Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

91. fundur

Fræðsluráð

Ár 1999, mánudaginn 23. ágúst, kl. 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund í Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og var þetta 91. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir, formaður, Margrét Björnsdóttir, Sigrún Elsa Smáradóttir og Eyþór Arnalds. Auk þeirra sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Guðbjörg Þórisdóttir frá Skólastjórafélagi Reykjavíkur, Hannes Kr. Þorsteinsson og Guðrún Sturlaugsdóttir frá Kennarafélagi Reykjavíkur og Óskar Ísfeld Sigurðsson, fulltrúi SAMFOKs. Einnig sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir, fræðslustjóri, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður þróunarsviðs, Ólafur Darri Andrason, forstöðumaður fjármálasviðs, og Steinunn Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi, sem ritaði fundargerð.

1. Lagt fram yfirlit yfir nemendafjölda í skólum, dags. í dag. Forstöðumaður þróunarsviðs kynnti yfirlitið og gerði grein fyrir helstu breytingum frá fyrri tölum.

2. Lagt fram bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga ásamt greinargerð nefndar um slysavarnir í skólum, dags. 9. mars sl. Vísað til skoðunar við gerð starfsáætlunar ársins 2000.

3. Lögð fram til kynningar fréttatilkynning um símenntunarnámskeið fyrir skólaliða og stuðningsfulltrúa. Námið er metið til eininga á framhaldsskólastigi og var sett upp fyrir Fræðslumiðstöð í Borgarholtsskóla.

4. Lagður fram til kynningar og umræðu ferill styrkumsókna til Reykjavíkurbogar 1999-2000.

5. Lögð fram tillaga forstöðumanns fjármálasviðs að hækkun styrkja vegna nemenda í einkaskólum ásamt fylgiskjali. Fræðsluráð samþykkir samhljóða að styrkir til einkarekinna grunnskóla hækki frá 1. ágúst 1999 úr 120.000 kr. á nemanda með lögheimili í Reykjavík, í 160.000 kr. Jafnframt samþykkir fræðsluráð að stefnt verði að því að framlög Reykjavíkurborgar vegna barna í einkaskólum fylgi viðmiðum sem samþykkt hafa verið hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga vegna nemenda sem greitt er fyrir milli sveitarfélaga.

Eyþór Arnalds óskaði eftir að eftirfarandi væri bókað: Sjálfstæðismenn fagna þeirri leiðréttingu sem nú á sér stað á framlagi til einkarekinna grunnskóla. Augljóst hagræði er af rekstri einkaskóla fyrir Reykjavíkurborg og því ánægjulegt ef hömlum á fjölda nemenda í minnstu skólunum verði aflétt.

Fulltrúar Reykjavíkurlista óskuðu eftir að eftirfarandi væri bókað: Fræðsluráð hefur samþykkt umtalsverða hækkun á nemendatengdum framlögum til einkaskóla fyrir skólaárið 1999-2000. Hækkunin nemur um 33,3%. Auk þessa greiða borgaryfirvöld í fyrsta sinn fyrir dvöl 5 ára barna í Ísaksskóla og Landakotsskóla. Hins vegar er alrangt sem fram kemur í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokks að hagræði sé að senda nemendur fremur í einkaskóla en sína hverfisskóla.

6. Lagt fram minnisblað fræðslustjóra um hádegisstund í grunnskólum Reykjavíkur.

Fulltrúar Reykjavíkurlista óskuðu eftir að eftirfarandi væri bókað: Fræðsluráð harmar að 7 einsettir skólar borgarinnar með nemendur í 1.-4. bekk, treysti sér ekki til að taka upp hádegisstund og þar með lengja skóladag yngstu barnanna. Fræðsluráð beinir tilmælum sínum til þessara skóla að þeir skoði málið að nýju og að starfsmenn Fræðslumiðstöðvar aðstoði þá við að leita leiða til að taka upp hádegisstund sem allra fyrst. Fræðsluráð telur að þessir skólar geti ekki tekið hærra gjald fyrir dvöl í skóladagvist en tvísetnu skólarnir. Grundvöllurinn fyrir hækkun gjaldsins í einsettu skólunum var að með hádegisstund styttist sá tími sem foreldrar þurfa að greiða fyrir í skóladagvist.

7. Kynnt staða byggingaframkvæmda við grunnskóla borgarinnar. Guðmundur Pálmi Kristinsson, forstöðumaður, og Sighvatur Arnarsson frá byggingadeild borgarverkfræðings kynntu framkvæmdirnar.

Fundi slitið kl. 14.05

Sigrún Magnúsdóttir
Margrét Björnsdóttir Sigrún Elsa Smáradóttir
Eyþór Arnalds