Skóla- og frístundaráð
Ár 2025, 26. maí, var haldinn 293. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.18.
Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Helga Þórðardóttir formaður (F), Alexandra Briem (P), Árelía Eydís Guðmundsdóttir (B), Helgi Áss Grétarsson (D), Marta Guðjónsdóttir (D), Sabine Leskopf (S) og Stefán Pálsson (V). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Arnheiður Helgadóttir, skólastjórar í grunnskólum; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jónína Einarsdóttir, leikskólastjórar; Linda Ósk Sigurðardóttir, starfsfólk í leikskólum og Leona Iguma, Reykjavíkurráð ungmenna. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Steinn Jóhannsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Arndís Steinþórsdóttir, Frans Páll Sigurðsson, Guðrún Sigtryggsdóttir, Hjörtur Ágústsson, Ólafur Brynjar Bjarkason, Soffía Pálsdóttir og Eygló Traustadóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Fram fer kynning og umræða um starfsemi Memmm Play. SFS25040023
Kristín Stefánsdóttir og Helga Hreiðarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Samstarfsflokkarnir þakka fyrir góða kynningu á starfi opna leikskólans Memmm Play. Um er að ræða fyrirmyndarstarf sem gagnast mjög börnum sem ekki eru á leikskóla, en hafa gott af því að upplifa hvernig slík samvera er í öruggu og góðu rými. Þetta gagnast líka foreldrum til þess að kynnast og hjálpar fólki af erlendum uppruna að kynnast samfélaginu. Það er mikilvægt að borgin haldi áfram að styðja við og efla það góða starf sem þarna fer fram.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins styðja að Reykjavíkurborg leiti leiða til að eiga aukið samstarf við Memmm Play. Memmm Play hefur unnið frábærlega faglegt starf sem kemur foreldrum og börnum vel. Í því starfi sameinast gott foreldrasamstarf og samstarfsvettvangur í hverfum þar sem fólk getur kynnst og styrkt böndin. Memmm Play starfa að sænskri fyrirmynd sem hefur reynst vel bæði hérlendis og erlendis. Memmm Play hefur lýst áhuga á að auka þjónustu í hverfum borgarinnar.
-
Lögð fram skýrslan Alþjóðleg verkefni og styrkir 2019-2025, dags. í maí 2025. SFS25050081
Þorbjörg Arna S. Jónasdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Síðan árið 2019 hefur um 500 milljónum króna verið aflað með styrkjum hjá skóla- og frístundasviði til að efla alþjóðasamstarf innan sviðsins, hvort sem það er miðlægt eða hjá einstökum stofnunum. Fjármagnið kemur aðallega frá Evrópusambandinu, Erasmus. Það er mikilvægt að upplýsingar um þessa styrki séu veittar með reglulegu millibili og að gegnsæi um öflun þeirra og ráðstöfun sé ávallt tryggt. Það er því þakkarvert að fá þessa góðu kynningu í dag um málefnið.
Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva þakkar fyrir góða kynningu á alþjóðlegum verkefnum og styrkjum alþjóðasamstarfs skóla- og frístundasviðs 2019-2025. Áheyrnarfulltrúi lýsir yfir ánægju sinni með störf sérfræðinga á skóla- og frístundasviði sem að leiðbeina og aðstoða starfsfólk í skóla- og frístundastarfi við að sækja um styrki. Að sækja um styrki til alþjóðasamstarfs getur verið flókið og tímafrekt og þar af leiðandi er afar mikilvægt að hafa góðan aðgang að reynslumiklu fagfólki. Að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi eykur fagmennsku.
Kl. 14.10 víkur Marta Guðjónsdóttir af fundinum.
Fylgigögn
-
Lögð fram tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 14. maí 2025, um breytingar á reglum um leikskólaþjónustu ásamt reglum um leikskólaþjónustu með merktum breytingum og gildandi reglum um leikskólaþjónustu.
Greinargerð fylgir.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi breytingatillögu:
Lagt er til að í stað þess að tekin verði einhliða miðlæg ákvörðun um opnunartíma leikskóla verði það ákvörðun hvers leikskóla fyrir sig sem tekin verði í samráði leikskólastjóra, starfsmanna og foreldra. Mikilvægt er að sveigjanleiki sé til staðar og sjálfstæði leikskólanna virt þannig að leikskólasamfélag hvers skóla geti tekið ákvarðanir sem mæta þörfum fyrir aukna þjónustu sem óskað er eftir.
Breytingatillagan er felld með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn atkvæði skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknarflokksins situr hjá.
Kl. 14.31 tekur Sandra Hlíf Ocares sæti á fundinum með rafrænum hætti.
Tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 14. maí 2025, um breytingar á reglum um leikskólaþjónustu er samþykkt. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðsluna. Vísað til borgarráðs. SFS25010095
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Æskilegt er að starfsemi leikskóla sé sveigjanleg með tilliti til opnunartíma og því var málsmeðferðartillagan lögð fram. Í ljósi þess hversu fá börn eru núna að nota þessa þjónustu um lengri opnunartíma er skiljanlegt að framkomin tillaga meirihlutans hafi verið lögð fram en til lengri tíma væri til bóta að opnunartími leikskóla væri sveigjanlegur.
Áheyrnarfulltrúar leikskólastjóra og starfsfólks í leikskólum leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar leikskólastjóra og starfsmanna leikskóla fagna þeirri breytingu á reglum um leikskólaþjónustu um opnunartíma leikskóla Reykjavíkurborgar að loka öllum leikskólum kl 16.30. Leikskólastigið á í almennum vandræðum með mönnun og það hefur reynst skólum erfitt að halda úti starfsemi til kl 17.00.
Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna setur sig ekki upp á móti styttingu opnunartíma leikskóla í Reykjavík að svo stöddu í ljósi lítillar nýtingar tímans milli 16.30-17.00 og kostnaðar. Í ljósi erfiðleika við mönnun á leikskólastiginu er þetta einnig óhjákvæmilegt. Til langs tíma litið er minni sveigjanleiki í leikskólakerfinu þó óæskilegur því ólíkar fjölskyldur hafa ólíkar þarfir þegar kemur að opnunartíma. Æskilegt væri að byrja að vinna að því að búa til kerfi sem þekkist víða á Norðurlöndum og þá sérstaklega í höfuðborgum þar sem sumir leikskólar hafa langan opnunartíma til þess að koma til móts við ólíkar þarfir fjölskyldna.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 14. maí 2025:
Lagt er til að stofnuð verði tvö farteymi með aðsetur í tveimur miðstöðvum, Suðurmiðstöð og Vesturmiðstöð til reynslu, frá 1. júní 2025 og tekið til endurskoðunar árlega vegna barna sem þurfa á verulegri sérstakri aðstoð eða þjálfun að halda til að geta notið leikskólagöngu sem best.
Greinargerð fylgir.
Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS25050082
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillagan felur í sér að stofnuð verði tvö farteymi með aðsetur í tveimur miðstöðvum, Suðurmiðstöð og Vesturmiðstöð til reynslu, frá 1. júní 2025 og tekið til endurskoðunar árlega vegna barna sem þurfa á verulegri sérstakri aðstoð eða þjálfun að halda til að geta notið leikskólagöngu sem best. Ákveðið var að úthluta föstu fjármagni til leikskóla eftir fjölda barna í hverjum leikskóla til þess að koma betur til móts við þarfir leikskólabarna með snemmtækri íhlutun. Það átti að gefa leikskólum tækifæri til þess að ráða fagfólk til þess að sinna sértækum stuðningi innan leikskólans. Því miður hefur reynsla þessa árs sýnt að ekki hefur tekist að ráða fagfólk til starfans í mjög mörgum leikskólum. Hlutfall leikskólakennara og uppeldismenntaðra starfsmanna í þeim leikskólum er afar lágt og því hefur reynst erfitt að koma til móts við þarfir einstaka barna. Reynslan hefur sýnt að það er auðveldara að fá leikskólasérkennara til starfa til þess að sinna ráðgjöf og handleiðslu í leikskólum ef ráðningarformið er ekki bundið við einstaka leikskóla. Þess vegna er lagt til að fara þá leið að ráða fagfólk í farteymi í reynsluskyni.
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 12. maí 2025, um endurnýjun samnings við Myndlistaskólann í Reykjavík vegna almennra vetrarnámskeiða fyrir börn og ungmenni ásamt drögum að samningi og reglum Reykjavíkurborgar um styrki frá 2017.
Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS25030161
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 15. maí 2025, um endurnýjun samnings um samstarf Háskóla Íslands og skóla- og frístundasviðs á sviði starfsþróunar, rannsókna og nýsköpunar menntamála ásamt drögum að samningi.
Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS25050077
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Samstarf skóla- og frístundasviðs og Háskóla Íslands á sviði menntamála styðst við fagleg rök og getur haft í för með sér margvíslegan ávinning. Á hinn bóginn minna skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins á mikilvægi þess að mælingar á árangri nemenda í grunnskólum borgarinnar sé samræmdur og að grunnskólakerfi borgarinnar taki mið af því að nemendur nái tilteknum árangri í kjarnafögum en sem dæmi gefa vísbendingar úr Pisa-könnunum til kynna að stór hluti nemenda við útskrift úr grunnskóla hafi ekki grunnfærni í lestri.
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 15. maí 2025, um skóladagatal grunnskóla Reykjavíkur skólaárið 2026-2027.
Samþykkt. SFS25050073
Ingunn Ásta Sigmundsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. maí 2025, um staðfestingu skóladagatala grunnskóla Reykjavíkur skólaárið 2025-2026.
Samþykkt. SFS25030194
Ingunn Ásta Sigmundsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva þakkar fyrir kynningu á staðfestingu skóladagatala grunnskóla Reykjavíkur skólaárið 2025-2026. Mikilvægt er að vera í góðu samtali við forstöðumenn frístundaheimila og félagsmiðstöðva þegar verið er að skipuleggja eða breyta skóladagatali. Einnig þarf að hafa í huga að „tvöfaldur dagur“ getur leitt til heilsdagsþjónustu og kostnaðarauka í frístundaheimili sem að starfar eftir fjárhagsáætlun og reglum um frístundaheimili.
