Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 285

Skóla- og frístundaráð

Ár 2025, 13. janúar, var haldinn 285. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.15.
Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Árelía Eydís Guðmundsdóttir formaður (B), Alexandra Briem (P), Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir (J), Birna Hafstein (D), Guðný Maja Riba (S), Helgi Áss Grétarsson (D) og Sabine Leskopf (S). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Guðjóna Eygló Friðriksdóttir, skólastjórar í grunnskólum; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jónína Einarsdóttir, leikskólastjórar; Lilja Margrét Möller, kennarar í grunnskólum; Linda Ósk Sigurðardóttir, starfsfólk í leikskólum og Marta Maier, Reykjavíkurráð ungmenna. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir sviðsstjóri, Arndís Steinþórsdóttir, Frans Páll Sigurðsson, Guðrún Sigtryggsdóttir, Ólafur Brynjar Bjarkason, Soffía Pálsdóttir og Eygló Traustadóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 11. desember 2024, þar sem óskað er eftir umsögn skóla- og frístundaráðs um tillögur stýrihóps um rýningu biðlista barna og ungmenna eftir sálfræðiþjónustu miðstöðva og mat á framkvæmd þjónustunnar ásamt skýrslu stýrihópsins, dags. 17. nóvember 2024 og kynningu á niðurstöðum stýrihópsins.

    Jafnframt lögð fram umsögn skóla- og frístundasviðs, dags. 27. desember 2024, um skýrslu stýrihóps um rýningu á biðlista barna og ungmenna eftir sálfræðiþjónustu miðstöðva og mat á framkvæmd þjónustunnar.

    Samþykkt. MSS24030028

    Kolbrún Baldursdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar meirihlutans þakka stýrihópnum fyrir vel unnin störf í yfirferð um biðlista barna eftir skólaþjónustu. Á síðustu árum og mánuðum hefur mikið breyst í málaflokknum með tilkomu farsældarlaga og Betri borgar fyrir börn. En ljóst er að hluti af þeirri umbreytingu þarf að vera skýr og öguð vinnubrögð og verklag um veitingu þjónustu og notkun biðlista. Sú úttekt og vinna sem hér hefur verið unnin er nauðsynleg og hér er bent á bæði flöskuhálsa í kerfinu og atriði sem betur mega fara til þess að starfsfólk, börn og foreldrar geti haft traust á þeim biðlistum sem í notkun eru til þess að þeir nýtist eins og þeir ættu að gera. Með innleiðingu nýrrar málaskrár og með skýrari verkferlum er vonandi að biðlistar muni gefa réttari mynd af stöðu mála í skólaþjónustu.

    Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva þakkar fyrir kynningu á tillögum stýrihóps um rýningu biðlista barna eftir sálfræðiþjónustu miðstöðva og mat á framkvæmd þjónustunnar. Í skýrslunni kemur fram að mikil eftirspurn er eftir þjónustu og aðgerðir inn í leik- og grunnskóla eru settar fram. Áheyrnarfulltrúi bendir á mikið og faglegt starf sem fer fram í frístundastarfi frístundamiðstöðva í frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum. Börn í 1.-4. bekk verja háu hlutfalli af sínum vökutíma á frístundaheimilum og því er mikilvægt að muna eftir að þar eru sóknarfæri. Þegar aðgerðir sem snúa að því að bæta velferð barna eru settar fram þarf að muna eftir frístundastarfinu.

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 17. desember 2024, um stýrihóp um stefnumótun fjölmenningarborgarinnar Reykjavík. MSS24090132

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Málefni barna og fjölskyldna af erlendum uppruna hafa lengi verið mikið forgangsmál á skóla- og frístundasviðinu og mikilvægt er að halda áfram að þróa og endurskoða stefnumótun í þessum málaflokki í nánu samstarfi við fagfólkið og hagaðila. Afar nauðsynlegt er einnig að skapa skýra sýn og aðgerðaáætlun til að styðja og nýta betur vaxandi hóp starfsfólks af erlendum uppruna, t.d. með því að byggja upp íslenskukunnáttu og starfsþróun þess. Fulltrúar meirihlutans styðja þá nálgun að vinna heildarstefnumótun fyrir borgina í sem nánustu samstarfi við fagfólkið á sviðinu til að tryggja farsæla innleiðingu.

    Áheyrnarfulltrúar skólastjóra og kennara í grunnskólum leggja fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúar skólastjóra og kennara í grunnskólum fagna því að rýna eigi stefnu um fjölmenningarborgina Reykjavík því málaflokkurinn skiptir grunnskólana miklu máli. Mikilvægt er að skólum sé gert kleyft að veita nemendum af erlendum uppruna góða íslenskukennslu og það þarf að huga að því hvernig er hægt að sinna þeim vel. Einnig er mikilvægt að hægt sé að veita góða túlkaþjónustu til að gæta jafnræðis fyrir foreldra af erlendum uppruna. Óskað er eftir því að í stefnunni sé ákveðið hvaða foreldrar fái slíka þjónustu og hvenær. Ennfremur að skólar fái fjárveitingu til að sinna málaflokknum vel.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram skýrsla um ráðstefnuna Stronger together, Storbyens Hjerte og smerte sem haldin var í Reykjavík í september 2024. VEL23080040

    Ingibjörg Þ. Sigurþórsdóttir og Haraldur Sigurðsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva þakkar fyrir kynningu á ráðstefnunni Hjerte og smerte sem haldin var í Reykjavík í september. Ráðstefnan heppnaðist afar vel og stjórnendur frístundastarfs í borginni tóku virkan þátt. Framkvæmastjórar vilja benda á mikilvægi þess að halda áfram góðu samstarfi við aðrar stórborgir á Norðurlöndunum og hvetur til þess að það sé gert ráð fyrir því í fjárhagsáætlun sviðsins.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram skýrsla um niðurstöður U-LYNC ráðstefnunnar sem haldin var í Reykjavík í mars 2024. SFS24030064

    Hulda Valdís Valdimarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar meirihlutans þakka fyrir góða og áhugaverða kynningu á niðurstöðum U-LYNC ráðstefnunnar. Þátttaka ungs fólks í mótun stefnu og hvernig raddir þeirra heyrast er gríðarlega mikilvægt. Nýta má þekkingu ungs fólks til byggja hér upp fjölbreytt og gott samfélag. Gaman var að lesa í skýrslunni hvað ungmennin voru með skapandi og fjölbreyttar lausnir á ýmsum vandamálum sem ungmenni standa frammi fyrir í dag.

    Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðvar þakkar fyrir kynningu á U-LYNC ráðstefnu ungmenna. Verkefnið hlaut 38 milljóna króna styrk sem að starfsfólk frístundaskrifstofu sótti um. Á ráðstefnunni átti sér stað mikilvægt samtal og samráð við ungmenni varðandi framtíðina og öll vinna var til fyrirmyndar. Starfsfólk skóla- og frístundasviðs leiddi þar umræðu hóps ungmenna frá öllum Norðurlöndunum. Um er að ræða lýðræðislegt samtal í anda menntastefnunnar um framtíðina og sóknarfæri að nýta í stefnumótun til framtíðar varðandi marga málaflokka.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. janúar 2025, um skipulagsbreytingar í Dalskóla:

    Lagt er til að starfseiningar Dalskóla; annarsvegar grunnskóli og frístundaheimili og hinsvegar leikskóli verði aðgreindar frá og með skólaárinu 2025 - 2026. Grunnskólinn verður eftir sem áður fyrir nemendur í 1. – 10. bekk og verði frístundaheimili samrekið með grunnskólanum. Óbreytt er að leikskólinn er fyrir börn á aldrinum 12 mánaða til 6 ára. Við hvorn skólann verði skólastjóri. Báðar stöður verði auglýstar á vormánuðum 2025. Við breytinguna njóti skólarnir stuðnings vinnuhóps sem vinnur að farsælum aðskilnaði eininganna. Hópurinn verði skipaður núverandi skólastjórnendum, fulltrúum í skólaráði (foreldra, kennara, starfsmanna og nemenda), fulltrúa frá mannauðsþjónustu, skrifstofu grunnskólamála, skrifstofu leikskólamála og fjármálaþjónustu skóla- og frístundasviðs. Lagt er til að hópurinn taki til starfa nú þegar og starfi þar til breytingarnar hafa formlega gengið eftir.

    Greinargerð fylgir.

    Lögð fram svohljóðandi málsmeðferðartillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata:

    Óskað er eftir umsögnum skólaráðs Dalskóla, foreldrafélags Dalskóla, starfsmanna grunnskólahluta, leikskólahluta og frístundahluta Dalskóla og framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva um tillögu um skipulagsbreytingar í Dalskóla.

    Samþykkt. SFS24110083

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja málsmeðferðartillögu meirihlutans en telja brýnt að fyrirhugaðar breytingar séu vel kynntar í hverfinu, svo sem með því að upplýsa íbúaráð hverfisins um málefnið.

    Áheyrnarfulltrúar leikskólastjóra og starfsfólks í leikskólum leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar leikskólastjóra og leikskólakennara styðja þá tillögu að rekstur Dalskóla verði aðgreindur en við teljum það leikskólastarfinu til mikilla bóta að hafa leikskólastjóra í fullu starfi til að halda utan um rekstur á svo stórri einingu sem leikskólahluti Dalskóla er nú þegar. Við teljum það mikilvægt að aðgreina þessi tvö skólastig til að gera starfsemina öflugri.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram greinargerð skóla- og frístundasviðs varðandi fjárhagsuppgjör skóla- og frístundasviðs janúar-september 2024, dags. 5. desember 2024. SFS24080105

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Á fyrstu níu mánuðum ársins 2024 var rekstur skóla- og frístundasviðs rúmum 2 milljörðum króna umfram fjárheimildir eða 3,7%. Þegar litið er til einstakra rekstrarliða kemur spánskt fyrir sjónir hver sé rekstrarniðurstaða borgarrekinna leikskóla en eins og hún birtist í uppgjöri nemur hallareksturinn á starfsemi leikskólanna 12,4% að fjárhæð 1.736 milljónir króna. Á hinn bóginn hefur borgin tekið frá 1.480 milljónir króna vegna nýs leikskólalíkans og má því segja að raunverulegur halli sé 256 milljónir króna. Eigi að síður, miðað við megna óánægju reykvískra foreldra barna á leikskólaaldri, að fá ekki dagvistunarúrræði fyrir börnin sín, þá hlýtur umframkeyrslan í þessum eina útgjaldalið að valda áhyggjum.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Meirihluti skóla- og frístundaráðs hafnar því að halli í rekstri borgarrekinna leikskóla á fyrstu níu mánuðum ársins 2024 hafi á nokkurn hátt áhrif á fjölda dagvistunarúrræða sem í boði eru. Markmið stjórnenda borgarinnar er að fullfjármagna rekstur borgarrekinna leikskóla og teljum við að því markmiði verði náð með nýju rekstrarlíkani leikskólanna sem nefnt er Snorri. Tilgangur þess er að gefa réttari mynd af kostnaði og þörfum leikskólanna og tryggja að fjármögnun á þeim málaflokki sé rétt miðað við umfang og þörf kerfisins. Að sjálfsögðu verður í framhaldinu nauðsynlegt að fylgjast vel með hvernig það reynist og meta það hvort á einhverjum stöðum þurfi að endurmeta. Eins er rétt að taka fram að fjöldi dagvistunarúrræða ræðst af því húsnæði sem borgin hefur til ráðstöfunar og framboði af starfsfólki til að sinna leikskólastarfi en ekki af núverandi rekstri leikskóla og nýju rekstrarlíkani sem er í innleiðingarferli.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Halli á rekstri leikskólahlutans á skóla- og frístundasviði hefur óhjákvæmilega í för með sér að kerfið verður veikara fyrir vikið, meðal annars ef ætlunin er að sækja fram, bæta þjónustuna og bjóða fleiri börnum dagvistunarpláss.

    Áheyrnarfulltrúi skólastjóra grunnskóla leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þegar rýnt er í tölur frá fjármálaskrifstofu kemur í ljós að úthlutunarlíkanið Eddan fjármagnar grunnskólana rétt svo hægt sé að halda úti lögbundnu skólastarfi og halda sig innan fjárheimilda. Skorað er á borgaryfirvöld að standa vörð um líkanið og snúa frá áætluðum niðurskurði til grunnskólanna.

