Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

103. fundur

Fræðsluráð

Ár 2000, mánudaginn 10. janúar, kl. 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund í Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og var þetta 103. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir, Hrannar Björn Arnarsson, Sigrún Elsa Smáradóttir og Guðrún Pétursdóttir. Auk þeirra sátu fundinn Pétur Orri Þórðarson frá Skólastjórafélagi Reykjavíkur, Guðrún Sturlaugsdóttir og Hannes K. Þorsteinsson frá Kennarafélagi Reykjavíkur og Óskar Ísfeld Sigurðsson, fulltrúi SAMFOKs. Einnig sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir, fræðslustjóri, Arthur Morthens, forstöðumaður þjónustusviðs, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður þróunarsviðs, Runólfur Birgir Leifsson, forstöðumaður fjármálasviðs, Sigurbjörn Knudsen, sérfræðingur á fjármálasviði, og Steinunn Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi, sem ritaði fundargerð. Gestir fundarins voru Tryggvi Sigurbjarnarson og Gunnar Páll Þórisson ráðgjafar.

1. Formaður bauð Runólf Birgi Leifsson, nýjan forstöðumann fjármálasviðs, og Sigurbjörn Knudsen velkomna til starfa.

2. Lagt fram bréf fræðslustjóra, dags. 7. janúar sl., um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa fræðsluráði, alls þrjú mál.

3. Vinna ráðgjafa við skilgreiningu á hlutverki og þjónustustigi Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur. Tryggvi Sigurbjarnarson og Gunnar Páll Þórisson kynntu kortlagningu sína á nokkrum leiðum sem fara má.

Tryggvi og Gunnar Páll fóru af fund kl. 13.30.

4. Lögð fram drög að áætlun um fundardaga fræðsluráðs og efni funda á vorönn 2000, flokkað annars vegar í stefnumörkun og kannanir sem grundvöll ákvarðanatöku og hins vegar eftirlit og upplýsingamiðlun.

5. Lagt fram til kynningar yfirlit yfir umsóknir um styrki fræðsluráðs.

6. Lagt fram bréf fræðslustjóra um drög að stefnumörkun um uppsetningu eftirlitsmyndavéla, dags. 3. janúar sl.

7. Skólaskipan í Laugarnesi. Formaður lagði fram eftirfarandi tillögu: Fræðsluráð samþykkir að beina til borgarráðs að unnið verði að skólaskipan í Laugarnes-, Laugalækjar- og Sóltúnsskóla skv. niðurstöðum forsagnarhóps frá 10. maí 1999. 1. Undirbúningur og hönnun viðbygginga við Laugarnes- og Laugalækjarskóla hefjist árið 2000 og haft að leiðarljósi að Laugarlækjarskóli verði með fjóra árganga, 7. til 10. bekk. Nauðsynlegt er að vinna að viðbyggingum samhliða og þær teknar í notkun árið 2002. 2. Skólastarf hefjist í Sóltúnshverfinu haustið 2000. Fyrst um sinn verði skólinn rekinn sem útibú frá Laugarnesskóla í bráðabirgðahúsnæði og/eða færanlegum kennslustofum. Sóltúnsskóli verði rekinn í samstarfi við íþróttafélagið Ármann og sérstök áhersla lögð á hollustu, hreyfingu og útivist í skólanum. Þá verði kannað hvort unnt sé að taka á móti ákveðnum fjölda nemenda úr öðrum hverfum borgarinnar sem vilja stunda fimleika sem sérgrein. Við deiliskipulagsvinnu á þessum reit verði tekið tillit til þessara áforma og áætluð skólabygging fyrir u.þ.b. 150 nemendur sem næst íþróttahúsi Ármanns.

Tillögur þessar byggja á þremur meginþáttum.

a. Mikil fjölgun nemenda í Laugarneshverfi á síðustu árum gerir Laugarnesskóla mjög erfitt fyrir. Þá er afar mikilvægt að taka tillit til byggingasögulegs gildis hússins og sérstöðu þess sem mikilvægs dæmis um íslenska byggingalist á sviði skólamannvirkja. Þess vegna er nauðsynlegt að byggja sem minnst við skólann og vernda sérstöðu hans eins og kostur er. b. Reykjavíkurborg hefur samið við ríkið um kaup á húsnæði leikskólaskorar Kennaraháskóla Íslands, við hliðina á Laugarlækjarskóla. Laugalækjarskóli býður því upp á afar skemmtilegan ramma fyrir skólastarf, að kenna aðeins tveimur árgöngum í sama húsi, þ.e.a.s. 7. og 8. bekk í öðru húsinu og 9. og 10. bekk í hinu. c. Fjölmenn íbúðabyggð er að rísa í Túnunum eða 350 nýjar íbúðir. Ákvörðun um skólabyggingu í næsta nágrenni hefur eflaust áhrif á val fólks um búsetu, bæði hvað varðar nýbyggingar og eldra húsnæði. Þá er það áhugaverð nýjung að bjóða nemendum úr öðrum hverfum skólavist í Sóltúnsskóla, skóla hreyfingar og hollustu.

