Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

89. fundur

Fræðsluráð

Ár 1999, fimmtudaginn 29. júlí, kl. 8.15, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund á Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og var þetta 89. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Margrét Björnsdóttir, varaformaður, Sigrún Elsa Smáradóttir, Árni Þór Sigurðsson, Guðrún Pétursdóttir og Eyþór Arnalds. Auk þeirra sátu fundinn Finnbogi Sigurðsson frá Kennarafélagi Reykjavíkur, Guðbjörg Þórisdóttir frá Skólastjórafélagi Reykjavíkur og Bergþóra Valsdóttir frá Samfok. Einnig sat fundinn Gerður G. Óskarsdóttir, fræðslustjóri og Ingþór Karl Eiríksson, deildarstjóri, sem ritaði fundargerð.

1. Lagt fram yfirlit yfir stöðu ráðninga kennara, dags. 24. júlí sl., yfirlit yfir afgreiðslur starfsmannadeildar á breytingum og ráðningum kennara við grunnskóla Reykjavíkur frá áramótum til 23. júlí sl., yfirlit yfir ráðstöfun 170 m. kr. í grunnskólum Reykjavíkur, dags. 6. júlí sl. og minnisblað um uppsagnir kennara. Auk þess var lögð fram yfirlýsing borgarstjóra, dags. 26. júlí sl., um aukið fé til skólastarfs í Reykjavík og yfirlýsing sjö kennara um að þeir dragi uppsagnir sínar til baka og hvetji aðra kennara, sem sagt hafa upp störfum við grunnskóla Reykjavíkur, að gera slíkt hið sama.

Eyþór Arnalds vék af fundi kl. 9:00

Fulltrúar minnihluta óskuðu að eftirfarandi væri bókað: Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í fræðsluráði átelja borgaryfirvöld vegna seinagangs í meðferð kjaradeilu kennara við borgina. Það var ljóst þegar haustið 1998 að kennarar sættu sig ekki við kjör sín og að Reykjavíkurborg bauð mun lakari kjör en flest nágrannasveitarfélaganna. Þess er skemmst að minnast að dregið var í 6 mánuði að svara fyrirspurn Sjálfstæðismanna um kjarabætur í nágrannasveitarfélögunum. Það er ljóst að mikið er á skólastjóra lagt að eiga að deila út viðbótarfjárveitingu milli kennara á fáeinum vikum nú í sumarlok. Mjög mikilvægt er að þar takist vel til, svo ekki skapist spenna innan skóla og milli skóla eftir úthlutun fjárins. Æskilegt hefði verið að hafa mun betri tíma til þessa verks. Nauðsynlegt er að bjóða þeim skólastjórum sem þess óska aðstoð við þetta verkefni.

Fulltrúar meirihluta óskuðu að eftirfarandi væri bókað: Fulltrúar Reykjavíkurlistans fagna því að tekist hefur að tryggja að skólastarf í grunnskólum borgarinnar verður með eðlilegum hætti frá og með næsta hausti. Sl. vetur var mikil vinna lögð í að ná samkomulagi milli launanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands um nýjan tilraunasamning við kennara. Reykjavíkurborg tók fullan þátt í þeirri vinnu og því vart hægt að tala um aðgerðarleysi, eins og skilja má af bókun Sjálfstæðismanna í fræðsluráði. Því miður skilaði sú vinna ekki árangri á þeim tíma. Fulltrúar Reykjavíkurlistans í fræðsluráði leggja áherslu á að vandað verði til vinnu í skólunum við ráðstöfun þess viðbótarfjármagns sem nú hefur fengist. Ljóst er að vinna verður hratt og mun Fræðslumiðstöð aðstoða skólastjórnendur í þeirri vinnu. Það er trú fulltrúa Reykjavíkurlistans að þetta viðbótarfjármagn muni auðvelda „að innleiða nýja starfshætti í skólunum, efla samvinnu kennara, foreldrasamstarf og sjálfstæð vinnubrögð nemenda“, eins og segir í yfirlýsingu borgarstjóra frá 26. júli sl.

Árni Þór Sigurðsson vék af fundi kl. 9:15 2. Lagt fram yfirlit yfir umsækjendur um stöðu aðstoðarskólastjóra unglingadeilda Seljaskóla sem auglýst var laus til umsóknar 23. maí sl. Einnig lagt fram álit fræðslustjóra vegna ráðningar aðstoðarskólastjóra að Seljaskóla ásamt tillögu skólastjóra og kennararáðs skólans. Samþykkt samhljóða að ráða Margréti Sigursteinsdóttur, kt. aðstoðarskólastjóra unglingadeilda Seljaskóla.

3. Lagt fram yfirlit yfir umsækjendur um stöðu aðstoðarskólastjóra barnadeilda Seljaskóla sem auglýst var laus til umsóknar 20. júní sl. Einnig lagt fram álit starfsmannastjóra Fræðslumiðstöðvar ásamt tillögu skólastjóra og kennararáðs skólans. Samþykkt samhljóða að ráða Guðrúnu Guðmundsdóttur, kt. aðstoðarskólastjóra barnadeilda Seljaskóla.

Þessi staða og þær stöður sem fjallað er um í liðum 4 og 5 hafa orðið til vegna ákvörðunar Reykjavíkurborgar, sbr. fjárhagsáætlun ársins 1999, að veita auknu fjármagni til stjórnunar í grunnskólum Reykjavíkur.

4. Lagt fram yfirlit yfir umsækjanda um stöðu aðstoðarskólastjóra yngra stigs og miðstigs Ölduselsskóla, sem auglýst var laus til umsóknar 27. júní sl. Einnig lagt fram álit starfsmannastjóra Fræðslumiðstöðvar ásamt tillögu skólastjóra og kennararáðs skólans. Samþykkt samhljóða að ráða Sigríði Heiðu Bragadóttur, kt. 210858-7179, aðstoðarskólastjóra yngra stigs og miðstigs Ölduselsskóla.

5. Lagt fram yfirlit yfir umsækjanda um stöðu aðstoðarskólastjóra við Foldaskóla, efra miðstigs og unglingastigs, sem auglýst var laus til umsóknar 23. júní sl. Einnig lagt fram álit starfsmannastjóra Fræðslumiðstöðvar ásamt tillögu skólastjóra og kennararáðs skólans. Samþykkt samhljóða að ráða Hreiðar Sigtryggsson, kt. 060756-3419, aðstoðarskólastjóra efra miðstigs og unglingastigs Foldaskóla.

Fundi slitið kl. 9:40

Margrét Björnsdóttir

Sigrún Elsa Smáradóttir Guðrún Pétursdóttir
Árni Þór Sigurðsson Eyþór Arnalds