Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 302

Skóla- og frístundaráð

Ár 2025, 10. nóvember, var haldinn 302. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.19.
Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Helga Þórðardóttir formaður (F), Árelía Eydís Guðmundsdóttir (B), Ellen Jacqueline Calmon (S), Helgi Áss Grétarsson (D), Marta Guðjónsdóttir (D) og Stefán Pálsson (V). Eftirtalinn fulltrúi tók sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Alexandra Briem (P). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Andrea Sigurjónsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Árni Jónsson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Kristín Björnsdóttir, kennarar í grunnskólum og Þóranna Rósa Ólafsdóttir, skólastjórar í grunnskólum. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Steinn Jóhannsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Arndís Steinþórsdóttir, Frans Páll Sigurðsson, Guðrún Sigtryggsdóttir, Hjörtur Ágústsson, Ólafur Brynjar Bjarkason, Soffía Pálsdóttir og Eygló Traustadóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 5. nóvember 2025, þar sem tilkynnt er að Kristinn Jón Ólafsson taki sæti í skóla- og frístundaráði í stað Alexöndru Briem, sem tekur sæti sem varamaður í ráðinu. MSS22060048

    Fylgigögn

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa kennara í grunnskólum, sbr. 16. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 8. september 2025:

    Áheyrnarfulltrúi grunnskólakennara leggur til að skóla- og frístundaráð fái kynningu á starfi íslenskudeildanna í grunnskólum borgarinnar. Deildirnar eru fjórar og þangað sækja nám nemendur sem nýfluttir eru til landsins. Deildirnar eru staðsettar í Austurbæjarskóla, Breiðholtsskóla, Vogaskóla og Ingunnarskóla. Það væri mjög gagnlegt að ráðið fengi upplýsingar um hvernig tekið er á móti börnum sem flytja til landsins og hvernig íslenskukennslu fyrir þau er háttað þegar þau taka fyrstu skrefin í skólakerfinu hérlendis.

    Samþykkt. SFS25090096

    Kl. 13.35 tekur Guðrún Gunnarsdóttir sæti á fundinum.

    Fylgigögn

  3. Fram fer kynning á starfsemi íslenskudeilda og móttökudeilda í grunnskólum. Lögð fram skýrslan Úttekt á íslenskuverum Reykjavíkurborgar, dags. í júní 2025. SFS25090096

    Dagbjört Ásbjörnsdóttir, Elín Margrét Gunnarsdóttir og Hulda Ingibjörg Rafnarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Starfsemi móttökudeilda við grunnskóla borgarinnar er mikilvæg viðbót við móttökukerfi barna með annað móðurmál en íslensku. Þau börn koma oft úr erfiðum aðstæðum en í mörgum tilvikum þjást þau af alvarlegri áfallastreitu. Þessi staða felur í sér miklar áskoranir fyrir skólann og kennara. Brýnt er að tryggja starfsfólki sem allra besta aðstöðu og stuðning við þetta verkefni enda er samfélagslegt mikilvægi þess ótvírætt. Íslenskuverin eru annað dæmi um jákvætt inngildingarstarf í skólakerfinu, sem styður nemendur til skjótra framfara í íslensku og eykur þekkingu þeirra á samfélaginu. Reynslan af starfinu er góð og ýmsar sigursögur af því að segja. Rétt er að huga að frekari dreifingu íslenskuvera um hverfi borgarinnar með tilliti til þess að tryggja skilvirkari og betri samgöngur fyrir notendur þjónustunnar og leita leiða til að styrkja starfsemina enn frekar.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 20. október 2025, um sumarsmiðjur grunnskóla í ágúst 2025. SFS25100082

    Ingunn Ásta Sigmundsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Kl. 14.20 víkja Alexandra Briem og Hjörtur Ágústsson af fundinum og Kristinn Jón Ólafsson tekur sæti á fundinum. 

