Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 279

Skóla- og frístundaráð

Ár 2024, 9. september var haldinn 279. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.15.
Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Árelía Eydís Guðmundsdóttir formaður (B), Alexandra Briem (P), Ásta Þ. Skjalddal Guðjónsdóttir (J), Helgi Áss Grétarsson (D), Guðný Maja Riba (S) og Sabine Leskopf (S). Eftirtalinn fulltrúi tók sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Marta Guðjónsdóttir (D). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Guðjóna Eygló Friðriksdóttir, skólastjórar í grunnskólum; Helgi Eiríksson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Leona Iguma, Reykjavíkurráð ungmenna og Kristín Björnsdóttir, kennarar í grunnskólum. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Arndís Steinþórsdóttir, Frans Páll Sigurðsson, Guðrún Sigtryggsdóttir, Ólafur Brynjar Bjarkason og Soffía Pálsdóttir. Eygló Traustadóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning og umræða um málefni leikskólans Brákarborgar. SFS24080203

    Dagur Bollason, Guðni Guðmundsson og Valborg Hlín Guðlaugsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Kl. 13.23 taka Guðrún Gunnarsdóttir og Albína Hulda Pálsdóttir sæti á fundinum.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihluti skóla- og frístundarráðs þakkar fyrir góð og skjót viðbrögð við húsnæðiskrísu sem upp kom í leikskólanum Brákarborg. Mikilvægt var að málið var sett í farveg og forgang þannig að börnunum var tryggt áframhaldandi leikskólastarf í Ármúla meðan húsnæðið er í enduruppbyggingu. Meirihlutinn leggur þunga áherslu á að enduruppbygging húsnæðis Brákarborgar fái forgang áfram þannig að börnin komist sem fyrst „heim“.

    Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna bendir á að æskilegt væri að flýtt verði fyrirhugaðri lækkun á hámarkshraða í 30 km í Ármúla og Síðumúla í samræmi við hámarkshraðaáætlun Reykjavíkur frá 2021 (hámarkshraði skráður í Borgarvefsjá er ekki merktur hraði í þessum götum). Ef fyrirhugað er að húsnæði í Ármúla verði áfram notað fyrir leikskólastarfsemi verður að tryggja betur öryggi barna, foreldra og starfsfólks gagnvart akandi umferð í nágrenninu sem er oft mjög hröð og ökumenn reikna ekki með umferð barna í þessum götum. Nauðsynlegt er líka að gerðar verði gangbrautir í Síðumúla til að bæta aðgengi barna að leikvöllum við Háaleitisbraut og öðrum útivistarsvæðum í hverfinu á leikskólatíma. Þetta er líka mikilvægt fyrir þá foreldra og forráðafólk sem nýta virka ferðamáta til þess að koma með börn sín á leikskóla í Ármúla.

  2. Lögð fram tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 2. september 2024, varðandi breytingar á reglum um leikskólaþjónustu.

    Greinargerð fylgir.

    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS24080312

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihluti skóla- og frístundarráðs telur mikilvægt að koma til móts við þarfir leikskóla um betri yfirsýn um fjölda barna á staðnum þegar um frídaga er að ræða í grunnskólum. Með þeim hætti gefst stjórnendum færi á að skipuleggja starfið með skilvirkum og árangursríkum hætti.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Sósíalistaflokkur Íslands samþykkir breytingar á reglum um leikskólaþjónustu en minnir á að tryggja þarf að allir foreldrar séu vel upplýstir um breytingarnar og áhrif breytinganna á sína persónulegu hagi.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks taka undir ábendingu fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um að upplýsingagjöf um þessar breytingar verði skilvirk.

    Fylgigögn

  3. Fram fer kynning og umræða um málefni ungmenna í tengslum við forvarnir gegn ofbeldi og vímuefnaneyslu, vettvangsstarf og foreldrasamstarf.

