Skóla- og frístundaráð
Ár 2024, 26. ágúst var haldinn 278. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.15.
Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Sabine Leskopf varaformaður (S), Ásta Björg Björgvinsdóttir (B), Ásta Þ. Skjalddal Guðjónsdóttir (J), Helgi Áss Grétarsson (D), Guðný Maja Riba (S), Kristinn Jón Ólafsson (P) og Marta Guðjónsdóttir (D). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Helgi Eiríksson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Kristín Björnsdóttir, kennarar í grunnskólum; Þóranna Rósa Ólafsdóttir, skólastjórar í grunnskólum og Þröstur Flóki Klemensson, Reykjavíkurráð ungmenna. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Arndís Steinþórsdóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir, Ólafur Brynjar Bjarkason og Soffía Pálsdóttir. Eygló Traustadóttir ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Lagðar fram og kynntar niðurstöður Stofnunar ársins 2023, viðhorfskönnunar meðal starfsmanna skóla- og frístundasviðs. SFS24060015
Guðný Reynisdóttir og Ragnheiður E. Stefánsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Kl. 13.34 taka Linda Ósk Sigurðardóttir og Frans Páll Sigurðsson sæti á fundinum með rafrænum hætti.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar meirihlutans þakka fyrir kynningu á Stofnun ársins 2023. Könnunin gefur góða mynd af þeim miklu sigrum sem unnir eru í starfi leikskóla, grunnskóla og í frístundastarfinu. Sérlega ánægjulegt er viðhorf starfsmanna til jafnréttis, ímyndar, ánægju og stolts og stjórnunar og eru þær niðurstöður ekki frábrugðnar fyrri árum. Enn fremur er jákvætt að sjá að almenn ánægja eykst og starfsfólk er sérstaklega ánægt með samstarfið innan nærumhverfisins. Þættir sem þarf greinilega að veita athygli eru t.d. hljóðvist og loftgæði á starfsstöðvum.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Undir þessum dagskrárlið voru niðurstöður viðhorfskönnunar meðal starfsmanna skóla- og frístundasviðs kynntar en þetta er í annað skipti sem vinnustaðurinn Reykjavíkurborg er hluti af árlegri könnun Gallup sem nefnist „Stofnun ársins“. Mikilvægt er að könnun af þessu tagi verði áfram lögð fyrir starfsmenn sviðsins.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Sósíalista tekur undir bókun meirihlutans vegna kynningar á Stofnun ársins sem vissulega gefur góða mynd af batnandi stöðu sem við erum stolt af en telur um leið ástæðu til að vekja athygli á að launaliðurinn er sá póstur sem fékk lægstu einkunn í könnuninni.
Fylgigögn
-
Lögð fram og kynnt skýrslan Barnamenningarhátíð í Reykjavík 23.-28. apríl 2024. MSS24040135
Harpa Þorvaldsdóttir og Hjörtur Ágústsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Skóla- og frístundaráð þakkar öllum þeim sem staðið hafa að barnamenningarhátíð í ár og síðustu ár, en hátíðin er frábær viðbót við fjölbreytt úrval af menningu fyrir börn og aðstandendur. Sérstakar þakkir til Hörpu Rutar Hilmarsdóttur sem hefur starfað sem verkefnastjóri barnamenningar hjá Reykjavíkurborg í heil 11 ár. Harpa hefur mótað þessa hátíð með einstökum hætti, skapandi, orkumikil og ávallt með nýjar hugmyndir í þágu barna og barnamenningar. Efla á samstarf við aðrar menningarstofnanir borgarinnar og mikilvægt er að huga að því að hafa kynningarefni á fjölbreyttu formi til að gæta að jöfnu aðgengi allra og öll börn geti notið barnamenningar næstu ár.
