Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 296

Skóla- og frístundaráð

Ár 2025, 25. ágúst, var haldinn 296. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.20.
Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Helga Þórðardóttir formaður (F), Alexandra Briem (P), Helgi Áss Grétarsson (D) Marta Guðjónsdóttir (D), Sabine Leskopf (S) og Stefán Pálsson (V). Eftirtalinn fulltrúi tók sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Árelía Eydís Guðmundsdóttir (B). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Andrea Sigurjónsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Edith Oddsteinsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum; Guðjóna Eygló Friðriksdóttir, skólastjórar í grunnskólum; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jónína Einarsdóttir, leikskólastjórar og Kristín Björnsdóttir, kennarar í grunnskólum. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Steinn Jóhannsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Arndís Steinþórsdóttir, Frans Páll Sigurðsson, Guðrún Sigtryggsdóttir, Hjörtur Ágústsson, Ólafur Brynjar Bjarkason, Sigrún Sveinbjörnsdóttir og Eygló Traustadóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram og kynnt minnisblað frá hópi Jafningafræðslu Hins hússins, dags. 17. júlí 2025, um stöðu og áskoranir 13-16 ára ungmenna. SFS25080185

    Elísabet Lára Gunnarsdóttir, Helga Lilja Maack, Orri Eliasen, Úlfhildur Elísa Hróbjartsdóttir, Jóna Helga Ástudóttir, Auður Kamma Einarsdóttir og Margrét Þóra Einarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Kl. 13.28 tekur Leona Iguma sæti á fundinum.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Á vegum Reykjavíkurborgar er forvarnarverkefni í samstarfi við Jafningjafræðslu Hins Hússins. Fimmtán ungmenni á aldrinum 16-19 ára hittu og fræddu um það bil 1300 ungmenni á aldrinum 13-16 ára í Vinnuskóla Reykjavíkur í sumar. Meginniðurstöður voru að það er mikill skortur á raunverulegum persónulegum tengslum á milli ungmenna. Krakkar eru ekki að hittast, spjalla og kynnast hvort öðru með persónulegri nálgun. Samskiptin eiga sér frekar stað á alnetinu sem eru í raun ópersónuleg. Þetta leiðir til meiri einmannaleika, verri líðan og skorts á samskipta- og félagsfærni. Aukinn áhugi á notkun unglingsdrengja á fjárhættuspilum kom líka verulega á óvart. Viðhorf alnetsins geta verið í andstöðu við það sem við teljum æskilegt og valdið því að ómótaðir unglingar fái óæskilegar hugmyndir um jafnréttismál kvenna, hinsegin fólks og fólks af erlendum uppruna. Það er mjög mikilvægt að hlusta og taka mark á ábendingum ungmenna sem hafa starfað við Jafningjafræðslu Hins Hússins. Við þurfum að taka þessar viðvörunarbjöllur alvarlega og vinna gegn þessari þróun, til dæmis með auknu forvarnarstarfi og með því að auka fræðslu í tækni- og upplýsingalæsi

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka fyrir áhugaverða kynningu á stöðu og áskorunum 13-16 ára ungmenna. Þau sem sáu um kynningu hér í ráðinu eru á aldrinum 16-19 ára og hafa reynslu af því að sinna Jafningjafræðslu Hins Hússins, forvarnarverkefni á vegum Reykjavíkurborgar. Það er ljóst að unglingar í dag glíma við margar áskoranir og er þakkarvert að starfi Jafningjafræðslunnar sé sinnt af eldmóði, með hag ungmenna að leiðarljósi. Með því móti aukast líkur á að hver og einn einstaklingur geti fundið sína hillu í lífinu.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúinn þakkar Jafningjafræðslu Hins hússins fyrir að vekja til umhugsunar um þann vanda sem blasir við ungu fólki í dag. Bregðast þarf við þeim þáttum sem þau benda á að brenni á unglingum í dag. Mikilvægt er að styrkja starf jafningjafræðslu þannig að unglingar í hverju og einu hverfi borgarinnar fái fræðslu sem er í takt við samtímann.

    Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúi frístundamiðstöðva í Reykjavík þakkar fulltrúum frá Jafningjafræðslu Hins hússins fyrir góða kynningu og frábært starf. Jafningjafræðslan er vel tengd við vettvang og áhugavert og mikilvægt að hlusta á þær áskoranir sem að þau hafa áhyggjur af eins og einmanaleika, skorti á persónulegum tengslum, skorti á samveru, víðsýni og samskiptum ásamt spilafíkn og klámfíkn. Félagsmiðstöðvar eru staður þar sem félags- og tilfinningahæfni er þjálfuð og unglingar frá tækifæri til að fóta sig áfram í samskiptum við fjölbreyttan unglingahóp undir handleiðslu fagfólks. Félagsmiðstöðvar vinna eftir menntastefnu, stefnu um frístundastarf og forvarnarstefnu Reykjavíkurborgar. Mikilvægt er að skoða það að auka aðgengi og opnunartíma félagsmiðstöðva og veita unglingum vettvang til að vaxa.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 14. ágúst 2025:

    Lagt er til að efnt verði til Barnabókamessu haustið 2025 í samstarfi við Félag íslenskra bókaútgefenda. Tilgangurinn verði að bæta bókakost skólabókasafna borgarinnar og glæða áhuga barna og ungmenna á lestri nýrra íslenskra bóka. Á messunni verður lögð áhersla á að kynna nýjar íslenskar barna- og ungmennabækur fyrir fulltrúum skólasafna grunnskóla og leikskóla borgarinnar og þeim tryggt viðbótarfjármagn til að kaupa nýjar bækur að eigin vali á messunni fyrir bókasöfn starfsstöðva sinna á sérstöku kynningarverði. Lagt er til að sérstök fjárveiting til grunnskóla og leikskóla vegna Barnabókamessunnar verði alls 10 milljónir, í samræmi við tillögu sem samþykkt var í borgarstjórn 4. mars 2025.

    Greinargerð fylgir.

    Samþykkt. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknarflokksins situr hjá. MSS25020121

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í samstarfsyfirlýsingu Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokksins, Flokks fólksins og Vinstri grænna er lögð áhersla á aukinn stuðning við skólabókasöfn. Það er því einstaklega ánægjulegt að samþykkja þessa tillögu í tengslum við bókamessuna sem er samstarfsverkefni skóla- og frístundasviðs, Félags íslenskra bókaútgefenda og bókmenntaborgarinnar UNESCO. Á messunni verður lögð áhersla á að kynna nýjar íslenskar barna- og ungmennabækur fyrir fulltrúum skólasafna grunnskóla og leikskóla borgarinnar og þeim tryggt fjármagn til að kaupa nýjar bækur að eigin vali á messunni fyrir bókasöfn starfsstöðva sinna á sérstöku kynningarverði. Gert er ráð fyrir að 10 milljónum króna verði varið vegna kaupa á vegum skóla- og frístundasviðs á Barnabókamessunni. Fjármagni verður úthlutað til leik- og grunnskóla í samræmi við nemendafjölda, þó að hámarki 200.000 kr. á skóla. Tilgangurinn er að bæta bókakost skólabókasafna borgarinnar og glæða áhuga barna og ungmenna á lestri.

    Fylgigögn

  3. Fram fer umræða um málefni Múlaborgar.

    Lögð fram tillaga borgarráðs, dags. 20. ágúst 2025, um aðgerðir til að auka öryggi og faglegt starf á leikskólum Reykjavíkur sem samþykkt var á fundi borgarráðs 21. ágúst 2025. SFS25080184

    Bylgja Hrönn Baldursdóttir, Guðrún Rósa Ísberg Jónsdóttir, Elísa Ragnheiður Ingólfsdóttir, Indíana Rós Ægisdóttir og Guðný Reynisdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Leona Iguma víkur af fundi undir þessum lið.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 11. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 5. maí 2025:

    Lagt er til að skóla- og frístundasvið taki til skoðunar hvernig koma megi betur til móts við hagsmuni barna og ungmenna sem eiga foreldra er reisa lífsviðurværi sitt á fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar. Í þessu felst að sviðið taki málið til þverfaglegrar skoðunar, svo sem í samstarfi við önnur svið borgarinnar, t.d. velferðarsvið og menningar- og íþróttasvið. Markmið vinnunnar væri að fjölga tækifærum barna sem eiga tekjulága foreldra og háðir eru fjárhagsaðstoð borgarinnar.

