Skóla- og frístundaráð
Ár 2025, 27. janúar, var haldinn 286. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.14.
Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Árelía Eydís Guðmundsdóttir formaður (B), Alexandra Briem (P), Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir (J), Guðný Maja Riba (S), Helgi Áss Grétarsson (D), Marta Guðjónsdóttir (D) og Sabine Leskopf (S). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Andrea Sigurjónsdóttir, starfsfólk í leikskólum, Jónína Einarsdóttir, leikskólastjórar og Leona Iguma, Reykjavíkurráð ungmenna. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir sviðsstjóri, Frans Páll Sigurðsson, Guðrún Sigtryggsdóttir, Ólafur Brynjar Bjarkason og Eygló Traustadóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Lagt er til að skóla- og frístundaráð samþykki afbrigði til að taka á dagskrá málefni Maríuborgar að beiðni skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands.
Tillagan er felld með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata gegn þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands. SFS25010159
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Samkvæmt 2. ml. 2. mgr. 7. gr. samþykkta fyrir skóla- og frístundaráð Reykjavíkurborgar er skylt að taka mál fyrir sem fulltrúar í ráðinu hafa óskað eftir. Fulltrúar minnihlutans óskuðu eftir því í tæka tíð að málefni leikskólans Maríuborgar yrði tekið til umræðu undir sérdagskrárlið á fundi ráðsins í dag. Samkomulag við formann ráðsins um að svo yrði ekki var reist á því að málefni leikskólans þyrfti að svo stöddu að standa utan við opinbera umræðu, meðal annars í fjölmiðlum. Þessi forsenda samkomulagsins breyttist þegar málefni leikskólans komust í hámæli í fjölmiðlum síðastliðinn föstudag. Af þeim ástæðum óskuðu fulltrúarnir eftir því í dag að málið yrði tekið fyrir sem sérdagskrárliður en meirihlutinn greiddi atkvæði gegn því. Gegnsæi í svona erfiðu máli er æskilegt til að efla traust á stjórnsýslu borgarinnar og harma fulltrúarnir afgreiðslu meirihlutans.
-
Fram fer kynning og umræða um húsnæðismál leikskóla, helstu verkefni á árinu 2025. SFS25010127
Ásdís Olga Sigurðardóttir, Guðni Guðmundsson, Ásdís Hallgrímsdóttir og Daníel Benediktsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Líkt og ráða má af kynningu um viðhald húsnæðis leikskóla þá er uppsafnað brýnt viðhald umfangsmikið. Viðhaldsskuldin er og hefur verið alltof mikil eins og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað bent á árum saman. Brugðist var alltof seint við með þeim afleiðingum að vel yfir 300 leikskólapláss eru ónýtanleg.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands tekur undir áhyggjur kennara og leikskólastjóra af mönnunarvanda í leikskólum borgarinnar og telur að gera þurfi störf á leikskóla meira aðlaðandi en nú er, með betri kjörum og öruggara starfsumhverfi eins og hægt er, auk þess sem skora þurfi á menntakerfið að koma til móts við mönnunarvandann með færni- og starfsnámskeiðum fyrir nýja starfsmenn til að nefna dæmi. Námskeiðin væru síðan metin til launahækkunar svo að til staðar sé hvati til að bæta sig í starfi en námskeiðin verði einnig metin til námseininga ákveði nýir starfsmenn að fara í leikskólakennaranám í framhaldi af störfum sínum á leikskólum borgarinnar.
Áheyrnarfulltrúar leikskólastjóra og starfsmanna í leikskólum leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúarnir fagna endurbótum á húsnæði og uppbyggingu á leikskólum. Hins vegar er bent á það að það er nú þegar mönnunarvandi og hann verður ekki leystur með nýju húsnæði eða fjölgun plássa. Miðað við 250 ný pláss fyrir haustið 2025 þá værum við að tala um rúmlega 40 starfsmenn ef við miðum við 6 börn að meðaltali á starfsmann. Bent er á að staða leikskólans er gríðarlega erfið og mönnun er nú þegar ábótavant. Við hvetjum ykkur til þess að standa við gerða samninga við kennara og stjórnendur frá árinu 2016, þið pólitískt kjörnir fulltrúar hafði valdið í ykkar höndum.
-
Lögð fram tillaga og greinargerð sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 23. janúar 2025, varðandi breytingar á reglum um leikskólaþjónustu ásamt breyttum reglum um leikskólaþjónustu og núgildandi reglum um leikskólaþjónustu sem var síðast breytt í borgarráði 19. september 2024.
Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS25010095
Áheyrnarfulltrúar leikskólastjóra og starfsmanna í leikskólum leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er margt gott í nýjum reglum en bent er á að þær aðferðir sem nýttar voru við innritun í mars 2024 ganga ekki upp. Í ljósi greinar sem birtist á Vísi fyrir helgi þar sem skrifstofustjóri leikskólamála segir frá því að það hafi verið sett börn í öll pláss í Reykjavík, óháð mönnun og svo farið fáliðunarferli, teljum við það ekki vera þróun sem getur gengið áfram. Það er engin sátt með þessi vinnubrögð hjá leikskólastjórum að fylla alla skóla og fara svo í fáliðun, þetta er mjög vanhugsuð aðferð sem veldur álagi á leikskólastjóra og virðist einungis vera til þess fallin að valda enn meiri óánægju með leikskóla Reykjavíkur hjá foreldrum. Við hvetjum ykkur til að endurskoða þessar aðferðir en þær hafa ekki verið leikskólum Reykjavíkur til framdráttar. Það er vond staða fyrir fagstjóra að reyna að troða börnum inn í leikskólana sem eru ómannaðir 1. nóvember og vond staða fyrir leikskólastjóra að vera í endalausri fáliðun í stað þess að reyna að hlúa að því fólki sem þó er til staðar í leikskólanum. Foreldrar vilja pláss en ekki pláss sem er bara suma daga sem fer eftir mönnun hvers dags eða með lokun á föstudögum á hádegi.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 22. janúar 2025, varðandi endurnýjun þjónustusamninga við sjálfstætt starfandi leikskóla ásamt yfirlit yfir samninga við sjálfstætt starfandi leikskóla í Reykjavík, ódags., fyrirmynd að þjónustusamningi Reykjavíkurborgar við sjálfstætt starfandi leikskóla í Reykjavík, ódags, nýjum reglum um rekstrar- og húsnæðisframlag til sjálfstætt starfandi leikskóla með samning við skóla- og frístundasvið vegna barna frá 18 mánaða til 6 ára ásamt reglum sem giltu frá 1. október 2023, nýjum reglum um rekstrar- og húsnæðisframlag til sjálfstætt starfandi leikskóla með samning við skóla- og frístundasviðs vegna barna 9/12 mánaða til 36 mánaða ásamt reglum sem giltu frá 1. október 2023, reglum um leikskólaþjónustu sem tóku gildu 19. september 2024, reglum Reykjavíkurborgar um styrki sem tóku gildi 25. maí 2017 og umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 18. nóvember 2024:
Lagt er til að skóla- og frístundaráð samþykki að fela sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs að gera samninga við tilgreinda sjálfstætt starfandi leikskóla til samræmis við meðfylgjandi yfirlit í fylgiskjali 1 yfir rekstraraðila og fjölda barna sem heimilt er að greiða framlag vegna og fyrirmynd að samningi í fylgiskjali 2.
Gildistími samninga verði frá 1. janúar 2025 til 31. desember 2027. Í fyrirmynd að samningi kemur fram að litið sé svo á að eldri samningar aðila, með síðari viðaukum, hafi haldið gildi sínu þar til nýr samningur tekur gildi þann 1. janúar 2025. Gerður er fyrirvari um að uppfyllt séu skilyrði til reksturs leikskóla og samningsbundnar skyldur. Vegna eins leikskóla verði gerður samningur frá 1. janúar 2025 til 30. júní 2025, sjá nánar í greinargerð með tillögunni. Að þeim tíma liðnum verði samningur framlengdur til 31. desember 2027, að því gefnu að úrbætur hafi átt sér stað.
Lagt er til að ákvæði 6.12 samningsins sem varðar beiðnir sjálfstætt starfandi leikskóla um frávik frá innritun eftir kennitölu, elsta barnið fyrst, í gr. 6.3 samningsins, komi ekki til framkvæmda vegna innritunar vorið 2025 en komi til framkvæmda eigi síðar en 1. júlí 2025. Vegna innritunar fyrir komandi skólaár 2025 - 2026 sem fram fer á tímabilinu 1. mars til 15. apríl 2025 er sjálfstætt starfandi leikskólum heimilt að innrita samkvæmt þeim innritunarreglum sem í gildi hafa verið hjá þeim en þó með það að leiðarljósi sem áður og til samræmis við samninginn að innritað sé eftir kennitöluröð, elsta barnið fyrst, börn með lögheimili í Reykjavík.
