Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 274

Skóla- og frístundaráð

Ár 2024, 27. maí, var haldinn 274. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.18.
Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Árelía Eydís Guðmundsdóttir formaður (B), Alexandra Briem (P), Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir (J), Guðný Maja Riba (S), Helgi Áss Grétarsson (D), Marta Guðjónsdóttir (D) og Sara Björg Sigurðardóttir (S). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Arndís Steinþórsdóttir, skólastjórar í grunnskólum; Helgi Eiríksson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Kristín Björnsdóttir, kennarar í grunnskólum og Leona Iguma, Reykjavíkurráð ungmenna. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Guðrún Edda Bentsdóttir, Ragna Kristjónsdóttir og Soffía Pálsdóttir. Eygló Traustadóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 21. maí 2024, þar sem fram kemur að Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir taki sæti í skóla- og frístundaráði í stað Halldóru J. Hafsteinsdóttur. MSS22060048
     

    Fylgigögn

  2. Fram fer kynning og umræða um stöðu mála í stoðdeild Birtu í Seljaskóla. SFS24030137 

    Dagbjört Ásbjörnsdóttir, Hulda Ingibjörg Rafnarsdóttir og Þorkell Daníel Jónsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það starf sem unnið hefur verið í Birtu er til fyrirmyndar. Fulltrúar meirihluta leggja áherslu á að tekið sé vel á móti þeim sem koma ný inn í skólakerfi borgarinnar. Starfið í Birtu er bæði fagmannlegt og hefur árangurinn skilað sér í þágu alls skólakerfisins hjá Reykjavíkurborg. Þó er rétt að árétta að það getur unnið gegn markmiðum starfsins að börnin upplifi sig tekin út fyrir sviga og séu í úrræði með sér nafn. Betur færi á að tala um móttökudeild tiltekins skóla. Mikilvægt er að leysa húsnæðisþörf fyrir skólastarfið þannig að starfið geti haldið áfram að þróast og dafna.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka fyrir kynningu á stöðu mála í stoðdeild vegna móttöku barna sem eru umsækjendur um alþjóðlega vernd og sækja nám í grunnskólum Reykjavíkurborgar. Þetta er mikilvægt starf og þýðingarmikið að þjálfað og sérhæft starfsfólk sinni verkefnum af þessu tagi.
     

  3. Lögð fram tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 23. maí 2024, um að stofna stoðdeild fyrir börn sem eru umsækjendur um alþjóðlega vernd í 1.-5. bekk sem staðsett verði í Breiðagerðisskóla, ásamt umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 18. mars 2024, umsögn skólaráðs Breiðagerðisskóla, dags. 2. maí 2024 og Úttekt á starfsemi stoðdeildar, skólaúrræði fyrir börn í leit að alþjóðlegri vernd, dags. í júní 2023.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu: 

    Skóla- og frístundaráð samþykkir að fresta afgreiðslu tillögu sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs um stofnun stoðdeildar í Breiðagerðisskóla vegna móttöku barna sem eru umsækjendur um alþjóðlega vernd og sækja nám í grunnskólum Reykjavíkurborgar. Þetta er gert vegna fyrirliggjandi umsagnar frá skólaráði Breiðgerðisskóla en í ljósi hennar væri rétt að leita frekari umsagna um málið hjá hagaðilum í Breiðagerðisskóla og eftir atvikum að skoðaðar verði sviðsmyndir þar sem aðrir valkostir eru kannaðir.

    Tillagan er felld með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata gegn tveimur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá. 

    Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 23. maí 2024:

    Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs leggur til að sett verði á laggirnar stoðdeild fyrir börn sem eru umsækjendur um alþjóðlega vernd og verði hún fyrir börn í 1.- 5. bekk og staðsett í Breiðagerðisskóla. Stoðdeild Birtu við Seljaskóla þjónusti börn í 6.-10. bekk. Breytingin taki gildi þann 1. ágúst 2024.

    Greinargerð fylgir. 

    Samþykkt. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá. Vísað til borgarráðs. SFS24030137

    Dagbjört Ásbjörnsdóttir og Þorkell Daníel Jónsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar meirihlutans telja að með því að skipta upp þjónustu við börn í leit að alþjóðlegri vernd eftir aldri sé betur komið til móts við ráðleggingar fagfólks og þarfir barnanna. Á árunum 2020 til 2024 fór fjöldi barna á aldrinum 6-16 ára sem eru umsækjendur um alþjóðlega vernd úr um 60 börnum upp í um 130 börn en á þessu skólaári eru 56 börn við nám í deildinni. Einnig er nauðsynlegt að hafa starfsemina nærri búsetu fjölskyldnanna og því styður meirihlutinn þá niðurstöðu að vel færi á því að starfsemin verði við Breiðagerðisskóla og samnýti húsnæði með frístundaheimilinu Sólbúum.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í ljósi fyrirliggjandi umsagnar frá skólaráði Breiðgerðisskóla hefði verið rétt að gefa fleiri hagaðilum í Breiðagerðisskóla kost á að tjá sig um þessa tillögu sviðsstjóra. Af þessum ástæðum lögðu skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram málsmeðferðartillögu sem meirihlutinn því miður felldi. Af þessum ástæðum sátu skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hjá við efnislega afgreiðslu tillögunnar.

    -    Kl. 14.18 víkur Arndís Steinþórsdóttir af fundinum. 

