Skóla- og frístundaráð
Ár 2025, 24. mars, var haldinn 289. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.16.
Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Helga Þórðardóttir formaður (F), Alexandra Briem (P), Árelía Eydís Guðmundsdóttir (B), Helgi Áss Grétarsson (D), Sabine Leskopf (S) og Stefán Pálsson (V). Eftirtalinn fulltrúi tók sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Marta Guðjónsdóttir (D). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Árni Jónsson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Edith Oddsteinsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum; Guðjóna Eygló Friðriksdóttir, skólastjórar í grunnskólum; Jónína Einarsdóttir, leikskólastjórar; Kristín Björnsdóttir, kennarar í grunnskólum; Leona Iguma, Reykjavíkurráð ungmenna og Linda Ósk Sigurðardóttir, starfsfólk í leikskólum. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Steinn Jóhannsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Arndís Steinþórsdóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir, Hjörtur Ágústsson, Ólafur Brynjar Bjarkason, Soffía Pálsdóttir og Eygló Traustadóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Lagðar fram niðurstöður Stofnunar ársins 2024, starfsumhverfiskönnunar meðal starfsmanna skóla- og frístundasviðs. SFS25030125
Guðný Reynisdóttir og Ragnheiður E. Stefánsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 6. mars 2025, um afgreiðslu borgarstjórnar á tillögu borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna um bættar starfsaðstæður í leik- og grunnskólum. MSS25020118
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Þessi liður í aðgerðaráætlun hins nýja borgarstjórnarmeirihluta er góðra gjalda verður en er afar óljós og enn liggur ekki fyrir hvernig útfæra eigi það að bæta starfsaðstæður innan stofnana sem falla undir starfsemi skóla- og frístundaráðs. Það skortir sem sagt útfærslur bæði hvað varðar form- og efnishlið málsins.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 6. mars 2025, um afgreiðslu borgarstjórnar á tillögu borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna um skólaþjónustu ásamt minnisblaði sviðsstjóra velferðarsviðs og sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 17. mars 2025, um skýrslu stýrihóps um biðlista og bréfi sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 24. mars 2025, um tillögur stýrihóps um rýningu biðlista barna eftir sálfræðiþjónustu miðstöðva og mat á framkvæmd þjónustunnar.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að unnið verði út frá því verklagi sem lýst er í meðfylgjandi minnisblaði sviðsstjóra velferðarsviðs og sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 17. mars 2025.
Samþykkt. MSS25020120
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 6. mars 2025, um afgreiðslu borgarstjórnar á tillögu borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna um eflingu skólabókasafna. MSS25020121
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 12. mars 2025:
Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs leggur til að skóla- og frístundasviði verði heimilað að hefja tilraunaverkefni um fjarkennslu í grunnskóla Reykjavíkurborgar vegna nemenda með lögheimili í Reykjavík. Í þessu felst meðal annars að útfæra fjarkennsluna í samvinnu við grunnskóla innan borgarinnar sem er tilbúinn til að halda utan um verkefnið. Tilraunaverkefnið hefjist í upphafi skólaársins 2025-2026 og standi til þriggja ára. Gerður er fyrirvari um að leyfi mennta- og barnamálaráðherra til tilraunaverkefnisins fáist.
Greinargerð fylgir.
Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS25030062
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Við samstarfsflokkarnir fögnum tilraunaverkefninu um fjarkennslu í grunnskóla Reykjavíkurborgar fyrir nemendur með lögheimili í Reykjavík. Gert er ráð fyrir að fyrst og fremst verði um að ræða fjarkennslu fyrir nemendur sem búa tímabundið erlendis, nemendur sem hafa átt erfitt uppdráttar félagslega, nemendur með skólaforðun, nemendur sem orðið hafa fyrir einelti eða eiga áfallasögu, langveika nemendur og nemendur í fíkniefnaneyslu eða með sögu um slíkt. Með því að nýta grunnskóla borgarinnar eru nemendur í návígi við þá þjónustu sem skólinn getur veitt auk þess sem skapast tækifæri á tengslum við annað skóla- og frístundastarf Reykjavíkurborgar.
Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun:
Í greinargerð með tillögu um fjarkennslu í grunnskólum Reykjavíkur kemur fram að tillagan nái m.a. til barna sem hafa átt erfitt uppdráttar félagslega og nemendum sem orðið hafa fyrir einelti. Mikilvægt er að fagfólk á vettvangi frítímans komi að útfærslunni þar sem lögð verði áhersla á að rjúfa félagslega einangrun og/eða styrkja félagslega stöðu með þarfir einstaklingsins að leiðarljósi.
Áheyrnarfulltrúi kennara í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er jákvætt að leitað sé leiða til að mæta fjölbreyttum þörfum nemenda. Skýra þarf hvernig áætlunin er að framkvæma fjarkennslu/fjarnám en samkvæmt kjarasamningi sveitarfélaga og Félags grunnskólakennara ber að greiða kennara 50% álag á hverja kennslustund í fjarkennslu. Tryggja þarf að unnið sé að bættu starfsumhverfi kennara líkt og lagt er fram í öðrum lið á fundinum í dag. Ef ekki er haldið vel utan um breytingar sem þessar geta þær orðið til þess að álag aukist á þá kennara sem þessu sinna og verkefnum á þeirra herðum fjölgi, þ.á.m. aukinn undirbúningstími fyrir hverja kennslustund þar sem undirbúa þyrfti jafnvel margs konar útfærslur á kennslu sama viðfangsefnis. Börn sem glíma við skólaforðun hafa oft einhverjar undirliggjandi ástæður sem hafa áhrif á færni þeirra og/eða líðan á einhvern hátt og spyrja má sig að því hvort æskilegt sé að þau börn séu í fjarnámi. Einnig er mikilvægt að skýra hvernig eftirfylgni með námi nemendanna skuli vera háttað.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 13. mars 2025:
Lagt er til að skóla- og frístundaráð samþykki tímabundinn flutning á starfsemi leikskólans Árborgar, Hlaðbæ 17, 110 Reykjavík og að starfsemin flytjist í Selásskóla að Selásbraut 109, 110 Reykjavík. Gert er ráð fyrir að breytingin nái til sumarsins 2026 eða þar til að framkvæmdum að Hlaðbæ 17 verður lokið. Þá verði öll starfsemi að nýju að Hlaðbæ 17, 110 Reykjavík.
Greinargerð fylgir.
Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS23110086
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er sorgarsaga hversu langan tíma hefur tekið að ljúka framkvæmdum að húsnæði leikskólans Árborgar að Hlaðbæ 17. Ráðið er hér enn einu sinni að samþykkja að starfsemi leikskólans verði í Selásskóla en þar hefur hann verið síðan árið 2022. Vonandi mun framkvæmdaáætlun standast í þetta skipti og Árborg hefji aftur starfsemi að Hlaðbæ 17 síðsumars eða haustið 2026.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 13. mars 2025:
Lagt er til að skóla- og frístundaráð samþykki tímabundinn flutning á starfsemi leikskólans Funaborgar, Funafold 42, 112 Reykjavík og að starfsemin flytjist í Húsaskóla að Dalhúsum 41, 112 Reykjavík. Gert er ráð fyrir að breytingin nái til loka árs 2026 eða þar til að framkvæmdum að Funafold 42 verður lokið. Þá verði öll starfsemi að nýju að Funafold 42, 112 Reykjavík.
Greinargerð fylgir.
Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS25030063
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 13. mars 2025:
Lagt er til að skóla- og frístundaráð samþykki tímabundinn flutning á starfsemi leikskólans Kvistaborgar, Kvistalandi 26, 108 Reykjavík og að starfsemin flytjist að Haðalandi 26, 108 Reykjavík. Gert er ráð fyrir að breytingin nái til loka árs 2026 eða þar til að framkvæmdum að Kvistalandi 26 verður lokið. Þá verði öll starfsemi að nýju að Kvistalandi 26, 108 Reykjavík.
Greinargerð fylgir.
Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS25030064
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 13. mars 2025:
Lagt er til að skóla- og frístundaráð samþykki tímabundinn flutning á starfsemi leikskólans Laugasólar (Laugaborg), Leirulæk 4-6, 105 Reykjavík sem er nú staðsett í Safamýri 5, 108 Reykjavík þar til 1. ágúst 2025. Eftir það mun starfsemin flytjast í Ármúla 28, 108 Reykjavík til loka árs 2028 eða þar til framkvæmdum lýkur á húsnæði Laugasólar (Laugaborg). Þá verði öll starfsemi að nýju að Leirulæk 4-6, 105 Reykjavík.
