Skóla- og frístundaráð
Ár 2025, 19. febrúar, var haldinn 287. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 14.00.
Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Árelía Eydís Guðmundsdóttir formaður (B), Alexandra Briem (P), Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir (J), Guðný Maja Riba (S), Helgi Áss Grétarsson (D), Marta Guðjónsdóttir (D) og Skúli Helgason (S). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Edith Oddsteinsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum; Guðjóna Eygló Friðriksdóttir, skólastjórar í grunnskólum; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jónína Einarsdóttir, leikskólastjórar; Lilja Margrét Möller, kennarar í grunnskólum; Linda Ósk Sigurðardóttir, starfsfólk í leikskólum og Marta Maier, Reykjavíkurráð ungmenna. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Steinn Jóhannsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Aðalheiður Stefánsdóttir, Arndís Steinþórsdóttir, Frans Páll Sigurðsson, Guðrún Sigtryggsdóttir, Hjördís Rut Sigurjónsdóttir, Hjörtur Ágústsson, Ragnheiður E. Stefánsdóttir, Soffía Pálsdóttir og Eygló Traustadóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 6. febrúar 2025, um kosningu í skóla- og frístundaráð þar sem fram kemur að Skúli Helgason taki sæti í skóla- og frístundaráði í stað Sabine Leskopf. Jafnframt að Ólöf Helga Jakobsdóttir og Pétur Marteinn U. Tómasson taki sæti sem varafulltrúar í stað Stein Olav Romslo og Söru Bjargar Sigurðardóttur. MSS22060048
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 5. febrúar 2025, um ofbeldis- og eineltisvarnir í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi. SFS25010199
Guðrún Halla Jónsdóttir, Sigrún Sveinbjörnsdóttir og Dagbjört J. Þorsteinsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
- Kl. 15.17 víkur Aðalheiður Stefánsdóttir af fundinum.
Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Fjölgun ofbeldismála í grunnskólum þar með talið í Breiðholtsskóla er birtingarmynd aukinnar áhættuhegðunar ungmenna. Mikilvægt er að bregðast hratt og vel við og taka utan um þau ungmenni sem þurfa á stuðningi og viðeigandi úrræðum að halda. Auka þarf sérfræðistuðning inn í skólann og einstaklingsstuðning eftir þörfum. Skóla- og frístundasvið borgarinnar í samstarfi við Suðurmiðstöð og velferðarsvið undir formerkjum Betri borgar fyrir börn hefur sett af stað vinnu sem miðar að því að fjölga í hópi fagaðila og vinna með stjórnendum og starfsfólki að því að bæta skólabrag og líðan nemenda svo hægt verði að skapa friðsamlegri menningu í Breiðholtsskóla. Mikilvægt er að tryggja aðkomu nærsamfélagsins í Breiðholti í ferlinu. Nauðsynlegt er að tryggja þann stuðning í námi, félagslífi og samskiptum við skólann sem börn og aðstandendur þeirra þurfa til að þau fái notið sín til fulls, óháð aðstæðum og félagslegum bakgrunni. Stuðningurinn þarf að taka mið af samsetningu nemendahópsins og nærsamfélagsins til að hann verði markviss og skili árangri. Í menntastefnu Reykjavíkurborgar eru félagsfærni og heilbrigði meðal fimm áhersluþátta og þarf að leggja enn meiri áherslu á geðrækt barna og ungmenna í því samhengi. Auka þarf snemmtækan stuðning á yngsta stigi grunnskólans til að lágmarka alvarleg hegðunarfrávik og ofbeldishegðun síðar.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Brýnt er að auka aðgerðir til að tryggja öflugar eineltis- og ofbeldisvarnir í starfi grunnskóla og annarra stofnana á vettvangi skóla- og frístundasviðs. Tal um þessi mál í formi stefna, aðgerðaráætlana og álíka, hafa minna vægi. Það hefur verið hryggilegt hvernig mál hafa þróast í Breiðholtsskóla. Nauðsynlegt er að grípa til aðgerða til að leysa úr því máli en að sama skapi að lærdómur sé dreginn af því. Stjórnsýsla í málum af þessu tagi verður að vera skilvirk og markviss.
Áheyrnarfulltrúi skólastjóra í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúi skólastjórnenda bendir á að skólastjórnendur hafa um árabil kallað eftir raunverulegum stuðningi og úrræðum vegna erfiðra mála. Ýmislegt hefur verið vel gert en betur má ef duga skal. Það vantar aðstoð þar sem stutt er við nemendur með erfiða hegðun og/eða nemendur sem eru í áhættuhegðun s.s. fíkniefnaneyslu innan og utan skólanna. Því miður er staðreyndin sú að hér þarf ýmislegt að bæta. Það eru of langir biðlistar eftir greiningu og stuðningi. Það eru úrræði t.d. á þjónustumiðstöðvunum, sem ekki tekst að manna. Fá pláss eru í Brúarskóla, skóla sem er sérhæfður til að takast á við erfiða hegðun. Sæti í íslenskuverum eru afar fá miðað við fjölda innflytjenda og svona mætti lengi telja. Óskað er eftir samtali við skólastjórnendur um hvað þarf að bæta og í hvaða röð. Þetta eru málin sem skólastjórar þekkja hvað best, koma mikið inn í og brenna á þeim. Því miður hefur skólastjórum fundist vanta upp á gagnvirkt samtal við innleiðingu góðra og mikilvægra verkefna eins og “Betri borg fyrir börn” og “Farsæld barna”. Skólastjórnendur þurfa að vera með í ákvörðunum sem snúa að starfsemi skólanna og eru tilbúnir í samtalið.
Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva þakkar fyrir greinargóða kynningu á því góða forvarnarstarfi sem á sér stað í skóla- og frístundastarfi. Starfsfólk félagsmiðstöðva og frístundaheimila tekur undir áhyggjur af aukinni áhættuhegðun meðal barna og unglinga. Í frístundaheimilum fer fram frábært fagstarf fyrir börn í 1.-4. bekk og í félagsmiðstöðvum fer fram frábært fagstarf fyrir börn í 8.-10. bekk. Fyrir börn í 5.-7. bekk fer afar lítið starf fram, eða 1,5 klukkustund á viku fyrir hvern árgang. Stjórnendur í frístundastarfi hafa ítrekað bent kjörnum fulltrúum á það bil sem að myndast í frístundaþjónustu og þær áhyggjur sem að þeir hafa af auknu ofbeldi, einelti og áhættuhegðun í aldurshópnum. Mikilvægt er að Reykjavíkurborg taki til greinargóðar athugunar af hverju börn í 5.-7. bekk hafa ekki aðgang að frístundastarfi félagsmiðstöðvanna nema að litlu leyti. Í félagmiðstöðvastarfi er lögð áhersla á að þjálfa félags- og tilfinningahæfni barna, áhersla er lögð á að þjálfa samskiptafærni, efla samkennd og auka þrautseigju. Skorað er á kjörna fulltrúa og stjórnendur skóla- og frístundasviðs að bæta úr þeim skorti á félagsmiðstöðvastarfi sem nú er í borginni.
Áheyrnarfulltrúar kennara í grunnskólum, leikskólastjóra og starfsmanna leikskóla leggja fram svohljóðandi bókun:
Ofbeldi hefur aukist jafnt í samfélaginu sem og innan skólanna undanfarin misseri og kennarar lýsa yfir áhyggjum sínum vegna þróunarinnar. Kennarar gera jafnframt kröfu um að borgaryfirvöld bregðist við og beiti sér fyrir fjölgun úrræða og auknum aðgangi að þeim fyrir nemendur sem glíma við alvarlegan hegðunarvanda. Verkferla og framkvæmd á þeim þarf að búa til og skýra svo að við vandanum séu viðbrögð og viðurlög skýr. Kennarar veigra sér við að ganga á milli nemenda sem beita ofbeldi vegna hættu á að verða fyrir ofbeldi sjálfir auk þess sem þeir eru ekki tryggðir fyrir miska hljótist hann af inngripi. Aðgerðaáætlun vegna ofbeldis er af hinu góða en skipun starfshópa hjálpar ekki skólakerfinu í þeirri stöðu sem ríkir nú. Kennarar þurfa að vera tryggðir í störfum sínum og ekki eiga það á hættu að þurfa að lögsækja foreldra barns sem veldur kennara skaða eða jafnvel örorku. Dæmin sanna að sú er raunin. Kennarar þurfa að geta gripið til neyðarúrræða í aðstæðum og til þess þarf aukna aðstoð frá yfirvöldum. Aðgerðaáætlun með almennu orðalagi nær ekki utan um vandann. Við þurfum stuðning og regluverk inn í kerfið núna.
Áheyrnarfulltrúar kennara í grunnskólum, starfsfólks í leikskólum, skólastjóra í grunnskólum, leikskólastjóra og framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggja fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúar kennara, starfsmanna leikskóla, skólastjórnenda, leikskólastjórnenda og framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva benda á mikilvægi þess að hverfa frá stórfelldum niðurskurði til skóla og frístundastarfs í Reykjavík. Nú þarf að taka höndum saman, setja börnin í fyrsta sæti þegar forgangsraðað er í fjármálastjórn borgarinnar. Það þarf að vera hægt að halda úti góðu, framsæknu skólastarfi þar sem vel menntað fólk vill starfa og takast á við krefjandi verkefni. Hér má ekki gefa eftir því til þess að gera hlutina vel þarf fjármagn, það má alls ekki draga úr því.
Fylgigögn
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að skóla- og frístundaráð feli skóla- og frístundasviði að vinna að gerð neyðaráætlunar í ofbeldis- og eineltismálum og skipað verði sérstakt neyðarteymi sérfræðinga sem geti gripið strax inn í alvarleg tilfelli sem upp koma í grunnskólum borgarinnar.
Frestað. SFS25020121
Fundi slitið kl. 15:30
Árelía Eydís Guðmundsdóttir Alexandra Briem
Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir Guðný Maja Riba
Helgi Áss Grétarsson Marta Guðjónsdóttir
Skúli Helgason
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 19. febrúar 2025