Að innritun lokinni þann 15. apríl 2025 verði skipuð samstarfsnefnd af hálfu skóla- og frístundasviðs og Samtaka sjálfstæðra skóla sem hefur það verkefni að skilgreina hvaða málefnalegu sjónarmið, umfram þau sem nú þegar eru skilgreind í reglum um leikskólaþjónustu, geti orðið grunnur að heimild til frávika frá innritun eftir kennitöluröð í gr. 6.12 fyrirmyndar að samningi. Engu að síður gildir að Reykjavíkurborg er á grundvelli 26. gr. laga um leikskóla nr. 90/2008 heimilt að setja reglur um innritun í leikskóla í sveitarfélaginu. Gerður er fyrirvari um að það er skóla- og frístundaráð og borgarráð sem taka endanlega ákvörðun varðandi viðmið um frávik, reglur, samþykkt eða synjun beiðna um frávik frá innritun eftir kennitöluröð. Tillögur skóla- og frístundasviðs til skóla- og frístundaráðs liggi fyrir eigi síðar en 1. júní 2025.
Lagt er til að frá 1. janúar 2025 til 31. mars 2025 verði heimilt að greiða sama framlag og vegna vistunar reykvískra barna hjá dagforeldrum á aldrinum 12 til 18 mánaða til leikskóla með samning vegna barna á aldrinum 18 mánaða til sex ára. Þetta er gert í því skyni að umræddir leikskólar hafi ráðrúm til að óska eftir breytingu á rekstrarleyfi og framlagi ef vilji stendur til þess.Greinargerð fylgir.
Samþykkt. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá. Vísað til borgarráðs. MSS22100084
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggur fram svohljóðandi bókun:
Samningsmarkmið fyrir samstarf við sjálfstætt starfandi leikskóla tóku gildi þann 1. janúar 2025 og eru niðurstöður ítarlegs samráðs og viðræðna. Þessi mikla vinna skilaði hér sterkum grunni fyrir fjölbreytt leikskólastarf í borginni og gott samstarf við sjálfstætt starfandi leikskóla sem bjóða mikilvægt gæðastarf í þágu barna og fjölskyldna í borginni. Samstarfsnefndinni er ekki ætlað að breyta þeim niðurstöðum eða þeim markmiðum sem lagt er upp með heldur mun hún fylgja eftir innleiðingu á samþykktum samningsmarkmiðum varðandi innritun á grundvelli kennitalna barna og lögheimilis í Reykjavík og styðja skólana í því ferli á aðlögunartíma.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Hinn 21. nóvember 2024 var samþykkt samhljóða í borgarráði að veita sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs heimild til að gera samninga við sjálfstætt starfandi leikskóla. Við þessa samþykkt í dag, um endurnýjun þjónustusamninga við sjálfstætt starfandi leikskóla í Reykjavík, vilja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja á það ríka áherslu að það getur verið málefnalegt, vegna sérstakra aðstæðna, bæði faglega og fjárhagslega, að vikið sé frá meginreglunni um að veiting leikskólaplássa fari eftir kennitöluröð umsækjenda. Frávik af slíku tagi eiga ekki síst við vegna reksturs sjálfstætt starfandi leikskóla sem teljast smáir. Kostur þess að hafa flóru sjálfstætt starfandi leikskóla er ótvíræður þar eð starfsemi þeirra ýtir undir fjölbreytni og aukna gerjun á þessu stigi menntakerfisins. Mikilvægt er því að sameiginleg nefnd frá skóla- og frístundasviði og Samtökum sjálfstæðra skóla, sem taka á til starfa eftir 15. apríl næstkomandi, móti sanngjörn og eðlileg viðmið um frávik frá áðurnefndri meginreglu um inntöku í leikskóla eftir kennitöluröð.
Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi foreldra barna í leikskólum hvetur Reykjavíkurborg til þess að setja ákvæði um menntun og þjálfun matráða og starfsfólks í eldhúsum sjálfstætt starfandi leikskóla í samningana til þess að tryggja að matur sem eldaður og/eða framreiddur er fyrir börn sé öruggur. Í samningnum er gerð krafa á sjálfstætt starfandi leikskóla um að birta fáliðunaráætlanir á heimasíðum leikskólanna. „9.2 Leikskólinn skal útbúa viðbragðsáætlun vegna fáliðunar og ber honum að birta hana á heimasíðu sinni. Leikskólanum ber að tilkynna fagstjóra í Miðstöð ef til þess kemur að senda þurfi börn heim vegna fáliðunar.“ Vakin er athygli á því að Reykjavíkurborg birtir ekki fáliðunaráætlanir fyrir borgarrekna leikskóla á vefsíðu borgarinnar. Óskað er eftir að Reykjavíkurborg bæti úr því.
Kl. 14.50 tekur Ragnheiður E. Stefánsdóttir sæti á fundinum.
