Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ

Ár 2013, 16. október, var haldinn 47. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn var haldinn í Hofi á Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 10.05. Fundinn sátu Oddný Sturludóttir, formaður (S), Eva Einarsdóttir (Æ), Hilmar Sigurðsson (S), Kjartan Magnússon (D), Líf Magneudóttir (V), Ragnar Hansson (Æ) og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir (D).
Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Andrea Sigurjónsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Eiríka Ólafsdóttir, kennarar í grunnskólum; Guðlaug Erla Gunnarsdóttir, skólastjórar í grunnskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, skólastjórar í leikskólum og Helgi Eiríksson, stjórnendur frístundamiðstöðva.
Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Auður Árný Stefánsdóttir, Hildur Skarphéðinsdóttir, Kristján Gunnarsson og Soffía Pálsdóttir.
Fundarritari var Guðrún Hjartardóttir.


Þetta gerðist:

1. Heilbrigði og vellíðan með jóga, snertingu, slökun, umhverfismennt og útikennslu að leiðarljósi. Sigurlaug Einarsdóttir, leikskólastjóri í Reynisholti kynnti og svaraði fyrirspurnum.

2. Skóli margbreytileikans. Jónína Konráðsdóttir leikskólastjóri í Sólborg kynnti og svaraði fyrirspurnum.

3. „Maður málar bara eins og manni sýnist“. Soffía Þorsteinsdóttir, leikskólastjóri í Sæborg kynnti og svaraði fyrirspurnum.

Ofangreindir leikskólastjórar sátu allir fundinn undir 1.-3. dagskrárlið.

Bókun skóla- og frístundaráðs:
Kynningar leikskólanna Reynisholts, Sólborgar og Sæborgar á áherslum leikskólanna í innra starfi bera vitni um að þar sé unnið faglegt, fjölbreytt og innihaldsríkt leikskólastarf. Áherslur leikskólanna eru skemmtilega ólíkar og miða allar að þroskandi og skapandi starfi með margbreytilegar þarfir barnanna í huga. Skóla- og frístundaráð þakkar fyrir góðar kynningar og telur mikilvægt að efla samstarf leikskólanna í borginni enn frekar með það að markmiði að þau góðu verkefni sem unnin eru í leikskólum borgarinnar verði kynnt sem víðast fyrir foreldrum og starfsfólki beggja skólastiga og í frístundastarfi.

4. Lagt fram bréf Ómars Einarssonar, sviðsstjóra íþrótta- og tómstundasviðs, dags.
7. október 2013, varðandi rekstrarfyrirkomulag stærri íþróttahúsa við grunnskóla. Í bréfinu er lagt til að rekstur íþróttahúsanna verði með óbreyttu sniði. Ómar Einarsson kynnti og svaraði fyrirspurnum. SFS2013040077

Samþykkt með 5 atkvæðum, Kjartan Magnússon og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir sátu hjá.

5. Lögð fram að nýju tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi ráðsins 18. sept. 2013:
Í því skyni að auðvelda starfsmönnum leikskóla að auka við menntun sína samþykkir skóla- og frístundaráð að slíkir starfsmenn, sem eru í námsleyfi og hyggjast snúa aftur til starfa við leikskóla, haldi starfsmannaafslætti af leikskólagjöldum meðan á námi stendur enda sé námsframvinda eðlileg. SFS2013090261

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar lögðu fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að fela sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs að taka tillöguna til meðferðar og leggja fyrir ráðið mögulegar útfærslur. Sviðsstjóri skoði sérstaklega að hugsanleg útfærsla sé í samræmi við viðmið í reglum borgarinnar um leikskólaþjónustu, t.a.m. þegar kemur að forgangi leikskólastarfsfólks að leikskóladvöl.

Samþykkt.

6. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Vinstri grænna, sem frestað var á fundum ráðsins 5. september 2012 og 26. júní 2013:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að hrinda í framkvæmd sértækum aðgerðum til að fjölga fagmenntuðu fólki í leik- og grunnskólum og frístundaheimilum, bæta kjör þeirra og starfsskilyrði og efla fagmennsku. Til þess má m.a. byggja á skýrslu starfshóps um fjölgun fagfólks í leikskólum frá árinu 2007 og styðjast við ýmsar rannsóknir og kannanir sem gerðar hafa verið. SFS2013060074

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar lögðu fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að vísa tillögunni til sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs. Sviðsstjóri ræði við mennta- og menningarmálaráðuneytið og samband íslenskra sveitarfélaga um leiðir til úrbóta, bæði í bráð og lengd. Fagskrifstofa skóla- og frístundasviðs taki saman þær aðgerðir og verkefni sem sviðið hefur unnið að síðastliðin misseri og kynni þær leiðir sem farið hefur verið í og stendur til að fara í til eflingar fagmennsku og fjölgunar fagfólks. Sviðsstjóri flytji skóla- og frístundaráði áfangaskýrslu á síðari fundi ráðsins í janúar 2014, með kostnaðargreiningu.

