Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 290

Skóla- og frístundaráð

Ár 2025, 7. apríl, var haldinn 290. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 14.20. Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Helga Þórðardóttir formaður (F), Alexandra Briem (P), Árelía Eydís Guðmundsdóttir (B), Helgi Áss Grétarsson (D), Marta Guðjónsdóttir (D) og Sabine Leskopf (S). Eftirtalinn fulltrúi tók sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Líf Magneudóttir (V). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Andrea Sigurjónsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Edith Oddsteinsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jónína Einarsdóttir, leikskólastjórar; Kristín Björnsdóttir, kennarar í grunnskólum; Marta Maier, Reykjavíkurráð ungmenna og Þóranna Rósa Ólafsdóttir, skólastjórar í grunnskólum. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Steinn Jóhannsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Arndís Steinþórsdóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir, Ólafur Brynjar Bjarkason, Ragnheiður E. Stefánsdóttir, Soffía Pálsdóttir og Eygló Traustadóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á samantekt mennta- og barnamálaráðuneytisins um tölfræði um börn og starfsfólk leikskóla 2016-2023. SFS25030177

    Steinunn Halldórsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Kl. 14.34 tekur Líf Magneudóttir sæti á fundinum og aftengist fjarfundabúnaði.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Samstarfsflokkar þakka fyrir afar fróðlega kynningu um tölfræði varðandi börn og starfsfólk í leikskólum borgarinnar með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. Ljóst er að jöfn tækifæri fyrir öll börn í borginni er meðal stærstu og mikilvægustu verkefna skólasamfélagsins og hafa margar aðgerðir snúist að því á síðustu árum. Þ.á.m. aukning í íslensku- og móðurmálskennslu, fjölgun brúarsmiða og fleira. En á hinn bóginn hefur því miður afar lítið verið kannað hingað til hvernig við getum betur virkjað þann fjársjóð sem starfsfólk af erlendum uppruna er, sem mörg eru með afar góða menntun í leikskólakerfinu, sérstaklega í ljósi þeirrar miklu áskorunar sem mönnun á leikskólum hefur reynst. Þessar tölur gefa góða yfirsýn yfir þennan hóp og verða grundvöllur þeirra aðgerða sem fyrirhugaðar eru vegna samþykktrar tillögu um bættar starfsaðstæður í leikskólum. Það er mikilvægt að fjölgun möguleika til íslenskunáms haldist í hendur við skýrari kröfur um íslenskukunnáttu.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ástæða er til að þakka fyrir kynningu á tölfræði um innflytjendur á leikskólum 2016-2023 sem mennta- og barnamálaráðuneytið hefur tekið saman. Þrátt fyrir töluvert gagnamagn vantar upplýsingar um raunverulega íslenskufærni þeirra sem eru af erlendu bergi brotin og starfa á leikskólum, vítt og breitt um landið. Nauðsynlegt er því að taka upp samræmd stöðupróf og tryggja fullnægjandi framboð af viðunandi námsefni fyrir þennan hóp starfsmanna sveitarfélaga. Aðalatriðið er að færni í íslensku sé viðunandi í leikskólum landsins á meðal starfsmanna þar.

    Áheyrnarfulltrúar leikskólastjóra og starfsfólks í leikskólum leggja fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnafulltrúar stjórnenda í leikskólum og leikskólakennara vilja ítreka nauðsyn þess að sett verði skýr viðmið um kunnáttu starfsmanna í íslensku í leikskólum. Ekki er nóg að hafa eingöngu viðmið um hæfnisramma heldur hafa einnig samræmd próf fyrir fólk sem sækir um starf. Í dag eru of margir starfsmenn með litla íslensku bæði í töluðu máli og rituðu. Við teljum að borgin þurfi að marka sér skýrari stefnu í þessum málum en í dag eru of margir sem sækjast í að fá vinnu í leikskóla eingöngu til að læra íslensku en ekki til að kenna hana. Við þurfum að efla fagmenntun innan leikskólanna og þurfum að ráðast í átak um það þar sem áherslan verður á að fjölga leikskólakennunum, ekki bara redda einhverjum til að halda plássum opnum. Fjölgun fagmanna sem eru menntaðir í leikskólakennarafræðum með góða þekkingu á íslensku samfélagi eru lykillinn að bættu leikskólastigi. Pólitískur þrýstingur um fleiri pláss má ekki vera of mikill á stjórnendur til að viðmiðin lækki, við þurfum að hækka ránna.

