No translated content text
Skóla- og frístundaráð
SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ
Ár 2013, 10. apríl, var haldinn 38. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn var haldinn í Hólabrekkuskóla í Reykjavík og hófst kl. 10.14. Fundinn sátu Oddný Sturludóttir formaður (S), Eva Einarsdóttir (Æ), Diljá Ámundadóttir (Æ), Hilmar Sigurðsson (S), Kjartan Magnússon (D) og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir (D).
Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Andrea Sigurjónsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Fanný Heimisdóttir, skólastjórar í leikskólum; Guðlaug Erla Gunnarsdóttir, skólastjórar í grunnskólum; Helgi Eiríksson, stjórnendur frístundamiðstöðva og Rósa Ingvarsdóttir, kennarar í grunnskólum.
Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Auður Árný Stefánsdóttir, Hildur Skarphéðinsdóttir, Kristín Egilsdóttir og Valgerður Janusdóttir.
Fundarritari var Guðrún Sigtryggsdóttir.
Þetta gerðist:
1. Spjaldtölvur – spegluð kennsla/skólasamfélag sem lærir. Hólmfríður G. Guðjónsdóttir skólastjóri og Anna María Þorkelsdóttir kennari, í Hólabrekkuskóla, kynntu og svöruðu fyrirspurnum.
- Kl. 10:50 tóku Soffía Pálsdóttir og Bryndís Jónsdóttir sæti á fundinum.
2. Staða upplýsingatæknimála á skóla- og frístundasviði. Óskar Sandholt, skrifstofustjóri þjónustuskrifstofu Reykjavíkurborgar, kynnti og svaraði fyrirspurnum.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að forgangsraðað verði í fjárfestingum spjaldtölva fyrir grunnskóla og leikskóla með þeim hætti að annars vegar fái kennarar slíkar tölvur til að kynnast og læra að nota og hins vegar fái sérkennarar tæki til að nýta fyrir börn með sértæka lærdómserfiðleika. Þannig kynnast kennarar tækifærum spjaldtölva og hafa tíma til að skipuleggja nýtingu þeirra í samræmi við skólastefnu. Að auki hafa spjaldtölvur reynst gríðarlega gagnleg tæki fyrir sérkennslu af ýmsum toga og mörg forrit eru nú þegar fyrir hendi, sem henta vel til slíkrar kennslu, m.a. fyrir einhverf börn.
Frestað.
3. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi ráðsins 20. mars 2013:
Allir grunnskólar fái greiningu á niðurstöðum samræmdra könnunarprófa útfærða fyrir hvern skóla fyrir sig og út frá kynjum. Skólastjórar fái þannig öflugar greiningar sem nýtast við markmiðasetningu og umbætur í skólastarfi.
Greinargerð fylgdi. SFS2013040044
Samþykkt.
4. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. apríl 2013, varðandi tillögu að breytingum á reglum skóla- og frístundasviðs um leikskólaþjónustu. Auk þess lagðar fram reglur um leikskólaþjónustu með tillögu að breytingu. SFS2013040046
Marta María Friðriksdóttir, lögfræðingur fjármáladeildar, skóla- og frístundasviðs, sat fundinn undir þessum lið.
Samþykkt og vísað til borgarráðs.
5. Lagt fram bréf nafnanefndar, dags. 21. mars 2013, um að sameinaður leikskóli Drafnarborgar/Dvergasteins, fái nafnið Drafnarsteinn. SFS2013010166
Samþykkt með 4 atkvæðum, Kjartan Magnússon og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir sátu hjá.
6. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. mars 2013, varðandi styrkumsóknir til skóla- og frístundaráðs utan hefðbundins umsóknartíma, með tillögu að afgreiðslu umsókna. SFS2013030171
Tillaga sviðsstjóra að afgreiðslu samþykkt og vísað til borgarráðs með 4 atkvæðum, Kjartan Magnússon og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir sátu hjá.
7. Lögð fram skýrsla um viðhorf foreldra barna í frístundaheimilum, heildarniðurstöður fyrir Reykjavík, apríl 2013. Hildur Björk Svavarsdóttir, deildarstjóri tölfræði- og rannsóknaþjónustu, skóla- og frístundasviði, kynnti og svaraði fyrirspurnum. SFS2013040041
- Kl. 12:00 tók Líf Magneudóttir sæti á fundinum.