    Tillögunni er vísað til meðferðar velferðarráðs. SFS25050015

    Kl. 15.44 víkur Guðrún Kaldal af fundinum.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram drög að samstarfssamningi við Móðurmál, samtök um tvítyngi ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 20. ágúst 2025 og reglum Reykjavíkurborgar um styrki, dags. 25. maí 2017.

    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS23090177

    Kl. 15.50 víkur Helga Þórðardóttir af fundinum og Sabine Leskopf tekur við fundarstjórn.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 10. júlí 2025, um afgreiðslu borgarráðs á breytingu á rekstrarleyfi leikskólans Öskju. SFS23030154

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 10. júlí 2025, um afgreiðslu borgarráðs á breytingu á þjónustusamningi og framlagi til leikskólans Öskju. SFS23030154

  8. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 10. júlí 2025, um afgreiðslu borgarráðs á breytingu á rekstrarleyfi leikskólans Sælukots. SFS23060160

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 10. júlí 2025, um afgreiðslu borgarráðs á breytingu á þjónustusamningi og framlagi til leikskólans Sælukots. SFS23060160

    Kl. 16.03 víkur Ólafur Brynjar Bjarkason af fundinum.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 24. júlí 2025, um afgreiðslu borgarráðs á breytingum á reglubundnum skólaakstri skólaárið 2025-2026. SFS25040090

    Fylgigögn

  11. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 14. ágúst 2025, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um viðhorf foreldra barna 12 mánaða og eldri sem ekki hafa dvalarpláss, sbr. 16. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 23. júní 2025. SFS25060171

    Kl. 16.09 víkur Arndís Steinþórsdóttir af fundinum.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 14. ágúst 2025, um embættisafgreiðslur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, tvö mál. SFS22080009

    Fylgigögn

  13. Fram fer umræða um fréttir af vettvangi skóla- og frístundastarfs. SFS24080154

  14. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Skóla- og frístundaráð samþykkir að skóla- og frístundasviði verði falið að hefja strax undirbúning þess að samræmd próf verði tekin upp að nýju í öllum grunnskólum Reykjavíkurborgar til að tryggja samræmi í námsmati milli skóla. Prófin verði lögð fyrir í 4., 7. og 10. bekk og verða þau lögð fyrir í fyrsta skipti að nýju vorið 2026. Undirbúningur samræmdra prófa verði unnin í samstarfi við skólastjórnendur, kennara, foreldra og fræðafólk á Menntavísindasviði. Samræmdu prófunum fylgi kennsluátak fyrir þá nemendur sem helst þurfa á því að halda.

    Greinargerð fylgir.

    Frestað. MSS24090003

    Fylgigögn

  15. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að á næsta reglulega fundi skóla- og frístundaráðs verði kynnt hver sé staða húsnæðismála stofnana á skóla- og frístundasviði, samanber til dæmis sambærileg kynning sem fulltrúar eignaskrifstofu og skrifstofu framkvæmda og viðhalds héldu á fundi skóla- og frístundaráðs 27. janúar 2025.

    Frestað. SFS25080250

  16. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að fallið verði frá þeirri skerðingu á akstursþjónustu skólabílsins úr Skerjafirði í Melaskóla sem boðuð hefur verið. Undanfarin ár hefur ítrekað verið reynt að skerða þjónustu hvað varðar akstur til og frá Melaskóla í Skerjafjörðinn. Nú stendur til enn og aftur að fækka stoppistöðvum enn frekar með þeim hætti að skólabílinn mun hætta að aka Bauganesið og mun eingöngu aka Einarsnesið sem er umferðarþung gata. Þær breytingar sem orðið hafa og hafa verið boðaðar varðandi skólaaksturinn eru ekki til þess fallnar að auka umferðaröryggi barna í hverfinu.