  2. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 3. febrúar 2025, þar sem svohljóðandi tillögu fulltrúa í ungmennaráði Laugardals, Háaleitis og Bústaða, sbr. 3. lið fundargerðar borgarstjórnar dags. 28. janúar 2025, er vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs, ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 24. mars 2025:

    Lagt er til að borgarstjórn samþykki að gera fjármálalæsi að skyldufagi í öllum 8.-10. bekkjum í grunnskólum í Reykjavík eigi síðar en frá og með hausti 2026.

    Greinargerð fylgdi.

    Lögð fram svohljóðandi breytingatillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að skóla- og frístundasvið hvetji skólastjórnendur og kennara í grunnskólum til að halda áfram að efla kennslu í fjármálalæsi á öllum stigum grunnskóla og nýta öll þau tækifæri sem gefast í skólastarfinu til að sinna þessum mikilvæga þætti til að búa nemendur undir líf og starf. Þá er lagt til að skóla- og frístundasvið óski eftir því við Miðstöð menntunar og skólaþjónustu að fram fari samkeppni um námsefni og kennsluleiðbeiningar fyrir miðstig og unglingastig grunnskóla um fjármálalæsi sem grunnskólar í Reykjavík muni nýta.

    Tillagan er felld með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknarflokksins situr hjá.

    Lögð fram svohljóðandi breytingatillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna:

    Skóla- og frístundasvið hefur undanfarin ár, árin 2020 og 2023, lagt könnun fyrir stjórnendur grunnskóla þar sem spurt er um fyrirkomulag kennslu og námsefni í fjármálalæsi í grunnskólum. Lagt er til að enn frekar verði skerpt á þessu eftirliti svo tryggt sé að nemendur í öllum grunnskólum borgarinnar hafi fengið kennslu í fjármálalæsi við lok grunnskóla. Þannig verði fylgt eftir endurskoðaðri aðalnámskrá grunnskóla frá 2024 þar sem fjármálalæsi er talið upp sem hluti af hæfniviðmiðum í stærðfræði, heimilisfræði og samfélagsgreinum við lok 4., 7. og 10. bekkjar. Tillögunni verði fylgt eftir í næstu könnun sem lögð verður fyrir í maí 2025. Einnig er lagt til að stuðst verði við námsefni sem gefið er út af Miðstöð menntunar og skólaþjónustu.

    Breytingatillagan er samþykkt með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknarflokksins situr hjá.

