Skóla- og frístundaráð
98. fundur
Fræðsluráð
Ár 1999, mánudaginn 8. nóvember, kl. 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund í Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og var þetta 98. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Margrét Björnsdóttir, varaformaður, Sigrún Elsa Smáradóttir, Helgi Hjörvar og Guðrún Pétursdóttir. Auk þeirra sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Guðrún Sturlaugsdóttir og Hannes Kr. Þorsteinsson frá Kennarafélagi Reykjavíkur og Óskar Ísfeld Sigurðsson, fulltrúi SAMFOKs. Einnig sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir, fræðslustjóri, Arthur Morthens, forstöðumaður þjónustusviðs, Ólafur Darri Andrason, forstöðumaður fjármálasviðs, og Steinunn Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi, sem ritaði fundargerð.
1. Lagt fram bréf fræðslustjóra, dags. 5. nóvember sl., um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa fræðsluráði.
Eyþór Arnalds kom á fund kl. 12.35. Áslaug Brynjólfsdóttir kom á fund kl. 12.45.
2. Lögð fram að nýju stefnumörkun um skóladagvist. Fræðslustjóri fylgdi stefnumörkuninni úr hlaði.
Fulltrúi foreldra óskaði eftir að eftirfarandi væri bókað: Því er harðlega mótmælt að stefnumörkun um skóladagvist í einsetnum almennum grunnskóla sé samþykkt í fræðsluráði án þess að leitað sé umsagnar foreldraráða við grunnskóla í Reykjavík eins og kveðið er á um í grunnskólalögum.
Viðmið um skóladagvist samþykkt samhljóða og fræðsluráð bókaði eftirfarandi: Skóladagvist er mikilvæg þjónusta skólanna við heimilin. Frá því að henni var fyrst komið á hefur skóladagur grunnskólabarna lengst til muna. Í flestum einsetnum skólum má ætla að skóladagvist verði aðeins í 2-3 klukkustundir á dag. Fræðsluráð leggur áherslu á að allir sem þurfa á að halda fái notið skóladagvistar. Um leið og samþykkt er stefnumörkun um skóladagvist í einsetnum almennum grunnskóla og ný gjaldskrá, óskar fræðsluráð eftir því að vandlega verði skoðað á næstu mánuðum hvort og þá hvernig lækka megi kostnað við rekstur skóladagvistar og þar með lækka tilkostnað bæði foreldra og Reykjavíkurborgar.
3. Lögð fram starfsáætlun fræðslumála 2000 ásamt útdrætti til borgarráðs. Fræðslustjóri fylgdi útdrættinum úr hlaði.
Varaformaður óskaði eftir að bókað væri að tillögur fulltrúa SAMFOKs frá síðasta fundi um foreldrasamstarf verði útfærðar í samstarfi við væntanlegan móðurskóla í foreldrasamvinnu.
Fræðsluráð samþykkir með þremur atkvæðum fulltrúa Reykjavíkurlista að vísa starfsáætlun fræðslumála 2000 og útdrætti úr henni til borgarráðs.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks sátu hjá og óskuðu eftir að eftirfarandi verði bókað: Sjálfstæðismenn í fræðsluráði leggja áherslu á mikilvægi þess að draga úr miðstýringu fræðslumála og auka sjálfstæði skóla í reynd. Þeir harma að í starfsáætlun skuli ekki vera gert ráð fyrir auknu stjórnunarfé til fleiri skóla eins og skólastjórnendur hafa lagt höfuðáherslu á. Bókuninni fylgir greinargerð.
Fulltrúar Reykjavíkurlista óskuðu eftir að eftirfarandi væri bókað: Meirhluti fræðsluráðs mótmælir rangfærslum í greinargerð sem fylgir bókun sjálfstæðismanna. Starfsáætlun fræðslumála fyrir árið 2000 endurspeglar þá stefnu fræðsluráðs að auka sjálfstæði skóla. Fjárhagsleg ábyrgð er nú komin til skólanna og gert er ráð fyrir rekstrar- og þjónustusamningi við 7 þeirra á árinu 2000. Engar áætlanir eru nú uppi um að fjölga starfsfólki Fræðslumiðstöðvar. Styrkir til einkaskóla hækkuðu um 30% á árinu 1999.
Fundi slitið kl. 14.40
Margrét Björnsdóttir
Sigrún Elsa Smáradóttir Helgi Hjörvar
Guðrún Pétursdóttir Eyþór Arnalds