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna, dags. 30. október 2025:

    Lagt er til að ráða þrjá kennsluráðgjafa til að stýra verkefni um stuðning við nemendur með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. Áætlaður kostnaður vegna tillögunnar eru 45 m.kr. á ári til þriggja ára. Kostnaður rúmast ekki innan fjárheimilda skóla- og frístundasviðs.

    Greinargerð fylgir.

    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS25100205

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er einstaklega ánægjulegt að verið sé að efla íslenskukennslu barna með annað móðurmál en íslensku. Börnum af erlendum uppruna hefur fjölgað mikið undanfarin ár en haustið 2024 voru börn af erlendum uppruna um það bil 25 % af heildarfjölda barna í Reykjavík en árið 2015 voru þau 11%. Það er mikilvægt að bregðast við og mæta þessum hópi barna með því að efla kennslu í íslensku sem öðru tungumáli. Í samstarfsyfirlýsingu Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokksins, Flokks fólksins og Vinstri grænna er lögð áhersla á að efla íslenskukennslu barna með annað móðurmál en íslensku í samvinnu við skólasamfélagið. Lagt er til að ráðnir verði þrír kennsluráðgjafar til að stýra verkefni um stuðning við nemendur með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. Verkefnið felur í sér að setja af stað stoðþjónustu til þriggja ára fyrir þá skóla þar sem hlutfall nemanda með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn er hátt. Meginhlutverk þjónustunnar er að styðja við nemendur með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn með því að bjóða upp á markvissa kennslu í íslensku sem öðru tungumáli, áherslur inngildingar í skólastarfinu og virkni í foreldrasamstarfi.
    Samstarfsflokkarnir vilja taka utan um börn með erlendan bakgrunn og hjálpa þeim að læra íslensku.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þessi tillaga meirihlutans er til bóta en æskilegra er að gripið sé til róttækra aðgerða, samanber tillögu okkar skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um móttökuúrræði í reykvískum grunnskólum fyrir börn af erlendum uppruna með ólíkan menningarlegan og tungumálabakgrunn sem flytjast til landsins.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Framsóknar styður við tillögu um að ráða þrjá kennsluráðgjafa til að stýra verkefni um stuðning við nemendur með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. Um er að ræða fjölbreyttan hóp með ólíkan félagslegan, efnahagslegan og menningarlegan bakgrunn. Hins vegar er ljóst að meira þarf til til að efla íslenskuþekkingu nemanda. Átak þarf til að auka færni nemenda og styðja við kennara til að vinna starf sitt á hverjum degi.

    Áheyrnarfulltrúar kennara og skólastjóra í grunnskólum leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er mjög jákvætt að finna að vilji er til að styðja betur við kennslu íslensku sem annars máls í þeim grunnskólum þar sem hlutfall slíkra nemenda er hátt. Mikilvægt er þó að hafa í huga að mjög víða í skólum borgarinnar þarf aukinn stuðning við starfið þrátt fyrir að hlutfall nemenda með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn sé lægra en 60%. Nemendur útskrifast frá íslenskudeildum borgarinnar þegar þeir hafa náð 1. stigs færni en nemendur hafa samt sem áður ekki færnina þá til að vinna sjálfstætt inni í almennri kennslu. Vinna þarf að því að efla rammann og námsefnið sem fleytir nemendum í gegnum 2. og 3. stig. Við leggjum til að áhersla verði lögð á að þeir kennsluráðgjafar sem verði ráðnir til starfa muni hafa ríkuleg tengsl við kennsluna og vinni að því að þróa nýjar leiðir og lausnir í ÍSAT kennslu því það er til hagsbóta fyrir öll.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 15. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. október 2025:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja til að starfsdagar leikskóla verði skipulagðir til samræmis við starfsdaga grunnskóla innan sérhvers borgarhverfis. Þannig megi fækka þeim starfsdögum sem fjölskyldur þurfa að mæta sem eiga börn á ólíkum skólastigum.

