Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 271

Skóla- og frístundaráð

Ár 2024, 8. apríl, var haldinn 271. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.15.
Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Árelía Eydís Guðmundsdóttir formaður (B), Alexandra Briem (P), Sara Björg Sigurðardóttir (S), Helgi Áss Grétarsson (D), Marta Guðjónsdóttir (D), Sabine Leskopf (S) og Stefán Pálsson (V). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum, Helgi Eiríksson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva, Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum og Þröstur Flóki Klemensson, Reykjavíkurráð ungmenna. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Aðalheiður Stefánsdóttir, Frans Páll Sigurðsson, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir. Guðrún Sigtryggsdóttir ritar fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 26. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 9. október 2023:

    Lagt er til að fulltrúi skrifstofu framkvæmda og viðhalds fari yfir það á næsta reglulega fundi skóla- og frístundaráðs hversu miklu var varið í viðhald leikskóla árið 2022. Sömuleiðis að farið verði yfir hversu miklu verði varið í viðhald í fjárhagsáætlun 2024.

    Samþykkt. SFS23100048

     

    Fylgigögn

  2. Fram fer kynning á stöðu húsnæðismála skóla- og frístundasviðs. SFS23100048

    Dagur Bollason,  Ragnar Pálsson, Ásdís Olga Sigurðardóttir og Þórdís Eik Friðþjófsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Kl. 13:23 tekur Arndís Steinþórsdóttir sæti á fundinum.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Húsnæðismál í grunn- og leikskólum borgarinnar eru í algjörum forgangi. Mikil vinna hefur farið í að þarfagreiningu ásamt miklu fjármagni og mannskapur settur í endurnýjun og viðhald. Ljóst er að næstu ár verða erfið en taka verður tillit til fjölda bygginga sem tilheyra sviðinu. meirihlutinn hefur forgangsraðað þessum málaflokki og mun halda áfram að gera sitt allra besta til að skólastofnanir borgarinnar skapi góða umgjörð um það lærdómssamfélag sem þar blómstrar.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Líkt og ráða má af kynningu um viðhald skólahúsnæðis þá er uppsafnað brýnt viðhald umfangsmikið og viðhaldsskuldin orðin mikil eins og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað bent á árum saman. Brugðist var allt of seint við með þeim afleiðingum að taka hefur þurft úr notkun húsnæði 10 leikskóla þannig að 363 leikskólapláss eru ónýtanleg. Þá hefur þurft að taka úr notkun 4 grunnskóla að öllu leyti eða að hluta sem óhjákvæmilega kemur niður á faglegu starfi skólanna. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

    Reykjavíkurborg hefur síðustu misserin staðið fyrir risavöxnum verkefnum á sviði viðhaldsmála í skólum, leikskólum og frístundaheimilum sínum. Framkvæmdir þessar valda miklu raski á starfsemi viðkomandi stofnana og skapa óþægindi fyrir starfsfólk, börn og foreldra. Þrátt fyrir raskið hafa borgarbúar sýnt verkefninu mikla þolinmæði, enda ljóst að um flókið og mikilvægt úrlausnarefni er að ræða. Jafnframt er ljóst að þá þolinmæði þrýtur hratt þegar og ef borgararnir upplifa það að framkvæmdir einkennist af töfum og hægagangi. Vegna þessa er afar brýnt að borgin gæti þess að halda framkvæmdaraðilum vel að verki svo ekki komi til þess að nágrannar horfi upp á mannlaus framkvæmdasvæði jafnvel svo vikum skiptir, þar sem slíkt elur á óánægju og tortryggni.

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 27. mars 2024, um að Grandaborg verði lokað tímabundið: 

    Lagt er til að skóla- og frístundaráð samþykki að loka leikskólanum Grandaborg tímabundið frá 1. september 2024 til 1. september 2025 eða þangað til að húsnæði leikskólans við Boðagranda 9 er fullklárað. Í dag eru 16 börn í Grandaborg og er lagt til að þau fái forgang í leikskólann Hagaborg, eða aðra leikskóla, áður en úthlutun leikskóla fyrir næsta haust hefst þann 2. apríl 2024. 

    Greinargerð fylgir. 

    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS24030113 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Vegna gagngerrar endurnýjunar á húsnæði Grandaborgar hafa börn, starfsmenn og stjórnendur þurft að færa starfsemi sína. Stjórnendur hafa staðið sig vel í afar erfiðum aðstæðum og vill meirihlutinn þakka þeim fyrir að hafa lyft grettistaki. Nú er ljóst að einungis 14 börn eru eftir á Grandaborg sem eru öll á Hagaborg og því er skynsamlegra út frá rekstralegum forsendum að loka Grandaborg tímabundið eða um eitt þar þangað til húsnæðisaðgerðum er lokið.

     

    Fylgigögn

  4. Lögð fram tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 26. mars 2024, um skóla- og fjölskyldumiðstöð fyrir börn á leikskóla- grunnskóla- og framhaldsskólaaldri í kjölfar fjölskyldusameiningar fólks frá Palestínu auk umsagnar fjármála- og áhættstýringarsviðs, dags. 26. mars 2024. 

