Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 299

Skóla- og frístundaráð

Ár 2025, 22. september, var haldinn 299. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.15.
Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Helga Þórðardóttir formaður (F), Alexandra Briem (P), Ásta Björg Björgvinsdóttir (B), Helgi Áss Grétarsson (D), Marta Guðjónsdóttir (D), Sabine Leskopf (S) og Stefán Pálsson (V). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Guðjóna Eygló Friðriksdóttir, skólastjórar í grunnskólum og Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Steinn Jóhannsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Arndís Steinþórsdóttir, Frans Páll Sigurðsson, Guðrún Sigtryggsdóttir, Hjörtur Ágústsson, Ólafur Brynjar Bjarkason, Soffía Pálsdóttir og Eygló Traustadóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram og kynnt skýrslan Lesmál, niðurstöður í 2. bekk í grunnskólum Reykjavíkur vorið 2025, dags. í júní 2025. SFS25020145

    Sigrún Jónína Baldursdóttir og Ásgeir Björgvinsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Kl. 13.33 tekur Indriði Nökkvi Þóreyjarson sæti á fundinum.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Lesmál er próf sem metur lestur, lesskilning og réttritun hjá nemendum í 2. bekk íslenskra grunnskóla. Lesmál var lagt fyrir í apríl 2025 og sendu 35 skólar af 37 með 2. bekk niðurstöður til skóla- og frístundasviðs. Hlutfall nemenda sem þreyttu prófið af öllum nemendum í 2. bekk í almennu – og sjálfstætt reknu skólunum, er um 90%. Meginniðurstaðan er sú að tæp 68% þátttakenda ná a.m.k. 61% árangri á prófinu og búa því yfir aldurssvarandi hæfni í lestri. Vorið 2024 voru 65% þátttakenda með aldurssvarandi færni í lestri. Hlutfallið er nú þremur prósentustigum hærra en á síðasta ári. Samstarfsflokkarnir í borgarstjórn fagna sérstaklega þessum jákvæðu skrefum. Það er þó nokkur munur á milli færni stúlkna og drengja í lestri. Hlutfall stúlkna með aldurssvarandi færni í lestri er um 73% árið 2025, hjá drengjunum er hlutfallið um 63%. Um 5% stúlkna þurfa samkvæmt skimuninni einstaklingsbundna námsáætlun en 8% drengja. Þetta eru svipaðar niðurstöður og undanfarin ár. Af þessu má sjá að við þurfum að styðja betur við drengi. Í niðurstöðum kemur fram þó nokkur munur á lesfærni nemenda milli skóla og skólahverfa í Reykjavík. Þær upplýsingar ættu að gagnast skólum sem ekki koma vel út til að efla lestrarkennslu enn frekar.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fyrir liggja niðurstöður Lesmáls 2025 þar sem lestrarkunnátta nemenda í 2. bekk í grunnskólum Reykjavíkur var könnuð. Ástæða er til að þakka fyrir kynningu niðurstaðnanna og með hvaða hætti þeim var fylgt eftir. Töluverðar áskoranir í málaflokknum eru augljósar. Þýðingarmikið er að vinna markvisst að því að bæta skipulag og auka úrræði í því skyni að tryggja að sem flest börn í 2. bekk í grunnskólum Reykjavíkur hafi viðunandi lestrarfærni. Bregðast þarf strax við í þeim skólum þar sem þróun lestrarmælinga er neikvæð. Það verði gert með sérstöku átaki og stuðningi við skólana. Brýnt er að þeir nemendur sem ekki hafa náð aldurssamsvarandi færni fái strax sérstakan stuðning til að ná þeirri færni sem samsvarar aldri þeirra.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 15. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 25. ágúst 2025:

    Lagt er til að á næsta reglulega fundi skóla- og frístundaráðs verði kynnt hver sé staða húsnæðismála stofnana á skóla- og frístundasviði, samanber til dæmis sambærileg kynning sem fulltrúar eignaskrifstofu og skrifstofu framkvæmda og viðhalds héldu á fundi skóla- og frístundaráðs 27. janúar 2025.