    Tillagan er samþykkt svo breytt. MSS25010159

    Marta Maier og Hulda Valdís Valdimarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Samstarfsflokkarnir leggja áherslu á að grunnskólanemendur fái kennslu í fjármálalæsi. Fjármálalæsi er mjög mikilvægt því það veitir nemendum þekkingu og hæfni til að taka upplýstar og skynsamar ákvarðanir um eigin fjármál. Fjármálalæsi er mikilvægur undirbúningur fyrir framtíðina. Í endurskoðaðri aðalnámskrá grunnskóla frá 2024 er fjármálalæsi ekki talið sérstakt námssvið eða námsgrein. Hins vegar er fjármálalæsi talið upp sem hluti af hæfniviðmiðum í stærðfræði, heimilisfræði og samfélagsgreinum við lok 4., 7. og 10. bekkjar. Fjármálalæsi skipar veigamikinn sess í námi nemenda þó greinin sé ekki sjálfstæð kennslugrein enn sem komið er.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að sín breytingartillaga hefði betur fangað efni tillögu fulltrúa í ungmennaráði Laugardals, Háaleitis og Bústaða um að gera fjármálalæsi að skyldufagi í 8.-10. bekk í Reykjavík en sú breytingartillaga sem meirihlutinn í ráðinu samþykkti. Snúið var að samþykkja upphaflegu tillöguna óbreytta þar eð fara verður eftir aðalnámskrá í starfi grunnskólanna í Reykjavík. Eigi að síður er það svo að ungmennaráð í Reykjavík hafa ítrekað lagt fram tillögur í borgarstjórn um að vægi kennslu í fjármálalæsi sé aukið í grunnskólum Reykjavíkur. Taka þarf þessar ábendingar alvarlega og fylgja þeim eftir með fullnægjandi hætti.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 3. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 19. febrúar 2025:

    Lagt er til að skóla- og frístundaráð feli skóla- og frístundasviði að vinna að gerð neyðaráætlunar í ofbeldis- og eineltismálum og skipað verði sérstakt neyðarteymi sérfræðinga sem geti gripið strax inn í alvarleg tilfelli sem upp koma í grunnskólum borgarinnar.

    Tillögunni er vísað frá með með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknarflokksins situr hjá. SFS25020121

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það eru þegar til ýmsar áætlanir og teymi sem sinna ofbeldis- og eineltismálum í grunnskólum. Því er ekki talin þörf á að búa til fleiri áætlanir og teymi. Með tilkomu farsældarlaganna hefur verklag verið skýrt upp í grunnskólum borgarinnar og skerpt á samvinnu við aðila þegar upp koma mál er varða börn og unglinga. Í öllum grunnskólum eru nú starfrækt lausnateymi, sem í situr starfsfólk grunnskóla, ráðgjafar frá miðstöð auk forstöðumanna frístundaheimila/félagsmiðstöðva þar sem staða barna er kortlögð og leitað lausna við að styðja við börn í skóla- og frístundastarfi. Einnig eru starfrækt innan grunnskólanna nemendaverndarráð sem fjalla um einstök börn og úrræði þeim til stuðnings. Bráðateymi s.s. Senter eða farteymi eru á öllum miðstöðvum sem eru skipuð af starfsmönnum miðstöðvar sem bregðast skjótt við ef alvarleg tilfelli koma upp í starfsemi grunnskóla. Þá veitir landsteymi á vegum Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu börnum, foreldrum, kennurum og starfsfólki stuðning og ráðgjöf um úrræði, leiðir og lausnir þvert á kerfi. Reykjavíkurborg hefur tekið saman aðgerðaáætlun gegn ofbeldi þar sem finna má samantekt aðgerða til að sporna gegn ofbeldi og einelti meðal barna og unglinga og á vegum mennta- og barnamálaráðherra er starfandi aðgerðahópur vegna ofbeldis meðal barna og gegn börnum.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks harma það að tillögu okkar sé vísað frá um að unnin verði sérstök neyðaráætlun í ofbeldis- og eineltismálum ásamt því skipað verði sérstakt neyðarteymi sérfræðinga sem geti gripið strax inn í alvarleg tilfelli sem koma upp í grunnskólum borgarinnar. Mikilvægt er að slíkt úrræði sé til staðar í ljósi þeirra alvarlegu ofbeldismála sem fengið hafa að viðgangast í Breiðholtsskóla í allt of langan tíma án þess að gripið hafi verið inn í fyrr en í óefni var komið. Margir kennarar og skólastjórnendur hafa ítrekað bent á að mikilvægt sé að slíkt úrræði sé til staðar þegar alvarleg ofbeldis- og eineltismál koma upp.