    Tillagan er felld með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknarflokksins situr hjá við afgreiðsluna. MSS25100008

    Fylgigögn

  7. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 16. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 25. ágúst 2025, ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 13. október 2025:

    Lagt er til að fallið verði frá þeirri skerðingu á akstursþjónustu skólabílsins úr Skerjafirði í Melaskóla sem boðuð hefur verið. Undanfarin ár hefur ítrekað verið reynt að skerða þjónustu hvað varðar akstur til og frá Melaskóla í Skerjafjörðinn. Nú stendur til enn og aftur að fækka stoppistöðvum enn frekar með þeim hætti að skólabílinn mun hætta að aka Bauganesið og mun eingöngu aka Einarsnesið sem er umferðarþung gata. Þær breytingar sem orðið hafa og hafa verið boðaðar varðandi skólaaksturinn eru ekki til þess fallnar að auka umferðaröryggi barna í hverfinu.

    Tillögunni er vísað frá með fimm atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins, Vinstri grænna og Framsóknarflokksins gegn tveimur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. SFS25080253

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ánægjulegt er að fallið hefur verið frá skerðingu á akstursþjónustu skólabílsins í Skerjafirði eftir að tillaga okkar fulltrúa Sjálfstæðisflokks var lögð fram.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 18. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 13. október 2025:

    Lagt er til að skóla- og frístundaráð fái kynningu á úttekt Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur á öryggi á skóla- og leikskólalóðum ásamt lóðum sem tilheyra frístundahluta skóla- og frístundasviðs.

    Samþykkt. SFS25100050

    Fylgigögn

  9. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Framsóknarflokksins, sbr. 19. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 13. október 2025:

    Fulltrúi Framsóknar leggur til að settar verði á samræmdar reglur um símafrí í skólum Reykjavíkurborgar. Það verði undirbúið á haustmisseri en til framkvæmdar í upphafi árs 2026.

    Lögð fram svohljóðandi málsmeðferðartillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna, dags. 4. nóvember 2025:

    Lagt er til að fresta afgreiðslu tillögu skóla- og frístundaráðsfulltrúa Framsóknarflokksins um samræmdar reglur um símanotkun, þar til fyrir liggur hver afdrif draga mennta- og barnamálaráðuneytis verða á frumvarpi til laga um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, um síma og snjalltæki.

    Greinargerð fylgir.

    Samþykkt með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. SFS25100048

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Framsóknar lýsir vonbrigðum með að skóla- og frístundaráð Reykjavíkurborgar skuli ekki vilja ganga lengra í því að skapa börnum umhverfi í skólum borgarinnar þar sem þau eru laus við það áreiti sem snjallsímar skapa. Rannsóknir sýna að líðan þeirra barna og starfsmanna í skólum sem taka af skarið og banna síma á skólatíma batnar. Bæði líður börnum betur og einbeiting þeirra eykst til muna. Reykjavíkurborg gegnir mikilvægu hlutverki sem langstærsta sveitarfélag landsins. Það hlutverk hefur oft verið að fara á undan með góðu fordæmi. Þessi málsmeðferðartillaga sýnir að vilji til að sýna gott fordæmi er ekki til staðar hjá núverandi meirihluta.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
    Talsverð vinna á sér stað á vegum menntamálaráðuneytisins varðandi gerð leiðbeininga um símafrí í skólum. Eðlilegt er að fylgja skólasamfélaginu eftir í þessum málum. Fulltrúar samstarfsflokkanna vísa því á bug að afgreiðsla þessa máls sé til marks um áhugaleysi meirihlutans í málaflokknum.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram fundadagatal skóla- og frístundaráðs janúar – júní 2026. SFS23090126 

    Fylgigögn

  11. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 30. október 2025, við fyrirspurnum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um starfslokasamninga 2015-2025, sbr. 14. og 15. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 26. maí 2025 og 10. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 27. maí 2024. SFS24050122

