Skóla- og frístundaráð
Ár 2024, 8. janúar, var haldinn 265. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.15.
Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Árelía Eydís Guðmundsdóttir formaður (B), Alexandra Briem (P), Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir (J), Birna Hafstein (D), Guðný Maja Riba (S), Marta Guðjónsdóttir (D) og Sabine Leskopf (S). Eftirtaldir áheyrnarfulltrúar voru komnir til fundar í fundarherberginu Hofi: Arndís Steinþórsdóttir, skólastjórar í grunnskólum; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva og Guðrún Jóna Thorarensen, leikskólastjórar. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Fríða Bjarney Jónsdóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir, Ólafur Brynjar Bjarkason, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir. Eygló Traustadóttir ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra, dags. 7. desember 2023, þar sem tilkynnt er að Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir taki sæti í skóla- og frístundaráði í stað Trausta Breiðfjörð Magnússonar. MSS22060048
Kl. 13.30 taka Leona Iguma og Frans Páll Sigurðsson sæti á fundinum.
Fylgigögn
-
Lagt er til að fara í þriggja ára tilraunaverkefni sem felst í því að frá og með haustinu 2024 hefjist skóladagur unglinga í grunnskólum Reykjavíkur í fyrsta lagi kl. 08:50 að morgni. Árgangarnir geti byrjað seinna að morgninum en stjórnendur og starfsfólk hvers skóla mun útfæra það eins og best hentar skólastarfi í hverjum skóla fyrir sig.
Greinargerð fylgir.
Samþykkt. Vísað til borgarráðs. MSS23060023
Ólöf Kristín Sívertsen tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Kl. 13.45 tekur Linda Ósk Sigurðardóttir sæti á fundinum með rafrænum hætti.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Í ljósi nýlegra rannsóknaniðurstaðna um líðan unglinga og mikillar samstöðu meðal unglinga og skólasamfélagsins er mikilvægt að aðgerðir til að bæta líðan þeirra séu settar í forgang. Áhrif svefnleysis á unglinga, sem og aðra, eru alvarleg. Svefnleysi er heilsufarsvandamál sem hefur áhrif á getu til náms en einnig þroska og andlega heilsu. Í ljósi þess er meirihlutinn sannfærður um að það sé til bóta að færa skóladaginn til á unglingastigi í skólum borgarinnar.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 24. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 11. desember 2023:
Í ljósi þess að tillögu okkar Sjálfstæðismanna um að fram færi umræða um niðurstöður Pisa-könnunarinnar á fundi ráðsins í dag, 11. desember 2023, var frestað er óskað eftir aukafundi í skóla- og frístundaráði um Pisa-könnunina. Boðað verði til fundarins eigi síðar en í þessari viku.
Samþykkt. SFS23120025
Fylgigögn
-
Fram fer kynning og umræða um niðurstöður PISA 2022. Lögð fram skýrslan PISA 2022: Helstu niðurstöður á Íslandi. SFS23120025
Guðmundur Bjarki Þorgrímsson, Freyja Birgisdóttir, Jón Torfi Jónasson, Anna Kristín Sigurðardóttir, Gauti Grétarsson, Jón Pétur Zimsen, Guðrún Mjöll Sigurðardóttir, Dröfn Rafnsdóttir og Sigrún Jónína Baldursdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Meirihlutinn tekur niðurstöðum úr Pisa könnun alvarlega. Í ljósi niðurstaðna vill meirihlutinn ná utan um gæði kennslu og rýna niðurstöður út frá sem víðtækustu sjónarhorni. Viðbrögð við niðurstöðum mælinga verður að miðast að því að meta hvaða leiðir eru skynsamlegastar til árangurs áður en farið er í að ákveða næstu skref.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Niðurstöður úr PISA 2022 valda áhyggjum enda sýna þær versnandi árangur reykvískra skólabarna, en þau mælast undir OECD meðaltali og Norðurlanda meðaltali í stærðfræðilæsi, lesskilningi og læsi á náttúruvísindi. Fyrir liggur að lægra hlutfall drengja en stúlkna nær grunnhæfni í bæði lesskilningi og læsi á náttúruvísindi. Þá vekur það töluverðar áhyggjur að nemendur sem eiga foreldra í lakari félags- og efnahagslegri stöðu koma verr út úr könnuninni. Merki eru um að ójöfnuður aukist hvað varðar PISA námsárangur á Íslandi, einkum í lesskilningi. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja nauðsynlegt að bregðast við stöðunni, m.a. með því að gefa skólastjórnendum kost á að rýna sundurgreindar niðurstöður PISA 2022 fyrir eigin skóla. Niðurstöðurnar gætu reynst sérhverjum skóla mikilvægt tól til að meta vankanta í skólastarfi og ráðast í umbætur. Bæði Eistland, sem mælist efst Evrópuþjóða, og Finnland, sem mælist efst Norðurlandaþjóða, birta skólastjórnendum slíkar upplýsingar og álíta þær gagnlegt tól til framfara. Reykvískir skattgreiðendur munu á þessu ári verja rúmlega 73 milljörðum í skólakerfið í borginni, en það hefur mikilvægu hlutverki að gegna þegar kemur að málþroska og læsi. Það er eðlilegt að gerð sé sú krafa að kerfin sem við stýrum og fjármögnum skili árangri í þágu barnanna í borginni.
