, um uppsagnir kennara vorið 1999. Áheyrnarfulltrúar kennara kynntu greinargerð lögfræðings Kennarasambans Íslands vegna bókunar fulltrúa Reykjavíkurlistans á fundi fræðsluráðs 10. maí sl.. Fulltrúarnir kennara óskuðu eftir að eftirfarandi væri bókað: Fulltrúar kennara í Fræðsluráði gera alvarlegar athugasemdir við bókun fulltrúa Reykjavíkurlistans sem lögð var fram á fundi 10. maí sl. Tillagan er frekleg íhlutun í innra skipulag stéttarfélaga kennara og brot á lögum um kjarasamning opinberra starfsmanna. Fulltrúar kennara skora á forsvarsmenn borgarinnar að láta af ögrunum í garð kennara og einbeita sér að því að leysa þann vanda sem nú blasir við í skólahaldi í borginni.
Fulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu eftir að eftirfarandi væri bókað: Meirihlutinn í fræðsluráði harmar að kennarar skuli líta á bókun hans á síðasta fundi sem ögrun. Við viljum taka fram að fræðsluráð telur mjög mikilvægt að kjör kennara séu sambærileg og þau eru hjá öðrum háskólamenntuðum hópum. Jafnframt að lausn finnist á vinnutíma þeirra, sérstaklega með tilliti til framtíðarskipulagningar á skólastarfi, s.s. einsetningu, lengdum skóladegi og næðisstund í hádegi. Fræðsluráð bendir á mikilvægi slíkra breytinga þó að þær náist ekki fyrir næsta skólaár. Fræðsluráð hvetur hlutaðeigandi aðila til að ná sáttum svo að unnt verði að halda áfram á braut framfara í grunnskólum Reykjavíkuborgar.
Fundi slitið kl. 14.25
Sigrún Magnúsdóttir
Margrét Björnsdóttir Helgi Hjörvar
Eyþór Arnalds Margrét Theódórsdóttir