    -    Kl. 14.20 tekur Frans Sigurðsson sæti á fundinum.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. maí 2024, ásamt umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 22. maí 2024: 

    Lagt er til að viðmið um hámarksfjölda nemenda með lögheimili í Reykjavík sem heimilt
    er að greiða framlag vegna til sjálfstætt rekinna grunnskóla utan Reykjavíkur skólaárið
    2024-2025 verði eftirfarandi: Waldorfskólinn Lækjabotnum; 74, Alþjóðaskólinn á Íslandi; 50, Barnaskóli Hjallastefnunnar í Garðabæ; 8, Grunnskólinn NÚ, Framsýn; 20. Ákvörðun um viðmið verði tímabundinn og gildi til 1. júlí 2025, fyrir þann tíma verði tekin
    ákvörðun um framlengingu eða endurskoðun á fyrirkomulaginu. Með samþykkt viðmiða
    um hámarksfjölda er ekki fallið frá óskilyrtum rétti sveitarfélagsins til að synja einstaka
    umsóknum foreldra um skólavist í grunnskóla utan lögheimilissveitarfélags. Gerður er
    fyrirvari af hálfu Reykjavíkurborgar um að fjárveitingar skóla- og frístundasviðs eru gerðar með fyrirvara um fjárheimildir skv. fjárhagsáætlun á hverju ári.

    Greinargerð fylgir.

    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS22040100

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar meirihlutans fagna því mikla og góða starfi sem unnið er í sjálfstætt starfandi grunnskólum, en það ýtir undir fjölbreytileika og val, ásamt því að bjóða upp á möguleika á nýsköpun í skólastarfi.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykkja tillöguna enda verið að koma til móts við óskir umræddra skóla um hámarksfjölda nemenda á komandi skólaári. Engu að síður telja fulltrúar Sjálfstæðisflokks að ekki ætti að setja slíkt hámark heldur eigi nemendafjöldi að ráðast af plássi í skólunum og getu skólanna til að taka á móti nemendum. Slíkt fyrirkomulag væri liður í að foreldrar hafi aukið val um skóla fyrir börn sín.

    Fylgigögn

  5. Lagður fram viðauki við þjónustusamning Myndlistaskólans í Reykjavík vegna námskeiða í leikskólum og grunnskólum fyrir börn og starfsmenn ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 16. maí 2024, þjónustusamningi skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar og Myndlistaskólans í Reykjavík, dags. 10. júní 2021 og reglum Reykjavíkurborgar um styrki, dags. 25. maí 2017. 

    Samþykkt. Gerður er fyrirvari um að uppfylltar séu samningsbundnar skyldur samkvæmt núgildandi samningum. Vísað til borgarráðs. SFS24050085

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er mikilvægt að efla fjölbreyttan grundvöll náms fyrir börn í borginni. Hluti af því er að tryggja góðan grunn að framtíðarnámi, hvort sem það er bóknám, iðnnám eða listnám.
     

    Fylgigögn

  6. Lagður fram viðauki við samning Myndlistaskólans í Reykjavík um styrk við almenna starfsemi fyrir börn á leik- og grunnskólaaldri ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 16. maí 2024, samningi skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar og Myndlistaskólans í Reykjavík, dags. 10. júní 2021 og reglum Reykjavíkurborgar um styrki, dags. 25. maí 2017. 

    Samþykkt. Gerður er fyrirvari um að uppfylltar séu samningsbundnar skyldur samkvæmt núgildandi samningum. Vísað til borgarráðs. SFS24050085
     

    Fylgigögn

  7. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 13. maí 2024, um skóladagatal grunnskóla Reykjavíkur skólaárið 2025-2026. 

    Samþykkt. SFS24050086
     

    Fylgigögn

  8. Lögð fram að nýju tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um aukið vægi listgreina á unglingastigi, sbr. 9. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 8. janúar 2024 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 22. maí 2024, um tillöguna. 

    Frestað. SFS24010042
     

    Fylgigögn

  9. Lögð fram auglýsing um borgaraþing um málefni barna á aldrinum 0-6 ára sem mun fara fram 8. júní 2024. SFS24050099

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar meirihlutans fagna því að til standi að halda borgaraþing um málefni barna á aldrinum 0-6 ára þar sem til umræðu verða dagvistun, umönnunarbil, aðstæður í borgarumhverfi, fjölbreyttar fjölskyldugerðir og farsæld barna, en þetta er í samræmi við samþykkt í borgarstjórn um að halda borgaraþing um leikskólamál. Þetta er tækifæri til að eiga samtal og heyra af áhyggjum og áherslum íbúa.
     

    Fylgigögn

  10. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hversu margir starfslokasamningar hafa verið gerðir við skólastjórnendur og stjórnendur skóla- og frístundasviðs á tímabilinu 1. janúar 2015 til og með 15. maí 2024? Hver er kostnaður Reykjavíkurborgar við hvern starfslokasamning á föstu og gildandi verðlagi? Hversu háa upphæð hefur þurft að greiða fyrir starfslok á þessu tímabili á föstu og gildandi verðlagi? Hversu langur er hver starfslokasamningur sem skóla- og frístundasvið hefur gert við stjórnendur? Hvert er starfsheiti og aldur starfsmanns á bakvið hvern starfslokasamning? Hvaða skýring liggur að baki hverjum starfslokasamningi að þessi leið er valin? Er fjöldi starfslokasamninga við stjórnendur skóla- og frístundasviðs hjá Reykjavíkurborg sambærilegur við nærliggjandi sveitarfélög? Hversu margir skólastjórnendur hafa sagt upp störfum á tímabilinu 1. janúar 2015 til og með 15. maí 2024?

    SFS24050122

Fundi slitið kl. 14.56

Árelía Eydís Guðmundsdóttir Alexandra Briem

Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir Guðný Maja Riba

Helgi Áss Grétarsson Marta Guðjónsdóttir

Sara Björg Sigurðardóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 27. maí 2024