    Frestað. SFS25080253

  17. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að á næsta reglulega fundi skóla- og frístundaráðs verði biðlisti eftir leikskólaplássum lagður fram.

    Frestað. SFS25080257

  18. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að á næsta reglulega fundi skóla- og frístundaráðs verði lagður fram biðlisti eftir plássi á frístundaheimili borgarinnar.

    Frestað. SFS25080258

  19. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að fallið verði frá þeirri ákvörðun að útvega ekki lengur þeim grunnskólanemum strætókort sem búa í Ártúnsholtinu og stunda nám í Árbæjarskóla. Um er að ræða töluverða vegalengd í skólann fyrir nemendur sem búa í Ártúnsholtinu. Það samræmist ekki hugmyndafræðinni um 15 mínútna hverfi og því eðlilegt að komið verði til móts við nemendur áfram með því að þeir fái frítt í strætó til og frá skóla. Töluverður kostnaður mun falla á foreldra sem þurfa að kaupa árskort fyrir börn sín í strætó fyrir 56000 kr. á barn.

    Frestað. SFS25080259

  20. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Fulltrúi Framsóknar leggur til að skóla- og frístundasviði verði falið að flýta innleiðingu samræmds námsmats í 4. - 10. bekk í öllum grunnskólum Reykjavíkur. Markmiðið er að tryggja að hægt sé með samræmdum hætti að meta stöðu og framfarir nemenda og auðvelda kennurum og foreldrum að styðja við nám barna í Reykjavík frá og með vori 2026. Stöðu- og framvindupróf í stærðfræði og íslensku verði þannig ekki valkvæð heldur skylda frá 4. - 10. bekk frá og með vori 2026.

    Greinargerð fylgir.

    Frestað. SFS25080243

    Fylgigögn

  21. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er eftir upplýsingum og kynningu um stöðu úrbóta sem Heilbrigðiseftirlitið hefur farið fram á við leikskólann Sælukot.

    SFS25080254

  22. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er skriflegra svara við því hvenær búast megi við að þau 60 borð sem vantar í Dalskóla verði tilbúin til afhendingar. Þá er óskað skýringa á því hver sé ástæða þess að skólinn var vanbúinn þessum búnaði þegar skólinn hófst nú í haust.

    SFS25080260

  23. Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hvaða námskeið og fræðsluefni stendur starfsfólki Reykjavíkurborgar á leikskólastigi til boða á Torginu eða eftir öðrum leiðum á vegum borgarinnar? Óskað er upplýsinga um heiti á námskeiðum/efni og lengd hvers og eins. Er haldið utan um það hvernig efnið er nýtt og hvort það er faglært eða ófaglært starfsfólk sem er að nýta sér efnið? Hversu margt starfsfólk á leikskólastigi er að nýta sér þetta efni á hverju ári?

    SFS25080244

  24. Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hvernig er kynningu á leikskóladeildinni Lyngási fyrir fötluð börn háttað á vegum Reykjavíkurborgar?

    SFS25080245

  25. Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hversu oft hefur Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur farið fram á lokun á leikskóla í Reykjavík að hluta til eða í heild vegna ófullnægjandi þrifa, músagangs eða annarra hættulegra aðstæðna í húsnæði undanfarin 10 ár? Hversu lengi hafa þær lokanir staðið? Ekki er endilega óskað eftir upplýsingum greindum niður á leikskóla heldur t.d. fjöldi tilvika á ári og tímalengd hverrar lokunar og yfirlit yfir ástæður þessara lokana. Æskilegt væri einnig að fá upplýsingar um hvort um er að ræða leikskóla sem rekinn er af borginni eða einkaaðilum.

    SFS25080246

Fundi slitið kl. 16:20

Sabine Leskopf Alexandra Briem

Árelía Eydís Guðmundsdóttir Helgi Áss Grétarsson

Marta Guðjónsdóttir Stefán Pálsson

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 25. ágúst 2025