Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

107. fundur

Fræðsluráð

Ár 2000, mánudaginn 6. mars, kl. 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund í Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og var þetta 107. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir, Hrannar Björn Arnarsson, Sigrún Elsa Smáradóttir og Guðrún Pétursdóttir. Auk þeirra sátu fundinn Erna M. Sveinbjarnardóttir frá Skólastjórafélagi Reykjavíkur, Guðrún Sturlaugsdóttir og Hannes K. Þorsteinsson frá Kennarafélagi Reykjavíkur og Óskar Ísfeld Sigurðsson, fulltrúi SAMFOKs. Einnig sátu fundinn Arthur Morthens, forstöðumaður þjónustusviðs, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður þróunarsviðs, Runólfur Birgir Leifsson, forstöðumaður fjármálasviðs og Sigurður Þór Jóhannesson, skjalavörður á Fræðslumiðstöð, sem ritaði fundargerð.

1. Lagt fram bréf fræðslustjóra, dags. 1. mars sl., um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa fræðsluráði, 2 mál.

2. Lagt fram bréf fræðslustjóra til fræðsluráðs vegna úrskurðar í stjórnsýslukærumáli Björns Baldurssonar. Sjöfn Kristjánsdóttir, lögfræðingur Ráðhúss Reykjavíkur kynnti bréfið. Formaður fræðsluráðs lagði fram eftirfarandi tillögu: Fræðsluráð Reykjavíkur felur Fræðslumiðstöð Reykjavíkur að leita umsagna þeirra skóla sem hlut eiga að þessu máli, afla umsagnar móður drengjanna og gefa síðan Birni Baldurssyni kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri ásamt hugsanlegum andmælum við umsagnirnar. Málið verður því næst lagt fyrir fræðsluráð ásamt umsögn/tillögu fræðslustjóra um afgreiðslu þess. Samþykkt einróma.

Sjöfn Kristjánsdóttir, lögfræðingur Ráðhúss Reykjavíkur sat fund undir þessum lið.

Eyþór Arnalds kom á fund kl. 12.40.

3. Lagt fram álit fræðslustjóra vegna ráðningar í stöðu skólastjóra Safamýrarskóla til afleysinga í eitt ár. Samþykkt samhljóða að ráða Björku Jónsdóttur, kt. 070357-3569.

4. Lagt fram yfirlit yfir fjárhagsstöðu Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur í árslok 1999. Runólfur Birgir Leifsson, forstöðumaður fjármálasviðs, kynnti yfirlitið.

Júlíus Sigurbjörnsson, deildarstjóri rekstrardeildar, kom á fund kl. 12.55.

5. Lögð fram skýrsla Gallup sem unnin var upp úr könnun um þjónustu Fræðslumiðstöðvar við skóla. Hulda Þórisdóttir, verkefnisstjóri hjá Gallup, kynnti skýrsluna.

Formaður óskaði að samantekt Huldu á niðurstöðum könnunarinnar yrði bókuð: Skólastjórar eru ánægðir með samskipti sín við starfsfólk Fræðslumiðstöðvar. Þeir telja sig þurfa meiri sálfræðiþjónustu og kennsluráðgjöf. Upplýsingar um ábyrgð þeirra vs. Fræðslumiðstöðvar eru ekki nægar. Margt hefur breyst til batnaðar við flutning frá ríki til sveitarfélaga

6. Lögð fram fjárhagsáætlun til þriggja ára. Runólfur Birgir Leifsson, forstöðumaður fjármálasviðs, kynnti áætlunina.

7. Tillaga frá síðasta fundi um kennsludaga í skólum. Formaður lagði fram eftirfarandi tillögu um málsmeðferð: Fræðsluráð Reykjavíkur er sammála tillöguhöfundi hvað varðar fyrstu tvo liði tillögunnar. Formaður fræðsluráðs hefur ítrekað lagt til að skólanámskrár skólanna liggi fyrir á vordögum þannig að umsagnaraðilar, skólanefnd og foreldraráð, eigi þess kost að gera athugasemdir áður en nýtt skólaár hefst. Þá kemur það skýrt fram í starfsáætlun Fræðslumiðstöðvar fyrir árið 2000 að foreldraviðtöl séu skipulögð án þess að lögboðinn fjöldi kennsludaga skerðist. Sinni einhverjir skólar ekki þessum skyldum sínum verður að vinna bragarbót á því. Stjórnunarkvóti til skóla og viðbótarfé frá borgarráði á síðasta ári á að auðvelda þeim þessa vinnu. Fræðsluráð beinir þeim tilmælum til launanefndar sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands að tekið verði á misvísandi túlkunaratriðum varðandi kennsludaga í grunnskólum landsins í komandi kjaraviðræðum. Jafnframt er þess vænst að þau geri fræðsluráði grein fyrir skoðun sinni á deilum varðandi vetrarfrí nemenda um land allt. Fræðsluráð gerir ekki athugasemd við vetrarfrí nemenda í skólum svo framarlega að greint sé frá því í skóladagatali sem kynnt hefur verið foreldraráði og kennsludagar séu 170. Fræðsluráð vísar tillögunni til meðferðar fræðslustjóra. Tillögunni fylgir greinargerð. Samþykkt einróma.

8. Lagt fram að nýju minnisblað fræðslustjóra um mat í hádegishléi í skólum. Frestað.

9. Lögð fram tillaga að viðmiðum um hádegisstund í 1. – 4. bekk grunnskóla Reykjavíkur og minnisblað fræðslustjóra um málið. Einnig lögð fram umsögn Félags grunnskólakennara um tillögu að viðmiðum um hádegisstund í 1. – 4 bekk grunnskóla Reykjavíkur. Frestað.

10. Lagt fram minnisblað Júlíusar Sigurbjörnssonar, deildarstjóra rekstrarsviðs, um örgjörvagreiðslukort. Frestað.

Fundi slitið kl. 14.30

Sigrún Magnúsdóttir
Hrannar Björn Arnarsson Sigrún Elsa Smáradóttir
Guðrún Pétursdóttir Eyþór Arnalds