Skóla- og frístundaráð
Ár 2024, 26. febrúar, var haldinn 269. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.15.
Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Árelía Eydís Guðmundsdóttir formaður (B), Alexandra Briem (P), Birna Hafstein (D), Marta Guðjónsdóttir (D), Guðný Maja Riba (S), Halldóra J. Hafsteinsdóttir (J), og Sabine Leskopf (S). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum, Guðrún Jóna Thorarensen, leikskólastjórar, Helgi Eiríksson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva, Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum og Þröstur Flóki Klemensson, Reykjavíkurráð ungmenna. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs:, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir,staðgengill sviðsstjóra, Anna Garðarsdóttir, Frans Páll Sigurðsson, Guðrún Mjöll Sigurðardóttir, Ólafur Brynjar Bjarkason, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir. Guðrún Sigtryggsdóttir ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 11. janúar 2024 og skýrsla um félagslegt landslag í Reykjavík, dags. í janúar 2024. MSS22020030
Kolbeinn H. Stefánsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Kl. 13:24 tekur Arndís Steinþórsdóttir sæti á fundinum.
Kl. 13:52 víkur Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir af fundinum.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Skýrsla um félagslegt landslag í Reykjavíkurborg veitir mikilvæga innsýn í það hvernig samfélag okkar er að þróast. Fulltrúar meirihlutans vilja koma á framfæri þakklæti fyrir vel unnið starf. Fyrir liggur að Reykjavíkurborg er að mörgu leyti á pari við aðrar borgir sem við berum okkur saman við á Norðurlöndunum. Það er jákvætt að sjá að yfir það heila er ójöfnuður ekki að aukast á milli áranna 2000 og 2020, og hefur lækkað nokkuð síðan árið 2007. Fulltrúar meirihlutans telja að fylgjast þurfi mjög vel með hvort ójöfnuður haldist í hendur við tiltekna hópa og búsetusvæði. Mikilvægt er að greina og rýna niðurstöður með hagsmuni barna og alls skólakerfisins í huga og vinna að því bæði að draga að ójöfnuði, og koma í veg fyrir að hann hafi áhrif á námsumhverfi og tækifæri barna.
Kl. 14:10 víkur Guðrún Mjöll Sigurðardóttir af fundinum.
-
Lagt fram bréf Innri endurskoðunar og ráðgjafar, dags. 1. nóvember 2023 og skýrsla um eftirlitsmyndavélar á vegum Reykjavíkurborgar, greining á hlítni við persónuverndarlög, dags. október 2023. SFS23110059
Kolbrún Birna Hallgrímsdóttir Bachmann og Búi Bjarmar Aðalsteinsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Allt eftirlit er viðkvæmt og mikilvægt að því sé haldið í lágmarki við það sem er nauðsynlegt og að um það gildi skýrt verklag og reglur um notkun og ábyrgð sem farið sé eftir. Jafnframt er ljóst að vantað hefur heildstæða yfirsýn yfir myndavélaeftirlit í Reykjavíkurborg. Þó hefur yfirsýn á skóla- og frístundasviði verið nokkuð góð. Nýlega hefur þjónustu- og nýsköpunarsviði verið falið að útbúa skýrt verklag um notkun eftirlitsmyndavéla, bæði til að tryggja tæknilegt öryggi kerfisins, og til að tryggja að samræmt verklag gildi um þarfagreiningu, notkun, varðveislu, aðgang og hlýtni við lög og kröfur persónuverndar. Það er mikið réttlætismál að myndavélaeftirliti sé ekki beitt meira en algjöra nauðsyn krefur, það sé í samræmi við þörf og ekki notað eftir hentisemi á hverjum stað eða vegna annarra þarfa en þeirra sem koma fram í þarfagreiningu.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 16. október 2023, varðandi tillögu að utanumhaldi um rafræna vöktun í starfsemi Reykjavíkurborgar. SFS23110059
Búi Bjarmar Aðalsteinsson og Kolbrún Birna Hallgrímsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Kl. 14:45 víkur Birna Hafstein af fundinum og Helgi Áss Grétarsson tekur þar sæti.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á Menntastefnumóti þann 17.maí 2024.
Hjörtur Ágústsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
-
Lagt fram minniblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 5. febrúar 2024, um úthlutun almennra styrkja skóla- og frístundaráðs 2024 og yfirlit yfir umsóknir almenntra styrkja skóla- og frístundaráðs árið 2024. Lögð fram svohljóðandi tillaga úthlutunarnefndar um almenna styrki skóla- og frístundaráðs um að eftirtaldir aðilar hljóti styrki skóla- og frístundaráðs 2024, í þeim tilfellum þar sem lagt er til að veittur verði styrkur að hluta er skilyrt að styrkupphæð verði varið í tilgreinda þætti sem koma fram í minnisblaði sviðsstjóra, dags. 5. febrúar 2024:
Kl. 15:03 tekur Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir sæti á fundinum.
1)Umsækjandi: ADHD samtökin. Heiti verkefnis: Nám og tómstundir með ADHD. Kr. 300.000.
2)Umsækjandi: Brekvirkni ehf. Heiti verkefnis: Bernsku-BREK. Kr. 300.000.
3)Umsækjandi: Höfuðstöðin. Heiti verkefnis: Hugblær. Kr. 250.000.
4)Umsækjandi: Íunn Eir Gunnarsdóttir. Heiti verkefnis: Félagsfærnifjör; kennslu-handbók fyrir fagfólk grunn og frí. Kr. 200.000.
5)Umsækjandi: Landsamband slökkviliðs- og sjúkraflutningsmanna. Heiti verkefnis: Eldvarnarátak 2023. Kr. 300.000.
6)Umsækjandi: Muhammed Emin Kizilkaya. Heiti verkefnis: Pangea stærðfræðikeppnin 2023. Kr. 250.000.
7)Umsækjandi: Rithöfundasamband Íslands. Heiti verkefnis: Skáld í skólum. Kr. 400.000.
8)Umsækjandi: Tónlistarfélag Árbæjar. Heiti verkefnis: Þjálfun í tónlistargerð fyrir starfsfólk SFS. 400.000.
9)Umsækjandi: Tónskóli Sigursveins: Heiti verkefnis: Leikskólaverkefnið. Kr. 600.000.
Samþykkt. SFS24020087
Guðrún Edda Bentsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs, dags. 22. febrúar 2023, varðandi verklag við ráðningar leik- og grunnskólastjóra auk umsagnar skóla- og frístundasviðs, dags. 5. febrúar 2024.
Lagt er til að verklag við ráðningar æðstu stjórnenda í borgarreknum grunn- og
leikskólum verði tekið til endurskoðunar, m.a. í því skyni að auka gegnsæi með hvaða
hætti stöður eru auglýstar, hverjir sækja um slíkar stöður og með hvaða hætti
upplýsingar séu veittar kjörnum fulltrúum um ráðningar í slíkar stöður.Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata gegn þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands. SFS23050137
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillögunni er vísað frá þar sem sviðið er að vinna að uppfærðu verklagi um ráðningar í samráði við mannauðs- og starfsumhverfissvið Reykjavíkurborgar.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Þessi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins var lögð fram á fundi skóla- og frístundaráðs fyrir rúmu ári síðan, 20. febrúar 2023. Markmið tillöguflutningsins var að auka gegnsæi við ráðningar stjórnenda borgarrekinna stofnana innan skóla- og frístundasviðs. Meirihlutinn hefur núna vísað þessari tillögu frá og byggir sú pólitíska afgreiðsla á því að verklag í þessum málum sé í endurskoðun, meðal annars yfir borgina í heild. Á reiki er hvenær sú endurskoðun hófst innan borgarkerfisins. Aðalatriðið í þessu máli hins vegar er að kjörnir fulltrúar í skóla- og frístundaráði, bera skyldur til að hafa eftirlit með starfsemi skóla- og frístundasviðs og einn mikilvægur liður í því ætti að vera sá að fulltrúunum verði veittar reglubundnar upplýsingar um „með hvaða hætti stöður eru auglýstar, hverjir sækja um slíkar stöður“ og hver var ráðinn og hvers vegna.
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað, dags. 22. janúar 2024, yfirlit yfir starfshópa skóla- og frístundasviðs og erindisbréf mars 2022 – janúar 2024
Fylgigögn
-
Fram fara umræður um snjallsímanotkun. SFS24020121
Frestað.
-
Verklag varðandi innritun í leikskóla og vegna umsókna um breytingar á fjölda barna í leikskólum. SFS23100062
Frestað.
-
Lagt fram svar við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks, dags. 13. febrúar 2024 um starfsfólk leikskóla sem hefur hætt eða farið í langtímaveikindi 2021-2023.
SFS23060223Skóla- og frístundaráðsfulltrúar sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er mikilvægt að haldið sé vel utan um starfsmannaskráningar til að geta fylgst með starfsmannaveltu og langtímaveikindum, ekki síst í ljósi þeirrar manneklu sem leikskólar borgarinnar standa frammi fyrir. Ljóst er af því svari sem hér liggur fyrir að alvarleg staða er í starfsmannamálum leikskólanna þar sem 2.477 starfsmenn hættu frá árinu 2021 til júlí 2023. Greina þarf þessar upplýsingar mun betur eftir því hvort um er að ræða uppsagnir eða langtímaveikindi niður á starfsstaði og starfsheiti. Óviðunandi er að ekki sé til staðar greining á þessari miklu starfsmannaveltu. Brýnt er að slík greining fari fram sem fyrst og leitað úrbóta á þessari gríðarlegu starfsmannaveltu með neyðaráætlun.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Því skal haldið til haga að inni í þessari tölu, 2477, eru öll sem hætta í tilteknu ráðningasambandi, þar með talið námsmenn sem hætta eftir stutt tímabil og starfsfólk sem hættir á einni starfsstöð og byrjar á annarri. Þessi fjöldi er því ekki lýsandi fyrir þann fjölda sem raunverulega hættir störfum á sviðinu, en það væri gagnlegt að láta taka það saman.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Ljóst er að svarið var ekki sundurgreint og því ekki hægt að fullyrða um hversu margir starfsmenn hefja ráðningarsamband á nýjan leik en eftir stendur talan 2.477 starfsmenn sem hættu störfum á umræddu tímabili sem segir sína sögu um starfsmannaveltuna.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, dags. 4. desember 2023, um matarsóun í leik- og grunnskólum. SFS23090145
Fylgigögn
-
Lagt fram svar við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Vinstri grænna í borgarráði, dags. 15. febrúar 2024, um yfirlit yfir fjölda leikskólakennara. MSS24020006
Fylgigögn
-
Lagðar fram embættisafgreiðslur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 15. febrúar 2024. SFS22080009
Fylgigögn
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að greining fari fram sem fyrst á mikilli starfsmannaveltu í leikskólum Reykjavíkur og sömuleiðis á langtímaveikindum starfsmanna.
Frestað. SFS24020192
Fundi slitið kl. 16:05
Árelía Eydís Guðmundsdóttir Alexandra Briem
Halldóra Jóhanna Hafsteinsdóttir Marta Guðjónsdóttir
Guðný Maja Riba Helgi Áss Grétarsson
Sabine Leskopf
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá ´26. febrúar 2024