Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 266

Skóla- og frístundaráð

Ár 2024, 22. janúar, var haldinn 266. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.15.
Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Árelía Eydís Guðmundsdóttir formaður (B), Alexandra Briem (P), Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir (J), Guðný Maja Riba (S) og Helgi Áss Grétarsson (D). Eftirtalinn fulltrúi tók sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Marta Guðjónsdóttir (D). Eftirtaldir áheyrnarfulltrúar voru komnir til fundar í fundarherberginu Hofi: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Arndís Steinþórsdóttir, skólastjórar í grunnskólum; Guðrún Jóna Thorarensen, leikskólastjórar; Helgi Eiríksson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum; Sigurlaug Vigdís Einarsdóttir, starfsfólk í leikskólum og Þröstur Flóki Klemensson, Reykjavíkurráð ungmenna. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Eygló Traustadóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir, Ólafur Brynjar Bjarkason og Soffía Vagnsdóttir. Eygló Traustadóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning og umræða um öryggi á leikskóla- og grunnskólalóðum. SFS23060082 

    Ástrún Eva Sívertsen og Rósa Magnúsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Kl. 13.20 tekur Soffía Pálsdóttir sæti á fundinum.

    Kl. 13.25 tekur Sabine Leskopf sæti á fundinum.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar meirihlutans leggja áherslu á að þó aldrei verði með öllu hægt að koma í veg fyrir alla áhættu, þá sé það mikilvægt að öryggi barna og starfsfólks á leik- og grunnskólum borgarinnar sé eins tryggt og hægt er að við koma, með þeim eðlilega fyrirvara að börn þurfa að fá að hlaupa og leika sér. Þessi úttekt er nauðsynlegur liður í því að tryggja öryggi í leik- og grunnskólum og þá sérstaklega til að finna þau atriði sem eru sérstaklega hættuleg, eða sem stafar ófyrirséð hætta af. Það er jákvætt að viðbrögð við ábendingum virðast vera góð og ástand almennt á lóðum virðist fara batnandi milli ára.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka fyrir kynningu á öryggi á leikskóla- og grunnskólalóðum. Efni þetta er vissulega afmarkað og sérhæft en ánægjulegt er að vísbendingar séu til staðar um að alvarlegum athugasemdum heilbrigðiseftirlitsins hafi farið fækkandi og að á heildina litið sé staðan góð og fari batnandi. Upplýsingar um alvarleg slys og óhöpp á leik- og grunnskólalóðum undanfarið liggja hins ekki fyrir. Mikilvægt er að slysaskráning sé tekin samin og liggi fyrir hverju sinni.

  2. Lögð fram skýrslan Mat á tilraunaverkefni um dvöl barna á frístundaheimili í ágúst 2023 frá sumarlokun leikskóla fram að skólasetningu grunnskóla fyrir börn sem eru að ljúka leikskóla og hefja grunnskólagöngu, dags. í nóvember 2023. SFS22030077

    Sigrún Harpa Magnúsdóttir og Ingibjörg Íris Þorvaldsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Kl. 14.17 tekur Frans Páll Sigurðsson sæti á fundinum. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Reynslan af tilraunaverkefninu er almennt góð, þó nokkrir vankantar hafi komið í ljós, en upplifun barna, foreldra og starfsfólks er jákvæð yfir það heila. Til þess að halda þessu verkefni áfram, sérstaklega á stærri skala, er nauðsynlegt að huga sérstaklega af því að gefa lengri tíma til undirbúnings, en jafnframt að huga sérstaklega að verklagi og móttöku fyrir börn sem koma í frístund án þess að hafa verið í leikskóla í hverfinu. Eins þarf að gæta vel að skipulagi til að tryggja að ekki verði of mikil skörun við sumarleyfi. En þess ber að gæta að með þessu fyrirkomulagi fá börn meiri tíma til að aðlagast nýju umhverfi grunnskólans og pláss losna fyrr til að taka inn yngri börn á leikskólanum. Mikilvægt er þó að huga áfram að aðlögun þeirra barna sem ekki kjósa að fara þessa leið.

     

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf verkefnastjóra lýðheilsu, dags. 18. janúar 2024, um forvarna- og aðgerðaáætlun Reykjavíkur 2024-2027 ásamt áætluninni. MSS24010139 

    Harpa Þorsteinsdóttir, Óskar Dýrmundur Ólafsson, Ólöf Kristín Sívertsen og Sigrún Sveinbjörnsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihlutinn fagnar þeirri mikilvægu vinnu sem hér er kynnt og þakkar þeim sem að stóðu fyrir yfirgripsmikla greiningu. Mikilvægi forvarna fyrir börn og unglinga hefur líklega aldrei verið eins mikilvægt og nú. Við stöndum frammi fyrir breytingum á samfélagi okkar. Við viljum standa vörð um líðan barna og unglinga í reykvískum skólum og leggjum metnað okkar í að vinna með fagfólki okkar í þágu barna.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ástæða er til að þakka fyrir kynningu á forvarna- og aðgerðaáætlun Reykjavíkur 2024–2027. Minnt er á að ítarleg stefnuskjöl með mörgum fallegum orðum hafa minni áhrif en markvissar aðgerðir. Vonandi mun þessi áætlun ekki falla í þann flokk stefnuskjala hjá Reykjavíkurborg þar sem mikið er sagt en minna um að hlutum sé komið í verk. Aðalatriðið nefnilega, fyrir opinbera íhlutun á sviði forvarna, er að einstakar aðgerðir séu mikilvægar, raunhæfar, vel útfærðar og fjármagnaðar.

     

    Fylgigögn

  4. Lagt fram fjárhagsuppgjör skóla- og frístundasviðs, janúar-september 2023. SFS23070016 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Á fyrstu níu mánuðum ársins 2023 var rekstur skóla- og frístundasviðs rúmum 2,8 milljörðum króna umfram fjárheimildir eða 5,5%. Í greinargerð sviðsins kemur fram að þetta skýrist að hluta til af því að „[m]óttaka á börnum af erlendum uppruna hefur haft töluverð áhrif á grunnskóla, leikskóla og frístundastarf“. Svara þarf því þeirri spurningu hvernig skólakerfið geti með viðunandi hætti sinnt nemendum, bæði þeim sem fyrir eru og hingað koma. Þegar litið er til einstakra rekstrarliða kemur spánskt fyrir sjónir að umframkeyrsla í launaútgjöldum til leikskóla var tæpar 1,3 milljarðar króna. Miðað við megna óánægju reykvískra foreldra barna á leikskólaaldri, að fá ekki dagvistunarúrræði fyrir börnin sín, þá hlýtur umframkeyrslan í þessum eina útgjaldalið að valda áhyggjum. Sé mið tekið af tiltækum upplýsingum þá hafa mannauðsmál leikskólakerfisins verið vanfjármögnuð um langt árabil og brýn þörf er á að á þeim vanda sé tekið. Að lokum skal minnt á ábendingu fjármála- og áhættustýringarsviðs að rekstrarniðurstaða skóla- og frístundasviðs feli í sér veruleg frávik frá samþykktum fjárheimildum og í tengslum við það er vísað til skyldna sviðsstjóra samkvæmt viðeigandi ákvæðum um gerð og framkvæmd fjárhagsáætlunar fyrir Reykjavíkurborg.

    Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra í skóla- og frístundaráði leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í árshlutareikningi Reykjavíkurborgar fyrir janúar til september árið 2022 voru nettó útgjöld leikskólahluta skóla- og frístundasviðs 16.383 m.kr. sem var 1.003 m.kr. umfram fjárheimildir eða 6.5%. Hallinn var 1.254 m.kr. eða 10,4% hjá borgareknum leikskólum. Á sama tíma kom ábending frá fjármála- og áhættustýringarsviði borgarinnar um mikilvægi þess að hraða útfærslu á nýju leikskólalíkani og koma á jafnvægi í rekstri leikskólans. Niðurstaða árshlutareiknings fyrir janúar til september árið 2023 er að sú að hallareksturinn er 1.959 m.kr. eða sem nemur 15.3%. Allir borgareknir leikskólar voru í halla fyrir utan einn. Í árshlutareikningi fyrir janúar til september árið 2023 kemur fram að langtímaveikindi hafi farið 174 m.kr. fram úr fjárheimildum. Sú niðurstaða er endurspeglun á því álagi sem hefur verið lagt á starfsfólk leikskólans sem margir hverjir hafa mátt vinna við heilsuspillandi aðstæður, undirmönnun, óvissu um hvernig húsnæðismál þeirra skóla leysist, flutning á milli húsnæða, verklok sem hafa ekki staðist, vinnuaðstæður þungar og standast ekki lög og reglugerðir um starfsaðstöðu starfsfólks. Álag á þá leikskólastjórnendur sem hafa verið að berjast við að halda uppi starfsemi í ónýtu húsnæði hefur verið mikið sem hefur orðið til þess að margir hafa farið í langtímaveikindi og hluti þeirra ekki snúið aftur til vinnu.

     

    Fylgigögn

  5. Lögð fram fjárhagsáætlun skóla- og frístundasviðs 2024. SFS23030142 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fyrir liggur fjárhagsáætlun skóla- og frístundasviðs 2024. Minnt er á mikilvægi þess að fjárhagsáætlun sem þessi sé raunhæf, m.a. með tilliti til þróunar launaútgjalda og útgjalda sem fara hækkandi vegna hárrar verðbólgu, t.d. aukins hráefniskostnaðar mötuneyta og aðkeypts matar. Skóla- og frístundasvið þarf í þessu sambandi að horfa til fyrirliggjandi ábendinga um rekstur sviðsins, m.a. þeirra sem komið hafa fram frá fjármála- og áhættustýringarsviði.

    Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra í skóla- og frístundaráði leggur fram svohljóðandi bókun:

    Aukning á útgjöldum/umsvifum eða fjárveitingu opinberrar stjórnsýslu skóla- og frístundasviðs nemur 1.5 m.kr. vegna starfsemi skóla- og frístundasviðs í hverfum. Þessi aukning á kostnaði skóla- og frístundasviðs er færð undir leik- og, grunnskóla og frístundina með þeim rökum að starfsemin sé stuðningur við skólana. Þau rök halda ekki þar sem skóla- og frístundasvið sem er staðsett í Borgartúni er ráðgjafa- og stuðningsþjónusta við skóla borgarinnar. Það er því skilgreindur munur þar á milli og er yfirmaður skóla- og frístundasviðs í hverfum, sviðstjóri skóla- og frístundasviðs. Óskað er því eftir að kostnaður, vegna stoðþjónustu skóla- og frístundasviðs, sem er um þrír milljarðar bókist á skóla- og frístundasvið til að kostnaður vegna þeirrar þjónustu sé ekki falinn. Í greinargerð fagsviða og B-hluta fyrirtækja með fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2024 kemur fram að gert er ráð fyrir að fjölgun leikskólaplássa verði 751 aftur á móti er gert ráð fyrir að aukning starfsmanna á leikskólum verði fjórir.

     

    Fylgigögn

  6. Lögð fram starfsáætlun leikskólans Sælukots skólaárið 2023-2024.

    Samþykkt. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. SFS23060004

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í ljósi þess að Sælukot hefur sett fram umbótaáætlun í kjölfar ítarlegrar skýrslu um þeirra starf er ný starfsáætlun samþykkt. Það er mikilvægt að þeirri umbótaáætlun sé fylgt eftir og staðið sé við þær áætlanir sem þar koma fram, þá sérstaklega aukna áherslu á eigindlega aðferðafræði og menntun kennara, og eins er það mikilvægt að ábyrgð á faglegu starfi sé í höndum fastráðins leikskólastjóra með leikskólakennaramenntun í fullu starfi.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands, hefur áhyggjur af tali um „virka ástúðlega nærveru kennara“ á sama tíma og vitað er um að ofbeldi hafi verið beitt innan skólans og verkferlar hjá Reykjavíkurborg hafi ekki verið bættir sem skyldi til að tryggja gagnsæi og skýra ferla þegar kemur að líkamlegu ofbeldi og hvernig bregðast skal við því sbr. athugasemdir úr innri endurskoðun borgarinnar frá því í september 2022. Það er gríðarlegt valdajafnóvægi á milli leikskólabarns og leikskólakennara (faglegur eða ekki) og tryggja þarf að barnið njóti alltaf vafans þegar upp koma mál, hvort sem er kynferðisbrot eða líkamlegt ofbeldi, í skóla eða leikskóla, lögum samkvæmt. Fulltrúinn situr því hjá að sinni.

