Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 268

Skóla- og frístundaráð

Ár 2024, 12. febrúar, var haldinn 268. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.15.
Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: : Árelía Eydís Guðmundsdóttir formaður (B), Alexandra Briem (P), Birna Hafstein (D), Guðný Maja Riba (S), Halldóra J. Hafsteinsdóttir (J), Helgi Áss Grétarsson (D) og Sabine Leskopf (S). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum, Guðrún Jóna Thorarensen, leikskólastjórar, Helgi Eiríksson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva og Sigurlaug Vigdís Einarsdóttir, starfsfólk í leikskólum. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Frans Páll Sigurðsson, Fríða Bjarney Jónsdóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir, Ólafur Brynjar Bjarkason og Ragnheiður E. Stefánsdóttir. Guðrún Sigtryggsdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 8. febrúar 2024, þar sem tilkynnt er að Halldóra Jóhanna Hafsteinsdóttir taki sæti í skóla- og frístundaráði í stað Ástu Þórdísar Skjalddal Guðjónsdóttur. MSS22060048

    Fylgigögn

  2. Fram fer kynning og umræða um stuðning við stjórnendur leikskóla vegna mannauðsmála SFS24020037

    Kl. 14:10 víkja Ragnheiður E. Stefánsdóttir og Frans Páll Sigurðsson af fundinum.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mönnun á leikskólum er með þeim brýnustu verkefnum sem við stöndum frammi fyrir til að leikskólastarf verði bæði skilvirkt og árangursríkt. Til þess er mikilvægt að bæta starfsaðstöðu, vinna í utanumhaldi og greina þá þætti sem auka álag á leikskólum. Meirihlutinn leggur áherslu á að stjórnendur fái þann stuðning sem þarf til að greina og vinna að því að bæta mönnun í leikskólum borgarinnar. Það er mikilvægt að greina gaumgæfilega árangur af þessum aðgerðum og nýta áfram.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka fyrir kynningu á stuðningi við stjórnendur leikskóla vegna mannauðsmála. Það er jákvætt að átak hafi verið gert í þessum efnum og ætla má að það hafi verið unnið á faglegum forsendum. Sem stendur hins vegar er það óljóst hvaða árangri átakið hafi skilað. Það stafar af því að upplýsingar liggja ekki fyrir um þróun ýmissa lykilþátta síðan átakið hófst, til dæmis hver sé starfsánægja starfsmanna, hver sé starfsmannaveltan, hver sé upplifun stjórnenda leikskóla og svo framvegis. Í þessu samhengi er vert að benda á svar skóla- og frístundasviðs, dags. 18. desember 2023 (MSS23110115), við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um fjölda tilfella þar sem gripið hefur verið til lokana leikskóladeilda í Reykjavík vegna fáliðunar.

  3. Fram fer kynning og umræða um könnun meðal foreldra leikskólabarna. SFS24020036

    Guðrún Mjöll Sigurðardóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihluti Samfylkingar, Framsóknar og Pírata fagnar því sem kemur fram í könnuninni að foreldrar barna séu almennt ánægðir með það starf sem unnið er á leikskólum borgarinnar. Sem betur fer virðast þeir mælikvarðar sem fóru niður á við á tímum Covid vera að ná aftur fyrri stöðu. Sértaklega er það fagnaðarefni hve foreldrar margra barna meta að þau séu hamingjusöm og njóti stuðnings á sínum leikskóla.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka fyrir kynningu á könnun meðal foreldra leikskólabarna. Það er margt jákvætt við niðurstöður þessarar könnunar en vert er að hafa í huga að það eru fyrst og fremst foreldrar barna á leikskólaaldri í Reykjavík sem fá ekki dagvistunarúrræði fyrir börnin sín, sem eru óánægð með þjónustu borgarinnar. Það sama á við um foreldra sem glíma við erfiðleika vegna húsnæðisvanda leikskóla. Tekið er undir bókun áheyrnarfulltrúa leikskólastjóra í skóla- og frístundaráði að þrátt fyrir erfiðar aðstæður á ýmsum starfsstöðvum þá vinni starfsmenn oft á tíðum frábært starf.

    Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra í skóla- og frístundaráði leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í þessari könnun kemur gagnrýni foreldra fram gagnvart rekstraraðila leikskólans þar sem þeir eru gagnrýndir fyrir þá umgjörð sem leikskólanum er búin, aðbúnað, starfsumhverfi, manneklu og fáliðun. Þetta sýnir jafnframt að starfsmenn leikskólans standa sig oft á tíðum ótrúlega vel í óhagstæðum vinnuaðstæðum.

  4. Fram fer kynning og umræða um verklag varðandi innritun í leikskóla og vegna umsókna um breytingar á fjölda barna í leikskólum. SFS23100062

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að of takmörkuðum fundartíma hafi verið varið í að kynna breytt verklag varðandi innritun í leikskóla og vegna umsókna um breytingar á fjölda barna í leikskólum. Um mikilvægt og hagnýtt viðfangsefni er að ræða fyrir reykvískra foreldra barna á leikskólaaldri. Átelja verður stjórn fundarins í dag af þessum sökum, meðal annars vegna þess að eins og stundum áður í ráðinu, þá var ekki tryggður fullnægjandi fundartími fyrir umræðuefni sem telja verður pólitískt brýnast. Af þessum ástæðum geta skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins á þessu stigi málsins ekki sagt til um hvort fyrirhugaðar breytingar sé af hinu góða eður ei. Fulltrúarnir er þó sammála því að ástæða er til að breyta verklaginu og gera það skilvirkara ásamt því að tryggja betri upplýsingamiðlun til allra hlutaðeigandi, þar með talið til foreldra.

  5. Fram fer kynning og umræða um fagmennsku og samstarf í leikskólastarfi, starfsþróun og aukin námstækifæri. SFS24020038

    Kl. 15:30 taka Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir sæti á fundinum.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar meirihlutans leggja mikla áherslu á að í leikskólum borgarinnar sé boðið upp á gæðastarf sem einkennist af menntun, sjálfseflingu og leik. Skólaganga barna hefst í leikskólum og leggjum við þar grunn að farsæld barnanna ásamt, menntun, sjálfseflingu og líðan í skólakerfinu.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka fyrir kynningu sem bar yfirskriftina: Fagmennska og samstarf í leikskólastarfi, starfsþróun og aukin námstækifæri. Það er mikilvægt að hlúa vel að þeim mannauð sem starfar í leikskólanum og af kynningunni að dæma virðast mörg jákvæð skref hafa verið stigin í þessum efnum. Ástæða er þó til að hafa áhyggjur af því að styrkveitingar nýsköpunar- og þróunarverkefna á skóla- og frístundasviði voru á yfirstandandi ári lækkaðar samtals úr 200 milljónum króna niður í 100 milljónir króna.

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata:

    Lagt er til að hafa framhald á tilraunaverkefninu „fyrr í frístundaheimili“ sem var starfrækt s.l. sumar í þremur frístundaheimilum og bæta við fleiri starfsstöðum sumarið 2024. Auk þess að bæta við starfsstöðum myndi verkefnið byrja við skólalok grunnskóla í byrjun júní til skólasetningar í ágúst. Lokað yrði í 3 vikur í júlí og fyrstu viku í ágúst. Verkefnið snýr að börnum sem eru að ljúka leikskóla og hefja grunnskólagöngu haustið 2024. Sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs verði falið að velja starfsstaði til að taka þátt í tilraunverkefninu og útfæra nánar miðað við sumarlokun leikskóla og frístundaheimila. Leitað verði umsagna þeirra foreldra-/skólaráða sem tengjast þeim starfsstöðum sem veljast í tilraunaverkefnið. Verkefnið hefjist í júní 2024 og verði að því loknu metið og tekin ákvörðun um framhaldið. Lagt er til að stofnaður verði innleiðingarhópur sem undirbúi og haldi utan um verkefnið. Í innleiðingarhópnum verði fulltrúar stjórnenda leikskóla, grunnskóla og frístundastarfs auk fulltrúa frá fagskrifstofu og mannauðsskrifstofu skóla- og frístundasviðs.