    Áheyrnarfulltrúi kennara í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun:

    Kennarar hafa kallað eftir skýru verklagi og verkferlum er varða ofbeldi af hálfu nemenda í grunnskólum borgarinnar. Skráningum á ofbeldisatvikum í grunnskólum er ábótavant og farsælast er að skóla- og frístundasvið vinni að verkferlum og bættum verklagsramma í samstarfi við starfsfólk skólanna. Verklagið þarf einmitt að innihalda leiðir sem tryggja viðeigandi viðbrögð í aðstæðum og tryggja getu starfsfólks til að tryggja eigið öryggi auk öryggi nemenda. Ekki er nóg að birta aðgerðaáætlun yfir þætti sem þarf að vinna að. Það þarf að tryggja fræðslu til starfsfólks um rétt viðbrögð samhliða bættu verklagi og auknu aðgengi að úrræðum. Slík fræðsla ætti að eiga sér stað mjög reglulega á sama hátt og starfsfólk uppfærir skyndihjálparþekkingu sína jafnt og þétt yfir starfsferilinn.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 18. mars 2025, þar sem kallað er eftir ábendingum um efni á dagskrá borgaraþings 2025. MSS25010177

    Kl. 16.04 víkja Andrea Sigurjónsdóttir, Guðrún Kaldal, Jónína Einarsdóttir og Marta Maier af fundinum.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að skóla- og frístundaráð bjóði fulltrúum MemmmPlay að kynna starfsemina sína fyrir ráðinu við næsta hentuga tækifæri.

    Samþykkt. SFS25040023
     

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að Kristrún Lind Birgisdóttir, sem er í forsvari fyrir Ásgarðsskóla, verði fengin til að mæta á fund skóla- og frístundaráðs mánudaginn 5. maí 2025 til að kynna starf skólans.

    Frestað. SFS25040024

    Fylgigögn

  7. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 1. apríl 2025, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kennara og vinnuaðstöðu Laugarnesskóla, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. desember 2024. MSS24120060

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs um embættisafgreiðslur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. apríl 2025, fimm mál. SFS22080009

    Fylgigögn

  9. Fram fer umræða um fréttir af vettvangi skóla- og frístundastarfs. SFS24080154

    Kl. 16.16 víkur Edith Oddsteinsdóttir af fundinum.

  10. Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna óskar eftir því að ráðið fái kynningu þeim á fræðslu- og öryggisnámskeiðum um rétta meðhöndlun og öryggi matvæla sem borgarstjórn samþykkti á fundi 18.3.2025 að gerð yrði krafa um fyrir starfsfólk í eldhúsum í leik- og grunnskólum borgarinnar og sjálfstætt starfandi skólum sem borgin hefur samning við. Í tillögunni er einungis talað um fólk sem ráðið er inn, eru sambærileg námskeið fyrirhuguð fyrir starfsfólk sem þegar starfar í eldhúsum borgarinnar? Sérstaklega væri gott að fá ávarpað hvernig þetta verður frábrugðið námskeiði sem haldið var sem hluti af græna planinu 2022 sjá https://reykjavik.is/graena-planid/thjalfun-matrada og hvernig verður tryggt að þátttaka verði betri en þá.

    Frestað. SFS25040051

  11. Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hvenær er fyrirhugað að halda áfram framkvæmdum við Miðbæjarleikskólann við Njálsgötu? Hafa Basalt og Landslag, þeir arkitektar sem hönnuðu leikskólann, verið beðin um að gera breytingar á hönnun/efnisvali vinningstillögu til þess að auka líkur á að tilboð komi í verkið? Samkvæmt heimasíðu Reykjavíkurborgar er fyrirhugað að leikskólinn verði tilbúinn 2027 en eftir því sem næst verður komið hefur verkefnið ekki verið boðið út.

    SFS25040052

Fundi slitið kl. 16.17

Helga Þórðardóttir Alexandra Briem

Árelía Eydís Guðmundsdóttir Helgi Áss Grétarsson

Líf Magneudóttir Marta Guðjónsdóttir

Sabine Leskopf

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 7. apríl 2025