Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 276

Skóla- og frístundaráð

Ár 2024, 10. júní, var haldinn 276. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.14.
Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Árelía Eydís Guðmundsdóttir formaður (B), Alexandra Briem (P), Guðný Maja Riba (S), Helgi Áss Grétarsson (D), Marta Guðjónsdóttir (D), Sabine Leskopf (S) og Stefán Pálsson (V). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Helgi Eiríksson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Kristín Björnsdóttir, kennarar í grunnskólum; Leona Iguma, Reykjavíkurráð ungmenna og Sigurlaug Vigdís Einarsdóttir, starfsfólk í leikskólum. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir staðgengill sviðsstjóra, Frans Páll Sigurðsson, Guðrún Sigtryggsdóttir, Ólafur Brynjar Bjarkason, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir. Eygló Traustadóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa foreldra barna í leikskólum, sbr. 15. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 13. maí 2023: 

    Óskað er eftir að fá kynningu á stöðu Brúum bilið verkefnisins fyrir sumarfrí.

    Samþykkt. SFS24050072

    Fylgigögn

  2. Fram fer kynning og umræða um aðgerðaáætlunina Brúum bilið. SFS24050072

    Skúli Helgason og Ósk Soffía Valtýsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Kl. 14.15 tekur Arndís Steinþórsdóttir sæti á fundinum. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Alls urðu til í 1081 ný leikskólapláss á árunum 2018 til 2023 í gegnum verkefnið Brúum bilið. Það er með tilkomu nýrra leikskóla, í nýjum húsum, færanlegum einingum og breyttri nýtingu annars húsnæðis, stækkunum eldri leikskóla og fjölgun deilda, en líka fjölgun hjá sjálfstætt starfandi leikskólum. Hluti af þessari aukningu eru 30 ungbarnadeildir víðs vegar um borgina, en samhliða þessu hefur verið ráðist í framkvæmdir til að bæta starfsumhverfi og aðbúnað barna á leikskólum. Það er mikilvægt að halda áfram öflugri uppbyggingu leikskólarýma, bæði til að koma til móts við vaxandi þörf og koma til móts við þarfir fjölskyldna sem bíða eftir plássum, og til þess að bregðast við tímabundinni fækkun plássa vegna viðhaldsframkvæmda. Nú eru á áætlun 363 ný pláss sem eiga að verða tilbúin 2024 til 2025 og 959 sem koma 2025 til 2026. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Aðgerðaráætlunin Brúum bilið á sér langa sögu en vísir að myndun slíkrar áætlunar var samþykkt á 107. fundi skóla- og frístundaráðs 26. október 2016. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Samhengi uppbyggingar leikskólakerfisins í Reykjavík og að tryggja að mönnun á einstökum starfstöðum kerfisins, ætti að vera augljóst. Samfylkingin í borgarstjórn hefur verið leiðandi í vinnu Brúum bilsins-hópsins og útkoman er sú að því fer fjarri að það stjórnmálaafl geti staðið við þau loforð sem það hefur hvað eftir annað gefið út í aðdraganda borgarstjórnarkosninga. Með öðrum orðum, mygla og mannekla, eiga stóran þátt í að meðalaldur barna sem hefja inngöngu í leikskóla er mun nær því að vera 24 mánaða en nokkurn tíma 12 mánaða eins og Samfylkingin lofaði í aðdraganda kosninganna í maí 2022. Ástæða er því til að efast um að skilvirkni vinnu Brúum bilsins-hópsins hafi verið fullnægjandi.

     

  3. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 4. júní 2024, um staðfestingu skóladagatala grunnskóla skólaárið 2024-2025.

    Samþykkt. SFS24030096

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. júní 2024, ásamt umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 24. maí 2024 og jafnréttisskimun, dags. 23. maí 2024: 

    Lagt er til að leikskólagjöld verði felld niður hjá öllum börnum í leikskólum Reykjavíkurborgar á eftirfarandi tímabilum: Alla virka daga í dymbilviku (síðustu vikunni fyrir páska), alla virka daga í báðum vetrarleyfum grunnskóla (samkvæmt samþykktu skóladagatali vegna grunnskóla Reykjavíkurborgar) og alla virka daga á milli jóla og nýárs. Ennfremur er lagt til að þurfi börn að sækja leikskóla þessa daga skuli foreldrar skrá börnin sín sérstaklega og greiða sérstaklega fyrir vistunina samkvæmt gjaldskrá leikskóla. Boðið verður upp á að skrá börn staka daga innan tímabils. Lagt er til að breytingin taki gildi þann 1. september 2024 og reglum um leikskólaþjónustu verði breytt til samræmis við framangreint.