    Samþykkt. SFS25080250 

    Fylgigögn

  3. Fram fer kynning og umræða um stöðu húsnæðismála á skóla- og frístundasviði. SFS25080250

    Ásdís Olga Sigurðardóttir, Gréta Þórsdóttir Björnsson, Rúnar Ingi Guðjónsson, Ásdís Hallgrímsdóttir og Daníel Benediktsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er ánægjulegt að átakið sem farið var í til að vinna niður viðhaldsskuld í húsnæði skóla- og frístundasviðs sem safnast hafði upp á árunum eftir hrun er farið að skila árangri. Nú er deild nýbygginga með 54 fjárfestingaverkefni í gangi fyrir skóla- og frístundasvið, en deild viðbygginga er með 33 fjárfestingaverkefni ásamt fjölda viðhaldsverkefna sem fjármagnað er af viðhaldsfé, en á fjárfestingaráætlun ársins eru 5.130 m.kr. á áætlun fyrir grunnskóla og frístundastarf, ásamt 5.742 m.kr fyrir leikskóla. Þetta snýr bæði að því að gera upp húsnæði sem við eigum, ásamt því að byggja upp nýtt húsnæði og koma fyrir starfsemi í leiguhúsnæði. Áætlunin er metnaðarfull og það verður spennandi að sjá hana skila sér.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Líkt og ráða má af kynningu um stöðu húsnæðismála á skóla- og frístundasviði er uppsafnað brýnt viðhald umfangsmikið á sviðinu. Þessi risavöxnu verkefni á sviði viðhaldsmála í skólum, leikskólum og frístundaheimilum/félagsmiðstöðvum valda miklu raski á starfsemi viðkomandi stofnana og skapa óþægindi fyrir starfsfólk, börn og foreldra. Viðbrögð borgarinnar á þessu sviði hafa of oft verið óviðunandi, eins og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað bent á árum saman. Í grundvallaratriðum hefur ýmislegt farið úrskeiðis í stjórnskipulagi og vinnubrögðum við að sinna þessari grunnþjónustu borgarinnar. Þótt faglegt starfslið borgarinnar á þessu sviði sé að gera sitt besta er ljóst að til lengri tíma þurfi þátttakendur í borgarstjórnmálunum að axla ábyrgð og setja það í forgang að hagsmunir skattgreiðenda í málaflokknum séu verndaðir. Ákvörðunartaka í þessum verkefnum þarf að vera fagleg, skjót og skilvirk.

    Áheyrnarfulltrúi Reykjavíkurráðs ungmenna leggur fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúi Reykjavíkurráðs ungmenna telur að í kynningum á húsnæðismálum skóla- og frístundasviðs þurfi að kynna húsnæðismál frístundamiðstöðva vel. Í ýmsum félagsmiðstöðvum hafa þau ekki plássið til að sinna starfi sínu vel.

    Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva þakkar fyrir kynningu á stöðu húsnæðismála á skóla- og frístundasviði. Mikilvægt er að hafa góða yfirsýn yfir mannvirki félagsmiðstöðva og frístundaheimila og hafa þau þannig úr garði gerð að þar geti farið fram faglegt frístundastarf. Æskilegt er að nota rétt heiti, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar þegar fjallað er um húsnæði fyrir frístundastarf til þess að það sé öllum ljóst um hvað er rætt. Setja þarf í forgang að klára vinnu varðandi 1. og 2. notanda og skýra upp aðgengi og umsjón mannvirkja. Víða er húsnæði fyrir frístundaheimili og félagsmiðstöðvar af skornum skammti og gott hefði verið að fá kynningu á þeim stöðum líkt og hjá leik- og grunnskólum. Nefna má að meðan nýting á Vörðuskóla er í vinnslu er skóla- og frístundastarf í Austurbæjarskóla/Draumalandi/100og1, Hlíðaskóla/Eldflauginni/Gleðibankanum og Háteigsskóla/Halastjörnunni/105 í biðstöðu en aðstaða þessara staða var fyrir meira en 5 árum talin vera sprungin. Mikilvægt er að taka ákvörðum um framtíð þessara staða sem fyrst. Einnig þarf að taka alvarlega vanda í húsnæðismálum við frístundaheimilin Sólbúa, Neðstaland og Vinaheima og félagsmiðstöðvarnar Hundraðogellefu og Laugó. Stefna Reykjavíkurborgar um byggingar fyrir skóla- og frístundastarf er samþykkt með mörgum góðum markmiðum sem frábært væri að stefna að.

  4. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 19. september 2025, um stöðu biðlista eftir leikskólaplássi í Reykjavík. SFS25080257