     

    Fylgigögn

  7. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 17. janúar 2023, um stöðu ráðninga á skóla- og frístundasviði, 16. janúar 2024. SFS23060085

    Jóhanna H. Marteinsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er áhyggjuefni að þegar skólaárið er hálfnað að ekki hafi tekist að ráða í allar stöður í leikskólum, grunnskólum og á frístundaheimilum. Í grunnskólum á eftir að ráða í 25,9 stöðugildi, í leikskólum á eftir að ráða í 46,8 grunnstöðugildi og að auki 13,3 stöðugildi í eldhús og vegna afleysinga. Auk þessara stöðugilda blasir við að ráða þurfi í 22,5 önnur stöðugildi á leikskóla í stað starfsfólks sem mun fara í leyfi eða hætta störfum á næstunni. Í heildina vantar um 83 stöðugildi á leikskóla. Það eru mikil vonbrigði að ekki hafi tekist að ráða bug á mönnunarvandanum á leikskólum í borginni, ekki síst í ljósi þess að margir leikskólar hafa þurft að skerða þjónustuna með því annað hvort að loka deildum eða fækka þeim dögum sem hægt er að taka á móti börnum. Þá er það sömuleiðis áhyggjuefni að enn eru 94 börn á biðlista eftir að komast á frístundaheimili. Setja verður í forgang að leysa mönnunarvandann með sérstöku átaki þannig að hægt verði að tryggja öllum börnum vist á frístundaheimilum og sömuleiðis að hægt verði að tryggja fulla þjónustu á leikskólum og nýta laus pláss sem ekki hefur verið hægt að nýta vegna manneklu.

     

    Fylgigögn

  8. Lagt fram yfirlit yfir innkaup skóla- og frístundasviðs yfir 1 m.kr., júlí-september 2023, dags. 4. janúar 2024. SFS22100120

    Fylgigögn

  9. Lagt fram yfirlit yfir ferðir skóla- og frístundasviðs júlí-september 2023, dags. 6. janúar 2023. SFS22100121

    Fylgigögn

  10. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. desember 2023, um íslenskuverðlaun unga fólksins í bókmenntaborginni Reykjavík. SFS23110005

    Fylgigögn

  11. Lagt fram uppfært fundadagatal skóla- og frístundaráðs 2024. SFS23090126

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 17. janúar 2023, um embættisafgreiðslur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs. SFS22080009

    Fylgigögn

  13. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að sérstök kynning fari fram í skóla- og frístundaráði á eftirliti með loftgæðum og rakaskemmdum í leik- og grunnskólum, frístundaheimilum og í frístundamiðstöðvum.

    Frestað. SFS24010188

  14. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hvenær má vænta þess að erindi forsvarsmanna tónlistarskóla Grafarvogs, sem beint hefur verið til Reykjavíkurborgar og varða fyrst og fremst fjárhagsleg samskipti skólans og borgarinnar, verði tekin fyrir? Hver er afstaða skóla- og frístundasviðs til þeirra atriða sem forsvarsmenn tónlistarskólans telja ábótavant?

    SFS24010187

Fundi slitið kl. 16:06

Árelía Eydís Guðmundsdóttir Alexandra Briem

Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir Guðný Maja Riba

Helgi Áss Grétarsson Marta Guðjónsdóttir

Sabine Leskopf

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 22. janúar 2024