Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

86. fundur

Fræðsluráð

Ár 1999, mánudaginn 31. maí, kl. 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund í Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og var þetta 86. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir, formaður, Guðrún Erla Geirsdóttir, Guðrún Pétursdóttir og Eyþór Arnalds. Auk þeirra sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Guðrún Sturlaugsdóttir og Hannes K. Þorsteinsson frá Kennarafélagi Reykjavíkur og Óskar Ísfeld Sigurðsson, fulltrúi SAMFOKs. Einnig sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir, fræðslustjóri, Ólafur Darri Andrason, forstöðumaður fjármálasviðs, Arthur Morthens, forstöðumaður þjónustusviðs, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður þróunarsviðs, og Steinunn Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi, sem ritaði fundargerð.

1. Lagt fram bréf fræðslustjóra, dags. 28. maí sl., um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa fræðsluráði.

2. Lagt fram erindi frá menntamálaráðuneytinu varðandi kæru foreldra vegna tímabundinnar brottvikningar sonar þeirra úr skóla. Óskað eftir greinargerð frá borgarlögmanni.

3. Kynning á auknum stjórnunarkvóta. Fræðslustjóri gerði grein fyrir úthlutun stjórnunarkvóta til sjö skóla í Reykjavík og að Guðmundur Þór Ásmundsson hafi verið ráðinn að Fræðslumiðstöð til eins árs til þess að veita skólastjórum aðstoð og ráðgjöf, sbr. starfsáætlun 1999.

4. Lagt fram bréf Fræðslumiðstöðvar, dags. 27. maí sl., til skólastjóra grunnskóla Reykjavíkur um úthlutun 170 m.kr. viðbótarfjárveitingar til eflingar skólastarfs. Einnig lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 26. maí sl., um sama efni. Ennfremur lagt fram yfirlit yfir skiptingu viðbótarfjárveitingarinnar á skóla. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu að eftirfarandi væri bókað: Sjálfstæðismenn í fræðsluráði lýsa furðu sinni á vinnubrögðum Fræðslumiðstöðvar og borgaryfirvalda varðandi kjaramál kennara og skólastjórnenda. 16. nóvember 1998 fóru sjálfstæðismenn fram á gögn um kjör kennara í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur, - því ljóst væri að Reykjavík stóð höllum fæti í samkeppni um kennara. Tvisvar var þetta erindi ítrekað í fræðsluráði og kemur í ljós að Fræðslumiðstöð hirti ekki um að sinna því fyrr en 5 mánuðum eftir að það barst, eða með bréfi til kjaraþróunardeildar 26.4.1999. Í svari kjaraþróunardeildar sem borgarfulltrúum barst 16.5.1999, eða 6 mánuðum eftir að erindið var fram borið, koma fram umtalsverðar kjarabætur sem nágrannasveitarfélögin bjóða grunnskólakennurum og skólastjórnendum. Fræðsluyfirvöld í Reykjavík komast ekki hjá því að horfast í augu við þá staðreynd og hefðu betur tekist á við þennan aðsteðjandi vanda strax í haust.

Sigrún Elsa Smáradóttir kom á fund kl. 12.45.

5. Lögð fram tillaga úthlutunarnefndar um úthlutun styrkja úr ferðasjóði grunnskóla ásamt reglum um úthlutun úr sjóðnum. Samþykkt samhljóða.

Guðrún Erla Geirsdóttir vék af fundi kl. 13.30.

6. Lagt fram svar Fræðslumiðstöðvar við spurningu áheyrnarfulltrúa foreldra frá fundi 15. mars sl. um aðhaldsaðgerðir í grunnskólum Reykjavíkur árið 1997.

7. Lagt fram minnisblað forstöðumanns fjármálasviðs, dags. í dag, um fjárhagsramma Fræðslumiðstöðvar fyrir árið 2000.

8. Lagðar fram eftirfarandi fyrirspurnir áheyrnarfulltrúa kennara: Í hvaða skólum verður boðið upp á næðisstund næsta vetur? Hvernig gæsla verður í boði í þessum næðisstundum? Hverjir sinna gæslu í þessum næðisstundum? Hverjir munu aðstoða nemendur við að matast? Er gert ráð fyrir að nemendur matist inni í kennslustofum eða er önnur aðstaða fyrir hendi í skólunum?

Fundi slitið kl. 14.10

Sigrún Magnúsdóttir
Sigrún Elsa Smáradóttir Guðrún Pétursdóttir
Eyþór Arnalds