Skóla- og frístundaráð
Ár 2024, 25. nóvember var haldinn 283. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.16. Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Árelía Eydís Guðmundsdóttir formaður (B), Alexandra Briem (P), Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir (J), Guðný Maja Riba (S) og Sabine Leskopf (S). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jónína Einarsdóttir, leikskólastjórar; Kristín Björnsdóttir, kennarar í grunnskólum; Leona Iguma, Reykjavíkurráð ungmenna og Þóranna Rósa Ólafsdóttir, skólastjórar í grunnskólum;. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Arndís Steinþórsdóttir, Frans Páll Sigurðsson, Hjörtur Ágústsson, Ólafur Brynjar Bjarkason og Guðrún Sigtryggsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 21. nóvember 2024, þar sem tilkynnt er að að Helgi Áss Grétarsson taki sæti í skóla- og frístundaráði í stað Ragnhildar Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur. Jafnframt að Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Söndru Hlífar Ocares. MSS22060048
- Kl. 13:23 tekur Helgi Áss Grétarsson sæti á fundinum.
- Kl. 13:23 taka Birna Hafstein og Soffía Pálsdóttir sæti á fundinum með rafrænum hætti.Fylgigögn
-
Fram fer kynning og umræða um stöðu á framkvæmdum við leikskólann Laugasól – Laugaborg. SFS24110111
Ámundi V. Brynjólfsson og Dagur Bollason taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 21. nóvember 2024, þar sem tilkynnt er um afgreiðslu borgarráðs á þjónustusamningum við sjálfstætt starfandi leikskóla, ásamt bréfi sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. nóvember 2024. MSS22100084
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar meirihlutans í Skóla- og frístundaráði lýsa yfir ánægju með að þjónustusamningar við sjálfstætt starfandi skóla sé í höfn. Meirihlutinn vill koma á framfæri þökkum gagnvart öllum þeim sem að samningum stóðu. Mikilvægt er að sjálfstætt starfandi skólar sem undir borginni starfa láti reykvísk börn sæta forgangi og veiti aðgang að upplýsingum um innritun þannig að hægt sé að samræma inntöku barna með sem skilvirkustum hætti. Einnig leggur meirihlutinn áherslu á að borgin styðji við þá aðila sem sinna sjálfstætt starfandi skólum innan Reykjavíkur.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði, sbr. 40. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. mars 2024:
Lagt er til að borgarráð samþykki að hækka niðurgreiðslu Reykjavíkurborgar hjá einkareknum ungbarnaleikskólum þegar barn nær 18 mánaða aldri, í þeim tilvikum þegar barn er með virka umsókn en fær ekki pláss hjá dagforeldrum eða á borgarreknum leikskóla.
Greinargerð fylgdi.
Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. MSS24030122
Fylgigögn
-
Lagðar fram og kynntar Almennar aðgerðir menntastefnu Reykjavíkur 2025-2027.
- Kl. 14:21 tekur Linda Ósk Sigurðardóttir sæti á fundinum.
- Kl. 14:34 víkur Hjörtur Ágústsson af fundinum.
- Kl. 14:38 víkur Helgi Áss Grétarsson af fundinum.
- Kl. 14:40 tekur Helga Margrét Marzellíusardóttir sæti á fundinum með rafrænum hætti.Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:
Lagt er til að óskað verði eftir umsögnum frá skólaráðum grunnskóla Reykjavíkurborgar, foreldraráðum leikskóla Reykjavíkurborgar, fagfélögum skólastjóra, leikskólastjóra, grunnskólakennara og leikskólakennara í Reykjavík og framkvæmdastjórum frístundamiðstöðva í Reykjavík um almennar aðgerðir menntastefnu Reykjavíkurborgar 2025-2027.
Samþykkt. SFS24050132
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar meirihlutans í skóla- og frístundaráði lýsa yfir stolti og ánægju með þá vinnu sem unnin hefur verið á undanförnum árum við stefnumótun og innleiðingu menntastefnu Reykjavíkur sem ber heitið; Látum draumana rætast. Stefnumótun þarfnast stöðugrar endurskoðunar og uppfærslu. Sú vinna sem hefur farið fram í haust varðandi innleiðingu næstu ár hefur verið til fyrirmyndar. Unnið í samvinnu við þá sem starfa á hverjum degi með börnunum og öðrum hagaðilum. Þær öru þjóðfélagsbreytingar sem átt hafa sér stað krefjast þess að menntastefnan fangi og rúmi þá þætti sem í henni eigi að vera.
Áheyrnarfulltrúar skólastjóra og kennara í grunnskólum leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar skólastjóra og grunnskólakennara vilja koma því á framfæri að ánægjulegt sé að sjá uppfærða menntastefnu Reykjavíkurborgar. Hún er metnaðarfull en í hana vantar upplýsingar hvernig útfærslum eigi að vera háttað. Einnig þarf að hafa í huga að þar sem feta á nýjar slóðir í kennslu til dæmis hvað varðar menningarfærni að þá er ekki til námsefni til að vinna að þeim þáttum.Nurture verkefnið er í innleiðingu í tveimur grunnskólum. Við innleiðingu þarf að efla samstarf við fagfólkið í skólunum. Með farsældarlögunum eru komnar í framkvæmd viðamiklar breytingar á þjónustu við nemendur og fjölskyldur en vangaveltur eru um hverju Nurture sé ætlað að bæta við og hvort það henti fyrir íslenskt samfélag. Sú umræða hefur ekki átt sér stað innan skólasamfélagsins. Mjög jákvætt er að stefna að því að auka leiklist, tónlist og myndlist í skólastarfi en hafa þarf í huga aðstæður eru mjög mismunandi á starfsstöðum. Minni skólar eiga erfiðara með auka vægi listgreina vegna stöðugildaramma í starfi. Ef hugmyndin er að kynja- og kynfræðsla taki breytingum og verði markvissari í stundaskrá unglingadeilda þarf að sjá til þess að námsefni sé tiltækt fyrir þá tíma og útfærsla sé unnin í samráði við fagfólkið í skólunum.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Reykjavíkurráðs ungmenna:
Lagt er til að nám í menningarnæmi fari fram í öllum grunnskólum í Reykjavík.
Greinargerð fylgir.
Samþykkt að vísa til meðferðar vegna almennra aðgerða menntastefnu Reykjavíkurborgar. SFS24100200
Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Þessi tillaga er í fullu samræmi við markmið Menntastefnunnar og styðja fulltrúar skóla heilshugar að henni sem fylgt eftir í innleiðingarvinnu Menntastefnunnar. Menningarnæmni er ávinningur fyrir bæði börn af íslenskum og erlendum uppruna sem og skólasamfélagið í heild.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. nóvember 2024, ásamt drögum að viðauka við þjónustusamning við Söngskólann í Reykjavík vegna efri stiga tónlistarnáms og þjónustusamningi við Söngskólann í Reykjavík vegna efri stiga tónlistarnáms, dags. í september 2024:
Lagt er til að gerður verði viðauki við þjónustusamning Söngskólans í Reykjavík, dags. 6. september 2024, vegna efri stiga tónlistarnáms þar sem framlag verði aukið um 26.565.000 kr. og kennslumagn aukið um 1719 stundir eða að lágmarki 1619 nemendastundir fyrir framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á samningstímanum 1. september 2024 til 31. ágúst 2025.
Greinargerð fylgir.
Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS22050078
Fylgigögn
-
Fram fer kynning og umræða um leikskólalíkanið Snorra, nýtt reiknilíkan fyrir leikskóla. SFS24110082
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Nýtt leikskólalíkan er afrakstur mikillar og góðrar vinnu starfsfólks borgarinnar og stór áfangi í því að bæta fjármálastjórn og gegnsæi í rekstrinum. Með líkaninu eykst til muna yfirsýn og fyrirsjáanleiki og auðveldar þannig stjórnendum leikskólanna að sinna sínu hlutverki. Rekstrarlíkanið er enn annar liður í vegferð núverandi meirihluta að tryggja hagkvæman og góðan rekstur í skólastarfinu í Reykjavík.
Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra í skóla- og frístundaráði leggur fram svohljóðandi bókun:
Leikskólastjórar Reykjavíkurborgar fagna því að loksins sé líkanið Snorri að komast í notkun. En við fögnum því að meira fjármagn hafi verið sett inn í rekstur leikskóla og teljum það hafa verið löngu tímabært að laga fjárframlag til leikskólans en hvort þetta fjármagn sé nóg verður tíminn að leiða í ljós. Við fögnum því að fara út úr niðurskurðarfasa sem virðist hafa verið við líði síðustu ár í fjárhagslíkani sem ekki var í raun fjármagnað að fullu, það er ekki hægt að skera niður í fjárlíkönum sem voru vanfjármögnuð í upphafi. Það eru margir jákvæðir þættir innan líkansins eins og aukning á stöðuhlutfalli aðstoðarleikskólastjóra og fjármagn vegna fæðis starfsmanna sem er jú inni í samningum þeirra en hefur ekki verið fjármagnað í líkaninu.
Fylgigögn
-
Lögð fram og kynnt skýrslan Mat á tilraunaverkefninu Fyrr í frístundaheimili 2024, dags. í nóvember 2024. SFS24030058
Sigrún Harpa Magnúsdóttir og Ingibjörg Íris Þorvaldsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra í skóla- og frístundaráði leggur fram svohljóðandi bókun:
Við leikskólastjórar Reykjavíkurborgar fögnum því að loksins sé þetta verkefni hafi loksins náðst í gegn fyrir tveimur árum. Við bindum miklar vonir við það að þetta verkefni fari yfir alla borgina og við getum þá farið í það ferli að hraða aðlögun barna inn í leikskóla. Það kemur ítrekað fram í skýrslunni að verkefnið hafi gengið almennt vel, jákvæðni bæði starfsfólks, barna og foreldra. Það er einnig ítrekað að það þarf að vera lengri undirbúningstími fyrir skólana og frístundamiðstöðvar þegar þetta verkefni er tekið upp í fyrsta skipti í fleiri frístundamiðstöðvum. Þess vegna ítrekum við að upplýsingar um verkefnið þurfa að fara sem fyrst út á nýju ári ef að viljið er til að fjölga í þessu verkefni. Við hljótum öll að vilja stefna þangað til að létta á aðlögun milli leik- og grunnskóla fyrir börnin sem eru að hefja grunnskólagöngu sína og til að geta hafið aðlögun yngri barna fyrr inn í leikskólana. Við teljum þetta jákvætt skref fyrir okkar starfsvettvang.
Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva í skóla- og frístundaráði leggur fram svohljóðandi bókun:
Framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva þakka fyrir góða kynningu á mati um verkefnið fyrr í frístund sumarið 2024. Að mörgu er að huga varðandi framhald á verkefninu og mikilvægt er að rýna niðurstöður matsins vel með hagaðilum varðandi næstu skref. Mikilvægt er að ef að festa á verkefnið í sessi að góður tími verður gefinn í undirbúning og samtal. Einnig þarf að vera skýrt að fjármagni verði úthlutað í verkefni en ekki treysta á að fjármagna verkefnið með fjármagni sem að verður til vegna undirmönnunar í vetrarstarfi frístundaheimila. Mikilvægt er að fyrr í frístund hafi ekki áhrif á gæði starfs fyrir eldri börnin.
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. nóvember 2024, um stöðu
ráðninga á skóla- og frístundasviði, 20. nóvember 2024. SFS24080310Fylgigögn
-
Lagt fram leiðrétt svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. nóvember 2024, við
fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um launakostnað, sbr. 19. lið
fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 10. júní 2024. SFS24060058Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. nóvember 2024, við fyrirspurn
borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um símalausa grunnskóla, sbr. 18. lið fundargerðar
borgarráðs frá 22. ágúst 2024. MSS24080081Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um hunda í skólum,
sbr. 22. lið fundargerðar borgarráðs frá 22. ágúst 2024. Einnig lagt fram svar sviðsstjóra skólaog frístundasviðs, dags. 21. nóvember 2024. MSS24080085Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 19. nóvember 2024, vegna
svars við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um starfslokasamninga,
sbr. 10. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 27. maí 2024. SFS24050122Fylgigögn
-
Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. nóvember 2024, um
embættisafgreiðslur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, þrjú mál. SFS22080009Fylgigögn
-
Fram fer umræða um fréttir af vettvangi skóla- og frístundastarfs. SFS24080154
Fundi slitið kl. 15:50
Árelía Eydís Guðmundsdóttir Alexandra Briem
Sabine Leskopf Helga Margrét Marzellíusardóttir
Birna Hafstein Guðný Maja Riba
Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 25. nóvember 2024