Bókun skóla- og frístundaráðs:
Skóla- og frístundaráð fagnar niðurstöðum könnunar meðal foreldra barna á frístundaheimilum borgarinnar. Hún sýnir að ánægja vex töluvert á milli kannana og að mikill meirihluti foreldra er ánægður með reykvísk frístundaheimili. Níu af hverjum tíu foreldrum eru ánægð með frístundaheimilið og 94#PR telja að barninu þeirra líði þar vel. 89#PR foreldra töldu dvölina þar hafa jákvæð félagsleg áhrif á barnið og 82#PR foreldra töldu viðfangsefni barnsins á frístundaheimilinu áhugaverð. Þá mældist mikil ánægja með samskipti við starfsfólk frístundaheimilanna eða 90#PR. Allir þessir þættir sýna betri útkomu en í síðustu könnun. Ánægjukönnun sem þessi er mikilvægt umbótatæki og hvert og eitt frístundaheimili fær niðurstöður til sín svo hægt sé að styrkja þá þætti sem koma veikir út.
8. Lagt fram svar sviðsstjóra, skóla- og frístundasviðs, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins varðandi greiningu á ástæðum þess að 20#PR barna í leikskólum borgarinnar fara ekki í grunnskóla borgarinnar. Hildur Björk Svavarsdóttir, deildarstjóri tölfræði- og rannsóknaþjónustu, skóla- og frístundasviðs, kynnti og svaraði fyrirspurnum. SFS2013040030
9. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 20. mars 2013, þar sem tilkynnt er að borgarstjórn hafi á fundi 19. mars 2013 samþykkt að Líf Magneudóttir taki sæti Sóleyjar Tómasdóttur í skóla- og frístundaráði. SFS2011090132
- Hlé gert á fundinum frá kl. 12:20 til 12:50.
- Kl. 12:50 viku Guðlaug Erla Gunnarsdóttir og Rósa Ingvarsdóttir af fundinum.
10. Lögð fram drög að stefnu og starfsáætlun í Breiðholti. Óskar Dýrmundur Ólafsson, hverfisstjóri Breiðholts, kynnti og svaraði fyrirspurnum. SFS2013040048
- Kl. 13.20 vék Soffía Pálsdóttir af fundi.
11. Dagskrárlið 8 í útsendri dagskrá frestað.
12. Lagt fram yfirlit yfir innkaup skóla- og frístundasviðs yfir 1 mkr. sem frestað var á fundi ráðsins 20. mars sl. SFS2013030153
13. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. apríl 2013, varðandi innritun systkina í leikskóla Reykjavíkurborgar. Auk þess lagt fram bréf foreldrafélags og foreldraráðs Brákarborgar, dags. 1. mars 2013 og bréf Birnu Hafstein, dags. 19. mars 2013 og svör sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 20. mars og 26. mars 2013. Einnig lögð fram umsögn borgarlögmanns um réttmæti systkinaforgangs í leikskólum, dags. 26. apríl 2010. SFS2013040047
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi bókun:
Í samstarfsyfirlýsingu Samfylkingar og Besta flokksins frá því í júní 2010 segir að meðal fyrstu verka nýs meirihluta verði að taka upp svokallaðan systkinaforgang á leikskóla. Kusu borgarfulltrúar meirihlutans að gefa umrætt fyrirheit þrátt fyrir að þeim væri fullkunnugt um þá niðurstöðu borgarlögmanns, að slíkur systkinaforgangur gengi í berhögg við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar. Málið var oft rætt í leikskólaráði á síðasta kjörtímabili og skilaði borgarlögmaður t.d. rökstuddu áliti með umræddri niðurstöðu í apríl 2010 eða innan við tveimur mánuðum áður en umrætt fyrirheit var gefið. Nú eru næstum þrjú ár liðin af kjörtímabilinu og enn hefur borgarstjórnarmeirihlutinn ekki flutt tillögu eða gert aðrar ráðstafanir til að taka upp systkinaforgang. Ljóst er að skýrt fyrirheit borgarstjórnarmeirihlutans um systkinaforgang var innantómt og merkingarlaust.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar lögðu fram svohljóðandi bókun:
Það er alls ekki rétt, og afar ómálefnalegt af hálfu Sjálfstæðisflokksins, að ekkert hafi verið gert til að betrumbæta innritun systkina í leikskóla frá því árið 2010. Þvert á móti var tekið upp nýtt fyrirkomulag innritunar árið 2011 sem leysir úr langflestum málum og hefur reynst afar vel. Ekki reyndist unnt, eftir vandlega skoðun, að taka upp forgang fyrir systkini eins og hann var framkvæmdur á árum áður, því það gengi á rétt eldri barna til leikskólanáms. Allir flokkar samþykktu þetta nýja fyrirkomulag innritunar í mars árið 2011 og aldrei hefur Sjálfstæðisflokkurinn lagt til að forgangur fyrir systkini verði tekinn upp aftur. Hins vegar má í sögulegu samhengi benda á að systkinaforgangur var alfarið afnuminn í tíð Sjálfstæðisflokksins árið 2008 og ekkert var gert af þeirra hálfu í leikskólamálum til að koma til móts við fjölskyldur sem eiga fleiri en eitt barn á leikskólaaldri. Besti flokkurinn og Samfylkingin hafa fjölgað leikskólaplássum um mörg hundruð frá 2010 á meðan Sjálfstæðisflokkurinn taldi það of dýran kost og lagði til heimgreiðslur sem sinn kost. Öllum börnum sem verða tveggja ára á árinu er tryggt leikskólanám en í mörg ár hefur það verið áskorun að koma þeim börnum sem fædd eru síðast á árinu inn á þann leikskóla sem foreldrar óska helst eftir.
- Kl. 14:28 vék Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir af fundi.
- Kl. 14:30 vék Hilmar Sigurðsson af fundi.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins lagði fram svohljóðandi bókun:
Það er rétt að systkinaforgangur var afnuminn í september 2008. Ekki vegna stefnu þáverandi meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks heldur vegna skýrrar og rökstuddrar niðurstöðu borgarlögmanns um að slíkur forgangur bryti gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar. Fyrir borgarstjórnarkosningar 2010 létu frambjóðendur Samfylkingar og Besta flokksins í veðri vaka að unnt væri að koma slíkum systkinaforgangi á að nýju. Slíkur málflutningur var afar óábyrgur og einkenndist af lýðskrumi, a.m.k. hjá þeim borgarfulltrúum sem sátu í þáverandi leikskólaráði og var fullkunnugt um ástæður þess að borgaryfirvöld fundu sig knúin til að fara eftir áliti borgarlögmanns og afnema umræddan systkinaforgang.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar lögðu fram svohljóðandi bókun:
Það er rétt að Samfylkingin og Besti flokkurinn höfðu, eins og margir foreldrar, væntingar um að hægt væri að gera betur þegar kemur að fyrirkomulagi innritunar
leikskólabarna, enda var staðan ekki góð. Nú hefur í þrígang verið innritað með breyttu fyrirkomulagi og reynslan er afar góð. Í öllu falli er betur að málum staðið nú, en fyrir árið 2010.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins lagði fram svohljóðandi bókun:
Í bókun meirihlutans er með ótrúverðugum hætti reynt að draga athyglina frá því að hann hefur ekki staðið við skýrt fyrirheit frá árinu 2010 um að taka upp systkinaforgang við innritun á leikskóla. Fullyrðingar um að betur sé staðið að málum nú en árið 2010 standast ekki, í ýmsum tilvikum eru börn að komast síðar inn á leikskóla nú en þá.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar lögðu fram svohljóðandi bókun:
Aldrei er góð vísa of oft kveðin. Eins og kemur fram í bókun Samfylkingarinnar og Besta flokksins var málið skoðað og ákveðið að fara nýja leið með innritun leikskólabarna sem hefur gefist afar vel. Reglur um aldur barna við innritun í leikskóla hafa verið þær sömu síðan árið 2009 og börn eru að komast inn í leikskóla á svipuðum aldri nú og áður.
14. Lögð fram ályktun skólaráðs Klébergsskóla auk bréfs sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. apríl 2013. SFS2013030225
Fundi slitið kl. 14.45
Oddný Sturludóttir
Eva Einarsdóttir Diljá Ámundadóttir
Kjartan Magnússon Líf Magneudóttir