Lagt fram bréf bréf skólastjóra Laugarnesskóla, dags. 10.12.1999, um ákvörðun um skólahverfi Laugarnesskóla og Laugarlækjarskóla. Einnig lagt fram bréf fulltrúa í foreldraráði Laugarnesskóla, dags. 8.12.1999, vegna framtíðarskipulags skólamála Laugarneshverfis.

Fulltrúi Sjálfstæðisflokks óskaði eftir að eftirfarandi væri bókað: Þegar tekin er ákvörðun um skólaskipan Laugarnes-, Laugalækjar- og Sóltúnsskóla er brýnt að láta hagsmuni barnanna ráða ferðinni og vega þyngra en hagkvæmnirök um nýtingu nýkeyptrar skólabyggingar Fósturskólans við Laugalæk. Sjálfstæðismenn taka undir óskir skólastjórnenda og foreldra barna í Laugarnesskóla um að 7. bekkur verði ekki fluttur í Laugalækjarskóla, vegna þeirra óæskilegu uppeldisáhrifa sem það kann að hafa á 12 ára börn að flytjast í unglingaskóla. Það er ljóst að eldri árgangar samsama sig ekki yngri börnum heldur eru það yngri börn sem samsama sig þeim eldri. Þau rök að flutningur 7. bekkjar muni auðvelda framboð á valgreinum í Laugalækjarskóla halda ekki, því einkum er gert ráð fyrir valgreinum frá 8. bekk. Með tilkomu Sóltúnsskóla og fyrirhugaðri byggingu sérgreinastofa mun Laugarnesskóli auðveldlega geta hýst 7. bekkinga áfram og óskar eindregið eftir að fá að gera það.

Fulltrúar Reykjavíkurlista óskuðu eftir að eftirfarandi væri bókað: Umræður um framtíðarskipan skólamála Laugarneshverfis hefur farið fram í fjölda ára. Ljóst er að skoðanir eru og verða skiptar um heppilegustu leiðina, bæði út frá hagkvæmnisjónarmiðum og kennslufræðilegum rökum. Ákvörðun fræðsluráðs er grundvölluð á því faglega mati að með metnaðarfullri uppbyggingu Sóltúnsskóla, stærri og betri Laugalækjarskóla ásamt áframhaldandi öflugu skólastarfi í Laugarnesskóla með byggingu nýrra sérgreinastofa þar, muni skólastarf í hverfinu eflast og styrkjast íbúum þess og nemendum til hagsbóta. Tillaga um skólaskipan í Laugarneshverfi samþykkt með þremur atkvæðum gegn einu. 8. Fulltrúi Sjálfstæðisflokks í fræðsluráði óskaði eftir að eftirfarandi væri bókað: Sjálfstæðismenn fagna því að að meirihlutinn skuli hafa fallið frá áformum sínum um að auka ekki stjórnunarkvóta skóla. Aukinn stjórnunarkvóti var forgangskrafa skólastjórnenda í Reykjavík. Um leið og það er sagt átelja sjálfstæðismenn formann fræðsluráðs fyrir að hafa ekki veitt ráðinu neinar upplýsingar um þessa fyrirhuguðu breytingu á fjárhagsáætlun, fyrir borgaratjórnarfundinn þar sem fjárhagsáætlunin var samþykkt.

Formaður óskaði eftir að eftirfarandi væri bókað: Bókun Guðrúnar Pétursdóttir sýnir ótrúlega vanþekkingu á fjárhagsáætlunarferli Reykjavíkurborgar. Það að átelja formann fræðsluráðs fyrir eigin vanrækslu, þ.e.a.s. að fylgjast ekki með ákvörðunum teknum í borgarráði milli umræðna er fáheyrt.

Fundi slitið kl. 14.30

Sigrún Magnúsdóttir
Hrannar Björn Arnarsson Sigrún Elsa Smáradóttir
Guðrún Pétursdóttir