Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 263

Skóla- og frístundaráð

Ár 2023, 11. desember, var haldinn 263. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.16.

Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Árelía Eydís Guðmundsdóttir formaður (B), Alexandra Briem (P), Guðný Maja Riba (S), Helgi Áss Grétarsson (D), Sabine Leskopf (S) og Stefán Pálsson (V). Eftirtalinn fulltrúi tók sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Marta Guðjónsdóttir (D). Eftirtaldir áheyrnarfulltrúar voru komnir til fundar í fundarherberginu Hofi: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Helgi Eiríksson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum; Linda Ósk Sigurðardóttir, starfsfólk í leikskólum og Þröstur Flóki Klemensson, Reykjavíkurráð ungmenna. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Fríða Bjarney Jónsdóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir, Hjörtur Ágústsson, Ólafur Brynjar Bjarkason, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir. Eygló Traustadóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 30. nóvember 2023, um staðfestingu starfsáætlana grunnskóla skólaárið 2023-2024 ásamt starfsáætlunum eftirtalinna grunnskóla: Austurbæjarskóli, Álftamýrarskóli, Árbæjarskóli, Ártúnsskóli, Barnaskóli Hjallastefnunnar í Reykjavík, Borgaskóli, Breiðagerðisskóli, Breiðholtsskóli, Brúarskóli, Dalskóli, Engjaskóli, Fellaskóli, Foldaskóli, Fossvogsskóli, Grandaskóli, Hagaskóli, Hamraskóli, Háteigsskóli, Hlíðaskóli, Hólabrekkuskóli, Húsaskóli, Hvassaleitisskóli, Ingunnarskóli, Klébergsskóli, Landakotsskóli, Langholtsskóli, Laugarnesskóli, Melaskóli, Norðlingaskóli, Réttarholtsskóli, Rimaskóli, Selásskóli, Seljaskóli, Skóli Ísaks Jónssonar, Suðurhlíðarskóli, Sæmundarskóli, Tjarnarskóli, Vesturbæjarskóli, Víkurskóli, Vogaskóli, Waldorfskólinn Sólstafir og Ölduselsskóli.

    Samþykkt. SFS23100003

    Ágúst Frímann Jakobsson, Bára Birgisdóttir, Stefanía Helga Ásmundsdóttir og Svandís Egilsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Starfsáætlanir grunnskólanna bera vott um sérþekkingu og áhuga fyrir fjölbreyttu starfi og verkefnum skólanna í borginni. Miklar áskoranir liggja fyrir í kennslu og starfsumhverfi skólanna og þá sérstaklega til að geta þjónustað fjöltyngd börn og börn með áfallasögu vegna stríðsátaka ásamt lestrarkennslu og lesskilning barna. Stjórnendum, kennurum og starfsfólki skóla er þakkað fyrir vel unnin störf og skýra framtíðarsýn í vinnu við starfsáætlanirnar og afburða vinnu við áframhaldandi innleiðingu á menntastefnu á krefjandi tímum í þágu barnanna í Reykjavíkurborg.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka fyrir kynningu á starfsáætlunum grunnskóla starfsárið 2023-2024. Gagn er að því fyrir kjörna fulltrúa að fá með þessum hætti yfirsýn yfir starfsemi grunnskólanna í borginni. Víða er kraftmikið starf unnið og vonandi tekst að efla starfsemina enn frekar á yfirstandandi starfsári.

    Kl. 13.33 tekur Arndís Steinþórsdóttir sæti á fundinum.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram skýrslan Menntastefna Reykjavíkur til 2030, helstu vörður innleiðingar 2022-2023, dags. í júní 2023. SFS22060245