    Dagbjört J. Þorsteinsdóttir, Guðrún Halla Jónsdóttir, Kári Sigurðsson, og Þóra Jónasdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihluti skóla- og frístundarráðs þakkar þeim starfsmönnum sem hafa undanfarið einbeitt sér að því að efla líðan ungmenna með það að markmiði að draga úr ofbeldismenningu. Meirihlutinn leggur höfuðáherslu á að taka þátt í og einbeita sér að því að efla forvarnir og huga að líðan ungmenna. Hlusta á raddir þeirra og taka þátt í þjóðarátaki.

    Kl. 14.45 víkur Guðrún Gunnarsdóttir af fundinum. 

  4. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 5. september 2024, um stöðu ráðninga á skóla- og frístundasviði, 4. september 2024. SFS24080310

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Samanlagt vantar enn að ráða í 102 stöðugildi á leikskólum en auk þessa stendur fyrir dyrum að ráða þurfi í rúmlega 15 stöðugildi á næstu vikum og mánuðum vegna starfsfólks sem er að hætta störfum eða er að fara í leyfi. Ljóst er að afleiðingar þessarar manneklu mun koma niður á inntöku barna í leikskóla. Bregðast þarf við þessari stöðu og leita allra leiða til að manna leikskólana sem fyrst. Einnig liggur fyrir að hefðbundið er að biðlistar myndast á frístundaheimilin þegar skólar hefjast á haustin. Bregðast þarf við þeirri stöðu með fleiri úrræðum en að manna þau með tímabundnum störfum námsmanna. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa margítrekað bent á og komið með tillögur um að með því að gera störfin á frístundaheimilum að heilsársstörfum verði betur hægt að tryggja að öll börn komist inn á frístundaheimili um leið og skólar hefjast á haustin.

    Áheyrnarfulltrúi kennara í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fram kemur í minnisblaði að í ár eigi eftir að ráða fleiri kennara til starfa en í fyrra á sama tíma eða 20,6 stöðugildi þann 4. september sl. í stað 9 stöðugilda fyrir ári síðan. Bent er á alvarleika þess að enn eigi eftir að ráða í rúm tuttugu stöðugildi kennara þegar skólaárið er þegar hafið. Það að ekki takist að manna stöður kennara við skólana hefur bein áhrif á fagmennsku og gæði í skólastarfi. Þetta er alvarleg staða sem veldur auknu álagi á kennara sem þegar eru við störf í skólunum. Brýnt er að unnið sé að úrbótum á þessari stöðu og það tryggt að ekki fjölgi árlega þeim stöðugildum sem ekki tekst að ráða kennara í við upphaf skólaárs. Einnig þarf að skoða hlutfall ráðninga leiðbeinenda eða þeirra sem ráðnir eru á undanþágu í þessu tilliti og hafa því ekki tilskilin kennsluréttindi til kennslu.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 5. september 2024, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um stöðu innritunar í leikskóla, sbr. 24. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 26. ágúst 2024. SFS24080204

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Nú þegar kjörtímabilið er hálfnað hefur enn ekki tekist að leysa leikskólavandann. Ljóst er af þeim tölum sem hér eru lagðar fram að staða biðlista eftir leikskólaplássi fer ekki batnandi milli ára. Í fyrra á sama tíma voru 658 börn á biðlista og nú eru 661 barn á biðlista en sá listi á eftir að lengjast enn frekar með hverjum mánuði en búast má við að um 170 börn bætist við listann í hverjum mánuði. Þá hefur meðalaldur við inntöku barna farið hækkandi milli ára og er nú kominn langt yfir 20 mánuði. Mikilvægt er að brugðist verði við þessum vanda með fjölbreyttum lausnum sem fyrst og leita lausna við vandanum í stað þess að loka augunum fyrir þessu alvarlega ástandi sem ríkir í leikskólamálum.
     