Samþykkt.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Vinstri grænna lagði fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna samþykkir málsmeðferðina en gagnrýnir meirihluta Samfylkingar og Besta flokks fyrir seinagang við afgreiðslu tillögunnar, sem var lögð fram 5. september 2012. Það er ljóst að nú þegar væri hægt að stíga skref í átt að fjölgun fagfólks í leik- og grunnskólum með sértækum aðgerðum í stað þess að bíða eftir enn einum niðurstöðum starfshóps eða samráðsvettvangs menntamálaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Fulltrúi Vinstri grænna telur að með töfum á tillögunni hafi dýrmætur tími glatast í að efla og fjölga í einni mikilvægustu fagstétt landsins – stétt leikskóla- og grunnskólakennara.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar lögðu fram svohljóðandi bókun:
Meirihluti Samfylkingarinnar og Besta flokksins vill árétta að á tímabilinu sem fulltrúi Vinstri grænna vísar til hefur verið unnið markvisst í þessum málum, líkt og fram kemur í ítarlegu minnisblaði sem lagt var fram á fundi ráðsins þann
26. júní síðastliðinn.

7. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi ráðsins 18. sept. 2013:
Í því skyni að fjölga fagfólki í leikskólum samþykkir skóla- og frístundaráð að sviðið rýni m.t.t. kostnaðar, fýsileika og forgangsröðunar eftirfarandi tillögur sem sumar eru ítarlega útlistaðar í skýrslu leikskólaráðs um fjölgun fagfólks í leikskólum frá 2007.
1. Að afleysing sé aukin svo að þeir starfsmenn sem eru í fjarnámi geti mætt í staðbundnar lotur í námi sínu.
2. Að styðja við og innleiða diplómanám í samstarfi við háskóla líkt og áður var gert svo að starfsmenn með starfsreynslu geti brúað bilið og náð hærra menntunarstigi og tengt saman leikskólaliðanám og háskólanám.
3. Kynna með markpósti leiðir í námi fyrir kennara sem berst til starfsmanna leikskóla Reykjavíkurborgar sem eru með stúdentspróf/sambærilega menntun.
4. Að árlega sé haldin kynning á vegum háskóla fyrir starfsmenn leikskóla borgarinnar á vegum sviðsins.
5. Að starfsmenn sem hafa starfað í leikskólum borgarinnar í eitt ár eða lengur geti sótt um að stunda fjarnám í leikskólafræðum með starfi án skerðingar launa meðan á fjarnámslotum stendur.
6. Að annað starfsfólk með háskólagráðu fái námstilboð í meistarafræðum til að fá aukin réttindi.
7. Styrktarsjóður til náms verði stofnaður hjá borginni sem úthlutað er úr einu sinni á ári.
8. Að einingar verði veittar fyrir nám innan leikskóla, m.a. í samhengi við handleiðslu sérfræðinga frá þjónustumiðstöð.
9. Hvort möguleiki sé á að bjóða upp á stöðupróf í Háskóla Íslands sem að gætu gefið reynslumiklum starfsmönnum nokkurs konar raunfærnimat og færi á að stytta nám sitt til að fá réttindi sem leikskólakennarar. SFS2013090262

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar lögðu fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að vísa tillögunni inn í fyrirhugaða vinnu sviðsstjóra vegna starfsmannamála sem samþykkt var í 6. dagskrárlið þessa fundar.

Samþykkt.

