Skóla- og frístundaráð
Ár 2024, 11. nóvember var haldinn 282. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.15. Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Árelía Eydís Guðmundsdóttir formaður (B), Alexandra Briem (P), Guðný Maja Riba (S), Marta Guðjónsdóttir (D), Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir (D), Sabine Leskopf (S) og Stefán Pálsson (V). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Guðjóna Eygló Friðriksdóttir, skólastjórar í grunnskólum; Helgi Eiríksson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Kristín Björnsdóttir, kennarar í grunnskólum. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Arndís Steinþórsdóttir, Ólafur Brynjar Bjarkason, Soffía Pálsdóttir og Guðrún Sigtryggsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Fram fer kynning og umræða um matsferil, safn matstækja til að meta námsárangur grunnskólabarna. SFS24110036
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Meirihlutinn fagnar þeirri vinnu sem átt hefur sér stað við að setja upp matsferil sem veitir heildaryfirsýn um bæði stöðu hvers barns en líka á kerfinu í heild. Matsferilinn hefur í för með sér bætt aðgengi foreldra, barna, skóla og menntayfirvalda að upplýsingum um stöðu og framvindu barnsins í gegnum skólakerfið sem og stöðu menntakerfisins í heild sinni, allt frá leikskóla til framhaldsskóla. Þannig er betur hægt að stuðla að árangursríkum snemmtækum stuðningi og tryggja að börn fái aðstoð um leið og þörf vaknar, sem er lykilþáttur í því að draga úr eða koma í veg fyrir frekari námsvanda á síðari stigum. Þetta er algjörlega ný og heildstæð nálgun.
Freyja Birgisdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
-
Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 3. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 17. september 2024, ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. október 2024:
Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að Reykjavíkurborg fari þess á leit við barna- og menntamálaráðherra að samræmd próf verði tekin upp að nýju í 4., 7. og 10. bekk grunnskóla í þeim tilgangi að bæta námsárangur grunnskólanema. Samræmdu prófunum fylgi kennsluátak fyrir þá nemendur sem helst þurfa á því að halda
Greinargerð fylgdi tillögunni.
Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata gegn þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna. MSS24090003
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Eins og fram hefur komið í ítarlegri könnun hér í fyrsta lið á dagskránni er afar skýrt að málið er í góðum farvegi og niðurstöður væntanlega sem munu skila þeim árangri sem hér er leitað eftir.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna tekur undir það sjónarmið fulltrúa Sjálfstæðisflokksins að óæskilegt sé að vísa tillögu þeirra um samræmd próf frá. Æskilegra hefði verið að taka efnislega afstöðu til tillögunnar með einfaldri kosningu og hefði fulltrúi VG þá greitt atkvæði gegn henni.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Samræmdur mælikvarði á nám er grundvallarforsenda fyrir framförum í skólastarfi. Mikilvægi samræmdra prófa felst ekki síst í því að þau upplýsa hvort og þá hvaða markmiðum skólastarfsins sé náð og hvaða markmiðum ekki. Þannig má nýta þau til að greina vandann og stuðla að umbótum í skólastarfi. Þá er framfarastuðull prófanna frá 4. – 10. bekkjar mikilvægur til að geta aðstoðað strax þá nemendur sem standa höllum fæti í námi.
Í stað samræmdra prófa á að taka upp Matsferil sem mun draga úr samanburðarforsendum kerfisins. Matsferillinn gerir ráð fyrir því að próf og verkefni verði hnitmiðuð og stutt og að skólar hafi valfrelsi til að nýta þau. Þá hafi skólar sveigjanleika á fyrirlögn prófanna.
Róttækasta breytingin sem gerð hefur verið í íslenskum grunnskóla á síðustu árum felst í afnámi samræmdra prófa. Þær upplýsingar um síðustu Pisa- kannanir sem við höfum aðgang að benda eindregið til þess að afnám samræmdra prófa hafi því verið afar misráðið.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 15. lið fundargerðar skóla- og frístundasviðs frá 14. október 2024, ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 31. október 2024:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að breyta fyrirkomulagi biðlista í leikskóla Reykjavíkur svo að umsókn barna verði ekki fjarlægð af biðlistum fyrr en leikskóladvöl þeirra er formlega hafin. Þá megi tryggja að öll þau börn sem geta ekki hafið leikskóladvöl vegna aðstæðna í leikskólanum þó þau hafi fengið úthlutað pláss haldi virkri umsókn á biðlista. Í núverandi fyrirkomulagi eiga þessi börn ekki möguleika á að komast inn í aðra leikskóla því umsókn þeirra fellur niður þegar þau fá samþykkt leikskólapláss, á sama tíma er ekki hægt að sækja um flutning fyrr en leikskóladvöl er formlega hafin.
Greinargerð fylgdi tillögunni.
Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata gegn tveimur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Vinstri grænna situr hjá. SFS24100108
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúum Sjálfstæðisflokksins þykja kollegar sínir óþarflega frávísunarglaðir í dag og það langt um fram tilefni en að öðru leyti þakka sviðinu fyrir umsögn sína. Í henni er vísað í tæknilegar skorður núverandi kerfis auk þess sem að nýlegt fyrirkomulag eigi að vera til þess grípa foreldra í þessari stöðu að einhverju leyti. Það síðarnefnda er ekki reynsla foreldra og því fullt tilefni til að skoða nánar hvort og hvaða ferlar taka við þegar upphaf leikskóladvalar barna klikkar vegna aðstæðna í leikskólanum. Þessi frávísun er því ávísun á frekari tillögur þessa efnis frá skóla- og frístundaráðsfulltrúum Sjálfstæðisflokksins þar til farsæl lausn finnst á þessari kerfisvillu.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins, sbr. 6. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 15. október 2024 og 21. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. september 2024, ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 25. október 2024:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela mannauðs- og starfsumhverfissviði og skóla- og frístundasviði að fara í sérstakt átak í ráðningum í lausar stöður á frístundaheimilum og til að manna stöður frístundaheimila. Lagt er til að í átakinu skuli m.a. leita óhefðbundinna leiða, s.s. með því að samþykkja sérstaka umbun fyrir starfsfólk í formi styrkja eða hlunninda og með því að leita samstarfs við hagsmunafélög eldra fólks og hagsmunasamtök námsmanna með það að markmiði að bjóða fólki úr þessum hópum störf á frístundaheimilum.
Greinargerð fylgdi tillögunni.
Tillagan er felld með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata gegn tveimur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Vinstri grænna situr hjá.
Fylgigögn
-
Lögð fram drög að reglum um nýtingu húsnæðis starfsstaða skóla- og frístundasviðs ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. nóvember 2024.
Samþykkt. Vísað til borgarráðs.
Fylgigögn
-
Lagt fram fundadagatal skóla- og frístundaráðs fyrir árið 2025. SFS23090126
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um íslenskuver Reykjavíkurborgar, sbr. 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. september 2024. Einnig lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 15. október 2024. MSS24090143
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 30. október 2024, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa foreldra barna í leikskólum um leikskólaþjónustu á þéttingarsvæðum, sbr. 20. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 10. júní 2024. SFS24060059
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 17. október 2024, um embættisafgreiðslur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, eitt mál. SFS22080009
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um fréttir af vettvangi skóla- og frístundastarfs. SFS24080154
Fundi slitið kl. 15:18
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 11. nóvember 2024