Kl. 16.10 víkur Guðrún Kaldal af fundinum.
Kl. 16. 24 víkja Frans Páll Sigurðsson, Arndís Steinþórsdóttir og Leona Iguma af fundinum.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 13. desember 2023, um samþykkta tillögu borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar um viðbrögð við PISA 2022. SFS23120025
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 23. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 11. desember 2023:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að efnt verði til víðtæks samstarfs og greiningarvinnu til að styrkja kennsluhætti í þeim þremur námsgreinum sem Pisa-könnunin nær til. Í því skyni verði hafnar viðræður við menntamálaráðuneytið, menntastofnanir sem sinna rannsóknum á þessu sviði sem og alla hagsmunaaðila skólasamfélagsins; kennara, skólastjórnendur, foreldra og foreldrasamtök um leiðir til úrbóta. Skóla- og frístundasviði verði falið að hefja þessa vinnu án tafar.
Greinargerð fylgir.
Lögð fram svohljóðandi málsmeðferðartillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að vísa tillögunni inn í vinnu sem hófst með samþykktri tillögu í borgarstjórn þann 12. desember 2023. Þar var skóla- og frístundaráði falið að gangast fyrir opinni umræðu og ítarlegri greiningu á niðurstöðum PISA sem hluta af undirbúningi á innleiðingaráætlun menntastefnu Reykjavíkur, Látum draumana rætast, fyrir árin 2025-27. Fulltrúar fagfólks, nemendur og foreldrar verði kallaðir til auk valinna innlendra og erlendra sérfræðinga í menntamálum. Næsta innleiðingaráætlun menntastefnunnar, 2025-2027, byggi meðal annars á niðurstöðu þessarar vinnu.
Samþykkt. SFS23120025
Kl. 16.28 víkja Fríða Bjarney Jónsdóttir og Guðrún Jóna Thorarensen af fundinum.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 2. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 12. desember 2023, sem vísað var til meðferðar skóla- og frístundaráðs:
Borgarstjórn samþykkir að beina því til skóla- og frístundasviðs að kalla eftir því við Menntamálastofnun að teknar verði saman sundurgreindar niðurstöður úr PISA könnuninni 2022 niður á hvern þátttökuskóla í Reykjavík. Í framhaldinu óski sviðið eftir aðgangi að upplýsingunum og geri þær aðgengilegar skólastjórnendum og skóla- og frístundaráði. Niðurstöðurnar verði notaðar sem mælitæki til að meta árangur einstakra skóla, meta hvar úrbóta reynist þörf og setja grunnskólum borgarinnar mælanleg markmið í þágu umbóta og framfara.
Greinargerð fylgir.
Lögð fram svohljóðandi málsmeðferðartillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata:
Lagt er til að tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að kallað verði eftir sundurgreindum niðurstöðum úr PISA 2022, frá fundi borgarstjórnar 12. desember 2023, verði send til umsagnar Menntamálastofnunar.
Samþykkt. SFS23120025
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 4. janúar 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um viðbrögð vegna PISA-könnunar, sbr. 31. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. desember 2023. MSS23120045
Fylgigögn
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Samhliða seinkun á byrjun skóladags hjá unglingum í Reykjavík er lagt til að við undirbúning þess verði skoðað að auka vægi listgreina á þessu skólastigi. Horft verði til þess að fjölga nemum í listgreinum sem kenndar eru utan skóla og yrðu skilgreindar sem valgreinar sem metnar yrðu til náms. Mikilvægt er að skoða aukna hvata með það að markmiði að fjölga nemendum í fjölbreyttu listnámi. Í því tilliti er meðal annars horft til niðurstöðu Pisa könnunar og stöðu nemenda í íslensku. En rannsóknir hafa sýnt að aukin þátttaka í listnámi eykur færni nemenda í íslensku og þar af leiðandi í öðrum námsgreinum því velgengni á einu sviði eykur velgengni á öðru sviði. Í því samhengi hefur einnig verið sýnt fram á tengsl milli tónlistarnáms og færni í stærðfræði. Rannsóknir hafa einnig sýnt að aukin þátttaka í námi í listgreinum byggir upp jákvæða sjálfsmynd hjá nemendum og eykur á sjálfstraust.
Frestað. SFS24010042
Fundi slitið kl. 16:30
Árelía Eydís Guðmundsdóttir Alexandra Briem
Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir Birna Hafstein
Guðný Maja Riba Marta Guðjónsdóttir
Sabine Leskopf
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 8. janúar 2024