Fylgigögn
- Tillaga
- Yfirlit yfir leikskóla
- Fyrirmynd að þjónustusamningi
- Reglur um rekstrar- og húsnæðisframlag - 18 mánaða til 6 ára - nýjar
- Reglur um rekstrar- og húsnæðisframlag - 9/12 mánaða til 36 mánaða - nýjar
- Reglur um rekstrar- og húsnæðisframlag - 18 mánaða til 6 ára - núgildandi
- Reglur um rekstrar- og húsnæðisframlag 6/9 mánaða til 36 mánaða - núgildandi
- Reglur um leikskólaþjónustu
- Reglur um styrki
- Umsögn FAS
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 20. janúar 2025 ásamt drögum að nýju rekstrarleyfi fyrir leikskólann Skerjagarð og rekstrarleyfi Skerjagarðs frá árinu 2015:
Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs leggur til að rekstrarleyfi leikskólans Skerjagarðs verði breytt með þeim hætti að heimilt verði að vera með allt að 54 börn á aldrinum 18 mánaða til sex ára þar af fjögur á aldrinum 12 til 18 mánaða. Lagt er til að nýtt rekstrarleyfi taki gildi 1. febrúar 2025 og á sama tíma falli úr gildi rekstrarleyfi vegna leikskólans, dags. í júní 2015.
Greinargerð fylgir.
Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS23080157
Fylgigögn
-
Lögð er fram til kynningar svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 23. janúar 2025, ásamt drögum að nýjum reglum um fjölda barna í leikskólum:
Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs leggur til að reglur Reykjavíkurborgar um fjölda barna í leikskólum verði samþykktar. Þar er kveðið á um ákvörðun um fjölda barna í leikskóla sem og tímabundnar breytingar á hámarksfjölda.
Greinargerð fylgir. SFS25010126
Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra leggur fram svohljóðandi bókun:
Enginn er betur til þess fallinn að meta hámarksfjölda barna við leikskólann heldur en leikskólastjóri og er tillögunni mótmælt harðlega. Reykjavíkurborg er skylt að fara eftir reglugerð nr. 655/2009 um starfsumhverfi leikskóla en þar kemur það skýrt fram að ákvörðunarvaldið um fjölda og úthlutun leikskólaplássa sé í höndum leikskólastjóra. Þann 25. maí 2022 voru birt í Samráðsgátt stjórnvalda drög að breytingu á reglugerð nr. 655/2009, þess efnis að færa ákvörðunarvald um fjölda barna á leikskólum úr höndum leikskólastjóra yfir til sveitafélaga. Í umsögn Reykjavíkurborgar dags. 9. júní 2022, var lagt til að þeim verði breytt á þann veg að sveitarstjórn hefði heimild til þess að setja reglur um hvernig skyldi staðið að ákvörðun um fjölda barna í leikskóla hverju sinni. Skemmst er frá því að segja að mikil mótmæli urðu vegna þessa og fór svo að reglugerðinni var ekki breytt og því er ákvörðunarvaldið enn í höndum leikskólastjóra. Það yrði mikið óheillaspor fyrir Reykjavík að taka ákvörðunarvaldið af leikskólastjórum og færi gegn lögum og reglum þar um. Í ljósi þess að víða eru fáliðunaráætlanir í gangi í leikskólum er það sérstaklega mikilvægt að leikskólastjórar meti stöðu hverrar starfsstöðvar með tilliti til mönnunar hversu mörgum börnum sé hægt að veita leikskólapláss.
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um fréttir af vettvangi skóla- og frístundastarfs. SFS24080154
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að staða biðlista eftir plássi á frístundaheimili verði lögð fram á næsta reglulega fundi skóla- og frístundaráðs sem fyrirhugaður er 10. febrúar 2025.
SFS25010157
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að staða biðlista eftir leikskóla verði lögð fram á næsta reglulega fundi skóla- og frístundaráðs sem fyrirhugaður er 10. febrúar 2025.
SFS25010158
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Óskað er eftir sundurliðuðum lista yfir þá leikskóla sem loka hafa þurft deildum vegna manneklu. Jafnframt er óskað eftir upplýsingum um þá leikskóla sem hafa þurft að skerða þjónustu sína um heilan dag í viku eða hluta dags vegna manneklu síðastliðið ár til dagsins í dag.
SFS25010173
Fundi slitið kl. 15.21
Árelía Eydís Guðmundsdóttir Alexandra Briem
Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir Guðný Maja Riba
Helgi Áss Grétarsson Marta Guðjónsdóttir
Sabine Leskopf
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 27. janúar 2025