    Kl. 15.10 tekur Hjörtur Ágústsson sæti á fundinum.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram yfirlit yfir innkaup skóla- og frístundasviðs yfir 1 m.kr., júlí-september 2024, dags. 16. desember 2024. SFS24080106

    Fylgigögn

  8. Lagt fram yfirlit yfir ferðir skóla- og frístundasviðs júlí-september 2024, dags. 8. janúar 2025. SFS24080107

    Fylgigögn

  9. Lagðar fram Almennar aðgerðir menntastefnu Reykjavíkurborgar 2025-2027.

    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS24050132

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ástæða er til að þakka fyrir kynningu á almennum aðgerðum menntastefnu Reykjavíkurborgar 2025-2027. Vonandi tekst að hrinda þessum aðgerðum í framkvæmd svo að þær verði til þess að skólakerfið í Reykjavík taki framförum. Minnt er hins vegar á að ítarleg stefnuskjöl með mörgum fallegum orðum hafa minni áhrif en markvissar aðgerðir. Óheppilegt væri ef þessi aðgerðaráætlun félli í þann flokk stefnuskjala hjá Reykjavíkurborg þar sem mikið er sagt en minna um að hlutum sé komið í verk. Aðalatriðið nefnilega, fyrir opinbera stefnumótun á sviði menntamála, er að einstakar aðgerðir séu mikilvægar, raunhæfar, vel útfærðar og fjármagnaðar.

    Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva þakkar fyrir kynningu á almennum aðgerðum menntastefnunnar. Menntastefna Reykjavíkurborgar „Látum draumana rætast“ hefur verið innleidd í allar frístundamiðstöðvar og unnið er stefnumiðað með hæfniþættina. Vinna varðandi næstu almennu aðgerðir menntastefnunnar hefur verið til fyrirmyndar og samráðs leitað til helstu hagaðila. Fulltrúi framkvæmdastjóra þakkar fyrir góða vinnu og hlakkar til að halda áfram að vinna með hæfniþætti og almennar aðgerðir menntastefnunnar. Menntastefnan er frábært verkfæri sem að hvetur til samvinnu og samstarf milli leikskóla,- grunnskóla- og frístundastarfs, við önnur svið innan borgarinnar, við íbúa, háskólasamfélagið og fleiri hagaðila.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 9. janúar 2025, um stöðu ráðninga á skóla- og frístundasviði 8. janúar 2025. SFS24080310

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er áhyggjuefni að þegar skólaárið er hálfnað að ekki hafi tekist að ráða í allar stöður í leikskólum, grunnskólum og á frístundaheimilum. Í grunnskólum á eftir að ráða í 44,1 stöðugildi (25,9 stöðugildi í janúar 2024), í leikskólum á eftir að ráða í 55,1 grunnstöðugildi (46,8 í janúar 2024) og að auki 13 stöðugildi í eldhús og vegna afleysinga (13,3 stöðugildi í janúar 2024). Það eru mikil vonbrigði að ekki hafi tekist að ráða bug á mönnunarvandanum á leikskólum í borginni, ekki síst í ljósi þess að margir leikskólar hafa þurft að skerða þjónustuna með því annað hvort að loka deildum eða fækka þeim dögum sem hægt er að taka á móti börnum. Þá er það sömuleiðis áhyggjuefni að eingöngu 88% hafi verið ráðin í stöðugildi á frístundaheimilum og sértækum félagsmiðstöðvum sem aftur er til þess fallið að lengja biðlistann eftir plássum fyrir þjónustunni. Setja verður í forgang að leysa mönnunarvandann með sérstöku átaki þannig að hægt verði að tryggja öllum börnum vist á frístundaheimilum og sömuleiðis að hægt verði að tryggja fulla þjónustu á leikskólum og nýta laus pláss sem ekki hefur verið hægt að nýta vegna manneklu.

    Áheyrnarfulltrúar skólastjóra í leik- og grunnskólum, starfsfólks í leikskólum og kennara í grunnskólum leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar skólastjórnenda og kennara í grunn- og leikskólum skora á borgaryfirvöld að beita sér í því að efnt verði samkomulag um jöfnun launa því ljóst er að það vantar mikið af kennurum í kerfið. Starfsmannaekla kemur niður á faglegu starfi og veldur auknu álagi.

    Kl. 16.00 víkur Ólafur Brynjar Bjarkason af fundinum. 

    Fylgigögn

  11. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 20. desember 2024, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um endurgreiðslu vegna systkinaafsláttar á skólamáltíðum, sbr. 23. lið fundargerðar borgarráðs frá 17. október 2024. MSS24100155

    Fylgigögn

  12. Fram fer umræða um fréttir af vettvangi skóla- og frístundastarfs. SFS24080154

Fundi slitið kl. 16:09

Árelía Eydís Guðmundsdóttir Alexandra Briem

Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir Birna Hafstein

Guðný Maja Riba Helgi Áss Grétarsson

Sabine Leskopf

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 13. janúar 2025