Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 272

Skóla- og frístundaráð

Ár 2024, 22. apríl, var haldinn 272. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.14.
Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Árelía Eydís Guðmundsdóttir formaður (B), Alexandra Briem (P), Guðný Maja Riba (S), Halldóra J. Hafsteinsdóttir (J), Helgi Áss Grétarsson (D) og Sabine Leskopf (S). Eftirtalinn fulltrúi tók sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Marta Guðjónsdóttir (D). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum, Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum, Linda Ósk Sigurðardóttir, starfsfólk í leikskólum; Leona Iguma, Reykjavíkurráð ungmenna og Þóranna Rósa Ólafsdóttir, skólastjórar í grunnskólum. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Frans Páll Sigurðsson, Guðrún Edda Bentsdóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir, Ólafur Brynjar Bjarkason og Soffía Pálsdóttir. Eygló Traustadóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 11. apríl 2024, þar sem tilkynnt er að Halldóra Jóhanna Hafsteinsdóttir tekur sæti í skóla- og frístundaráði í Ástu Þórdísar Skjalddal Guðjónsdóttur. MSS22060048

    Fylgigögn

  2. Lögð fram og kynnt drög að samstarfsyfirlýsingu vegna barna í viðkvæmri stöðu á starfssvæðum miðstöðva Reykjavíkurborgar. VEL24040013

    Óskar Dýrmundur Ólafsson, Hákon Sigursteinsson og Hulda Björk Finnsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihluti Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggur áherslu á þarfir barna í borginni. Meirihlutinn fagnar þessari samstarfsyfirlýsingu og því að þessir aðilar lýsi yfir vilja til að starfa saman og móta og samræma verklag sitt í þjónustu við börn í viðkvæmri stöðu eins og hægt er innan ramma þeirra laga sem gilda um starfsemi þeirra, en einnig laga um persónuvernd og mannréttindi. Hér er mikilvægt skref stigið til að stefna Reykjavíkurborgar um að tryggja vernd og umönnun barna gegn ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi nái fram að ganga.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 7. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 11. mars 2024: 

    Lagt er til að leitað verði nýrra leiða í leikskólamálum og svokallað Kópavogsmódel verði tekið upp í leikskólum Reykjavíkur til að hægt verði að stytta biðlista og nýta þau lausu pláss á leikskólunum sem eru vannýtt vegna mikillar manneklu, veikinda og álags á starfsfólk. Markmiðið með nýjum leiðum í leikskólamálum yrði jafnframt að koma í veg fyrir að loka þurfi deildum vegna manneklu sem hefur komið niður á þjónustu við börnin og sem veldur álagi og streitu á fjölskyldur leikskólabarna. Vandi leikskólanna hefur verið margþættur á undanförnum árum og yrði hér um að ræða mikilvæga leið til að efla leikskólana og þjónustu þeirra og koma í veg fyrir viðvarandi starfsmannaveltu. Rétt er að horft verði til Kópavogsleiðarinnar í þeirri viðleitni að tryggja mönnun þannig að hægt verði að nýta laus leikskólapláss sem fyrst enda hefur það gefið góða raun. Mikilvægt er því að til skoðunar komi að auka sveigjanleika í dvalartíma barna, tekjutengja leikskólagjöld og bjóða upp á gjaldfrjálsan leikskóla fyrir sex tíma vistun. Lagt er til að vinna við slíka leið hefjist sem fyrst og skipaður verði starfshópur sem komi með tillögur að útfærslu þannig að taka megi upp slíkt módel á komandi hausti. 

    Tillagan er felld með fimm atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands gegn tveimur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. SFS24030067

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar meirihlutans telja mikilvægt að fylgjast vel með og skoða þær leiðir sem önnur sveitafélög fara til að vinna að því að stytta biðlista og minnka álag á kennara og aðra starfsmenn í leikskólum. Við höfum kynnt okkur þá leið sem hér er til umræðu en teljum ekki, að svo komnu máli, að skynsamlegt sé að fara þá leið m.a. þar sem engin fagleg úttekt hefur farið fram sem sýnir fram á árangurinn og áhrif á líðan barna.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ljóst er að meirihlutinn neitar að horfast í augu við þann bráðavanda sem steðjar að leikskólum Reykjavíkur. Enn hefur ekki tekist að stytta biðlista barna eftir leikskólavist og meðalaldur barna við inntöku í leikskóla hefur farið hækkandi og eru sum börn komin vel á þriðja ár þegar þau komast í leikskóla. Í sumum leikskólum hefur þjónustan verið skert, senda hefur þurft börnin fyrr heim og jafnvel skerða vist þeirra um heilan dag. Þá er ekki hægt að nýta 140 pláss vegna manneklu og 363 pláss vegna framkvæmda við leikskólana vegna viðhaldsleysis. Þetta gerir samtals 510 pláss sem ekki er hægt að nýta. Þetta samsvarar því að allt að 7 leikskólar væru ekki starfandi eða lokaðir. Þrátt fyrir þessar staðreyndir lokar meirihlutinn augunum fyrir að skoða lausnir sem gefist hafa vel í öðrum sveitarfélögum.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Sósíalista telur að leikskóli eigi að vera gjaldfrjáls. Hér er lagt til að einungis 6 tímar verði gjaldfrjálsir og tímar umfram það dýrari. Slíkt skerðir nauðsynlega þjónustu þar sem ýtt er undir að efnaminni og verr settir foreldrar greiði meira fyrir dvöl barna á leikskóla. Efnameiri og betur settir foreldrar hafa betri möguleika á að stytta dvalartímann, nýta þar með einungis 6 klst. dvöl fyrir börnin sín og greiða þannig ekki fyrir leikskóladvöl. Þessi breyting eykur því á ójöfnuð. Miðað við stöðuna í dag þá eru margir foreldrar sem hafa ekki tækifæri á að stytta dvöl barna í leikskóla. Þessi breyting bitnar á einstæðum foreldrum, jaðarsettum hópum og láglaunafólki með lengsta vinnutímann. Konur og kvár eru gjarnan tekjulægri en karlar og eru líklegri til að þurfa að taka á sig styttingu í starfi til að mæta þessum breytingum. Það þýðir minni laun, minni lífeyrisréttindi og hættu á að launabilið milli kynjanna breikki. Mikilvægt er að vinna að barnvænu samfélagi en fulltrúi Sósíalista sér ekki að þessi tillaga geri það.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Hér gætir mikils misskilnings hjá fulltrúa Sósíalista en tillaga að þeirri leið sem hér er lagt til felur í sér jöfnuð enda um val að ræða um vistunartíma og tekjutengingu við leikskólagjöld.