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Menntastefna Reykjavíkur er fjölþætt og unnin í víðtæku samráði með kennurum, börnum, sérfræðingum og íbúum. Hún snertir alla fleti daglegs starfs í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi borgarinnar. Meirihlutinn er stoltur af því faglega starfi sem unnið er í menntun barna í borginni og hefur einstaklega vel tekist til með líf og líðan barna. Allar stefnur þarf að skoða reglulega og við munum bæði líta yfir árangur, farinn veg og faglegt starf í skólum með hliðsjón af því starfi sem þar er unnið en aðallega treystum við okkar fagfólki til að greina og leiða þá umræðu.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka fyrir kynningu á helstu vörðum innleiðingar á Menntastefnu Reykjavíkur til 2030. Minnt er á mikilvægi þess að mælanleg viðmið séu sett til að hægt sé að meta árangur af núverandi menntastefnu. Áhersla verður að vera lögð á að sem flestir nemendur búi yfir lágmarkshæfni í kjarnafögum eins og í íslensku og stærðfræði. Allt nám verður að vera reist á traustum grundvelli, t.d. að námsefni sé líklegt til að tryggja framfarir nemenda.

    Kl. 14.00 víkur Soffía Vagnsdóttir af fundinum og Guðrún Edda Bentsdóttir tekur þar sæti.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 4. desember 2023, um breytingu á reglum um styrkveitingar skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur vegna styrkja í A hluta þróunar- og nýsköpunarsjóðs skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur „Látum draumana rætast“ ásamt reglum með breytingum og núgildandi reglum.

    Samþykkt. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sitja hjá. Vísað til borgarráðs. SFS23110094

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér má sjá eina birtingarmynd illa rökstuddrar forgangsröðunar hjá meirihlutanum í borgarstjórn Reykjavíkur, þ.e. styrkveitingar til nýsköpunar- og þróunarverkefna á skóla- og frístundasviði verða lækkaðar verulega á næsta ári, samtals úr 200 milljónum króna niður í 100 milljónir króna. Á sama tíma er haldið áfram á þeirri braut að byggja dýr torg í miðborg Reykjavíkur, sbr. t.d. yfirstandandi framkvæmdir á Hlemmur-Torg. Einnig heldur sú lest áfram á fullu skriði að borgarsjóður taki lán á háum vöxtum og greiði þannig fjármagnseigendum svimandi fjárhæðir í vexti og afborganir í stað þess að þeim fjármunum sé t.d. varið í að hlúa að þeim mannauði sem sinnir störfum fyrir borgina. Að lokum hlýtur það að vera umdeilanlegt að 13 m.kr. aukafjárveiting til Jafnréttisskóla Reykjavíkurborgar fyrir árið 2024 komi að jafn miklu gagni í samanburði við að setja nægan þunga í starf sjóðs sem hefur hingað til haft það að markmiði að auka starfsánægju og styrkja þróun starfs innan skóla- og frístundasviðs.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Hér er um að ræða útfærslu skóla- og frístundasviðs á fjárheimildum sem ákveðnar voru í borgarstjórn. Þar voru teknar ákvarðanir um fjármagn sem töldust nauðsynlegar til að tryggja afkomu borgarinnar en vernda kjarnaverkefni hennar á sama tíma eins og unnt var, þar þurfti að taka erfiðar ákvarðanir og þessi útfærsla sviðsins er skynsamleg miðað við þær forsendur sem því eru gefnar. Hér eru málefni Jafnréttisskólans ekki til umræðu, en rétt er að halda til haga að verkefni hans eru gífurlega mikilvæg og snúa bæði að jafnréttisfræðslu og stuðningi og fræðslu við börn vegna eineltis og ofbeldismála og hefur álagið á starfsfólk þar verið þannig að ekki þótti mögulegt annað en að bæta við stöðugildi til að tryggja að þau verkefni séu í tryggum skorðum.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Það er umdeilanlegt að aukafjárveiting fyrir árið 2024 sé veitt til Jafnréttisskóla Reykjavíkurborgar á meðan svona mikilvægur sjóður fyrir starfsmenn skóla- og frístundasviðs er skorinn niður í þeim mæli sem gert er.

    Kl. 14.38 víkja Fríða Bjarney Jónsdóttir og Hjörtur Ágústsson af fundinum.