Kl. 14.08 tekur Guðrún Gunnarsdóttir sæti á fundinum.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sbr. 9. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 8. janúar 2024, ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 13. júní 2024:
Samhliða seinkun á byrjun skóladags hjá unglingum í Reykjavík er lagt til að við undirbúning þess verði skoðað að auka vægi listgreina á þessu skólastigi. Horft verði til þess að fjölga nemum í listgreinum sem kenndar eru utan skóla og yrðu skilgreindar sem valgreinar sem metnar yrðu til náms. Mikilvægt er að skoða aukna hvata með það að markmiði að fjölga nemendum í fjölbreyttu listnámi. Í því tilliti er meðal annars horft til niðurstöðu Pisa könnunar og stöðu nemenda í íslensku. En rannsóknir hafa sýnt að aukin þátttaka í listnámi eykur færni nemenda í íslensku og þar af leiðandi í öðrum námsgreinum því velgengni á einu sviði eykur velgengni á öðru sviði. Í því samhengi hefur einnig verið sýnt fram á tengsl milli tónlistarnáms og færni í stærðfræði. Rannsóknir hafa einnig sýnt að aukin þátttaka í námi í listgreinum byggir upp jákvæða sjálfsmynd hjá nemendum og eykur á sjálfstraust.
Samþykkt. SFS24010042
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sbr. 15. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 10. júní 2024:
Hinn 6. júní sl. var gerð opinber skýrslan: „Staða drengja í menntakerfinu - tillögur að úrbótum“ en skýrsla þessi var unnin af Tryggva Hjaltasyni fyrir mennta- og barnamálaráðuneytið. Lagt er til að höfundur skýrslunnar verði fenginn á fund skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur hinn 24. júní næstkomandi í því skyni að kynna helstu niðurstöður skýrslunnar.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:
Lagt er til að skýrslan Staða drengja í menntakerfinu – tillögur að úrbótum verði kynnt í samráðshópi um aðgerðaáætlun menntastefnu Reykjavíkurborgar 2025-2027. Í hópnum eiga sæti m.a. allir fulltrúar í skóla- og frístundaráði.
Breytingartillagan er samþykkt. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá.
Tillagan er samþykkt svo breytt. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá. SFS24060054
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi viðaukatillögu:
Lagt er til að skýrslan Staða drengja í menntakerfinu – tillögur að úrbótum verði kynnt í samráðshópi um aðgerðaáætlun menntastefnu Reykjavíkurborgar 2025-2027. Í hópnum eiga sæti m.a. allir fulltrúar í skóla- og frístundaráði. Þessu til viðbótar verður höfundur skýrslunnar, Tryggvi Hjaltason, fenginn til að kynna efni hennar á reglulegum fundi skóla- og frístundaráðs.
Viðaukatillagan er felld með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata gegn tveimur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga velferðarráðsfulltrúa Flokks fólksins sbr. 10. lið fundargerðar velferðarráðs frá 5. júní 2024:
Tillaga um að gerð verði könnun á líðan barna og námsástundun og árangur í þeim skólum sem hafa sett sér reglur um símalausan skóla annars vegar og hins vegar skólum sem leyfa notkun á símum og niðurstöður beggja hópa bornar saman. Grunnskólar hafa sett sér reglur um símanotkun, sumir um algert símabann. Mikilvægt er að kanna nú hvort hægt sé að mæla mun á líðan og námsárangri og námsástundun barnanna eftir að reglur voru settar og hvort börn í símalausum skólum séu að koma betur út en börn í skólum sem ekki viðhafa símabann.
Greinargerð fylgir.
Tillagan er felld. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá. VEL24040035
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Grunnskólar Reykjavíkurborgar setja sér reglur um notkun farsíma á skólatíma með ábyrgum og afar fjölbreyttum hætti en reglurnar eru unnar í samstarfi við skólasamfélagið á hverjum stað. Einnig er vinna í gangi á vegum menntamálaráðuneytisins sem snýr að öruggum viðmiðum farsímanotkunar í skólastarfi. Að þessu sinni liggja ekki fyrir samanburðargögn úr íslenskum grunnskólum til þess að hægt sé að vinna þessa tillögu og er hún því felld.
Fylgigögn
-
Lögð fram umsögn sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs um skýrslu og tillögur starfshóps um stefnumörkun félagsmiðstöðva, samfélags- og menningarhúsa, dags. 1. júlí 2024 ásamt bréfi skrifstofu borgarstjórnar, dags. 13. júní 2024 og skýrslunni Stefnumörkun félagsmiðstöðva, samfélags- og menningarhús, tillögur og ábendingar starfshóps, dags. í mars 2024.
Samþykkt. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá. MSS24060032
Fylgigögn
-
Lögð fram tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. ágúst 2024, um að framlengja samning milli skóla- og frístundasviðs og Tónlistarskóla Árbæjar sem gildi frá 1. janúar 2024 til 6. júní 2025.
Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS22030264
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 15. ágúst 2024, um afgreiðslu borgarráðs á breytingum á reglum Reykjavíkurborgar um þjónustusamninga við tónlistarskóla. SFS22060110
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 15. ágúst 2024, um afgreiðslu borgarráðs á framlengingu samninga við tónlistarskóla í Reykjavík. SFS22050078
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 8. apríl 2024, þar sem svohljóðandi tillögu fulltrúa í ungmennaráði Breiðholts, sbr. 3. lið fundargerðar borgarstjórnar dags. 27. febrúar 2024, er vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs, ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 12. ágúst 2024:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela skóla- og frístundasviði að gera nauðsynlegar breytingar til að grunnskólar leggi meiri áherslu á nútíma samfélagsfræði í grunnskólum og þar með umfjöllun um það sem er að gerast í samfélaginu hverju sinni frá og með hausti 2024.
Greinargerð fylgir.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:
Lagt er til að grunnskólar leggi meiri áherslu á nútíma samfélagsfræði í grunnskólum og þar með umfjöllun um það sem er að gerast í samfélaginu hverju sinni frá og með vorönn 2025.Breytingartillagan er samþykkt.
Tillagan er samþykkt svo breytt. MSS24020128
Andrea Sæmundsdóttir og Gísli Ólafsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Skóla- og frístundaráð tekur undir mikilvægi þess að nemendur fái að ræða um það sem hæst ber í samfélagslegri umræðu hverju sinni í samræmi við aðalnámskrá. Lagt er til að skólastjórnendur hvetji kennara til að taka til umfjöllunar málefni líðandi stundar og nýta þau fjölmörgu tækifæri sem gefast í skólastarfinu til að setja á dagskrá þau mál sem brenna á nemendum og gefa þeim tækifæri til að taka þátt í umræðum, koma skoðunum sínum á framfæri og um leið efla hæfni þeirra í hlustun, rökræðum og gagnrýnni hugsun.
Áheyrnarfulltrúi kennara í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er mjög jákvætt að nemendur láti sig málin varða og vilji hafa áhrif á nám sitt. Kennarar starfa eftir aðalnámskrá grunnskóla og ef hæfniviðmið við lok 10. bekkjar í samfélagsfræði eru skoðuð má sjá að í raun ætti það sem lagt er til í tillögunni nú þegar að vera gert í skólum borgarinnar. Faglegt sjálfstæði kennara er mikilvægt en það er öllum til hagsbóta að eiga uppbyggilegt samtal um fjölbreytta kennsluhætti og leiðir til úrbóta sem hvetja til aukins áhuga nemenda.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 8. apríl 2024, þar sem svohljóðandi tillögu fulltrúa í ungmennaráði Laugardals, Bústaða og Háaleitis, sbr. 6. lið fundargerðar borgarstjórnar dags. 27. febrúar 2024, er vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs, ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 30. júlí 2024:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að lengja kvöldopnunartíma í félagsmiðstöðvum frá 1. janúar 2025 og að viðhafa samráð við ungmennaráð framvegis þegar kemur að breytingum sem varða frístundastarf unglinga.
Greinargerð fylgir.Tillagan er felld með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata gegn þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands. MSS24020131
Jökull Logi Sigurjónsson og Gísli Ólafsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Meirihluti skóla- og frístundaráðs er sammála um mikilvægi öflugs félagsmiðstöðvastarfs og var þessi ákvörðun tekin á fjárhagslegum forsendum sem hluti af 90 hagræðingartillögum sem samþykktar voru í borgarstjórn. Vegna þessa er ekki hægt, að svo stöddu, að koma til móts við þessa tillögu. Að því sögðu er rétt að brýna að afar mikilvægt er að leggja áherslu á samráð um framtíð þessarar þjónustu við ungmennaráð og félagsmiðstöðvar í Reykjavík.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks styðja þessa tillögu en á fundi skóla- og frístundaráðs hinn 29. ágúst 2023 kom fram í bókun fulltrúanna að sparnaðurinn af styttingu opnunartíma félagsmiðstöðva „væri rýr og næg tækifæri annars staðar í borgarkerfinu til að spara álíka fjárhæð.“
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Sósíalista telur það þyngra en tárum taki að ráðið hafni þremur tillögum ungmennaráðs sem allar vísuðu til brýnnar þarfar sem þarf að mæta en stranda á fjármagni þegar það er sannarlega þörf til staðar og vilji til að mæta þeirri þörf. Það hefði virkilega stuðlað að valdeflingu og reisn bæði kjörinna fulltrúa og ungmennaráðs að taka betur utanum þessi mál og setja þau í forgang.