    Greinargerð fylgir.

    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS24050139

    Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra leggur fram svohljóðandi bókun:

    Leikskólastjórar fagna tillögu um að breyta skráningu og gjaldtöku fyrir viðveru barna í leikskólum vegna daga í dymbilviku, í vetrarleyfum grunnskóla og á milli jóla og nýárs. Áætlun um börn sem mæta ekki og án tilkynningar, er varlega áætluð, því mjög margir senda inn seinkomna tilkynningu um fjarvist/frí samdægurs sem telst þá ekki ótilkynnt/fjarvist, það nýtist ekki við skipulag mannauðs né hagkvæmni í rekstri. Þessi nýja tillaga býður upp á mun betri nýtingu á mannauði og hagkvæmni í rekstri og er í takt við það sem gert er í öðrum stærri sveitarfélögum.
     

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. júní 2024: 

    Lagt er til að skóla- og frístundaráð samþykki að húsnæði leikskólans Garðaborgar við
    Bústaðaveg 81, Reykjavík, færist undir leikskólann Jörfa þegar húsnæði Garðaborgar
    verður fullklárað eftir framkvæmdir vorið 2025. Lagt er til að engin starfsemi verði á vegum Garðaborgar frá 1. október 2024. Ennfremur er lagt til að börn sem eru með leikskólavist í Garðaborg fyrir skólaárið 2024 – 2025, fái forgang á flutning yfir í Kvistaborg sem flytur í færanlegar einingar við Fossvogsskóla haustið 2024, eða í aðra leikskóla eftir því sem tilefni er til.

    Greinargerð fylgir.

    Lögð fram svohljóðandi málsmeðferðartillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata:

    Lagt er til að óskað verði eftir umsögnum foreldraráða og foreldrafélaga leikskólanna Garðaborgar og Jörfa vegna tillögu um að húsnæði leikskólans Garðaborgar færist undir leikskólann Jörfa að loknum framkvæmdum og að engin starfsemi verði á vegum Garðaborgar frá 1. október 2024.

    Samþykkt. SFS24060018 
     

    Fylgigögn

  6. Lögð fram drög að umsögn um drög að reglum um Borgaraþing Reykjavíkur, dags. 4. júní 2024, ásamt bréfi mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 21. maí 2024, þar sem óskað er eftir umsögnum.

    Samþykkt. MSS24040172

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 28. maí 2024, þar sem óskað er umsagna um tillögu um skólaheimsóknir í Ráðhús Reykjavíkur. MSS24040172 

    Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráð þakkar kynninguna og lýsir ánægju sinni með þessa hugmynd. Það er mikilvægt að gefa ungu fólki tækifæri til að læra um sveitarstjórnarstigið og gefa þeim tækifæri til að kynnast Ráðhúsinu og borgarstjórn.

    Fylgigögn

  8. Fram fer umræða um framtíð skóla- og frístundastarfs í Laugarnes- og Langholtshverfi. SFS22020010

  9. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. júní 2024, varðandi breytingu á viðauka um embættisafgreiðslur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs ásamt samþykkt um breytingu á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, dags. 23. febrúar 2024. SFS23090112

    Fylgigögn

  10. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 30. maí 2024, varðandi hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs vegna skólaársins 2023-2024. SFS24060032

    Fylgigögn

  11. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs og skrifstofustjóra á umhverfis- og skipulagssviði, dags. 28. maí 2024, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um skóla- og frístundastarf í Laugarnes- og Langholtshverfi, sbr. 15. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 13. maí 2024. SFS24050059

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér kemur ekki fram skýrt svar við þeim spurningum sem fram koma í fyrirspurninni heldur farið farið eins og köttur í kringum heitan graut. Því er óskað eftir að fá ítarlegri og skýrari svör við fyrirspurninni á næsta reglulega fundi skóla- og frístundaráðs.
     

