Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ

Ár 2013, 15. maí, var haldinn 40. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn var haldinn í Hofi í Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 10:05. Fundinn sátu Óttarr Ólafur Proppé, varaformaður (Æ), Eva Einarsdóttir (Æ), Kristín Erna Arnardóttir (S), Hilmar Sigurðsson (S), Kjartan Magnússon (D), Líf Magneudóttir (V) og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir (D). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Bryndís Jónsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum; Guðlaug Erla Gunnarsdóttir, skólastjórar í grunnskólum; Jóhannes Guðlaugsson stjórnendur frístundamiðstöðva; Stella Marteinsdóttir, starfsfólk í leikskólum og Þórunn Gyða Björnsdóttir, skólastjórar í leikskólum. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Auður Árný Stefánsdóttir, Hildur Skarphéðinsdóttir, Kristín Egilsdóttir, Soffía Pálsdóttir og Valgerður Janusdóttir.
Fundarritari var Guðrún Sigtryggsdóttir.


Þetta gerðist:

1. Frístundastarf skóla- og frístundasviðs sumarið 2013. Soffía Pálsdóttir, skrifstofustjóri frístundamála á fagskrifstofu skóla- og frístundasviðs, kynnti og svaraði fyrirspurnum. SFS2013050091
Skóla- og frístundaráð samþykkti svohljóðandi tillögu:
Skóla- og frístundaráð telur mikilvægt að skóla- og frístundasvið geri úttekt á aðsókn 8. bekkinga í félagsmiðstöðvar yfir sumartímann og í þær tómstundir sem þar bjóðast.

2. Lögð fram hugmynd af vefsvæðinu Betri Reykjavík, dags. 31. mars 2013, um viðhald Breiðholtsskóla og skólalóðar Breiðholtsskóla. Jafnframt lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. maí 2013. SFS2013040075
Svohljóðandi málsmeðferðartillaga samþykkt:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að vísa erindi af Betri Reykjavík um viðhald Breið-holtsskóla og skólalóðar Breiðholtsskóla til vinnu þeirra starfshópa sem vinna að viðhaldsmálum Breiðholtsskóla.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu bókað:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins minna á tillögu sína, sem lögð var fram í skóla- og frístundaráði 6. febrúar sl., um að hefja eigi undirbúning nú þegar við endurgerð skólalóðar Breiðholtsskóla með það að markmiði að framkvæmdir geti farið fram á árinu 2014 og að sem fyrst verði ráðist í viðeigandi úrbætur á húsnæði skólans.
Á fundi skóla- og frístundaráðs 20. febrúar sl. var umræddri tillögu vísað til skoðunar umhverfis- og skipulagssviðs. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykktu þá málsmeðferð í því trausti að slík skoðun leiddi til þess að sem fyrst yrði hafist handa. Hér með er sú afstaða ítrekuð. Málefni umræddrar skólalóðar ættu ekki að þurfa langvarandi skoðun til viðbótar í starfshópum borgarkerfisins enda hafa þau verið til umræðu í borgarkerfinu árum saman. Ætti flestum borgarfulltrúum því að vera kunnugt um réttmæti þess að endurgerð lóðarinnar verði sett í forgang.
3. Lögð fram hugmynd af vefsvæðinu Betri Reykjavík, dags. 28. febrúar 2013, varðandi tjáningu í skólastarfi. Jafnframt lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 22 apríl 2013. SFS2013030214
Svohljóðandi málsmeðferðartillaga samþykkt:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að vísa tillögu af Betri Reykjavík um að auka tjáningu í kennsluháttum/skólastarfi inn í vinnu við innleiðingu aðalnámskráa leik- og grunnskóla.
- Kl. 10:45 tók Rósa Ingvarsdóttir sæti á fundinum.
4. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs:
Í stefnu skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar um skóla án aðgreiningar og sérstakan stuðning við nemendur í grunnskólum sem samþykkt var á fundi ráðsins 7. nóvember sl. og í borgarráði 15. nóvember sl. er kveðið á um að stofnað verði til fjögurra þátttökubekkja undir stjórn Klettaskóla og skuli fyrsti þátttökubekkurinn taka til starfa haustið 2013. Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs leggur til að fyrsti þátttökubekkur frá Klettaskóla verði staðsettur við Árbæjarskóla og taki til starfa 1. ágúst 2013.
Greinargerð fylgdi. SFS2013050095
Jafnframt lögð fram umsögn skólaráðs Árbæjarskóla, dags. 26. apríl 2013.