8. Lögð fram hugmynd af vefsvæðinu Betri Reykjavík, dags. 1. júlí 2013, varðandi klifur- og hjólabrettagarð við Skeljanes í Skerjafirði ásamt bréfi frá sviðsstjóra íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 26. ágúst 2013, þar sem fram kemur að íþrótta- og tómstundaráð samþykkti að koma hugmyndinni áfram til umhverfis- og skipulagssviðs og skóla- og frístundasviðs. Jafnframt lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 30. september 2013. SFS2013080219

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar lögðu fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:
Vísað er í minnisblað sviðsstjóra og tekið undir að hugmyndin er góðra gjalda verð en þarf að skoða í víðara samhengi. Tillagan er því ekki samþykkt en hvatt til þess að umhverfis- og skipulagssvið, íþrótta- og tómstundasvið og skóla- og frístundasvið móti stefnu til framtíðar um klifur- og hjólabrettaaðstöðu í Reykjavík.

Samþykkt.

- Gert var hlé á fundinum kl. 12:10-12:30.
- Kl. 12:30 tók Valgerður Janusdóttir sæti á fundinum.

9. Viðhorfskönnun meðal starfsmanna Reykjavíkurborgar 2013. Guðjón Örn Helgason mannauðsráðgjafi mannauðsdeild Reykjavíkurborgar og Valgerður Janusdóttir mannauðsstjóri skóla- og frístundasviðs kynntu og svöruðu fyrirspurnum. SFS2013100058

- Kl. 12:50 vék Helgi Eiríksson af fundi.

Bókun skóla- og frístundaráðs:
Í Viðhorfskönnun meðal starfsmanna Reykjavíkurborgar sem lögð var fyrir fyrr á þessu ári er gleðilegt að sjá að starfsfólk á skóla- og frístundasviði kemur best út allra sviða borgarinnar. Þegar á heildina er litið er starfsfólk ánægt í starfi, líður vel í vinnunni og er stolt af starfi sínu. Mikilvægt er að í mennta- og uppeldisstörfum líði starfsfólki vel og finni að starf þeirra sé metið að verðleikum. Töluverður jákvæður munur er á svörum starfsfólks SFS samanborið við borgina í heild sinni þegar kemur að viðurkenningu, ímynd og frumkvæði en gera þarf betur varðandi vinnuaðstöðu, vinnuálag og starfsmannastöðugleika. Viðvarandi verkefni er að tryggja að álag í starfi verði ásættanlegt og komi ekki niður á gæðum og fagmennsku. Skóla- og frístundaráð hvetur starfsstaði sviðsins til að standa góðan vörð um fagmennsku og starfsánægju starfsfólks og felur sviðsstjóra að nýta allar færar leiðir til að efla enn frekar mannauð sviðsins.

10. Lagt fram svar skóla- og frístundaráðsfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar, dags. 9. október 2013, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna, frá 26. júní 2013, varðandi sameiningar í skólaumhverfinu. SFS2013090273

11. Lagt fram svar skóla- og frístundasviðs, dags. 9. okt. 2013, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, frá 18. september 2013, varðandi húsgögn í grunnskólum borgarinnar. SFS2103100059

12. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að grunnskólar sem reka fimm ára deild fái eðlilega undanþágu frá skyldum leikskóla við útgáfu rekstrarleyfis leikskóladeildar eins og að hafa morgunmat fyrir börn, opnun í jóla- og páskaleyfi og sumaropnanir. Horfa skuli þannig til eðli grunnskóla sem rekur einungis 5 ára bekk til viðbótar við grunnskóladeildir.
Frestað.

13. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Skóla- og frístundaráð Reykjavíkur samþykkir að óska eftir viðræðum við menntamálaráðuneytið um fyrirkomulag framhaldsskólamenntunar í Reykjavík. M.a. verði skoðaðir möguleikar á því að styrkja framhaldsmenntun í austurhluta borgarinnar og farið yfir niðurstöður nefndar menntamálaráðuneytisins um staðsetningu nýrra framhaldsskóla þar sem mælt var með því að nýjum skóla yrði valinn staður á austanverðu höfuðborgarsvæðinu. Í því skyni að tryggja fjölbreytni í námsframboði verði skoðaðir kostir þess að bekkjarkerfi með þriggja ára nám til stúdentsprófs og/eða verkefnaskilakerfi standi nemendum til boða í slíkum framhaldsskóla. Jafnframt verði skoðaðir kostir þess að hinn nýi skóli verði sjálfstætt rekinn eða að Reykjavíkurborg taki reksturinn að sér sem tilraunaverkefni.
Frestað

Fundi slitið kl. 13.40

Oddný Sturludóttir

Eva Einarsdóttir Hilmar Sigurðsson
Kjartan Magnússon Líf Magneudóttir
Ragnar Hansson Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir