Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 292

Skóla- og frístundaráð

Ár 2025, 12. maí, var haldinn 292. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.17.
Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Helga Þórðardóttir formaður (F), Alexandra Briem (P), Árelía Eydís Guðmundsdóttir (B), Helgi Áss Grétarsson (D), Marta Guðjónsdóttir (D) og Sabine Leskopf (S). Eftirtalinn fulltrúi tók sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Stefán Pálsson (V). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Guðjóna Eygló Friðriksdóttir, skólastjórar í grunnskólum; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jónína Einarsdóttir, leikskólastjórar; Kristín Björnsdóttir, kennarar í grunnskólum; Linda Ósk Sigurðardóttir, starfsfólk í leikskólum og Marta Maier, Reykjavíkurráð ungmenna. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Steinn Jóhannsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Arndís Steinþórsdóttir, Frans Páll Sigurðsson, Guðrún Sigtryggsdóttir, Ólafur Brynjar Bjarkason, Soffía Pálsdóttir og Eygló Traustadóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning og umræða um málefni Breiðholtsskóla. SFS25050013

    Eysteinn Þór Kristinsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Breiðholtsskóli er öflugur skóli með fjölbreyttan nemendahóp. Fulltrúar samstarfsflokkanna þakka fyrir góða kynningu á þeim fjölmörgu aðgerðum sem eru í gangi í skólanum til að mæta krefjandi aðstæðum. Mikilvægt er að halda áfram þeirri vinnu sem lagt hefur verið af stað með í góðu samtali og samstarfi við foreldra. Eins er rétt að halda til haga að Bakkarnir og Breiðholt eru góður staður til að búa á, með góðum skólum og það er miður að sjá hvernig umræðan hefur þróast. En það er ekki til að bæta á ástand sem vissulega er erfitt að alls ótengd mál séu í opinberri umræðu tengd við Breiðholtsskóla að ósekju.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hinn 19. febrúar síðastliðinn var haldinn aukafundur í skóla- og frístundaráði að beiðni fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Efni fundarins varðaði í raun og veru fréttir sem höfðu verið birtar í fjölmiðlum um erfið ofbeldismál í einum árgangi í Breiðholtsskóla, samanber bókanir sem fulltrúarnir áttu þátt í að birta á þeim fundi. Kjarni málsins varðandi núverandi stöðu mála í Breiðholtsskóla er að útlit er fyrir að gripið hafi verið til umfangsmikilla inngripa vegna erfiðra mála hjá einum árgangi í skólanum. Aðgerðirnar lofa góðu að ýmsu leyti þótt enn séu áskoranir fyrir hendi. Í þessu samhengi vilja fulltrúarnir minna á þá tillögu sína að skóla- og frístundasvið skipi „sérstakt neyðarteymi sérfræðinga sem geti gripið strax inn í alvarleg tilfelli sem upp koma í grunnskólum borgarinnar“ sem og eftirfarandi þátt í stefnu Sjálfstæðisflokksins í menntamálum: „Æskilegt er að börn sem koma til landsins og ekki tala íslensku taki sín fyrstu skref í grunnskólagöngunni í móttökuskóla eða -deild þar sem öll áhersla er á íslensku og íslenska menningu. Lestrarfærni þeirra verði metin áður en þau hefja nám með sínum jafnöldrum hérlendis. Um er að ræða brú í takmarkaðan tíma til að skólastarf þeirra og annarra gangi sem best. Markmiðið er að mæta betur þörfum hvers barns.“

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Framsóknar lýsir yfir ánægju með það faglega starf sem unnið hefur verið í Breiðholtsskóla undanfarinn vetur. Fulltrúi Framsóknar vill koma á framfæri þakklæti til þeirra starfsmanna sem hafa tekið höndum saman um að bæta gott starf í Breiðholtsskóla. Fulltrúi Framsóknar vill koma á framfæri hvatningu til sviðsins um að nýta þá þekkingu sem situr eftir til frambúðar í þágu barna í borginni.

  2. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 7. maí 2025, um stöðu innritunar í Klettaskóla og einhverfudeildir vegna skólaársins 2025-2026. SFS25040087

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Klettaskóli getur eingöngu boðið 14 nemendum skólavist skólaárið 2025 – 2026. Umsóknir í skólann voru 53 og nemendur sem uppfylla skilyrði reglna um innritun í skólann eru 41 sem er langt umfram það sem hægt er að verða við. Gert er ráð fyrir að bjóða allt að átta nemendum skólavist í Húsaskóla með lögheimili í Reykjavík, sem ráðgert er að synja í Klettaskóla. Þessir nemendur fá boð um nám, kennslu og frístundastarf í Húsaskóla og frístundaheimilinu Kastala. Gert er ráð fyrir þéttu samstarfi og ráðgjöf til Húsaskóla og Kastala frá Klettaskóla. Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs hefur með starfsmanni sviðsins fundað með sviðsstjórum fræðslumála nágrannasveitarfélaga og brýnt fyrir þeim að leita lausna líkt og Reykjavík hyggst gera fyrir reykvíska nemendur. Farin er af stað greining á vegum Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsæðinu um uppbyggingu sérskóla á höfuðborgarsvæðinu. Greiningunni á að vera lokið á haustmánuðum. Afar mikilvægt er að undirbúningur að stofnun nýs sérskóla á höfuðborgarsvæðinu fari af stað sem fyrst því ljóst er að fjölgun barna sem uppfylla skilyrði um að sækja sérskóla er mikil og mun aukast á næstu áratugum.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 10. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 5. maí 2025:

    Lagt er til að skóla- og frístundasviði verði falið að vinna að sérskólaúrræði fyrir þau börn sem ekki komust að í Klettaskóla. Úrræðið verði tilbúið til notkunar í haust í byrjun skólaárs þannig að þeim nemendum sem uppfylltu skilyrði til inngöngu í Klettaskóla verði tryggð skólavist í sérskólaúrræði.

    Greinargerð fylgdi.

    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknarflokksins situr hjá við afgreiðsluna. SFS25050014

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram á síðasta ráðsfundi að komið yrði á laggirnar sérskólaúrræði fyrir þá nemendur sem fengu ekki skólavist í Klettaskóla skólaárið sem hefst næstkomandi haust. Fulltrúarnir telja undarlegt að þessari tillögu þeirra hafi verið vísað frá. Í ljósi þess að vinna er hafin á milli funda, frá því tillagan var lögð fram, við að mæta þörfum þeirra reykvísku nemenda sem ekki fengu skólavist, hefði átt að taka tillöguna til afgreiðslu og samþykkja. Slíkt hefði verið nærtækt og eðlilegt enda úrræðið sem verið er að vinna eftir í anda þess sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram.

    Kl. 14.25 víkur Kristín Björnsdóttir af fundinum.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. maí 2025, ásamt umsögn foreldraráðs Stakkaborgar, dags. 6. maí 2025, um tillöguna:

    Lagt er til að fjölda barna í leikskólanum Stakkaborg verði breytt úr 67 börnum yfir í 101 barn.

    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS25010201

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva, sbr. 20. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 10. mars 2025:

    Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva í Reykjavík óskar eftir því að félagsmiðstöðinni 111 í Breiðholti verði fundið húsnæði sem fyrst. Félagsmiðstöðin þurfti að fara út úr húsnæði sínu vegna rakaskemmda og er ekki komin með aðstöðu. Áríðandi er að tryggja félagsmiðstöðinni aðstöðu sem fyrst til að halda úti opnunum í viðeigandi húsnæði sem samræmist starfi félagsmiðstöðva. Ástand í málefnum unglinga hefur verið viðkvæmt og því mikilvægt að unglingar úr Hólabrekkuskóla og Fellaskóla geti sótt félagsmiðstöð í hverfinu þar sem fram fer faglegt frístundastarf í öruggu umhverfi. Áheyrnarfulltrúi leggur til að starfsfólk Reykjavíkurborgar þvert á svið ásamt kjörnum fulltúrum leggist öll á eitt við að finna félagsmiðstöðinni 111 rými til lengri tíma.

    Samþykkt. SFS25030058

    Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Félagsmiðstöðin 111 vinnur afar gott starf í Efra-Breiðholti og standa vonir til þess að nýtt húsnæði fyrir starfsemina komist í gagnið í lok ágúst næstkomandi. Skóla- og frístundaráð mun leggja sitt af mörkum til að þrýsta á um að þetta mikilvæga starf félagsmiðstöðvarinnar geti haldið áfram án vandkvæða á nýju skólaári í haust.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 3. febrúar 2025, þar sem svohljóðandi tillögu fulltrúa í ungmennaráði Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, sbr. 7. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 28. janúar 2025, er vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs, ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 28. apríl 2025:

    Lagt er til að að borgarstjórn samþykki að fela skóla- og frístundaráði að festa lífsleiknikennslu í grunnskólum borgarinnar í sessi sem sérstaka námsgrein og samræma áherslur og kennsluaðferðir milli grunnskóla í borginni. Miða skal við að unnið verði að samþykktinni skólaárið 2025-2026.

    Greinargerð fylgdi.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi breytingatillögu:

    Lagt er til að skóla- og frístundasviði sé falið að fylgja því eftir að kennsla í lífsleikni fari fram í grunnskólum. Einnig er lagt til að skóla- og frístundasvið hvetji mennta- og barnamálaráðuneytið og miðstöð menntunar og skólaþjónustu til að tryggja fjölbreytt úrval námsgagna sem nýtist í lífleikni.

    Breytingatillagan er samþykkt.

    Tillagan er samþykkt svo breytt. MSS25010163

    Kl. 14.55 tekur Ragnheiður E. Stefánsdóttir sæti á fundinum. 

    Fylgigögn

  7. Lagt fram fjárhagsuppgjör skóla- og frístundasviðs 2024. SFS24080105

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Rekstur Reykjavíkurborgar á skóla- og frístundasviði á árinu 2024 tók framförum en betur má ef duga skal. Sem fyrr er ástæða til að verja meira fé til kjarnastarfsemi skóla- og frístundasviðs. Forgangsröðun í rekstri Reykjavíkurborgar þarf að vera skýr.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Framsóknar lýsir yfir ánægju með þann árangur sem náðst hefur í fjármálastjórn skóla- og frístundasviðs. Á síðasta ári höfum við unnið að hagræðingu sem við sjáum nú árangur af. Fulltrúi Framsóknar vill koma á framfæri þökkum til starfsmanna sem hafa lagt hart að sér við hagræðingar og aðhald í rekstri. Árangurinn af stefnumótun á þessu sviði er ánægjulegur.

    Áheyrnarfulltrúi skólastjóra í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúi skólastjórnenda lýsir áhyggjum af fyrirhuguðum niðurskurði til grunnskólanna. Fjármálalíkanið Eddan er nýkomið í gagnið og mikilvægt er að standa vörð um það til að skapa öryggi og ró í rekstrarumhverfi skólanna. Skorað er á meirihluta borgarstjórnar að hverfa frá áformum um niðurskurð svo hægt sé að halda úti metnaðarfullu lögbundnu skólastarfi.

    Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva þakkar fyrir góða kynningu á fjárhagsuppgjöri skóla- og frístundasviðs 2024. Þar koma fram upplýsingar sem sýna niðurskurð í frístundastarfi frá árinu 2020. Mikilvægt er að draga ekki úr frístundastarfi eins og gert hefur verið síðustu ár með því að stytta opnunartíma félagmiðstöðva, fresta að koma til framkvæmdar stefnu um frístundastarf í Reykjavík þar sem til stóð að auka starf fyrir börn í 5.-7. bekk, leggja niður stöður frístundafræðinga og hætta með starf fyrir 16-18 ára í frístundamiðstöðvum. Mikilvægt er að auka starf fyrir 10-12 ára börn og 16-18 ára ungmenni í nærumhverfi sínu og auka opnunartíma félagsmiðstöðva. Einnig þarf að rýna möguleika á því að bjóða upp á fleiri heilsársstörf þannig að hægt sé að halda úti góðu þjónustustigi yfir sumarið. Það er fjárfesting til framtíðar að bjóða upp á faglegt frístundastarf á heilsársgrunni þar sem menntaðir sérfræðingar í tómstunda- og félagsmálafræði vinna að því að þjálfa félags- og tilfinningahæfni barna og unglinga í Reykjavík.

    Kl. 15.30 víkur Guðjóna Eygló Friðriksdóttir af fundinum. 

    Fylgigögn

  8. Lagt fram yfirlit yfir innkaup skóla- og frístundasviðs yfir 1 m.kr., október-desember 2024, dags. 7. maí 2025. SFS24080106

    Fylgigögn

  9. Lagt fram yfirlit yfir ferðir skóla- og frístundasviðs október-desember 2024, dags. 6. maí 2025. SFS24080107

    Fylgigögn

  10. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. maí við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa foreldra barna í leikskólum um framkvæmdir við Miðbæjarleikskóla við Njálsgötu, sbr. 11. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 7. apríl 2025. SFS25040052

    Fylgigögn

  11. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. maí 2025, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um starfslokasamninga, sbr. 10. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 27. maí 2024 og 14. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 5. maí 2025. SFS24050122

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks lýsa yfir áhyggjum yfir fjölda og umfangi starfslokasamninga Reykjavíkurborgar við stjórnendur hjá skóla- og frístundasviði. Dæmi eru um að starfslokasamningur spanni 22 mánuði og kosti borgina 45.600.000 kr. en einnig er nokkuð algengt að samningar spanni vel yfir 15 mánuði og kosti borgina marga tugi milljóna króna.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. maí 2025, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um stöðumat í Breiðholtsskóla, sbr. 15. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 5. maí 2025. SFS25050018

    Fylgigögn

  13. Fram fer umræða um fréttir af vettvangi skóla- og frístundastarfs. SFS24080154

    Kl. 15.53 víkur Ragnheiður E. Stefánsdóttir af fundinum.

  14. Áheyrnarfulltrúar leikskólastjóra og starfsfólks í leikskólum leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Áheyrnarfulltrúar leikskólastjóra og starfsmanna í leikskólum óska eftir því að skóla- og frístundaráð fjalli um vinnu Starfshóps um breytingar á leikskólakerfinu í Reykjavík sem hefur verið að skoða leiðir í sambandi við 36 stunda vinnuviku og hvaða leiðir borgin vill fara í að bæta starfsaðstæður eins og gert hefur verið í Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ og Mosfellsbæ.

    Frestað. SFS25050043

Fundi slitið kl. 15.55

Helga Þórðardóttir Alexandra Briem

Árelía Eydís Guðmundsdóttir Helgi Áss Grétarsson

Marta Guðjónsdóttir Sabine Leskopf

Stefán Pálsson

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 12. maí 2025