Greinargerð fylgir.
Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS25030065
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um málefni Hjallastefnunnar. SFS25030053
-
Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 19. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 10. mars 2025:
Þar sem húsnæðisvandi Hjallastefnunnar hefur á þessu kjörtímabili ekki verið til umræðu í skóla- og frístundaráði telja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins nauðsynlegt að á næsta fundi ráðsins verði lagðar fram þær tímabundnu lausnir sem unnið er að á vettvangi skóla- og frístundasviðs. Á sama fundi leggi sviðið einnig fram framtíðarlausn fyrir húsnæðisvanda skólastarfs Hjallastefnunnar.
Frestað með fimm atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. SFS25030053
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um ráðningar stjórnenda á borgarreknum stofnunum skóla- og frístundasviðs og upplýsingagjöf til kjörinna fulltrúa um ferli slíkra ráðninga.
Ragnheiður E. Stefánsdóttir, Auður Björgvinsdóttir og Jóhanna H. Marteinsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. SFS25030102
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Lagt er til að skóla- og frístundasviði verði falið að skoða kosti þess og galla að það svið taki yfir allt samstarf við MemmPlay, sem starfrækir opna leikskólann, í stað þess að samstarfið velti á ákvörðunum velferðarráðs/velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.
Frestað. SFS25030126
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Framsóknar styður að skóla- og frístundasvið leiti leiða til að fara í samstarf við MemmPlay. MemmPlay hafa unnið frábærlega faglegt starf sem kemur foreldrum og börnum vel. Í því starfi sameinast gott foreldrasamstarf og samstarfsvettvangur í hverfum þar sem fólk getur kynnst og styrkt böndin. MemmPlay starfa að sænskri fyrirmynd sem hefur reynst vel bæði hérlendis og erlendis. MemmPlay hefur líst áhuga á að auka þjónustu í hverfum borgarinnar.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 13. mars 2025, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um lokun leikskóladeilda vegna manneklu, sbr. 10. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 27. janúar 2025. SFS25010173
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Samkvæmt þessu svari þurftu 49 leikskólar af 67 borgarreknum leikskólum að skerða þjónustu á síðasta ári með þeim afleiðingum að börn hafa verið send heim annaðhvort hluta úr degi eða heilan dag. Núna í byrjun árs hafa 9 leikskólar þurft að grípa til þess ráðs að skerða þjónustu vegna manneklu næstu vikur og mánuði. Þessar tölur, sem og aðrar upplýsingar sem fram koma í svarinu, varpa ljósi á djúpstæðan vanda sem steðjar að borgarrekna leikskólakerfinu. Mikilvægt er að brugðist verði við þessari stöðu strax með átaki í mannaráðningum til að tryggja fulla þjónustu og koma í veg fyrir að fleiri leikskólar neyðist til að skerða þjónustu sína. Einnig minna skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins á að kjörnir fulltrúar flokksins í borgarstjórn hafa ítrekað lagt fram fjölbreyttar lausnir að dagvistunarmálefnum barna á leikskólaaldri, svo sem að fara í samstarf við fyrirtæki og stofnanir um rekstur leikskóla og hefja heimgreiðslur til foreldra meðan beðið er eftir leikskólaplássi.
Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna skorar á borgina að styðja frekar við ráðningar í leikskólum og sérstaklega við þá leikskóla sem hafa verið í langtíma fáliðun. Styðja þarf við stjórnendur þeirra leikskóla sem eru í þessari stöðu þar sem fáliðun eykur mjög álag á stjórnendur og líka á annað starfsfólk.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 14. mars 2025, um embættisafgreiðslur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, tvö mál. SFS22080009
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um fréttir af vettvangi skóla- og frístundastarfs. SFS24080154
Fundi slitið kl. 16.20
Helga Þórðardóttir Alexandra Briem
Árelía Eydís Guðmundsdóttir Helgi Áss Grétarsson
Marta Guðjónsdóttir Sabine Leskopf
Stefán Pálsson
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 24. mars 2025