    Samþykkt með sex atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins, Pírata og Sjálfstæðisflokksins gegn atkvæði skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands. SFS22030077

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar meirihlutans telja mikilvægt að halda áfram með verkefnið. Það er umfangsmikið og mikilvægt að stíga hvert skref varlega. Þegar börn eru að ljúka leikskólagöngu og eru tilbúin til að fara í grunnskóla teljum við að þau hlakki til að kynnast grunnskólanum sínum. Það er kostur fyrir þau að eiga kost á að kynnast skólarýminu, aðstæðum og hverju öðru áður en formlegt skólastarf hefst. Það er reynslan að þau börn og foreldrar sem hafi reynt þetta séu ánægð með reynsluna og það sýnir að þetta fyrirkomulag hefur mikla kosti. Það er einnig ávinningur af því að innrita börn í leikskóla fyrr eða að vori en mikilvægt er að hafa í huga að verkefnið er viðamikið og þarf að gefa tíma til að festa í sessi næstu ár.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Sósíalista getur ekki stutt þessa tillögu eins og hún er sett fram þar sem enn á eftir að útfæra hana betur. Tekið er undir umsögn framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva skóla- og frístundasviðs sem barst í mars 2023 og athugasemdir frístundaheimila sem tóku þátt í tilraunaverkefninu. Ekki er séð að tekið hafi verið tillit til þeirra athugasemda. Aðstæður eru ólíkar milli frístundaheimila og biðlistar og mönnunarvandi viðvarandi. Ekki er séð hvernig á að bæta við börnum án þess að útkljá þann vanda fyrst. Starfsfólk sem vinnur bæði í frístund og skóla á veturna er í fullu starfi í sumarfrístund og starfsfólk sem starfar einungis í skóla mætir til starfa eftir sumarleyfi um leið og kennarar, til að undirbúa skólastarfið. Það starfsfólk hefur sjaldan reynslu af starfi í frístund, sem er gjörólíkt starfi stuðningsfulltrúa og skólaliða í grunnskólum. Ekki er hægt að gera ráð fyrir að fólk vilji skipta um starfsvettvang. Hugmyndin að baki verkefninu er góð en ef það á að takast þá þarf nauðsynlega að taka tillit til athugasemda þeirra sem þekkja til og hafa reynslu af starfi frístundaheimila. Fyrirvarinn þarf að vera góður og undirbúningur og skráning að byrja mun fyrr.

    Fylgigögn

  7. Svar við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um gátlista til leikskóla – framlagning. SFS23110141

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 7. febrúar 2024, um embættisafgreiðslur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, eitt mál. SFS22080009

    Fylgigögn

  9. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hvaða reglur og viðmið gilda í grunnskólum Reykjavíkur þegar kemur að þátttöku nemenda í mótmælum á opinberum vettvangi á skólatíma? Með öðrum orðum, er slík þátttaka ávallt án heimildar frá skólayfirvöldum eða hefur það gerst að slík þátttaka sé sérstaklega heimiluð og að fjarvist nemenda af þessu tilefni hafi engin áhrif?

    SFS24020067

    Kl. 16:03 víkja Soffía Vagnsdóttir og Soffía Pálsdóttir af fundinum.

  10. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Samkvæmt svari skóla- og frístundaráðs, dags. 6. febrúar 2024 (SFS23110141) er að finna jafnréttisgátlista fyrir leikskóla, grunnskóla og frístundastarf á tiltekinni vefsíðu sem er hluti af vef Menntastefnu Reykjavíkur. Hvenær voru þessir gátlistar samdir og hvenær voru þeir gerðir opinberir? Hvaða viðbrögð frá stjórnendum einstakra stofnana hafa borist við þessum gátlistum, þ.e. hefur einhver endurgjöf fengist frá stjórnendum um þessa gátlista? Hver er tilgangur gátlista af þessu tagi? Sem dæmi, hvaða tilgangi þjóna spurningar fyrir stjórnendur leikskóla á borð við „[e]ru öll svæði leikskólans kynjahlutlaus“ og „[e]ru púsluspil leikskólans laus við staðalmyndir“? Eða þá spurningin hvort að „starfsfólk leikskóla sé meðvitað um að brjóta staðalmyndir af og til í samræðum við börnin t.d. spyrja hvort afi hafi prjónað nýju peysuna eða segjast ætla að hringja í smíðakonuna og biðja hana að koma og laga hurðina?“

    SFS23110141

Fundi slitið kl. 16:05

Árelía Eydís Guðmundsdóttir Alexandra Briem

Birna Hafstein Guðný Maja Riba

Halldóra Jóhanna Hafsteinsdóttir Helgi Áss Grétarsson

Sabine Leskopf

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 12. febrúar 2024