    Kl. 14.40 tekur Ragnheiður E. Stefánsdóttir sæti á fundinum.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 5. desember 2023, um breytingar á reglum um niðurgreiðslu daggæslu vegna barna hjá dagforeldrum ásamt greinargerð, reglum með breytingum, núgildandi reglum, drögum að þjónustusamningi við dagforeldra, umsögn Barnsins og Barnavistunar, félaga dagforeldra, dags. 28. nóvember 2023 og umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 12. júní 2023.

    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS23060023

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihlutinn leggur metnað sinn í að finna lausnir og vinna að því að börn fái faglega umönnun. Í ljósi þess var farið af stað í mikla vinnu við að laða að, og halda í, þá aðila sem sinna dagforeldrastörfum. Við viljum standa vörð um þá stétt svo foreldrar hafi valkost og geti hafið störf aftur á vinnumarkaði örugg með að börn þeirra hafi faglegt athvarf. Tillögurnar eru til þess fallnar að leita leiða til að fjölga dagforeldrum í borginni.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja tillögur meirihlutans í dagforeldramálum sem hér hafa verið lagðar fram. Á það er minnt að fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa ítrekað lagt til að efla og styðja betur við dagforeldrakerfið m.a. á fundum skóla- og frístundaráðs, í borgarráði og borgarstjórn. Meirihlutaflokkarnir hafa á hinn bóginn sýnt andvaraleysi gagnvart uppbyggingu kerfisins, sem endurspeglast m.a. í því að fjöldi dagforeldra var 204 hinn 1. október 2015 á meðan fjöldi dagforeldra var kominn niður í 74 hinn 1. desember síðastliðinn. Börn í vistun hjá dagforeldrum 1. október 2015 voru 689 en eru vel undir 400 í dag.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 5. desember 2023, um reglur um stofn- og aðstöðustyrki vegna daggæslu barna í heimahúsum ásamt greinargerð, reglum um stofnstyrki vegna daggæslu í heimahúsum sem tóku gildi 5. september 2019, drögum að reglum um stofn- og aðstöðustyrki vegna daggæslu barna í heimahúsum í Reykjavík, reglum um stofnstyrki vegna daggæslu í heimahúsum með breytingum og umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 12. júní 2023.

    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS23060023

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þessi tillaga er mikilvægur liður í því að efla dagforeldrakerfið og laða að nýja dagforeldra en meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavík hefur lagt mikla vinnu í að brúa bilið með fjölbreyttum leiðum. Með þessum tillögum er verið að bæta starfsaðstæður dagforeldra, auka niðurgreiðslu og þar með létta undir með barnafjölskyldum. Á sama tíma er unnið að því að finna húsnæði fyrir dagforeldra bæði með eigin húsnæði en einnig frá einkaaðilum.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja tillögur meirihlutans í dagforeldramálum sem hér hafa verið lagðar fram. Á það er minnt að fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa ítrekað lagt til að efla og styðja betur við dagforeldrakerfið m.a. á fundum skóla- og frístundaráðs, í borgarráði og borgarstjórn. Meirihlutaflokkarnir hafa á hinn bóginn sýnt andvaraleysi gagnvart uppbyggingu kerfisins, sem endurspeglast m.a. í því að fjöldi dagforeldra var 204 hinn 1. október 2015 á meðan fjöldi dagforeldra var kominn niður í 74 hinn 1. desember síðastliðinn. Börn í vistun hjá dagforeldrum 1. október 2015 voru 689 en eru vel undir 400 í dag.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 5. desember 2023, ásamt umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 5. desember 2023:

    Lagt er til að foreldar barna í daggæslu með lögheimili í Reykjavík sem náð höfðu 18 mánaða aldri þann 1. júlí 2023 geti sótt um til skóla- og frístundasviðs á þar til gerðu eyðublaði aukalegrar niðurgreiðslu daggæslu vegna tímabilsins frá 1. júlí til 31. desember 2023. Skilyrði aukinnar niðurgreiðslu til foreldra vegna daggæslu er að dagforeldri hafi á sama tímabili fengið niðurgreiðslu frá skóla- og frístundasviði vegna barnsins. Leggja þarf fram reikning og greiðslukvittun til dagforeldrisins frá því tímabili sem um ræðir. Aukin niðurgreiðsla miðar við það mánaðargjald sem foreldrar greiddu til dagforeldris á tímabilinu að frádregnu mánaðargjaldi sem sömu foreldrar hefðu greitt í leikskóla, miðað við sama dvalartíma og sömu afslætti ef það á við. Viðmiðunargjaldið byggir á gjaldskrá leikskóla eins og hún var birt á heimasíðu Reykjavíkurborgar í sama mánuði. Í tillögum sem taka eiga gildi þann 1. janúar 2024 er gert ráð fyrir að heildargreiðslu til dagforeldra fyrir börn 18 mánaða og eldri, verði sem samsvarar 190 þús. kr. og er það samanlögð greiðsla foreldra og niðurgreiðsla til dagforeldra frá Reykjavík. Miðað við 15. júní 2023 var gjald foreldra fyrir 8 tíma leikskóladvöl í flokki 1 fyrir hjón og sambúðarfólk 31.157 kr. Lagt er til að aukin niðurgreiðsla til foreldra verði til samræmis við það að gjald foreldra hjá dagforeldrum hafi verið að hámarki 130 þús. kr. á mánuði. Aukin niðurgreiðsla geti þá ekki orðið hærri en mismunurinn á því mánaðargjaldi sem foreldrar greiddu hjá dagforeldri, að hámarki 130 þús. kr., að frádregnu því mánaðargjaldi sem foreldrar hefðu greitt fyrir viðkomandi barn í leikskóla á sama tímabili. Umsóknarfrestur til að sækja um aukna niðurgreiðslu vegna tímabilsins 1. júlí 2023 til 31. desember 2023 er til 1. júlí 2024.

    Greinargerð fylgir.

    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS23060023

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja tillögur meirihlutans í dagforeldramálum sem hér hafa verið lagðar fram. Á það er minnt að fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa ítrekað lagt til að efla og styðja betur við dagforeldrakerfið m.a. á fundum skóla- og frístundaráðs, í borgarráði og borgarstjórn. Meirihlutaflokkarnir hafa á hinn bóginn sýnt andvaraleysi gagnvart uppbyggingu kerfisins, sem endurspeglast m.a. í því að fjöldi dagforeldra var 204 hinn 1. október 2015 á meðan fjöldi dagforeldra var kominn niður í 74 hinn 1. desember síðastliðinn. Börn í vistun hjá dagforeldrum 1. október 2015 voru 689 en eru vel undir 400 í dag.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 6. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 20. febrúar 2023:

    Lagt er til að verklag við ráðningar æðstu stjórnenda í borgarreknum grunn- og leikskólum verði tekið til endurskoðunar, m.a. í því skyni að auka gegnsæi með hvaða hætti stöður eru auglýstar, hverjir sækja um slíkar stöður og með hvaða hætti upplýsingar séu veittar kjörnum fulltrúum um ráðningar í slíkar stöður.

    Frestað. SFS23020089

    Fylgigögn

  8. Fram fer umræða um fyrirkomulag funda skóla- og frístundaráðs. SFS23030106

  9. Lagt fram fundadagatal skóla- og frístundaráðs 2024, dags. 30. nóvember 2023. SFS23090126

    Fylgigögn

  10. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 30. nóvember 2023, varðandi upplýsingagjöf um ráðningar réttindanema og undanþágubeiðnir frá grunnskólum í Reykjavík frá ráðningu starfsmanna með kennsluréttindi. SFS23110177

    Fylgigögn

  11. Fram fer umræða um umfang eftirlits miðlægrar stjórnsýslu skóla- og frístundasviðs með leikskólastarfi. SFS23110124

  12. Niðurstöður PISA 2022. SFS23120025

    Frestað með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata gegn tveimur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Vinstri grænna situr hjá.