Ásta Björg Björgvinsdóttir víkur af fundinum vegna vanhæfis undir þessum lið og Magnea Gná Jóhannsdóttir tekur þar sæti með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 8. apríl 2024, þar sem svohljóðandi tillögu fulltrúa í ungmennaráði Laugardals, Bústaða og Háaleitis, sbr. 5. lið fundargerðar borgarstjórnar dags. 27. febrúar 2024, er vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs, ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 30. júlí 2024:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela skóla- og frístundasviði að vinna tillögu að breytingu á opnunartíma félagsmiðstöðvarinnar Öskju þannig að hægt sé að vera með tvær kvöldopnanir vikulega frá og með hausti 2024.
Greinargerð fylgir.
Tillagan er felld með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata gegn þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands. MSS24020130
Marta Maier og Gísli Ólafsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Meirihluti skóla- og frístundaráðs er sammála um mikilvægi öflugs félagsmiðstöðvastarfs og er framúrskarandi starf unnið í félagsmiðstöðinni Öskju. Að svo stöddu er þó ekki til fjármagn til að auka við kvöldopnanir félagsmiðstöðvarinnar Öskju. Núna er ein kvöldopnun í viku og mun sviðið eftir fremsta megni halda henni inni áfram en ekki er möguleiki á að auka í tvær og því er ekki hægt að koma til móts við þessa tillögu. Að því sögðu er rétt að brýna að afar mikilvægt er að leggja áherslu á samráð um framtíð þessarar þjónustu við ungmennaráð og félagsmiðstöðvar í Reykjavík.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Mikilvægt er að komið verði til móts við börn sem sækja félagsmiðstöðina Öskju með tveimur kvöldopnunum þannig að þau sitji við sama borð og önnur börn í borginni. Gætt verði að því að hagræðingarkröfur bitni ekki á þessum hópi.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Sósíalista telur það þyngra en tárum taki að ráðið hafni þremur tillögum ungmennaráðs sem allar vísuðu til brýnnar þarfar sem þarf að mæta en stranda á fjármagni þegar það er sannarlega þörf til staðar og vilji til að mæta þeirri þörf. Það hefði virkilega stuðlað að valdeflingu og reisn bæði kjörinna fulltrúa og ungmennaráðs að taka betur utanum þessi mál og setja þau í forgang.
Ásta Björg Björgvinsdóttir víkur af fundinum vegna vanhæfis undir þessum lið og Magnea Gná Jóhannsdóttir tekur þar sæti með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 5. apríl 2024, þar sem svohljóðandi tillögu fulltrúa í ungmennaráði Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, sbr. 2. lið fundargerðar borgarstjórnar dags. 27. febrúar 2024, er vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs, ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 19. ágúst 2024:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki nægjanlegt fjármagn til að tryggja starfsemi Hinsegin félagsmiðstöðvar þannig að hún verði föst félagsmiðstöð í stað þess að vera sértækt verkefni sem fær styrki til að starfa.
Greinargerð fylgir.
Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata gegn atkvæði skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. MSS24020143
Þröstur Flóki Klemensson og Gísli Ólafsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar meirihlutans taka undir mikilvægi Hinsegin félagsmiðstöðvarinnar sem undirstrikað var nú á dögum með því að hafa opnunaratriði Hinsegin daga þar. Fjárhagsrammi Hinsegin félagsmiðstöðvarinnar frá Reykjavíkurborg eru tæpar 9,2 milljónir á ársgrundvelli og er hann tryggur. Því miður hefur sjálfsaflafé verið aukin undirstaða í starfinu og er ekki lengur til staðar. Nauðsynlegt verður því að sækja stuðning hjá ríkinu og öðrum sveitarfélögum þar sem slíkt starf er ekki til staðar þó miðstöðin standi öllum opin. Vegna kröfu um sparnað í starfi skóla- og frístundasviðs er því miður ekki til staðar svigrúm til að hækka fjárheimildir í rekstri félagsmiðstöðvarinnar að svo stöddu. Tillögunni er vísað frá, en leitað er leiða til að afla starfseminni stuðnings víðar til að geta haldið úti sambærilegri starfsemi og síðastliðinn vetur.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks skilja grunnþætti tillögunnar á þann veg að efla eigi starfsemi tiltekinnar félagsmiðstöðvar í þágu málefna hinsegin ungmenna. Þetta grundvallaratriði tillögunnar styðja fulltrúarnir. Á hinn bóginn er texti tillögunnar ekki nægjanlega skýr, samanber þau atriði sem rakin eru í umsögn skóla- og frístundasviðs. Af þeim ástæðum sitja fulltrúarnir hjá við afgreiðslu málsins.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Sósíalista telur það þyngra en tárum taki að ráðið hafni þremur tillögum ungmennaráðs sem allar vísuðu til brýnnar þarfar sem þarf að mæta en stranda á fjármagni þegar það er sannarlega þörf til staðar og vilji til að mæta þeirri þörf. Það hefði virkilega stuðlað að valdeflingu og reisn bæði kjörinna fulltrúa og ungmennaráðs að taka betur utanum þessi mál og setja þau í forgang.