    Fylgigögn

  6. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 5. september 2024, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um stöðu innritunar í frístundaheimili, sbr. 25. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 26. ágúst 2024. SFS24080205

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Árlega myndast langir biðlistar á frístundaheimilum þegar skólar hefjast á haustin. Í fyrra var staðan sérstaklega slæm en þá voru 127 börn enn á biðlista þegar skólaárinu var að ljúka. Nú bíða á annað þúsund börn eftir að komast að á frístundaheimili og óvíst hvort og þá hvenær þau fá pláss þar. Bregðast þarf við þessari stöðu með fleiri úrræðum í mönnun frístundaheimilanna en með tímabundnum störfum námsmanna. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa ítrekað bent á og komið með tillögur um að gera þurfi störfin á frístundaheimilum að heilsársstörfum en þannig væri betur tryggt að öll börn komist inn á frístundaheimili um leið og skólar hefjast á haustin. Þá mætti ennfremur leita eftir samstarfi við íþróttafélög og þá sem sinna æskulýðs- og tómstundastarfi til að koma inn í starf frístundaheimilanna en það hefði auk þess þann kost í för með sér að börnin gætu stundað sínar tómstundir innan skóladagsins.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 29. ágúst 2024, um embættisafgreiðslur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, tvö mál. SFS22080009

    Fylgigögn

  8. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að skóla- og frístundaráð beini því til umhverfis- og skipulagsráðs að kanna fýsileika þess að setja upp tímabundna gangbraut á viðeigandi stað við Síðumúla, t.d. á milli Síðumúla 17 og Síðumúla 16-18, í því skyni að auðvelda starfsfólki leikskólans Brákarborgar að fara með nemendur skólans frá tímabundnu húsnæði skólans í Ármúla 28-30 yfir á leikvöll sem er á milli Háaleitisbrautar og Síðumúla.

    Greinargerð fylgir.

    Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs. SFS24090088

    Fylgigögn

  9. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Ekki var orðið við því að setja málefni Laugarnesskóla á dagskrá fundar skóla- og frístundaráðs í dag 9. september 2024 og er því óskað eftir að málefni skólans verði sett á dagskrá næsta reglulegs fundar skóla- og frístundaráðs.

    Frestað. SFS24090089

  10. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Í upphafi þessa skólaárs er verið að innleiða gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum borgarinnar. Mikilvægt er að nýta tækifærið til þess að taka grunngildamælingu svo hægt sé í framhaldinu að meta árangur innleiðingarinnar. Lagt er til að fylgst verði með eftirfarandi þáttum, eins og hægt er og þróun þeirra: Uppfyllir maturinn næringarviðmið; næringargildi, gæði og magn aðkeypts matar borið saman við skólaeldhús; matarsóun; hlutfall nemenda sem eru skráð í mat; skráningarferli; upplifun barna af matnum og aðstöðunni; aðstöðu í skóla og nýtingu á aðstöðu; fjölda skóla sem matreiða að öllu leyti á staðnum og fjölda sem fá aðkeyptan tilbúinn mat og fjöldi sem fer blandaða leið. Þetta verði gert til að taka stöðuna eins og hún er nú og svo að hægt sé að fylgjast með ár frá ári og bregðast við til að bæta stöðuna, ef þarf. Útfærsla og framkvæmd verði í samvinnu við faglega óháða aðila, svo sem landlækni og háskólasamfélagið.

    Greinargerð fylgir.

    Frestað. SFS24090090

    Fylgigögn

  11. Fréttir af vettvangi skóla- og frístundastarfs – umræða. SFS24080154 (15.20-15.30)

  12. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hver er meðalaldur barna þegar þau hefja leikskólagöngu?

    SFS24090091

  13. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er upplýsinga um stöðu leikskólahúsnæðis Björtuhlíðar.

    SFS24090092

Fundi slitið kl. 15.30

Árelía Eydís Guðmundsdóttir Alexandra Briem

Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir Guðný Maja Riba

Helgi Áss Grétarsson Marta Guðjónsdóttir

Sabine Leskopf

PDF útgáfa fundargerðar
Skóla- og frístundaráð 9.9.2024 - prentvæn útgáfa