  13. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 30. nóvember 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um ráðningar leik- og grunnskólastjóra, sbr. 14. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 8. maí 2023. SFS23050033

    Fylgigögn

  14. Svar við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kostnað vegna bráðabirgðahúsnæðis leik- og grunnskóla – framlagning. SFS23060227

    Fylgigögn

  15. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 29. nóvember 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um fjölda barna í leik- og grunnskólum, sbr. 28. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 9. október 2023. SFS23100044

    Fylgigögn

  16. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 30. nóvember 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um gátlista til leikskóla, sbr. 22. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 27. nóvember 2023. SFS23110141

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Svar við þessari fyrirspurn barst óvenju skjótt en ekki er loku fyrir því skotið að það gefi ónákvæma mynd af stöðu mála. Af þeim ástæðum munu skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fylgja þessu svari eftir með nýrri fyrirspurn, sbr. lok fundargerðar þessa fundar ráðsins í dag.

    Fylgigögn

  17. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 29. nóvember 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um viðhaldsprósentu húsnæðis og lóða á árunum 2000-2008, sbr. 18. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 11. september 2023. SFS23060228

    Fylgigögn

  18. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 4. desember 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um matarsóun í leik- og grunnskólum, sbr. 12. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 25. september 2023. SFS23090145

    Fylgigögn

  19. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 28. nóvember 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um úrræði sambærileg við Klettaskóla og Brúarskóla, sbr. 18. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. júlí 2023. MSS23070099

    Fylgigögn

  20. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 30. nóvember 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um aðgerðir fyrir dagforeldra, sbr. 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. september 2023. SFS23060023

    Fylgigögn

  21. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 9. nóvember 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um byrjendalæsi og sérkennslu, sbr. 28. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. september 2023. MSS23090178

    Fylgigögn

  22. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 4. desember 2023, um embættisafgreiðslur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, fimm mál. SFS22080009

    Fylgigögn

  23. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Skóla- og frístundaráð samþykkir að efnt verði til víðtæks samstarfs og greiningarvinnu til að styrkja kennsluhætti í þeim þremur námsgreinum sem Pisa-könnunin nær til. Í því skyni verði hafnar viðræður við menntamálaráðuneytið, menntastofnanir sem sinna rannsóknum á þessu sviði sem og alla hagsmunaaðila skólasamfélagsins; kennara, skólastjórnendur, foreldra og foreldrasamtök um leiðir til úrbóta. Skóla- og frístundasviði verði falið að hefja þessa vinnu án tafar.

    Greinargerð fylgir.

    Frestað. SFS23120025

    Fylgigögn

  24. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Í ljósi þess að tillögu okkar Sjálfstæðismanna um að fram færi umræða um niðurstöður Pisa-könnunarinnar á fundi ráðsins í dag, 11. desember 2023, var frestað er óskað eftir aukafundi í skóla- og frístundaráði um Pisa-könnunina. Boðað verði til fundarins eigi síðar en í þessari viku.

    Frestað. SFS23120025

  25. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Á tímabilinu 1. júní 2022 – 27. nóvember 2023 voru ekki sendir gátlistar frá skrifstofu skóla- og frístundasviðs á stjórnendur leikskóla í Reykjavík, sbr. svar skóla- og frístundasviðs, dags. 30. nóvember 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 27. nóvember 2023. En á það svar einnig við um allar stoðdeildir skóla- og frístundasviðs, þar með talið starfsstöðva sem falla undir Nýsköpunarsmiðju menntamála (NýMið)? Sem sagt, sendi engin starfsstöð miðlægrar stjórnsýslu skóla- og frístundasviðs gátlista til stjórnenda leikskóla á tímabilinu 1. júní 2022 – 27. nóvember 2023?

    SFS23110141

  26. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er eftir niðurstöðum starfsmannakannana skóla- og frístundasviðs sl. 6 ár.

    SFS23120054

Fundi slitið kl. 15:38

Árelía Eydís Guðmundsdóttir Alexandra Briem

Guðný Maja Riba Helgi Áss Grétarsson

Marta Guðjónsdóttir Sabine Leskopf

Stefán Pálsson

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð Stafræns ráðs frá 11. desember 2023