    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. MSS24030094

    Dagbjört Ásbjörnsdóttir og Saga Stephensen taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Börn á flótta eru með þeim viðkvæmustu hópum barna og miklu máli skiptir fyrir ókomna framtíð þeirra að þau fái viðeigandi þjónustu á fyrstu vikum og mánuðum hér á landi. Ávinningurinn er ekki einungis fyrir þennan hóp barna og fjölskyldur þeirra heldur samfélagið allt. Mikil fagþekking hefur skapast hjá starfsfólki Skóla- og frístundarsviðs sem nýtist í verkefninu. Meirihlutinn í skóla- og frístundaráði leggur ríka áherslu á að unnið sé vel að því að styðja við þennan hóp og koma til móts við þessi börn og fjölskyldur þeirra sem upplifað hafa hörmungar stríðs. Afar mikilvægt er að ríkið sýni ábyrgð og taki þátt í fjármögnun verkefnis og að fjármagn sé tryggt til framtíðar þannig að skólastarf fyrir þennan hóp barna sé inni í samningum um samræmda móttöku.

     

    Fylgigögn

  5. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 24. febrúar 2024, um þróunarverkefni um samræmt verklag um móttöku og þjónustu við börn með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn . SFS24020189

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er fagnaðarefni að þekking Reykjavíkurborgar á málefnum barna með fjölbreyttan tungumálabakgrunn fái leiðandi hlutverk í stefnumótun í þessum mikilvæga málaflokki fyrir landið allt en á sama tíma umhugsunarvert að á sama tíma fái Reykjavíkurborg, eitt sveitarfélaga á landinu, ekki framlag úr Jöfnunarsjóði með þessum börnum. Þetta þverfaglega samstarf milli sveitarfélaga, ráðuneyta og ríkisstofnanna getur leitt til gífurlegs ávinnings fyrir öll, sérstaklega þau sem þjónustuna þiggja. Samhliða er brýnt að standa vörð um hagsmuni borgarinnar í þessari vinnunni.

     

    Fylgigögn

  6. Lagðar fram verklagsreglur um fyrirspurnir og tillögur í ráðum og nefndum Reykjavíkurborgar. MSS23090170 

    Helga Björk Laxdal tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Kl. 15:30 víkur Arndís Steinþórsdóttir af fundinum. 

     

    Fylgigögn

  7. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. apríl 2024, varðandi umsagnir um tilraunaverkefni um dvöl barna á frístundaheimili fyrir skólabyrjun auk bréfs skrifstofu borgarstjóra dags. 20. mars 2024 og bréfs skóla- og frístundasviðs, dags. 6. mars 2024. SFS22030077

    Kl. 15:40 víkur Frans Páll Sigurðsson af fundinum. 

     

    Fylgigögn

  8. Lögð fram drög að umsögn um aðgerðaáætlun 2024-2026 um þátttöku Reykjavíkurborgar í alþjóðlegum rannsóknar-og nýsköpunarverkefnum, dags. 15. mars 2024. Jafnframt lagt fram bréf forsætisnefndar, dags. 6. mars 2024 og drög að uppfærðri aðgerðaráætlun auk skýrslu Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnsýslu, dags. í febrúar 2024, varðandi þátttöku Reykjavíkurborgar í fjölþjóðlegum rannsóknar- og nýsköpunarverkefnum. 

    Samþykkt. MSS23050179

     

    Fylgigögn

  9. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 26. febrúar 2024, við fyrirspurn Sjálfstæðisflokksins varðandi kostnað vegna bráðabirgðahúsnæðis leik- og grunnskóla. SFS23060227

    Fylgigögn

  10. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 15. mars 2024, við fyrirspurn áheyrnafulltrúa Flokks fólksins varðandi farsíma í grunnskólum. MSS24020181

    Fylgigögn

  11. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 15. mars 2024, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks varðandi upplýsingar um hvort tekist hafi að tryggja öllum börnum í grunnskólum pláss á frístundaheimili. SFS24030068

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Nú þegar skólaárinu er að ljúka eru enn 127 börn á biðlista eftir að komast á frístundaheimili þ.e. 66 börn með fulla vist en 61 barn með hlutavistun. Ólíklegt er að á þeim stutta tíma sem er eftir af skólaárinu að það takist að tæma biðlistann og tryggja þeim börnum sem eru á honum vist á frístundaheimilunum áður en skólaárinu lýkur. Helstu ástæður eru sagðar vera  mannekla og að umsóknir eru ekki að berast. Það kallar á heildarendurskoðun á störfum frístundaheimilanna m.a. að gera störfin að heilsárs- og heilsdagsstörfum en það væri m.a. hægt með því að starfsmenn frístundaheimilanna gætu að hluta til starfað á leikskólum fyrir hádegi og eftir hádegi á frístundaheimilunum. 

    Fylgigögn

  12. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. apríl 2024, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins varðandi upplýsingar um stöðu biðlista eftir leikskólaplássi. SFS24030069

    Kl. 15:58 víkur Þröstur Flóki Klemensson af fundinum. 

    Kl. 16:14 víkur Soffía Vagnsdóttir af fundinum. 

    Kl. 16:18 víkur Albína Hulda Pálsdóttir af fundinum. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Staða biðlista eftir leikskóla breytist lítið milli ára og nú bíða 1327 börn eftir leikskóla.

    Staðan í ár mun ekki verða betri en í fyrra en við biðlistann bætast að jafnaði 100 börn á mánuði. Þótt um 1400 börn hætti í leikskóla og fari í grunnskóla þá má slá föstu á þessum tímapunkti að biðlistinn muni að lágmarki telja um 500 börn sem ekki fái inngöngu í leikskóla í haust.

     

    Fylgigögn

  13. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 29. febrúar 2024, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um gátlista varðandi jafnrétti í leikskóla. SFS23110141

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. apríl 2024, um embættisafgreiðslur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, sjö mál. SFS22080009

    Fylgigögn

  15. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Óskað er eftir tölulegum upplýsingum um hve mörg börn hafa sótt um flutning úr sínum skóla, án þess að lögheimili sé flutt, yfir í skóla innan síns hverfis eða póstnúmers eða sækja um flutning í skóla sem staðsettur er í öðrum hverfishluta, öðru póstnúmeri án þess að lögheimili sé flutt síðustu fimm árin. Óskað er eftir að svarið aðgreinist eftir þremur aldursbilum, 1.-4. bekk , 5.-7. Bekk og síðan í 8.-10. bekk, eftir nafni skólans sem farið er úr, eftir nafni skólans sem sótt erum um eftir póstnúmeri. Óskað er eftir upplýsingum um fjölda barna sem fá samþykkta breytta skólavist og hversu mörgum börnum er synjað. Í þeim tilfellum sem barni er hafnað um skólavist, á hvað grundvelli er umsókninni hafnað. Er einhver eftirfylgni með þeim börnum sem er hafnað um skólavist?

    Greinargerð fylgir. SFS24040053

    Fylgigögn

  16. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Á fundi skóla- og frístundaráðs 27. nóvember 2023 var samþykkt að áframhald yrði á því leikskólarnir Árborg, Garðaborg og Grandaborg flyttu starfsemi sína á aðra starfstöð og að sá flutningur væri að minnsta kosti í gildi til 1. mars 2025. Núna liggur fyrir að seinkanir hafa orðið á framkvæmdum á húsnæði leikskólans Grandaborg og leikskólanum hefur verið lokað fram til haustsins 2025 að minnsta kosti. Fyrir liggur einnig að núna sé gert ráð fyrir að leikskólinn Garðaborg geti aftur hafið starfsemi í sínu hefðbundna húsnæði í ársbyrjun 2025. Á hinn bóginn er útlit fyrir að húsnæðið á lóð leikskólans Árborgar verði ekki tilbúið fyrr en í árslok 2025. Af þessum ástæðum er spurt hvort ekki sé þörf á því að skóla- og frístundaráð samþykki sérstaklega að leikskólinn Árborg hafi starfsemi sína annars staðar en í sínu hefðbundna húsnæði fram til ársloka 2025? Að breyttum breytanda er spurt hvort ekki þurfi slíkar sérstakar samþykktir ráðsins fyrir aðra leikskóla þar sem gert er ráð fyrir að þeir verði lokaður í sínu hefðbundna húsnæði í meira en 12 mánuði?

    SFS24040055

  17. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Samkvæmt svari skóla- og frístundaráðs, dags. 29. febrúar 2024 (SFS23110141) hafa leikskólastjórnendur „frelsi til að velja þau verkfæri sem þeir telja best til þess fallin til að ná markmiðum og til að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til starfseminnar út frá lögum, stefnum og reglugerðum“ og í því felst væntanlega meðal annars að stjórnendur hafa svigrúm til að útfæra hvernig taka eigi tillit til jafnréttisgátlista sem Jafnréttiskóli Reykjavíkurborgar sendi út til stjórnenda leikskólanna haustið 2023. Með hliðsjón af þessu er spurt hvernig eftirliti sé háttað með því hvernig stjórnendur leikskóla innleiða efni jafnréttisgátlista af þessu tagi? Er sem dæmi farið í vettvangsheimsóknir í leikskóla til að kanna „hvort öll svæði leikskólans séu kynjahlutlaus“ og „púsluspil leikskólans séu laus við staðalmyndir? “

    SFS24040056

     

Fundi slitið kl. 16.25

Árelía Eydís Guðmundsdóttir Alexandra Briem

Helgi Áss Grétarsson Marta Guðjónsdóttir

Sabine Leskopf Sara Björg Sigurðardóttir

Stefán Pálsson

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 8. apríl