    Guðrún Mjöll Sigurðardóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Kl. 15.05 víkja Helga Þórðardóttir og Ólafur Brynjar Bjarkason af fundinum og Einar Sveinbjörn Guðmundsson tekur þar sæti. Sabine Leskopf tekur við fundarstjórn.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Við fögnum þeim góða árangri sem hefur náðst í að vinna niður biðlista. Nú stefnir í að yfirlit yfir stöðuna verði aðgengilegt inni á gagnahlaðborði borgarinnar, sem er mikið framfaraskref. Öll þau 68 börn sem bíða vistunar og voru orðin 18 mánaða 1. september 2025 komu inn á biðlista eftir stóru úthlutunina í vor, en það gengur vel að finna þeim pláss. Það er vissulega hvimleitt að börnum sé úthlutað vistun án þess að vera gefin upp upphafsdagsetning, en af þeim 365 börnum í þeirri stöðu, sem ekki eru á öðrum leikskóla, eru flest með slíkt boð frá sjálfstætt starfandi leikskólum, eða 209.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Samkvæmt svari skóla- og frístundasviðs, dags. 4. september sl., voru 467 börn á biðlista eftir leikskólaplássi hinn 3. september síðastliðinn. Það svar var ekki með sama sniði og vaninn hefur verið. Trúverðugleiki svarsins um biðlistann veiktist með þessu en einnig vegna þess að samstarfsflokkarnir kynntu tölur um biðlista eftir leikskólaplássi í fjölmiðlum áður en fundur skóla- og frístundaráðs fór fram 8. september síðastliðinn. Jafnframt hefur komið fram á opinberum vettvangi að samkvæmt upplýsingum frá sviðinu séu 472 börn, sem fengið hafa boð um leikskólavist, enn ekki hafið leikskólagöngu í byrjun september. Til viðbótar eru 314 börn sem fengið hafa boð um leikskólavist en engar upplýsingar verið veittar um það hvenær leikskólavistin getur hafist. Af þessu öllu leiðir að nauðsynlegt var að fá frekari upplýsingar um málefnið og er ástæða til að þakka fyrir þá kynningu sem lögð var fram í dag. Kjarni málsins pólitískt er að enn eina ferðina hefur ekki tekist að stytta biðlista en núna í lok kjörtímabilsins er enn langt í land þar til hægt verði að standa við loforð sem gefin voru í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna 2022 um að öll börn frá 12 mánaða aldri fái pláss á leikskóla.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram til kynningar tillaga sviðsstjóra velferðarráðs um flutning Vesturmiðstöðvar í Borgartún 12-14, dags. 9. september 2025, sem samþykkt var á fundi velferðarráðs 10. september 2025. VEL25080049

    Rannveig Einarsdóttir og Styrmir Erlingsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 16. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 25. ágúst 2025:

    Lagt er til að fallið verði frá þeirri skerðingu á akstursþjónustu skólabílsins úr Skerjafirði í Melaskóla sem boðuð hefur verið. Undanfarin ár hefur ítrekað verið reynt að skerða þjónustu hvað varðar akstur til og frá Melaskóla í Skerjafjörðinn. Nú stendur til enn og aftur að fækka stoppistöðvum enn frekar með þeim hætti að skólabílinn mun hætta að aka Bauganesið og mun eingöngu aka Einarsnesið sem er umferðarþung gata. Þær breytingar sem orðið hafa og hafa verið boðaðar varðandi skólaaksturinn eru ekki til þess fallnar að auka umferðaröryggi barna í hverfinu.

    Frestað. SFS25080253 

    Fylgigögn

  7. Lögð fram og kynnt greinargerð skóla- og frístundasviðs við framlagningu árshlutareiknings Reykjavíkurborgar janúar – júní 2025. SFS24080105

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er fagnaðarefni að sjá að með nýjum úthlutunarlíkönum fyrir leik- og grunnskóla og auknum fjárheimildum sem þeim fylgdi hefur sviðið náð tökum á hallarekstri fyrri ára. Halli skóla‐ og frístundasviðs var 232 m.kr. en á sama tíma í fyrra var halli sviðsins 1.458 m.kr. Til að takast á við rekstur starfsstaða skóa- og frístundasviðs þá hafa verið haldnir reglulegir fundir með stjórnendum starfsstaða þar sem farið er yfir stöðuna og ákveðið til hvaða aðgerða er nauðsynlegt að grípa svo að reksturinn verði innan fjárheimilda. Það er líka jákvætt að sjá að mikið aðhald er í starfsmannahaldi þar sem allar ráðningar starfsmanna fara nú fyrir ráðninganefnd þar sem færa þarf rök fyrir hverri ráðningu. Það að veikindahlutfall hjá leikskólum sé um 10% kallar á nánari greiningu og aðgerðir. Niðurstöður spretthóps um aðgerðir til að bæta mönnun og starfsaðstæður starfsfólks leikskóla eru á lokametrunum og vonast samstarfsflokkarnir til þess að þær aðgerðir muni draga úr háu veikindahlutfalli hjá leikskólastarfsfólki. Árangur í að lækka veikindahlutfallið gæti skilað verulegum fjárhagslegum ávinningi í rekstri.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Rekstur Reykjavíkurborgar á skóla- og frístundasviði á fyrri helmingi ársins 2025 hélt áfram að taka framförum og skiptir þar miklu að reiknilíkan fyrir leikskólastarfsemi, Snorri, sé raunhæft. Hallinn var 0,5% miðað við fjárhagsáætlun á nefndu tímabili en á fyrri helmingi ársins 2024 var hallinn umfram fjárhagsáætlun 3,9%. Sem fyrr er ástæða til að verja meira fé til kjarnastarfsemi skóla- og frístundasviðs. Forgangsröðun í rekstri Reykjavíkurborgar þarf að vera skýr.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram yfirlit yfir ferðir skóla- og frístundasviðs janúar-mars 2025, dags. 8. ágúst 2025 og yfirlit yfir ferðir skóla- og frístundasviðs apríl-júní 2025, dags. 20. ágúst 2025. SFS24080107