Tillaga sviðsstjóra samþykkt og vísað til borgarráðs.

Bókun skóla- og frístundaráðs:
Skóla- og frístundaráð fagnar samþykkt um þátttökubekk í samstarfi Klettaskóla og Árbæjarskóla, fyrir nemendur með þroskahömlun. Þátttökubekkurinn gerir nemendum kleift að njóta faglegrar þjónustu og þekkingar sérskólans og jafnframt náms og skólastarfs í almennu námsumhverfi. Á sama hátt hefur almenni skólinn aðgang að sérþekkingu og faglegri þjónustu sérskólans. Þátttökubekkur Klettaskóla í Árbæjarskóla er liður í innleiðingu stefnu Reykjavíkurborgar um skóla án aðgreiningar og stuðning við nemendur, sem samþykkt var í október árið 2012.

Erla Gunnarsdóttir, skólastjóri Klettaskóla og Hrund Logadóttir, verkefnastjóri sérkennslu á skóla- og frístundasviði sátu fundinn undir þessum lið og svöruðu fyrirspurnum.

5. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi ráðsins 6. febrúar 2013:
Lagt er til að orðið ,,borgarinnar“ verði fellt út úr grein 6.d reglna um leikskólaþjónustu þannig að systkinaafsláttur sé veittur óháð sveitarfélagamörkum.
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 13. maí 2013, varðandi tillöguna. Auk þess lagðar fram reglur um leikskólaþjónustu með tillögu að breytingu.
Tillaga sviðsstjóra um breytingu á reglum um leikskólaþjónustu sem taki gildi 1. september 2013 samþykkt og vísað til borgarráðs.
6. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi ráðsins 17. apríl 2013:
Skóla- og frístundaráð beinir því til umhverfis- og skipulagssviðs að ráðist verði í
endurbætur á skólalóð Árbæjarskóla og frístundaheimilisins Ársels. M.a. þarf að bæta við leiktækjum á lóðina enda um að ræða fjölmennasta grunnskóla landsins með um 650 nemendur. Bæta þarf frárennsli við malbikaða boltavelli skólans en reglulega kemur fyrir að hluti þeirra sé undir vatni. Ákjósanlegt væri að setja upp svokallaða skólahreystibraut á lóðinni. Sem fyrst þarf að lagfæra girðingu í kringum skólann og fylla upp í holu við aðalinngang. Þá er mikilvægt að sem fyrst verði ráðist í viðeigandi úrbætur á húsnæði skólans en ljóst er að viðhaldi hans hefur verið ábótavant að undanförnu. T.d. leka þak og veggir á nokkrum stöðum í skólanum. SFS2013050068

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar lögðu fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að beina því til umhverfis- og skipulagsviðs að skoða sérstaklega endurbætur á skólalóð Árbæjarskóla og frístundaheimilisins Ársels. Þó er ekki tekin afstaða til þess hvar í forgangsröðun skólalóð Árbæjarskóla eigi að vera og er því treyst að faglegt mat með yfirsýn að leiðarljósi ráði því hvar í röðinni skólar og skólalóðir eru settar þegar kemur að viðhaldi.
Samþykkt.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykkja fyrirliggjandi málsmeðferðartillögu í trausti þess að slík skoðun leiði til þess að ráðist verði sem fyrst í viðeigandi úrbætur á húsnæði Árbæjarskóla sem og endurbætur á lóð skólans og frístundaheimilisins Ársels.

7. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi ráðsins 17. apríl 2013:
Skóla- og frístundaráð beinir því til umhverfis- og skipulagssviðs að hraðahindrun verði sett upp á Nauthólsvegi við Barnaskóla Hjallastefnunnar og leikskólann Öskju. Vegna hraðaksturs hefur ítrekað verið ekið aftan á bifreiðar á leið í þessa skóla þegar þær hægja á sér áður en þær koma að sameiginlegu bílastæði þeirra.
Greinargerð fylgdi. SFS20130500689

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar lögðu fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að beina því til umhverfis- og skipulagsviðs að skoða sérstaklega aðkomu að Barnaskóla Hjallastefnunnar og leikskólanum Öskju við Nauthólsveg. Þó er ekki tekin afstaða til þess hvar í forgangsröðun málið eigi að vera og er því treyst að faglegt mat með yfirsýn að leiðarljósi ráði því hvar á forgangslista málið er.
Samþykkt.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykkja fyrirliggjandi málsmeðferðartillögu í trausti þess að slík skoðun leiði til þess að hraðahindrun verði sett upp á umræddum stað og þannig dregið úr slysahættu við Barnaskóla Hjallastefnunnar og leikskólann Öskju.

8. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. maí 2013, um staðfestingu skólanámskrár tveggja sjálfstætt starfandi leikskóla í Reykjavík og skólanámskrá vegna 5 ára deildar í Skóla Ísaks Jónssonar. SFS2013050074
Samþykkt.

9. Lögð fram drög að breyttu rekstraleyfi fyrir leikskólann Öskju. SFS2013050072
Samþykkt með 6 atkvæðum, Líf Magneudóttir sat hjá.
10. Lögð fram drög að breyttu rekstraleyfi fyrir leikskólann Laufásborg. SFS2013050073
Samþykkt með 6 atkvæðum, Líf Magneudóttir sat hjá.
11. Lögð fram drög að rekstraleyfi fyrir 5 ára leikskóladeild í Skóla Ísaks Jónssonar. SFS2013050076
Jafnframt lagt fram bréf frá Skóla Ísaks Jónssonar, dags. 14. maí 2013, þar sem óskað er eftir því að skólinn fái leyfi til samreksturs leik- og grunnskóla.
Frestað.
12. Sveigjanleiki við upphaf og lok grunnskóla.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að sviðsstjóri dragi upp reglur sviðsins um sveigjanleika við upphaf og lok náms barna í grunnskólum borgarinnar. Reglurnar sem nú eru til staðar verði endurskoðaðar og uppfærðar út frá reynslu og þekkingu skólastjóra og sálfræðinga á þjónustumiðstöðvum. Reglurnar verði aðgengilegar foreldrum og kynntar náms- og starfsráðgjöfum.
Frestað.
- Hlé gert á fundinum frá kl. 12:25 til 12:50.

13. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 13. maí 2013, varðandi endurgerð leik- og grunnskólalóða og boltagerði 2013. Auk þess lögð fram samantekt umverfis og skipulagssviðs um sama efni. Ámundi V. Brynjólfsson, skrifstofustjóri framkvæmda og viðhalds á umhverfis- og skipulagssviði, kynnti og svaraði fyrirspurnum. SFS2013050084
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýsa yfir furðu og vonbrigðum með að ekki sé fyrirhugað að leggja battavöll í Vesturbænum á árinu 2013 þrátt fyrir ítrekaðar tillögur Sjálfstæðisflokksins þar að lútandi. Enn einu sinni skal minnt á að Vesturbærinn er nú eina hverfi borgarinnar þar sem enginn battavöllur er á skólalóð og því er löngu orðið tímabært að bætt sé úr því. Í nokkrum hverfum eru nú komnir battavellir á allar skólalóðir og önnur hverfi eru langt komin. Fyrri meirihluti hafði, undir forystu Sjálfstæðisflokksins, lagt drög að því að bætt yrði úr slíkum skorti á battavöllum í Vesturbænum á árinu 2010 en eftir að nýr meirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar tók við, var horfið frá þeim fyrirætlunum. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins skora á borgarstjórnarmeirihlutann að taka tillit til löngu samþykktrar forgangsröðunar vegna staðsetningar battavalla og sjá til þess að slíkur völlur verði lagður í þágu barna og ungmenna í Vesturbænum á árinu 2013. Þá er gerð athugasemd við framlagðar teikningar af battavelli á lóð Melaskóla. Við lýsum yfir furðu okkar með að á teikningunni skuli einungis gert ráð fyrir battavelli af minni gerðinni (13x23 metrar) en ekki af fullri stærð (18x33 metrar) eins og er við flesta skóla. Melaskóli er fimmti fjölmennasti grunnskóli borgarinnar og skólalóð hans rúmar með sóma battavöll í fullri stærð. Þá er lega fyrirhugaðs vallar í ósamræmi við aðra velli á lóðinni og verður ekki betur séð en færanlegar kennslustofur á lóðinni ráði legunni.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar lögðu fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar fagna því að nú hafi verið samþykkt í USK að hafin skuli deiliskiplagsvinna vegna boltagerðis við Melaskóla. Lengi hefur verið beðið eftir slíku gerði í Vesturbæ og er þetta því gleðiefni. Þar sem tómstundatilboð eru færri fyrir börn og ungmenni norðan Hringbrautar hefði besta niðurstaðan verið sú að hægt hefði verið að setja gerði við Vesturbæjarskóla sem verður vonandi gert sem fyrst. Fulltrúar Besta Flokksins og Samfylkingarinnar telja fagnaðarefni að nú séu komin boltagerði við nánast hvern grunnskóla borgarinnar og styttist í að það verði við alla skóla það sem því verði við komið. Áfram allskonar fyrir alla!
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Vinstri grænna lagði fram svohljóðandi fyrirspurn:
Hver er kostnaður vegna framkvæmda við lóð eða húsnæði leikskóla og grunnskóla sem fellur beinlínis til vegna sameiningar þeirra og/eða breytinga á skólagerð? Óskað er eftir sundurliðun eftir skólum og framkvæmdum/verkum.
14. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. maí 2013, varðandi ramma skóla- og frístundasviðs um ráðningu skólastjóra við grunnskóla Reykjavíkurborgar. Jafnframt lögð fram verklagslýsing skóla- og frístundasviðs vegna ráðninga og móttöku nýrra skólastjóra. SFS2013050066
Sigríður Thorlacius, lögfræðingur á skóla- og frístundasviði, sat fundinn undir þessum lið.
– Kl. 13:40 vék Bryndís Jónsdóttir af fundinum.
15. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 13. maí 2013, um embættisafgreiðslu erinda sem borist hafa skóla og frístundaráði, tvö mál. SFS2013050090
16. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 8. maí 2013, varðandi tillögu borgarfulltrúa Vinstri grænna um stofnun jafnréttisskóla Reykjavíkur. SFS2013050092
17. Lagt fram minnisblað, dags. 14. maí 2013, um hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur 2013. SFS2013050097
18. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Vinstri grænna lagði fram svohljóðandi fyrirspurnir:
Hvernig er skyldu grunn- og leikskóla í Reykjavík, á grundvelli 23. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynja, sinnt? Í hvaða grunn- og leikskólum eru í gildi jafnréttisáætlanir í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynja? Hvernig er þeim framfylgt og hver ber ábyrgð á framkvæmd þeirra?

19. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Vinstri grænna lagði fram svohljóðandi fyrirspurn:
Í hversu mörgum leik- og grunnskólum í Reykjavík hafa foreldrafélög sinnt viðhaldsverkefnum svo sem lagfæringum og hreinsun á skólalóð, málningu tækja og eða annarra mannvirkja o.s.frv.?

20. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Vinstri grænna lagði fram svohljóðandi fyrirspurn:
Hver eru meðalheildarlaun grunnskólakennara, leikskólakennara, leiðbeinenda og annarra starfsmanna í grunn- og leikskólum og hver hafa þau verið undanfarin fimm ár. Þess er óskað að meðalheildarlaun verði tilgreind fyrir hvert og eitt ár.
21. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Óskað er eftir ítarlegri greiningu á hagræðingu á sviðinu vegna sameiningar skóla, leikskóla og frístundar frá hausti 2011 til dagsins í dag fyrir hvert ár.

Fundi slitið kl. 14:15


Óttarr Ólafur Proppé
Eva Einarsdóttir Hilmar Sigurðsson
Kjartan Magnússon Kristín Erna Arnardóttir
Líf Magneudóttir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir