Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 260

Skóla- og frístundaráð

Ár 2023, 9. október, var haldinn 260. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.15.
Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Árelía Eydís Guðmundsdóttir (B), Guðný Maja Riba (S), Sabine Leskopf (S) og Trausti Breiðfjörð Magnússon (J). Eftirtalinn fulltrúi tók sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Helgi Áss Grétarsson (D). Eftirtaldir áheyrnarfulltrúar voru komnir til fundar í fundarherberginu Hofi: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Áslaug Björk Eggertsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum; Helgi Eiríksson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum og Linda Ósk Sigurðardóttir, starfsfólk í leikskólum. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Frans Páll Sigurðsson, Guðrún Sigtryggsdóttir, Ólafur Brynjar Bjarkason, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir. Eygló Traustadóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram skýrsla starfshóps um framtíðarstarf skóla- og frístundastarfs Klettaskóla, Guluhlíðar, Heklu og Öskju, ódags.

    Kl. 13.22 taka Úlfhildur Elísa Hróbjartsdóttir, Alexandra Briem, Arndís Steinþórsdóttir og Marta Guðjónsdóttir sæti á fundinum.

    Kl. 13.30 tekur Guðrún Jóna Thorarensen sæti á fundinum.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:

    Lagt er til að skýrsla starfshóps um framtíðarstarf skóla- og frístundastarfs í Klettaskóla, Guluhlíð, Heklu og Öskju verði send til umsagnar skólaráðs Klettaskóla, starfsfólks Klettaskóla, foreldrafélags Klettaskóla, frístundamiðstöðvarinnar Kringlumýrar, aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks, Þroskahjálpar, Umhyggju og þeirra sveitarfélaga sem nýta þjónustuna. Jafnframt er lagt til að gert verði kostnaðarmat á þeim tillögum sem koma fram í skýrslunni.

    Samþykkt. SFS22090172

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihlutinn þakkar fyrir þá góðu vinnu sem fram hefur farið og kynningu á framtíðarstarfi skóla- og frístundastarfs Klettaskóla, Guluhlíðar, Heklu og Öskju. Vegna fjölgunar á nemendum þarf að bregðast við með viðeigandi skólahúsnæði til að hægt sé að halda áfram að byggja upp skóla sem hentar þeim nemendahópi sem sækir Klettaskóla. Mikilvægt er að horfa til farsældarlaga og þess álags sem fylgir stjórnun skólans eins og hann er í dag. Ákvörðun um hvort að skólanum verið tvískipt, verður tekin eftir umsagnir og samtal við hagsmunaaðila og foreldra þeirra barna sem sækja Klettaskóla. Hér er um að ræða mjög viðkvæman hóp barna og því mikilvægt að ákvörðunartaka dragist ekki og hægt sé að byrja að undirbúa þær breytingar sem ákveðnar verða fyrir næsta skólaár 2023/2024.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram greinargerð skóla- og frístundasviðs við framlagningu ársreiknings Reykjavíkurborgar 2022. SFS23010029

    Fylgigögn

  3. Lagt fram rekstraruppgjör skóla- og frístundasviðs, janúar-mars 2023 ásamt minnisblaði skóla- og frístundasviðs, dags. 26. júní 2023 um helstu frávik í rekstri skóla- og frístundasviðs janúar til apríl 2023. SFS23070016

    Fylgigögn

  4. Lagt fram rekstraruppgjör skóla- og frístundasviðs, janúar-júní 2023. SFS23070016

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það blæs ekki byrlega yfir rekstri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar en á fyrstu sex mánuðum þessa árs var heildarrekstur sviðsins tæpum 2,3 milljörðum króna umfram fjárheimildir eða 6,5%. Margvíslegar skýringar hafa verið færðar fram fyrir þessari framúrkeyrslu og í ljósi þeirra er ástæða til að hafa áhyggjur af framtíðarhorfum rekstrarins. Sérstaka athygli vekur að fjarvistir vegna veikinda starfsfólks eru að aukast og þjónustuþyngd vegna sértækra úrræða heldur áfram að vera umfram áætlanir. Fjölgun barna af erlendum uppruna eykur einnig álag og kostnað af rekstri sviðsins, sbr. t.d. svohljóðandi ábendingu fjármála- og áhættustýringarsviðs Reykjavíkurborgar, sem fram kom í fjárhagsuppgjöri skóla- og frístundasviðs, janúar-júní 2023: „Sviðið glímir við mikil viðbótarútgjöld vegna barna af erlendum uppruna sem hefur ekki verið fjármagnaður af hálfu ríkisins. Mikilvægt er að ríkið fjármagni aðstoð við þessi börn.“

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Á fyrri hluta ársins 2023 sést að leikskólar voru reknir með 15,1% halla. Á síðasta ári var sá halli 6,6% og aukningin því mikil það sem af er þessu ári. Í raun er ekki rétt að tala um halla heldur of litlir fjárheimildir sem veittar hafa verið til leikskóla. Ljóst er að fjárþörf þeirra er stórlega vanmetin. Skóla- og frístundaráð og borgarstjórn verða að horfast í augu við mikilvægi leikskólastarfs og veita fjármunum í samræmi. Leikskólastarfsfólk vinnur kraftaverk á hverjum degi en mannekla háir enn starfinu sökum álags og vanfjárfestingar borgarinnar. Auk þess skortir tekjur og þær fáum við með því að berjast fyrir útsvari á fjármagnstekjur. Það er mun sanngjarnari leið en að hækka gjaldskrár á íbúa sem greiða útsvar með góðri samvisku.

    Fylgigögn

  5. Fram fer kynning á drögum að fjárhagsáætlun skóla- og frístundasviðs 2024, trúnaðarmál.

    Vísað til borgarráðs. SFS23030142

  6. Lagt fram yfirlit yfir innkaup skóla- og frístundasviðs yfir 1 m.kr. apríl-júní 2023, dags. 25. september 2023. SFS22100120

    Fylgigögn

  7. Lagt fram yfirlit yfir ferðir skóla- og frístundasviðs apríl-júní 2023. SFS22100121

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Samkvæmt fyrirliggjandi skriflegu svari fóru 18 starfsmenn skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar í ráðstefnuferð til Húsavíkur 10.-12. maí síðastliðinn. Kostnaður vegna þessa var nærri 1,7 milljónir króna (kr. 1.670.560). Ástæða er til að rýna í útgjöld af þessu tagi.

    Kl. 14.42 víkur Frans Páll Sigurðsson af fundinum.

    Fylgigögn

  8. Lagður fram verkferill um viðbrögð við meintri óviðeigandi framkomu starfsmanns gagnvart barni í leikskóla, grunnskóla, frístundastarfi eða tónlistarstarfi, dags. 25. janúar 2023. SFS23060210

    Þórunn Helga Benedikz, Ragna Sigrún Kristjónsdóttir og Ragnheiður E. Stefánsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Úttekt ofbeldisvarnarmála í Reykjavík kom út 25. apríl 2023 og var niðurstaðan að verkferlar sem skóla- og frístundasvið (SFS) kynnti hér þarfnist rýningar með tilliti til réttinda barna. Samkvæmt úttektinni er það „álit lögreglu að enginn munur eigi að vera á viðbragði leikskóla og skóla hvort [sem] grunurinn beinist að líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi.“ Samkvæmt verkferlunum er hvorki rætt við þolendur né gerendur ef grunur er um kynferðisbrot en við annað líkamlegt ofbeldi skulu stjórnendur yfirheyra starfsfólk og börn sem gengur þvert gegn réttindum barna og störfum Barnahúss. Við grun um kynferðisbrot er starfsfólk skilyrðislaust sent í leyfi en börn njóta ekki sömu verndar þegar grunur er um annað ofbeldi. SFS tók meira en ár í að uppfæra verkferlana eftir breytingu á barnaverndarlögum frá janúar 2022. Innri endurskoðandi sendi SFS ábendingar í september 2022 sem ekki var fylgt. Ábendingarnar voru að flýta endurskoðun verkferla, samræma viðbrögð við kynferðisbrotum og öðru líkamlegu ofbeldi, tryggja aðgengi ytri aðila að verkferlunum og samræma stefnu í forvarnarmálum. Sósíalistar harma að SFS hafi ekki bætt verkferla í ljósi athugasemda innri endurskoðanda, lögreglu og niðurstöðu heildarúttektarinnar og þurfa fulltrúar í skóla- og frístundaráði að grípa inn í þessar aðstæður samkvæmt 4. grein Barnasáttmála svo tryggja megi réttindi barna.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, sbr. 29. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs 26. júní 2023 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 28. september 2023, um tillöguna:

    Sósíalistar leggja til að verkferillinn „Viðbrögð við meintri óviðeigandi framkomu starfsmanns gagnvart barni í leikskóla, grunnskóla, frístundastarfi eða tónlistarstarfi“ verði tekinn á dagskrá skóla- og frístundaráðs til umræðu og samþykktar á þeim vettvangi.

    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata gegn atkvæði skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðsluna. SFS23060210

    Þórunn Helga Benedikz, Ragna Sigrún Kristjónsdóttir og Ragnheiður E. Stefánsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihlutinn telur mikilvægt að farið sé reglulega yfir verkferla gagnvart ofbeldi í skólastarfi sem eru á ábyrgð mannauðsþjónustunnar.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundasvið (SFS) hefur ekki breytt verkferlum þrátt fyrir athugasemdir í úttekt ofbeldisvarna frá apríl 2023 um það að rýna þurfi verkferlana með tilliti til 3. greinar Barnasáttmála. Álit lögreglu er að enginn munur eigi að vera á viðbrögðum við kynferðisbrotum eða öðru líkamlegu ofbeldi. Samt sem áður eru verkferlarnir enn þannig að stjórnendur afla upplýsinga frá starfsmönnum og börnum ef grunur er um annað ofbeldi en kynferðisbrot sem vinnur gegn markvissu starfi Barnahúss. Þessar yfirheyrslur á börnum komu fyrst fram í nýjustu uppfærslu verkferlanna sem samþykktir var í lok janúar 2023 eftir lagabreytingu frá janúar 2022. Starfsmenn grunaðir um ofbeldi eru heldur ekki settir í skilyrðislaust leyfi sem er brot á 19. grein Barnasáttmála. Í umsögn SFS er vísað í óskráðar reglur og vinnulag en ljóst er að til að vernda börn eiga verkferlar að vera skýrir. Það samræmist ekki hag barna að stjórnendur rannsaki sjálfa sig og eigið starfsfólk. SFS hefur hvorki orðið við athugasemdum innri endurskoðanda frá september 2022 um samræmda stefnu í forvarnarmálum gegn ofbeldi gagnvart börnum né gert verkferla aðgengilega ytri aðilum. Sósíalistar harma að skóla- og frístundaráð hafni að taka til umræðu og samþykktar verkferla sem úttekt á ofbeldisvörnum hefur staðfest að séu í ólagi.

    Fylgigögn

  10. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 27. september 2023:

    Í ljósi áherslu á aukna samnýtingu húsnæðis er lagt til að starfsstöð félagsmiðstöðvarinnar Hundraðogellefu sem er staðsett í Gerðubergi 1 verði færð í Hólabrekkuskóla og Fellaskóla og starfsemi hætt í Gerðubergi. Unnið verði í samstarfi við unglingana, starfsfólk félagsmiðstöðvar og skólanna að því að skilgreina betur starfsemina og ákveða hvort að félagsmiðstöðin Hundraðogellefu verði áfram starfsemi undir sama hatti eða tvær félagsmiðstöðvar staðsettar í sitthvorum skólanum.

    Greinargerð fylgir.

    Frestað. SFS23090172

    Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:

    Skóla- og frístundaráð felur sviðsstjóra að afla umsagna viðeigandi aðila um tillögu um tilfærslu starfsemi félagsmiðstöðvarinnar Hundraðogellefu áður en hún verði lögð fyrir ráðið til afgreiðslu.

    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva þakkar ráðinu fyrir að fresta og leggja til umsagnar tillögu sviðstjóra skóla- og frístundasviðs um að færa starfsemi félagsmiðstöðvarinnar Hundraðogellefu.

    Fylgigögn

  11. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 33. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 28. ágúst 2023:

    Óskað er eftir kynningu fyrir skóla- og frístundaráð á starfsemi og hlutverki Námsflokka Reykjavíkur.

    Jafnframt lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 11. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 25. september 2023:

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítreka neðangreinda tillögu frá fundi skóla- og frístundaráðs frá 28. ágúst sl.: „Óskað er eftir kynningu fyrir skóla- og frístundaráð á starfsemi og hlutverki Námsflokka Reykjavíkur.“

     Samþykkt. SFS23080173

    Fylgigögn

  12. Fram fer kynning um málefni Námsflokka Reykjavíkur. SFS23080173

  13. Lögð fram umsögn um tillögu mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs um samráðsvettvang um börn og ungmenni í tengslum við ofbeldi.

    Samþykkt. MSS23060018

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs til forsætisnefndar, dags. 21. september 2023, um fyrirhugaða breytingu á viðauka um embættisafgreiðslur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs vegna daggæslu barna í heimahúsum. SFS23090112

    Fylgigögn

  15. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 14. september 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kostnað við skóla- og frístundasvið í hverfum, sbr. 32. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 26. júní 2023. SFS23060221

    Fylgigögn

  16. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 11. september 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um styrki skóla- og frístundasviðs 2019-2022, sbr. 36. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 26. júní 2023. SFS23060225

    Fylgigögn

  17. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 28. september 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um meðalsvartíma fyrirspurna, sbr. 34. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 28. ágúst 2023. SFS23080162

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks þakka fyrir svarið en með fyrirspurninni var ætlunin að fá upplýsingar um meðaltíma svara við fyrirspurnum á tímabilinu 14. júní 2022 til og með 28. ágúst 2023. Samkvæmt svarinu hafa orðið framfarir á þessu kjörtímabili í samanburði við síðasta kjörtímabil en betur má ef duga skal. Meðaltíminn á áðurnefndu tímabili er þrír mánuðir en viðmiðið er að svar við fyrirspurn skuli berast innan tveggja mánaða.

    Fylgigögn

  18. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 26. september 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um sérfræði- og ráðgjafarkostnað vegna stefnumótunar, sbr. 16. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 11. september 2023. SFS23090061

    Fylgigögn

  19. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 28. september 2023 við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um fjölda stuðningsfulltrúa í grunnskólum, sbr. 26. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 6. febrúar 2023. SFS23020039

    Fylgigögn

  20. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 22. ágúst 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um viðhaldsprósentu af innri leigu árin 2008-2023, sbr. 40. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 26. júní 2023. SFS23060228

    Fylgigögn

  21. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 25. september 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um áhrif sameiningu leyfisbréfa kennara, sbr. 41. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. febrúar 2023. MSS23020061

    Fylgigögn

  22. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 26. september 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um viðbrögð skóla- og frístundasviðs við ofbeldi meðal barna, sbr. 27. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. september 2023. MSS23090041

    Fylgigögn

  23. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 28. september 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um viðbrögð skóla- og frístundasviðs við niðurstöðum Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar, sbr. 25. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. september 2023. MSS23090041

    Fylgigögn

  24. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Óskað er eftir að upplýsingar um stöðu biðlista eftir plássi á frístundaheimili verði lagðar fram á næsta reglulega fundi skóla- og frístundaráðs.

    Frestað. SFS23100047

  25. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Óskað er eftir að á dagskrá næsta reglulega fundar skóla- og frístundaráðs verði staða ráðninga á leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum.

    Frestað. SFS23060085

  26. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að fulltrúi skrifstofu framkvæmda og viðhalds fari yfir það á næsta reglulega fundi skóla- og frístundaráðs hversu miklu var varið í viðhald leikskóla árið 2022. Sömuleiðis að farið verði yfir hversu miklu verði varið í viðhald í fjárhagsáætlun 2024.

    Frestað. SFS23100048

  27. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hver var meðalaldur barna við inngöngu (ekki innritun) í borgarreknum leikskólum í ágúst-september 2023? Tekið er fram að verið er að spyrja um meðalaldur barna sem hófu leikskólagöngu í fyrsta skipti, þ.e. höfðu ekki áður verið í leikskóla, t.d. í öðru sveitarfélagi eða hjá sjálfstætt starfandi leikskóla.

    SFS23100042

  28. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er upplýsinga um hversu mörg börn leik- og grunnskóla heyra undir þjónustumiðstöðvarnar. Óskað er svara sundurgreint eftir þjónustumiðstöðvum og sundurgreint eftir leikskólum og grunnskólum.

    SFS23100044

  29. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hvaða leikskólar eru í fleiri en einni byggingu og hversu margir leikskólar eru með lausar kennslustofur?

    SFS23100045

  30. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hvað veldur því að tafir hafa orðið á upphafi starfseminnar hjá ungbarnaleikskólanum við Hallgerðargötu?

    SFS23100046

  31. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hvernig, ef hún gerir það, gefur Reykjavíkurborg börnum á flótta möguleika á að tjá sig um þeirra mál og þarfir? Líkt og kemur fram í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þá eiga börn rétt á því að tjá sig frjálslega um öll málefni sem hafa áhrif á líf þeirra. Fullorðnir eiga að hlusta og taka mark á þeim. Hér er spurt út í börn sem eru á flótta og fylgdarlaus börn, börn sem bíða eftir niðurstöðu um alþjóðlega vernd eða sem hafa fengið synjun um alþjóðlega vernd.

    SFS23100040

  32. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hvað gerir Reykjavíkurborg til að hjálpa börnum á flótta að þroskast í íslensku samfélagi og til hvaða aðgerða hefur hún gripið til að brjóta niður félagslega einangrun þessara barna? Vitað er að ekki öll börn í þessari stöðu fá skólavist innan sveitarfélagsins og fyrirspurnin er m.a lögð fram vegna þessa. Hér er átt við öll börn sem eru á flótta og búa í borginni, þ.m.t. þau sem bíða eftir niðurstöðu um alþjóðlega vernd.

    SFS23100041

Fundi slitið kl. 16:07

Árelía Eydís Guðmundsdóttir Alexandra Briem

Guðný Maja Riba Helgi Áss Grétarsson

Marta Guðjónsdóttir Sabine Leskopf

Trausti Breiðfjörð Magnússon

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 9. október 2023