Skóla- og frístundaráð
Ár 2025, 24. nóvember, var haldinn 303. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.15.
Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Sabine Leskopf varaformaður (S), Ásta Björg Björgvinsdóttir (B), Helgi Áss Grétarsson (D), Kristinn Jón Ólafsson (P) og Stefán Pálsson (V). Eftirtalinn fulltrúi tók sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Marta Guðjónsdóttir (D). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Andrea Sigurjónsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Indriði Nökkvi Þóreyjarson, Reykjavíkurráð ungmenna og Kristín Björnsdóttir, kennarar í grunnskólum. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Steinn Jóhannsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Arndís Steinþórsdóttir, Frans Páll Sigurðsson, Guðrún Sigtryggsdóttir, Hjörtur Ágústsson, Ólafur Brynjar Bjarkason, Soffía Pálsdóttir og Eygló Traustadóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 13. nóvember 2025, um staðfestingu starfsáætlana frístundamiðstöðva starfsárið 2025-2026 ásamt starfsáætlunum frá frístundamiðstöðvum starfsárið 2025-2026; Brúin, Kringlumýri, Miðberg og Tjörnin.
Kl. 13.25 tekur Helga Þórðardóttir sæti á fundinum og tekur við fundarstjórn.
Samþykkt. SFS25110056
Árni Jónsson og Helgi Eiríksson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Samstarfsflokkarnir styðja frístundamiðstöðvar heilshugar í sinni metnaðarfullu nálgun og þeirri framtíðarsýn að í kraftmiklu skóla- og frístundastarfi öðlist börn og unglingar menntun og reynslu til að láta drauma sína rætast og hafa jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag. Sérstaklega er tekið undir með áherslur á fræðslu og símenntun um menningarnæmi og fjölmenningu, betri tengslamyndun, læsisþróun, starf fyrir 10-12 ára hópinn, kyn- og kynjafræðsluverkefni, stafræna borgaravitund, skapandi vinnu í gegnum listir og leik og síðast en ekki síst samstarf við foreldra.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Ástæða er til að þakka kynningu á starfsáætlunum frístundamiðstöðva starfsárið 2025-2026. Víða í borginni er frábært starfsfólk í þessum geira að vinna öflugt starf, jafnvel við erfiðar aðstæður, svo sem vegna hrakhóla í húsnæðismálum. Mikilvægt er að húsnæðismál frístundahluta stofnana skóla- og frístundasviðs verði komið á betri kjöl og tryggt sé að allir notendur húsnæðis í þessari starfsemi geti treyst því að það sé heilnæmt og öruggt.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Framsóknar þakkar fyrir greinargóðar starfsáætlanir frístundamiðstöðvanna Brúarinnar, Kringlumýrar, Miðbergs og Tjarnarinnar fyrir starfsárið 2025–2026. Áætlanirnar endurspegla vel menntastefnu borgarinnar, stefnu um frístundaþjónustu og verkefnið Betri borg fyrir börn með áherslu á farsæld, menningarnæmi, fjölbreytt skapandi starf, snemmtæka íhlutun og öflugt foreldrasamstarf. Frístundaheimili og félagsmiðstöðvar gegna lykilhlutverki sem verndandi þáttur í lífi barna og ungmenna, sérstaklega í ljósi áhyggja af aukinni áhættuhegðun og vaxandi þörf fyrir snemmtækan stuðning. Framsókn áréttar mikilvægi þess að tryggt sé nægilegt fjármagn, hæft og stöðugt starfsfólk og viðeigandi húsnæði svo unnt sé að hrinda þessum metnaðarfullu áætlunum í framkvæmd og hlusta á fagfólkið okkar og hvar áherslurnar í þessum málaflokki liggja. Að lokum hvetjum við mennta- og barnamálaráðuneytið til að ljúka vinnu við lögfestingu frístundastarfs, þar á meðal félagsmiðstöðvastarfs, í nánu samráði við sveitarfélög. Slík lögfesting myndi styrkja stöðu frístundastarfs sem grunnþjónustu, skýra ábyrgð ríkis og sveitarfélaga og tryggja jöfn tækifæri barna og ungmenna um allt land til þátttöku í gæðastarfi í frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum.
Áheyrnarfulltrúi Reykjavíkurráðs ungmenna leggur fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúi Reykjavíkurráðs ungmenna tekur undir áhyggjur framkvæmdarstjóra frístundamiðstöðva um virkni fyrir börn á milli 16-18. Mikilvægt er að þau hafi næg tækifæri til virkni í félagsmiðstöðvum. Að auki er tekið undir áhyggjur um að börn á miðstigi séu að lenda meira í einelti og að samskiptavandamál þeirra séu stór vegna covid-faraldursins. Sérstakar áhyggjur áheyrnarfulltrúa eru um húsnæðisvanda félagsmiðstöðvanna. Rætt hefur verið um það í ungmennaráðum að húsnæðisvandinn er mikill. Til dæmis er húsnæði félagsmiðstöðvarinnar 105 minna en kennslustofa. Vert er að taka fram að mikilvægt er að tala virkt við börn og er það nauðsynlegt til að fara í aðgerðir sem virka. Forvarnarstarf í félagsmiðstöðvum er gífurlega mikilvægt og ætti að nýta öll tækifæri til að auka það.
Kl. 13.52 tekur Ragnheiður E. Stefánsdóttir sæti á fundinum.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning og umræða um gervigreind í skóla- og frístundastarfi. SFS25110081
Björn Kristjánsson og Þorbjörg St. Þorsteinsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Ástæða er til að þakka fyrir fróðlega kynningu á gervigreind í skóla- og frístundastarfi og taka skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins undir það að gervigreind sé nú þegar farin að hafa mikil áhrif á nám og kennslu. Einnig er þýðingarmikið að skólasamfélagið í Reykjavík fangi þær áskoranir sem gervigreindin hefur í för með sér sem og þau tækifæri sem hún veitir. Margar siðferðislegar spurningar geta vaknað við notkun gervigreindar og því nauðsynlegt að áherslur í þessum málaflokki einkennist af fagmennsku og gætt sé í senn að hlutlægni og að nemendur séu þjálfaðir í sjálfstæðri og gagnrýnni hugsun.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Framsóknar þakkar fyrir áhugaverða kynningu um gervigreind í skóla- og frístundastarfi og áréttar mikilvægi þess að leita leiða í breyttum heimi í gegnum opið samtal. Gervigreind felur í sér bæði ný tækifæri og áskoranir fyrir skóla- og frístundastarf og því er brýnt að móta skýrar leikreglur um notkun hennar, meðal annars hvað varðar persónuvernd, jafnræði, faglega ábyrgð og velferð barna og ungmenna. Sérstaklega þarf að styðja börn og ungmenni í að beita gagnrýnni hugsun, meta efni og upplýsingar og læra að lifa í breyttum veruleika þar sem gervigreind er hluti af daglegu lífi. Jafnframt er mikilvægt að Reykjavík nýti sóknarfæri gervigreindar á ábyrgan hátt, meðal annars til að styðja kennara og frístundaráðgjafa í starfi, efla sköpun og læsi á stafrænan heim og draga úr mismunun í aðgengi að námi og frístundum. Lykilatriði er að mannleg samskipti, umhyggja og faglegt mat starfsfólks verði áfram í forgrunni en gervigreind nýtt sem hjálpartæki sem styrkir starf skóla og frístundar en kemur aldrei í stað þeirra.
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 13. nóvember 2025, þar sem tilkynnt er að borgarráð vísi til skóla- og frístundaráðs tillögum um aðgerðir til að auka öryggi og faglegt starf á leikskólum Reykjavíkur. Jafnframt lögð fram skýrsla um tillögur til að auka öryggi og faglegt starf í leikskólum Reykjavíkur. MSS25080054
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Samstarfsflokkarnir þakka fyrir góðar tillögur um aðgerðir til að auka öryggi og velferð barna í leikskólum Reykjavíkur. Um er að ræða víðtækar umbótatillögur sem miða að því að auka stuðning og eftirlit með leikskólum og bæta innra mat leikskólanna. Lagt er til að farið verði í auknar forvarnir gegn ofbeldi gagnvart börnum og umbætur á atvikaskráningum. Aðgerðirnar verði gaumgæfðar og kostnaðargreindar með það að markmiði að auka gæði, bæta starfsumhverfi og gera ferla skilvirkari. Mest um vert er að styðja við faglega forystu í þeim tilgangi að auka öryggi innan leikskólasamfélagins.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fyrirliggjandi tillögur um úrbætur sem lúta að auknu innra og ytra eftirliti í leikskólum Reykjavíkur eiga rót sína að rekja til viðbragða borgaryfirvalda vegna svokallaðs Múlaborgarmáls sem kom upp um miðjan ágúst á þessu ári. Múlaborgarmálið er hryggilegt í alla staði og mikilvægt að Reykjavíkurborg bregðist við því af festu og skynsemi. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að ýmislegt gott sé í tillögunum en annað ekki. Aðalatriði tillagnanna lýtur að því að auka fé til að ráða starfsmenn í miðlægri stjórnsýslu án þess að það sé nægjanlega afmarkað og skýrt hverju þær ráðstafanir eigi að skila. Full ástæða er til að ætla að skynsamlegra sé að eyða 130 milljónum króna með öðrum hætti en hér er lagt til. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að hægt sé að ná þeim markmiðum sem að er stefnt með hagkvæmari hætti. Sem dæmi ætti fremur að auka kraft í að bæta starfsumhverfi þeirra sem starfa frá degi til dags í leikskólum borgarinnar en að auka fjölda starfsmanna í miðlægri stjórnsýslu skóla- og frístundasviðs.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Framsóknar í skóla- og frístundaráði þakkar fyrir greinargóða kynningu á tillögum um aukið öryggi og faglegt starf á leikskólum Reykjavíkur. Atvik síðustu missera hafa sýnt hversu mikið er í húfi þegar kemur að öryggi yngstu barnanna okkar og trausti til leikskólanna. Áherslan á skýra verkferla um forvarnir og viðbrögð skiptir miklu máli þar sem öryggi barna og starfsfólks er ávallt í forgrunni. Mikilvægt er að innleiða verklag sem miðar að því að starfsmaður sé ekki einn í lokuðu rými með barni í lengri tíma, sem vernd bæði fyrir barnið og starfsmanninn. Framsókn styður fyrirhugaðar aðgerðir um aukið innra og ytra eftirlit, fagteymi um ofbeldisforvarnir, skýra atvikaskráningu, aukna fræðslu og eflingu ráðgjafa, enda er raunveruleg innleiðing og eftirfylgni lykilatriði. Leggjum einnig áherslu á mikilvægi markvissrar kynfræðslu og fræðslu um líkama, mörk og heilbrigð samskipti sem hluta af heildstæðu forvarnarstarfi, þar sem treyst er fagfólki til að veita fræðslu við hæfi hvers aldurshóps í nánu samstarfi við foreldra. Markmiðið hlýtur að vera að Reykjavíkurborg verði fyrirmynd í öryggi, fagmennsku og vernd barna í leikskólastarfi. Við bendum á greinar 6 og 34 í barnasáttmálanum til stuðnings.
Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun:
Í tillögunum um aðgerðir til að auka öryggi og faglegt starf á leikskólum Reykjavíkur er að finna margt jákvætt en það er þó augljóst að það vantar algjörlega inn lausnir „á gólfinu“. Mönnunarvandi leikskólans er stóra vandamálið sem þarf að leysa og undirmönnun vegna styttingar vinnuvikunnar hjá starfsfólki leikskóla sem var ekki fjármögnuð. Til þess að hægt sé að bæta öryggi barna á leikskólum í Reykjavík þarf meira fjármagn til þess að hægt sé að fjölga starfsfólki og minnka álag. Í tillögurnar vantar sérstaka umræðu um börn með sérþarfir og fjölskyldur þeirra sem þurfa sérstakan stuðning þegar upp koma alvarleg mál. Sérstaklega þarf líka að huga að þörfum barna og foreldra af erlendum uppruna.
Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva þakkar fyrir góða kynningu á tillögum um aðgerðir til að auka öryggi og faglegt starf á leikskólum Reykjavíkur. Margar góðar tillögur og umbætur sem búið er að stilla upp og er það ósk framkvæmdastjóra að þær góðu tillögur verði nýttar til að auka öryggi og faglegt starf í öllu skóla- og frístundastarfi.
Kl. 15.20 víkur Marta Guðjónsdóttir af fundinum og Sandra Hlíf Ocares tekur þar sæti með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Dagskrárlið um tillögu skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um strætókort fyrir grunnskólanemendur í Ártúnsholti sem stunda nám í Árbæjarskóla er frestað. SFS25080259
-
Dagskrárlið um tillögu sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs um strætókort til nemenda í Ártúnsholti er frestað. SFS25090138
-
Dagskrárlið um bréf mannréttindaskrifstofu um samráðsfund mannréttindaráðs sem bar yfirskriftina Hvernig er að vera foreldri af erlendum uppruna í Reykjavík? er frestað. MSS25010051
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 17. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 13. október 2025:
Lagt er til að á næsta reglulega fundi skóla- og frístundaráðs verði lagður fram biðlisti eftir leikskólavist í borgarreknum leikskólum. Þá er jafnframt lagt til að biðlisti eftir plássum á frístundaheimili verði lagður fram.
Samþykkt. SFS25100051
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 20. nóvember 2025, um stöðu umsókna um leikskólavistun 19. nóvember 2025. SFS25100051
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 20. nóvember 2025, um stöðu ráðninga í skóla- og frístundastarfi og biðlista í frístundaheimili, 19. nóvember 2025. SFS25080281
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. nóvember 2025, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um leiðbeiningar um afmælisboð ásamt svari mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar, dags. 10. nóvember 2025, sbr. 20. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 13. október 2025. SFS25100049
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Framsóknar þakkar fyrir framlagt svar við fyrirspurn um leiðbeiningar um afmælisboð barna og áréttar mikilvægi þess að öll börn upplifi sig velkomin í sínu skóla- og frístundasamfélagi og að enginn verði skilinn útundan í tengslum við barnaafmæli. Í samræmi við tillögu fulltrúa Framsóknar í mannréttindaráði er það mat fulltrúans að hlutverk Reykjavíkurborgar sé fyrst og fremst að setja almennar leiðbeiningar sem hvetja til opins samtals milli foreldra, barna og starfsfólks, fremur en að setja stífar reglur um hverjum megi eða eigi að bjóða. Lagt er til að núgildandi leiðbeiningar verði endurskoðaðar í sameiginlegu samtali við foreldra, skólasamfélög og ungmenni, með það að markmiði að draga úr útilokun, virða einkalíf fjölskyldna og tryggja að barnaafmæli verði sú jákvæða og hlýja stund sem þau eiga að vera.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. nóvember 2025, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um leigusamninga við tónlistarskóla ásamt svari umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 14. nóvember 2025, sbr. 12. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 5. maí 2025. SFS25050016
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. nóvember 2025, um embættisafgreiðslur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, tvö mál. SFS22080009
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um fréttir af vettvangi skóla- og frístundastarfs. SFS24080154
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem vísað var til meðferðar skóla- og frístundaráðs, sbr. 3. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 21. október 2025, ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 17. nóvember 2025:
Borgarstjórn samþykkir að láta framkvæma skoðanakönnun meðal fólks á barneignaaldri í Reykjavík á þeim leiðum sem það óskar helst til að brúa umönnunarbilið milli fæðingarorlofs og leikskóla eða daggæslu. Markmið rannsóknarinnar verði að kanna með hvaða hætti getur reynst unnt að mæta fjölbreyttum þörfum barnafjölskyldna í Reykjavík. Jafnframt verði rannsakað hverjir hafa borið byrðarnar undanfarin ár af bæði umönnunarbilinu og þeim þjónustubresti sem reglulega kemur upp á leikskólastiginu. Leitað verði atbeina Félagsvísindastofnunar við framkvæmd könnunar og ráðgjafar óskað um bestu útfærslur hennar.
Tillagan er felld með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. MSS25100126
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma afgreiðslu skóla- og frístundaráðs á þessari tillögu, sem hafði það að markmiði að afla mikilvægra upplýsinga á meðal fólks á barneignaaldri. Til samanburðar við kostnað þá eru Hverfisdagar borgarstjóra mun dýrari aðgerð en sú sem hér er lögð til. Kjarni málsins er einfaldur, það eru fyrst og fremst foreldrar sem fá ekki dagvistunarúrræði sem eru óánægðir með þjónustu borgarinnar, ekki þeir foreldrar sem eru með barn innan dagvistunarkerfisins (leikskólar og dagforeldrar, fyrst og fremst). Þarft væri því að fá þetta innlegg inn í umræðuna um hvernig brúa eigi bilið í dagvistunarmálum barna, til dæmis hversu mikilvægt sé að kerfið bjóði upp á viðunandi sveigjanleika, svo sem að fjölbreyttar lausnir séu í boði, til dæmis heimgreiðslur til foreldra, fyrirtækjaleikskólar og svo framvegis.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Framsóknar í skóla- og frístundaráði áréttar mikilvægi þess að brúa umönnunarbil milli fæðingarorlofs og leikskóla eða daggæslu og að horft sé til fjölbreyttra leiða til stuðnings barnafjölskyldum. Þar geti meðal annars komið til álita heimgreiðslur, ólík rekstrarform og skipulag leikskólastarfs, aukið samráð við einkageirann, mögulegar tilraunir með svonefnda vinnustaðaleikskóla í samstarfi við atvinnulíf og markviss efling dagforeldrakerfisins. Lögð er áherslu á að dýrmætt sé að fá beinar upplýsingar frá þjónustuþegum um það hvernig mæta megi þessum fjölbreytta hópi á sem heildstæðastan og réttlátastan hátt.
Fylgigögn
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að á næsta reglulega fundi skóla- og frístundaráðs verði viðeigandi sérfræðingar á umhverfis- og skipulagssviði fengnir til að kynna hver sé staða húsnæðismála Ölduselsskóla og hver sé líkleg framvinda um framtíð húsnæðismála skólans.
Frestað. SFS25110109
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að á næsta reglulega fundi skóla- og frístundaráðs verði fjallað um málefni Breiðholtsskóla og hvernig starf í skólanum gengur, í ljósi þeirra atvika og umfjöllunar sem hefur verið viðvarandi um skólann á þessu ári.
Frestað. SFS25110110
Fundi slitið kl. 16:00
Helga Þórðardóttir Ásta Björg Björgvinsdóttir
Helgi Áss Grétarsson Kristinn Jón Ólafsson
Sabine Leskopf Sandra Hlíf Ocares
Stefán Pálsson
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 24. nóvember 2025