Fylgigögn
-
Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 10. apríl 2025, um endurnýjun þjónustusamninga við sjálfstætt starfandi grunnskóla, ásamt fylgiskjölum, sem afgreidd var í borgarráði, sbr. 19. lið fundargerðar borgarráðs frá 8. maí 2025. MSS22100084
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Mikilvægt var að tryggja sjálfstætt starfandi grunnskólum nýjan þjónustusamning. Framlag til reykvískra nemenda hækkar úr ýmist 70% eða 75% í 80% og mun styrkja nám og velferð þeirra. Byggt er á samningsmarkmiðum borgarinnar þar sem tekið er mið af stefnumótun Reykjavíkurborgar, þ.m.t. mennta- og mannrétttindastefnu, að innleitt verði samræmt umsóknar- og innritunarkerfi fyrir grunnskóla borgarinnar og sjálfstætt starfandi grunnskóla og síðast en ekki síst að börn með lögheimili í Reykjavík njóti forgangs. Þá er grundvallarforsenda samninganna að jafnræðis sé gætt milli sjálfstætt starfandi skóla og að framlög borgarinnar dragi úr þörf fyrir hækkun skólagjalda þeirra. Gert er ráð fyrir að fjárveitingar borgarinnar til sjálfstætt starfandi grunnskóla hækki um 134 m.kr. á ári.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Framsóknar lýsir yfir ánægju og þakkar þeim sem stóðu að endurnýjun þjónustusamninga við sjálfstætt starfandi grunnskóla. Það er borginni mikilvægt að komið sé til móts við sjálfstætt starfandi skóla. Þeir gegna mikilvægu hlutverki.
Fylgigögn
-
Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 10. apríl 2025, um samkomulag vegna reksturs alþjóðadeildar við Landakotsskóla, ásamt fylgiskjölum, sem afgreidd var í borgarráði, sbr. 20. lið fundargerðar borgarráðs frá 8. maí 2025. MSS25040071
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgin hefur ákveðið að leggja fram sérstakt framlag til reksturs alþjóðadeildar Landakotsskóla. Það framlag mun nema 20 milljónum króna á ári yfir tímabilið 2024-2026. Þetta er í samræmi við Alþjóðastefnu Reykjavíkurborgar, en þar er lögð áhersla að skapa börnum sem dvelja tímabundið á Íslandi góða námsumgjörð. Framlagið er mikilvægt til að tryggja áframhaldandi rekstur alþjóðadeildar, en þar hefur nemendum fjölgað um 20% á undanförnum fjórum árum. Mikilvægt er að benda á að starfsemi alþjóðadeildarinnar í Landakotsskóla starfar samkvæmt viðurkenndum alþjóðlegum stöðlum á sama tíma og reynt er að stuðla að tengingum milli þeirra og íslenskumælandi jafnaldra þeirra.
Kl. 15.30 víkur Guðrún Kaldal af fundinum.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. maí 2025, um embættisafgreiðslur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, sex mál. SFS22080009
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um fréttir af vettvangi skóla- og frístundastarfs. SFS24080154
-
Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að fá sem fyrst kynningu á skýrslunni Tillögur að uppbyggingu leikskóla í Reykjavík inn í skóla- og frístundaráð.
Frestað. SFS25050116
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Hversu margir starfslokasamningar hafa verið gerðir við skólastjórnendur og stjórnendur skóla- og frístundasviðs á tímabilinu 16. maí 2024 til og með 15. maí 2025? Hver er kostnaður Reykjavíkurborgar við hvern starfslokasamning á föstu og gildandi verðlagi? Hversu háa upphæð hefur þurft að greiða fyrir starfslok á þessu tímabili á föstu og gildandi verðlagi? Hversu langur er hver starfslokasamningur sem skóla- og frístundasvið hefur gert við stjórnendur? Hvert er starfsheiti og aldur starfsmanns á bakvið hvern starfslokasamning? Hvaða skýring liggur að baki hverjum starfslokasamningi að þessi leið er valin? Hversu margir skólastjórnendur hafa sagt upp störfum á tímabilinu 16. maí 2024 til og með 15. maí 2025?
SFS24050122
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Á fundi skóla- og frístundaráðs 12. maí 2025 var lagt fram svar við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokks um starfslokasamninga tímabilið 1. janúar 2015 til og með 15. maí 2024. Svar við hluta af fyrirspurninni var ekki svarað og því ítrekað hér að lagt verði fram svar við neðangreindum fyrirspurnum sem ekki var svarað, það er, hvert er starfsheiti og aldur starfsmanns á bakvið hvern starfslokasamning? Og hvaða skýring liggur að baki hverjum starfslokasamningi að þessi leið er valin?
SFS24050122
Fundi slitið kl. 15.39
Helga Þórðardóttir Alexandra Briem
Árelía Eydís Guðmundsdóttir Helgi Áss Grétarsson
Sandra Hlíf Ocares Sabine Leskopf
Stefán Pálsson
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 26. maí 2025