    Ragnheiður E. Stefánsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þetta svar um fjölda og umfang starfslokasamninga Reykjavíkurborgar við stjórnendur hjá skóla- og frístundasviði er framhaldssvar við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 27. maí 2024 en fyrsta svarið við þeirri fyrirspurn var kynnt á fundi skóla- og frístundaráðs 12. maí 2025 (SFS24050122). Mikilvægustu viðbótarupplýsingarnar sem koma fram í því svari sem lagt er fram í dag er að tveir starfslokasamningar voru gerðir á sviðinu á tímabilinu 16. maí 2024 til og með 15. maí 2025 og kostuðu þeir reykvíska skattgreiðendur tæpar 50 milljónir króna, annar spannaði 15 mánuði og hinn spannaði 19 mánuði. Þessir starfshættir eru frábrugðnir þeim sem viðgengist hafa á velferðarsviði, sbr. svar þess sviðs við fyrirspurn velferðarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, lagt fram á fundi velferðarsviðs 1. október 2025 (VEL25050055). Kjarni málsins er einfaldur, það lýsir sögulegum stjórnunarvanda á skóla- og frístundasviði þegar borgin grípur ítrekað til þess úrræðis að kosta miklu til við að koma stjórnendum innan skóla- og frístundasviðs úr starfi.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 30. október 2025, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um systkinatillit í leikskólum, sbr. 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. október 2025. MSS25100047

    Fylgigögn

  13. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 30. október 2025, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um meðalaldur barna sem hófu leikskólagöngu í fyrsta skipti að hausti árin 2019-2025, sbr. 17. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 8. september 2025. SFS25090097

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ástæða er til að þakka skóla- og frístundasviði fyrir það ítarlega svar sem núna liggur fyrir en fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins laut að meðalaldri barna við inngöngu (ekki innritun) í borgarreknum leikskólum á tímabilinu 2019-2025. Sambærilegar spurningar hafa verið lagðar fram áður á kjörtímabilinu, sjá til dæmis 13. dagskrárlið fundar ráðsins 16. janúar 2023 (SFS22090036) og 11. dagskrárlið fundar ráðsins 27. nóvember 2023 (SFS23100042). Tölfræðin staðfestir ítrekað að meðalaldur barna við inngöngu í borgarrekna leikskóla er vel yfir 20 mánaða. Það samrýmist ekki loforðum Samfylkingarinnar í þessum málaflokki en sá flokkur lofaði því í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna vorið 2022 að öll 12 mánaða gömul börn fengu leikskólavist haustið 2022. Sem sagt, staðreyndirnar tala sínu máli, Samfylkingin hélt uppi gylliboðum og stundaði barbabrellur í aðdraganda síðustu borgarstjórnarkosninga.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 26. september 2025, um embættisafgreiðslur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, tvö mál. SFS22080009

    Fylgigögn

  15. Fram fer umræða um fréttir af vettvangi skóla- og frístundastarfs. SFS24080154

  16. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að skóla- og frístundaráð samþykki að komið verði á laggirnar móttökuúrræði í reykvískum grunnskólum fyrir börn af erlendum uppruna með ólíkan menningarlegan og tungumálabakgrunn sem flytjast til landsins. Um yrði að ræða sambærilegt úrræði og móttökudeild sem Háaleitisskóli á Ásbrú í Reykjanesbæ hefur boðið upp á en sú starfsemi hefur gefið góða raun. Um yrði að ræða deild við skólana þar sem lögð er áhersla á að nemendurnir nái góðum tökum á íslensku auk góðrar undirstöðu í stærðfræði, lífsleikni og upplýsingatækni. Kosturinn við slíkar deildir innan skólanna er að þannig upplifa nemendur að þeir tilheyri ákveðnum skóla og kynnast þannig íslenskri skólamenningu áður en þeir fara inn í almennt bekkjarkerfi skólans. Slíkt úrræði stæði þessum nemendum til boða fyrsta árið sem þeir hefja skólagöngu í reykvískum grunnskóla.

    Frestað. SFS25110041

Fundi slitið kl. 15:23

Helga Þórðardóttir Árelía Eydís Guðmundsdóttir

Ellen Jacqueline Calmon Helgi Áss Grétarsson

Kristinn Jón Ólafsson Marta Guðjónsdóttir

Stefán Pálsson

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 10. nóvember 2025