    Áheyrnarfulltrúi starfsmanna í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun:

    Á hverju hausti þurfa starfmenn leikskólanna að horfast í augu við manneklu sem leiðir til óboðlegra starfsaðstæðna á sama tíma og ný börn eru tekin inn í leikskólana. Borgin þarf að taka umræðuna um hvað sé til ráða til að bæta starfsumhverfi barna og starfsmanna með tilliti til þess sem er að gerast í nágrannasveitarfélögum.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 30. mars 2024, um skil á gögnum vegna undirbúnings fjárhagsáætlunar 2025-2029 ásamt reglum um gerð og framkvæmd fjárhagsáætlunar hjá Reykjavíkurborg. VEL24030056

    Fylgigögn

  5. Lagt fram fjárhagsuppgjör skóla- og frístundasviðs 2023, trúnaðarmál. SFS23070016 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram bókun sem færð er í trúnaðarbók:

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram bókun sem færð er í trúnaðarbók.

    Áheyrnarfulltrúar skólastjóra og kennara í grunnskólum leggja fram bókun sem færð er í trúnaðarbók.

    Kl. 15.10 víkur Linda Ósk Sigurðardóttir af fundinum. 

  6. Lagt fram yfirlit yfir innkaup skóla- og frístundasviðs yfir 1 m.kr. október-desember 2023, ódags. SFS22100120

    Fylgigögn

  7. Lagt fram yfirlit yfir ferðir skóla- og frístundasviðs október-desember 2023, dags. 9. apríl 2024. SFS22100121

    Fylgigögn

  8. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 17. apríl 2024, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um reglur og viðmið um þátttöku nemenda í mótmælum á opinberum vettvangi á skólatíma, sbr. 9. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 12. febrúar 2024. SFS24020067

    Fylgigögn

  9. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 15. apríl 2024, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins varðandi eftirlit með innleiðingu jafnréttisgátlista, sbr. 17. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 8. apríl 2024. SFS24040056

    Fylgigögn

  10. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 16. apríl 2024, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um stöðu leikskólamála, sbr. 50. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. janúar 2024. MSS24010109

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. apríl 2024, um embættisafgreiðslur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, fjögur mál. SFS22080009

    Fylgigögn

  12. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Vísað er í svör skóla- og frístundasviðs, dags. 29. febrúar 2024 (SFS23110141) og dags. 15. apríl 2024 (SFS24040056) um jafnréttisgátlista sem sendir voru til stjórnenda leikskóla haustið 2023 af frumkvæði Jafnréttisskóla Reykjavíkurborgar. Spurt er um hvort samhliða útsendingu jafnréttisgátlista sl. haust hafi bréf verið sent til stjórnenda leikskólanna? Ef svo er, er hægt að gera efni bréfsins aðgengilegt? Einnig er spurt um hvort kostnaður af vinnu við gerð jafnréttisgátlista til stjórnenda leikskóla liggi fyrir? Ef svo er ekki, er þá hægt að áætla þann kostnað?

    SFS24040056

  13. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er eftir að fá upplýsingar um heildarfjölda leikskólakennara og starfshlutfall þeirra í Reykjavík, 1. febrúar 2024. Hversu margir af þeim eru deildarstjórar og starfshlutfall þeirra? Hvað eru margir leikskólastjórar og aðstoðarleikskólastjórar af heildinni sundurgreint? Hver er meðalaldur leikskólakennara, leikskólastjóra og svo samanlagt? Hvað eru starfræktar margar leikskóladeildir í Reykjavík og hvað eru margir deildarstjórar með kennaramenntun?

    SFS24040133

Fundi slitið kl. 15.42

Árelía Eydís Guðmundsdóttir Alexandra Briem

Guðný Maja Riba Halldóra Jóhanna Hafsteinsdóttir

Helgi Áss Grétarsson Marta Guðjónsdóttir

Sabine Leskopf

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 22. apríl 2024