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 4. júlí 2025, sem lagt var fram á fundi borgarráðs 10. júlí 2025, um réttindi barna sem bíða afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd og bréf félags- og húsnæðismálaráðuneytisins, dags. 5. september 2025, um móttöku einstaklinga sem hafa fengið vernd hér á landi. SFS25060085

    Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráð fagnar því að félags- og húsnæðismálaráðuneytið hefur ákveðið að fresta uppsögn á samningum um samræmda móttöku flóttafólks milli ríkis og sveitarfélaga. Í bréfi frá ráðuneytinu er staðfest að frumvarp þar sem kveðið er á um breytingar á fyrirkomulagi við móttöku flóttafólks verði ekki lagt fram á komandi hausti. Jafnframt er upplýst að ef breytingar verði samþykktar á Alþingi þá munu slíkar breytingar ekki taka gildi fyrr en sex mánuðum eftir samþykkt frumvarps. Hins vegar stendur eftir að þetta sé einungis frestun og þjónusta við börn umsækjanda hefur orðið fyrir skerðingum. Það er óviðunandi að þessi viðkvæmi hópur barna hafi ekki aðgang að leikskólaplássi, frístund eða þátttöku í íþrótta- og tómstundastarfi. Þessir þættir eru forsendur fyrir þroska þeirra og vellíðan þeirra og þekkingin í þessum málaflokki liggur hjá sveitarfélögum. Lögð er áhersla á að þessi þjónusta, hvort tveggja fyrir við börn umsækjanda um alþjóðlega vernd og börn þeirra sem hafa fengið vernd, verði endurskoðuð á þessum forsendum með áherslu á velferð barna og fjölskyldna.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 3. september 2025, um fjarfundi nefnda og ráða Reykjavíkurborgar. MSS25070098

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 17. september 2025, um embættisafgreiðslur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, átta mál. SFS22080009

    Fylgigögn

  12. Fram fer umræða um fréttir af vettvangi skóla- og frístundastarfs. SFS24080154

  13. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Bregðast þarf strax við í þeim skólum þar sem þróun lestrarmælinga í 2. bekk er neikvæð. Það verði gert með sérstöku átaki og stuðningi við skólana. Brýnt er að þeir nemendur sem ekki hafa náð aldurssamsvarandi færni fái strax sérstakan stuðning til að ná þeirri færni sem samsvarar aldri þeirra. Mikilvægt er að skoðaðar verði leiðir og aðferðir sem gefist hafa vel í lestrarkennslu á yngsta stigi og því er lagt til að í þeim skólum sem komu verst út í niðurstöðum Lesmáls verði verkefninu Kveikjum neistann komið á laggirnar. Verkefnið snýst um að auðvelda börnum að ná tökum á lestri þar sem markvisst er unnið með kennurum, foreldrum og skólastjórnendum. Í verkefninu er stuðst við bókstafa- hljóða-lestrarkennsluaðferðina ásamt markvissri þjálfun og eftirfylgni í skólanum. Ennfremur er skipulagi skóladagsins breytt þar sem m.a. hreyfing er fyrri hluta dags á hverjum degi og eftir hádegi fá nemendur svokallaðan þjálfunartíma sem ganga út á að nemendur fá áskoranir í lestri og stærðfræði. Slíkt verkefni hefur verið í gangi með góðum árangri t.d. í Vestmannaeyjum þar sem niðurstöður 1. bekkjar voru mjög jákvæðar eftir fyrsta veturinn.

    Frestað. SFS25090208

  14. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Samkvæmt svari eignaskrifstofu fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 3. apríl 2023, (MSS23010264), nam kostnaður við viðgerðir, endurbætur og viðhald á Fossvogsskóla, árin 2018-2022, kr. 2.229.381.926. Óskað er eftir því að skóla- og frístundaráð beini því til eignaskrifstofu fjármála- og áhættustýringarsviðs, að fá sundurliðaða greiningu á heildarkostnaði við framkvæmdir við Fossvogsskóla á tímabilinu 1. janúar 2018 til og með 31. ágúst 2025 og að sá kostnaður sé jafnframt settur fram á föstu verðlagi en ekki eingöngu á verðlagi hvers árs.

    SFS25090209

Fundi slitið kl. 15:58

Sabine Leskopf Alexandra Briem

Ásta Björg Björgvinsdóttir Einar Sveinbjörn Guðmundsson

Helgi Áss Grétarsson Marta Guðjónsdóttir

Stefán Pálsson

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 22. september 2025