Fylgigögn
-
Lagt fram og kynnt fjárhagsuppgjör skóla- og frístundasviðs fyrir janúar – mars 2024. SFS24080105
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit yfir innkaup skóla- og frístundasviðs yfir 1 m.kr., janúar – mars 2024, dags. 12. ágúst 2024. SFS24080106
Kl. 15.51 víkur Kristinn Jón Ólafsson af fundinum.
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit yfir ferðir skóla- og frístundasviðs, janúar – mars 2024, dags. 12. ágúst 2024. SFS24080107
Fylgigögn
-
Lagt fram svar mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 15. ágúst 2024, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um starfsfólk sem ráðið hefur verið af Afleysingastofu, sbr. 17. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 10. júní 2024. SFS24060056
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 11. júlí 2024, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um börn sem hefur verið hafnað um skólavist í Klettaskóla og Brúarskóla, sbr. 22. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. september 2023. MSS23090123
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 7. ágúst 2024, um embættisafgreiðslur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, 7 mál. SFS22080009
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um fréttir af vettvangi skóla- og frístundastarfs í Reykjavík. SFS24080154
-
Umræða um málefni Brákarborgar.
Frestað með þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins gegn tveimur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá. SFS24080203
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í skóla- og frístundaráði telja það óviðunandi að málefni Brákarborgar sé frestað á fundi ráðsins. Hér er um alvarlegt mál að ræða sem kjörnir fulltrúar í skóla- og frístundaráði fengu fyrst upplýsingar um í fjölmiðlum. Óskað var eftir því af okkur fulltrúum Sjálfstæðisflokksins að málið yrði á dagskrá fundarins í dag og því óskiljanlegt að málinu sé frestað milli funda.
-
Umræða um stöðu biðlista á leikskóla.
Frestað með þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins gegn tveimur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá. SFS24080204
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu eftir því að staða biðlista á leikskólum og frístundaheimilum yrði lögð fram á fundi ráðsins í dag. Það er algjörlega óviðunandi að málinu sé frestað þegar skólar eru að hefjast og leikskólar að koma úr sumarfríi. Mikilvægt er að þessar upplýsingar liggi fyrir sem fyrst svo að viðeigandi aðilar, svo sem eins og foreldrar og aðrir aðstandendur barna, geti skipulagt sinn tíma.
-
Umræða um stöðu biðlista á frístundaheimili.
Frestað með þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins gegn tveimur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá. SFS24080205
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu eftir því að staða biðlista á leikskólum og frístundaheimilum yrði lögð fram á fundi ráðsins í dag. Það er algjörlega óviðunandi að málinu sé frestað þegar skólar eru að hefjast og leikskólar að koma úr sumarfríi. Mikilvægt er að þessar upplýsingar liggi fyrir sem fyrst svo að viðeigandi aðilar, svo sem eins og foreldrar og aðrir aðstandendur barna, geti skipulagt sinn tíma.
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Hver er staða biðlista á leikskólum borgarinnar?
SFS24080204
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Hver er staða biðlista á frístundaheimilum borgarinnar?
SFS24080205
Fundi slitið kl. 16.06
Sabine Leskopf Ásta Björg Björgvinsdóttir
Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir Guðný Maja Riba
Helgi Áss Grétarsson Marta Guðjónsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 26. ágúst 2024