Skóla- og frístundaráð
Ár 2023, 25. september, var haldinn 259. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.15.
Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Alexandra Briem (P), Guðný Maja Riba (S), Sabine Leskopf (S) og Trausti Breiðfjörð Magnússon (J). Eftirtalin tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Árelía Eydís Guðmundsdóttir formaður (B), Helgi Áss Grétarsson (D) og Marta Guðjónsdóttir (D). Eftirtaldir áheyrnarfulltrúar voru komnir til fundar í fundarherberginu Hofi: Áslaug Björk Eggertsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum; Helgi Eiríksson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum og Þröstur Flóki Klemensson, Reykjavíkurráð ungmenna. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir. Eygló Traustadóttir ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, sbr. 16. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 12. júní 2023 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 14. september 2023, um tillöguna:
Lagt er til að skóla- og frístundasvið láti framkvæma könnun meðal grunnskólanemenda í þeim tilgangi að safna gögnum um upplifun barna af því að vera ekki í skólamat. Spurningakönnunin verði sett upp af ytri aðila, en Reykjavíkurborg hefur unnið með slíkum aðilum áður við gerð spurningakannana í grunnskólum. Mikilvægt er að upplifun barna af því að hafa ekki aðgang að máltíðum í hádeginu sé kortlögð.
Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata gegn einu atkvæði skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. SFS23060083
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar meirihlutans í skóla- og frístundaráði fagna könnun sem þessari. En fram kemur í könnun og spurt er um ástæður þess að börn eru ekki í mataráskrift þar sem bæði er hægt að merkja við fyrirfram gefnar ástæður og jafnframt hægt að svara með opnu svari. Nemendur eru spurðir af ytri aðila, Skólapúlsinum. Mikilvægt er að fylgja eftir könnunum til að hægt sé að bregðast við með úrbótum ef þörf krefur.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks telja mikilvægt að fylgst sé reglulega með gæði skólamáltíða. Þá er einnig mikilvægt að fylgst sé með þátttöku nemenda í skólamáltíðum, sundurgreint eftir skólum og hverfum. Að beiðni okkar Sjálfstæðismanna var á síðasta kjörtímabili farið í að kanna reglulega hvort nemendur nýti sér skólamáltíðir og ef ekki, hvaða ástæður lægju að baki því. Þarna er um mikilvægar upplýsingar að ræða til að rýna bæði fyrir skólana sjálfa og sömuleiðis skóla- og frístundasvið. Niðurstöður fyrirliggjandi kannana gefa því miður til kynna að í einstökum skólum er hlutfall þeirra sem nýta sér skólamáltíðir verulega lágt. Mikilvægt er að vinna í framhaldinu með þær niðurstöður til að fá skýrari mynd af því, hver ástæða þess er, svo hægt verði að bregðast við með viðeigandi úrræðum, t.d. ef um er að ræða fjárhagslegan vanda heimilanna og/eða ef um skort á gæði máltíðanna er að ræða í þessum einstöku skólum.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Nýjasta könnun um mataráskriftir í grunnskólum gefur til kynna að um 12% barna í grunnskólum séu ekki í áskrift. Tæp 67% þeirra sleppa henni vegna þess að þeim finnst maturinn vondur. Í heildina litið eru það um 8,8% allra barna. Hér er tækifæri til að bæta úr. Valdefla þarf nemendur svo þeir komi að ákvarðanatöku um hvað sé í matinn í skólum. Í matarstefnu Reykjavíkur er einnig kveðið á um að í skólum sé matur nýttur til menntunar og börnin taki þátt í undirbúningi, ræktun og matargerð þegar því verði við komið og eigi þannig hlut í matarmenningu skólans. Ekki er verið að vinna eftir þessari stefnu og matur hefur í auknum mæli verið útvistaður, þar sem hann er undirbúinn fjarri nemendum. Borgin ætti að vinna eftir eigin stefnu, en ekki gegn henni eins og nú er gert. Tækifæri eru til að auka ánægju barna með mat í skólum. Byrja þarf á að vinna eftir matarstefnu Reykjavíkur og jafnframt valdefla nemendur svo þeir geti ákveðið hvað sé í matinn. Fjölbreytni og meira val þegar kemur að skólamat þarf einnig að vera tryggt.
Kl. 13.25 tekur Soffía Pálsdóttir sæti á fundinum.
Fylgigögn
-
Lögð fram skýrslan Íslenska æskulýðsrannsóknin: Farsældarvísar í Reykjavíkurborg, vorönn 2023. SFS23090089
Ragný Þóra Guðjohnsen, Guðrún Mjöll Sigurðardóttir og Sigrún Sveinbjörnsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Mikilvægt er að rannsaka líðan barna og ungmenna. Gott er að sjá að almennt líður börnum vel í skólum borgarinnar. Menntastefna, græna planið og betri borg fyrir börn miða að því að gera Reykjavíkurborg að barnvænu samfélagi og við erum að ná góðum árangri en við þurfum að vera vakandi fyrir þeim þáttum sem hafa áhrif á vanlíðan barna og ungmenna.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks þakka fyrir kynningu á niðurstöðum Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar sem m.a. varpar ljósi á stöðu mála í reykvískum grunnskólum vorið 2023. Nánar tiltekið veitir könnun Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar vísbendingar um afstöðu nemenda í 4., 6., 8. og 10. bekk til margþættra álitaefna. Í þessu samhengi vilja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins benda á eftirfarandi áhersluatriði sem fram koma í stjórnmálaályktun allsherjar- og menntamálanefndar Sjálfstæðisflokksins, sem samþykkt var á landsfundi flokksins í nóvember 2022: „Skólastarfið þarf að miða meira að þörfum hvers nemanda þannig að hann nái árangri á sínum forsendum. Sérstaklega þarf að huga að börnum með erlent móðurmál og drengjum sem standa höllum fæti samkvæmt rannsóknum og alþjóðlegum samanburði. Endurskoða, skýra og nútímavæða þarf aðalnámskrá ekki síst í ljósi aukins fjölda grunnskólanema með erlent móðurmál. Læsi grunnskólabarna er vaxandi áhyggjuefni sem þarfnast tafarlausra aðgerða.“
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Í þessari nýbirtu æskulýðsrannsókn kemur fram að 16% reykvískra barna í fjórða bekk fari svöng að sofa því ekki sé til matur heima. Hjá unglingum var hlutfallið nokkuð lægra, á bilinu 7-9% en það er engu að síður óásættanleg staða. Þessum niðurstöðum ætti borgin að taka alvarlega og fara í aðgerðir. Skóla- og frístundaráð gæti tryggt gjaldfrjálsar máltíðir fyrir nemendur í skólum, en rannsóknir hafa sýnt að slíkar aðgerðir draga úr svengd og fæðuóöryggi barna. Aðrar niðurstöður gefa tilefni til viðbragða, eins og aukin depurð unglinga með aldrinum og sjálfsvígshugsanir. Hlutfall barna sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi af hálfu fullorðinna er einnig sláandi. Niðurstöður æskulýðsrannsóknarinnar gefa tilefni til viðbragða af hálfu Reykjavíkur. Börn eiga ekki að fara svöng að sofa, upplifa sjálfsvígshugsanir eða verða fyrir ofbeldi af hvaða tagi sem er.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 23. febrúar 2023, með svohljóðandi tillögu Alex Dóru Bjargar Brynjudóttur, fulltrúa í ungmennaráði Laugardals, Háaleitis og Bústaða sem var vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs, sbr. 1. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 14. febrúar 2023, ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 14. september 2023, um tillöguna:
Lagt er til að borgarstjórn feli skóla- og frístundaráði að vinna að því að hraða innleiðingu á tilraunaverkefni starfshóps um bætta kynfræðslu í grunnskólum Reykjavíkur og að innleiðing verði hafin í öllum grunnskólum eigi síðar en haustið 2024.
Greinargerð fylgir.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:
Lagt er til að skóla- og frístundaráð feli sviðsstjóra að vinna áfram að innleiðingu á tilraunaverkefni starfshóps um bætta kynfræðslu í grunnskólum Reykjavíkur en innleiðing á verkefninu er nú þegar hafin.
Samþykkt. MSS23020089
Tillagan er samþykkt svo breytt.
Alex Dóra Björg Brynjudóttir og Hulda Valdís Valdimarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Góð og fagleg kynfræðsla er gífurlega mikilvæg og því ber að efla hana. Nú hafa sex grunnskólar í borginni innleitt kynfræðslu og námsefni tilbúið fyrir aðra skóla. Einnig hefur verið unnið öflugt starf í gegnum Jafnréttisskólann og verkefnið Viku 6 fyrir unglingadeildir. Til þess að halda áfram á þessari braut er mikilvægt að fleiri skólar innleiði þessa fræðslu, en þörf er á því að efla Jafnréttisskólann og skerpa á hlutverki hans, til þess að tryggja að hann geti verið leiðandi í þessari fræðslu.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Á fundi borgarstjórnar 14. febrúar sl. með Reykjavíkurráði ungmenna var tillagan sem hér er til umræðu ekki samþykkt heldur vísað til skóla- og frístundaráðs. Um tillöguna er svo fjallað í minnisblaði skóla- og frístundasviðs, dags. 14. september síðastliðinn. Meirihlutinn hefur því haft sjö mánuði til að leggja fram breytingartillögu en gerir það ekki fyrr en á fundi ráðsins sem haldinn er í dag, 25. september 2023, þegar þó nokkuð er liðið á fundartímann eða kl. 14:53. Breytingartillagan samrýmist vart efni upphaflegu tillögunnar enda gengur sú tillaga út á að hraða þurfi tilteknum aðgerðum á meðan breytingartillagan er almenns eðlis, þ.e. að sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs verði falið að vinna áfram að innleiðingu á tilraunaverkefni um bætta kynfræðslu í grunnskólum Reykjavíkur. Þessi meðferð málsins ber ekki vott um vandaða og gagnsæja stjórnsýslu. Þrátt fyrir það styðja skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins að þetta málefni sé þróað áfram en fulltrúarnir vilja benda á eftirfarandi áhersluatriði sem fram koma í stjórnmálaályktun allsherjar- og menntamálanefndar Sjálfstæðisflokksins, sem samþykkt var á landsfundi flokksins í nóvember 2022: „Efla þarf kyn- og fötlunarfræðslu…Brýnt er að horfa til nýrra áherslna í grunnskólum í takt við nýjar kröfur í nútímasamfélagi, t.a.m. kynfræðslu…“.
Fylgigögn
-
Lögð fram skýrslan Úttekt á starfsemi stoðdeildar: skólaúrræði fyrir börn í leit að alþjóðlegri vernd, dags. í júní 2023.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:
Sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs er falið að útfæra kostnaðarmetna tillögu út frá sviðsmynd 4 í skýrslu starfshóps um starfsemi stoðdeildar fyrir börn í leit að alþjóðlegri vernd. Tillagan verði lögð fyrir skóla- og frístundaráð í nóvember 2023.
Samþykkt. SFS23060128
Dagbjört Ásbjörnsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Reykjavíkurborg hefur verið í fararbroddi með starfsemi Birtu sem er stoðdeild fyrir börn í umsóknarferli um alþjóðlega vernd á Íslandi. Þjónusta við þennan afar viðkvæma hóp krefst mikillar næmni og þekkingar sem hefur verið byggð upp og mikilvægt er að viðhalda. Sviðsmynd 4 í skýrslu um deildina byggir á að stoðdeildin verði aldurskipt fyrir 1.- 6. bekk og 7.- 10. bekk á tveimur stöðum. Það gæti styrkt starfsemina til lengra tíma.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks þakka fyrir kynningu á þeirri úttekt sem hefur verið framkvæmd á starfsemi stoðdeildar, skólaúrræði fyrir börn í leit að alþjóðlegri vernd. Svo sem ráða má af úttektinni er starfsemi stoðdeildarinnar mikilvæg og nauðsynlegt að vel sé hlúð að henni. Hins vegar er það svo að sníða þarf starfseminni stakk eftir vexti, enda leiðir það af eðli máls að börn þeirra sem sótt hafa um alþjóðlega vernd hér á landi sem flóttamenn eru í óvissu um hversu lengi þau verða hér á landi. Þetta síðastnefnda atriði er í samræmi við eftirfarandi áhersluatriði sem fram kom í stjórnmálaályktun allsherjar- og menntamálanefndar Sjálfstæðisflokksins, sem samþykkt var á landsfundi flokksins í nóvember 2022: „Útlendingalöggjöfin þarf á hverjum tíma að byggja á mannúð, réttlæti, ábyrgð og raunsæi þar sem smæð þjóðarinnar er viðurkennd.“ Með hliðsjón af þessu styðja skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins tillögu meirihlutans um hvernig bregðast eigi við áðurnefndri úttekt, þ.e. að skóla- og frístundasvið sé falið að kostnaðarmeta sviðsmynd 4 í tillögum starfshópsins.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, sbr. 50 lið fundargerðar borgarráðs frá 30. mars 2023, ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. september 2023, um tillöguna:
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarráð samþykki að beina því til velferðarsviðs að fagfólk skólanna (sálfræðingar, talmeinafræðingar og aðrir sérmenntaðir einstaklingar sem starfa innan skólakerfisins) komi meira inn í nærumhverfi barnanna, þ.e. skólana, en nú er raunin. Hávært kall skólasamfélagsins er um að fá sérfræðingana meira inn í skólabyggingarnar, „inn á gólf“ eins og það er kallað og er þá átt við að þeir sérfræðingarnir séu til staðar á staðnum mun oftar og meira en nú tíðkast og veiti börnunum þjónustu í þeirra nærumhverfi þegar þau þurfa hana. Það er mat fleiri en fulltrúa Flokks fólksins að kerfið sem nú er í gangi sé of flókið, seinvirkt og óskilvirkt. Áhyggjur eru af því að börnin séu ekki að fá beina þjónustu, séu ekki að fá hlustun á mál sín. Eitt helsta markmiðið með Betri borg fyrir börn var að færa sálfræðinga í nærumhverfi barna og var talið að það þýddi að starfsstöð þeirra yrði þá í skólanum. Það hefur ekki gerst. Tryggja þarf að barn í vanda hitti sálfræðing skólans í eigin persónu og geti myndað við hann trúnaðarsamband í samvinnu og samráði við foreldra. Samtal við barnið er lykilatriði. Þjónusta við börn hefur vissulega verið í þróun í Reykjavík síðustu misseri. Biðlisti barna eftir sálfræðiþjónustu skólasálfræðinga hefur þó aldrei verið eins langur og nú. Á þriðja þúsund börn bíða ýmist eftir fyrstu eða frekari þjónustu, þá helst sálfræðinga og talmeinafræðinga. Þessi sami listi taldi 400 börn árið 2018.
Greinargerð fylgir.
Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata gegn tveimur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá. MSS23030222
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar meirihlutans í skóla- og frístundaráði leggja áherslu á verkefnið Betri borg fyrir börn (BBB) þar sem meðal annars kemur fram að allir sérfræðingar sem komi að þjónustu við börn eiga að vinna saman og tryggja snemmtækan stuðning við börn og fjölskyldur þeirra í nærumhverfi barnanna en lausnateymi vinnur náið með sérfræðingum sem aðstoða á einstaklingsgrundvelli.
Fylgigögn
-
Lagt fram samkomulag UNICEF á Íslandi og skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar vegna verkefnisins Réttindaskóli og -frístund UNICEF ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 14. september 2023, um samkomulagið og reglur Reykjavíkurborgar um styrki.
Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS22020013
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 28. ágúst 2023, um nemendaverðlaun skóla- og frístundaráðs 2023. SFS23050109
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 1. september 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um stuðning við dansnám á grunnstigi, sbr. 18. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 20. mars 2023. SFS23030126
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 14. september 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um niðurstöður kannana á upplifun nemenda af hádegismat í grunnskólum, sbr. 17. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 11. september 2023. SFS23090060
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 19. september 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um flutning barna milli skóla, sbr. 59. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 25. maí 2023. MSS23050148
Kl. 15.50 víkja Jón Ingi Gíslason og Soffía Pálsdóttir af fundinum.
Fylgigögn
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítreka neðangreinda tillögu frá fundi skóla- og frístundaráðs frá 28. ágúst sl.: „Óskað er eftir kynningu fyrir skóla- og frístundaráð á starfsemi og hlutverki Námsflokka Reykjavíkur.“
Frestað. SFS23080173
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Eru gerðar kannanir á matarsóun í leik- og grunnskólum borgarinnar? Ef svo er, óskar fulltrúi Sósíalista eftir gögnum um magn þess á síðustu árum. Sundurliðun eftir árum, skólum og hvort viðkomandi skóli eldi matinn á staðnum eða bjóði út. Einnig er spurt hvaða aðgerðir skóla- og frístundasvið hefur farið í til að draga úr matarsóun í skólum?
SFS23090145
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Hver er ástæðan fyrir því að börn þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd og bíða eftir svari um umsókn fá ekki að fara í skóla? Hér er átt við leikskóla og menntaskóla.
SFS23090149
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Eru börn og foreldrar barnanna sem eru á flótta og búa hér, upplýst um réttindi barnanna til að stunda tómstundir og eiga þau rétt á frístundakorti (frístundastyrknum) eins og önnur börn? Hér er átt við börn þar sem foreldrar þeirra hafa sótt um alþjóðlega vernd hér á landi og búa í Reykjavík. Ef þau eru upplýst hvernig fer það þá fram? Hvernig er málunum háttað ef fjölskyldunni er synjað um vernd? Missa börnin þá umrædd réttindi, ef þau voru til staðar fyrir?
SFS23090150
Fundi slitið kl. 15:59
Árelía Eydís Guðmundsdóttir Alexandra Briem
Guðný Maja Riba Helgi Áss Grétarsson
Marta Guðjónsdóttir Sabine Leskopf
Trausti Breiðfjörð Magnússon
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 25. september 2023