    Fylgigögn

  12. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 16. maí 2024, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um leikskólakennara og leikskólastjóra, sbr. 13. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 22. apríl 2024. SFS24040133

    Fylgigögn

  13. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 22. maí 2024, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um manneklu í leikskólum, sbr. 31. lið fundargerðar borgarráðs frá 1. febrúar 2024. MSS24020005

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. júní 2024, um embættisafgreiðslur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, fimm mál. SFS22080009

    Fylgigögn

  15. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu: 

    Hinn 6. júní sl. var gerð opinber skýrslan: „Staða drengja í menntakerfinu - tillögur að úrbótum“ en skýrsla þessi var unnin af Tryggva Hjaltasyni fyrir mennta- og barnamálaráðuneytið. Lagt er til að höfundur skýrslunnar verði fenginn á fund skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur hinn 24. júní næstkomandi í því skyni að kynna helstu niðurstöður skýrslunnar.

    Frestað. SFS24060054

  16. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Við lok grunnskólagöngu nemenda hefur lengi verið hefð fyrir því að einstaka skólar veita viðurkenningu til þeirra útskriftarnema sem hafa náð tilteknum árangri. Eru til miðlægar reglur eða viðmið um þetta efni sem skóla- og frístundasvið hefur gefið út? Ef ekki, eru til óformlegar reglur um þetta innan reykvíska skólasamfélagsins? Sem dæmi, eru einhver viðmið til sem tryggja að litið sé til jafnrétti kynjanna við veitingu verðlauna og viðurkenningar til útskriftarnema í grunnskóla?

    SFS24060055

  17. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Af þeim starfsmönnum sem voru ráðnir af Afleysingastofunni árið 2023, hve margir voru enn í starfi hjá borginni hinn 1. júní síðastliðinn? Af þeim starfsmönnum sem voru ráðnir af henni árið 2023, hversu margir hófu störf hjá borgarreknum leikskólum og hversu margir af þeim starfsmönnum voru enn í starfi í leikskóla 1. júní 2024? Af þeim starfsmönnum sem voru ráðnir í gegnum Afleysingastofu, hve margir höfðu tilskilda menntun til að starfa inn á leikskóla? Hver var aldurssamsetning þess hóps sem var ráðinn og hver var menntun viðkomandi og reynsla af starfi innan leikskóla?

    SFS24060056
     

  18. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Reykjavíkurborg starfrækir Afleysingastofu. Hversu mörg stöðugildi voru á Afleysingarstofunni árið 2023 og hver var kostnaðurinn af rekstri hennar árið 2023?

    SFS24060057
     

  19. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Hver var launakostnaður yfirstjórnar skóla- og frístundasviðs árið 2023 og hver voru meðallaunin? Hver var launakostnaður vegna fagstjóra skóla- og frístundasviðs í hverfum árið 2023 og hver voru meðallaunin? Hver var launakostnaður stjórnenda (leikskólastjóri og aðstoðarleikskólastjóri) borgarrekinna leikskóla árið 2023 og hver voru meðallaunin?

    SFS24060058
     

  20. Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hvernig er fyrirhugað að þjónusta leikskólabörn og foreldra á þéttingarsvæðum í borginni, t.d. Hlíðarenda, Heklureit, Orkureit og Kringlu sem dæmi? Hvar verða byggðir nýir leikskólar, hvar verður byggt við og hvar er pláss í þeim leikskólum sem þegar eru í nágrenninu? Á mörgum þessara svæða eru allir leikskólar þegar yfirfullir. Foreldrar og íbúar í hverfum í nágrenni við þessa þéttingarreiti hafa áhyggjur af því að ekki sé hugað nóg að fjölgun leikskólaplássa í samhengi við þéttingu.

    SFS2406005

Fundi slitið kl. 15.20

Árelía Eydís Guðmundsdóttir Alexandra Briem

Guðný Maja Riba Helgi Áss Grétarsson

Marta Guðjónsdóttir Sabine Leskopf

Stefán Pálsson

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 10. júní 2024