Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 257

Skóla- og frístundaráð

Ár 2023, 28. ágúst, var haldinn 257. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.20.
Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Sabine Leskopf varaformaður (B), Alexandra Briem (P), Ásta Björg Björgvinsdóttir (B), Guðný Maja Riba (S), Helgi Áss Grétarsson (D), Marta Guðjónsdóttir (D) og Sanna Magdalena Mörtudóttir (J). Eftirtaldir áheyrnarfulltrúar voru komnir til fundar í fundarherberginu Hofi: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Arndís Steinþórsdóttir, skólastjórar í grunnskólum; Guðrún Jóna Thorarensen, leikskólastjórar; Helgi Eiríksson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum og Úlfhildur Elísa Hróbjartsdóttir, Reykjavíkurráð ungmenna. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Frans Páll Sigurðsson, Guðrún Sigtryggsdóttir, Ólafur Brynjar Bjarkason, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir. Eygló Traustadóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer umræða um fundarsköp. SFS23080151

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu eftir því, innan tilskilins frests, að á dagskrá fundar ráðsins í dag yrðu tekin fyrir brýn mál. Andstætt ákvæðum í samþykktum um ráðið var beiðninni hafnað með þeim hætti að dagskrá fundar var birt án þess að ljóst væri að tekið væri tillit til beiðninnar. Einnig var ekki orðið við bón okkar, dags. 9. ágúst sl., um aukafund áður en skólastarf hófst í borginni. Furðu vekur að meirihlutinn hafi ekki séð ástæðu til þess að funda áður en skólastarf hófst í ljósi margvíslegra erfiðleika sem steðja að starfinu. Einnig hefði verið fyllsta ástæða til að leggja fram stöðu biðlista á frístundaheimili í ljósi þess að óvíst er hvort tekist hefur að tryggja öllum þeim börnum þar pláss sem sótt hafa um. Þá er ekki síður mikilvægt að fá uppfærða stöðu biðlista á leikskóla í ljósi þess að rúmlega 800 börn voru á biðlista eftir leikskóla í lok júní. 

    Kl. 13.30 tekur Helgi Grímsson sæti á fundinum.

  2. Fram fer kynning og umræða um áhrif húsnæðismála á skóla- og frístundastarf haustið 2023. SFS23060124

    Kl. 14.15 tekur Ragnheiður E. Stefánsdóttir sæti á fundinum.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúarnir þakka fyrir kynninguna og ítreka mikilvægi góðs upplýsingaflæðis milli aðila, sérstaklega til foreldra og starfsfólks stofnana. Mikilvægt er að ábyrgð á upplýsingagjöf sé skýr og auðvelt sé að átta sig á því hvar upplýsingar sé að finna.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Uppsöfnuð viðhaldsþörf leikskólahúsnæðis er farin að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir barnafjölskyldur í borginni enda komið á daginn að nú eru 360 pláss ónýtanleg á þeim leikskólum þar sem ástandið er verst. Brýnt er að leita lausna sem fyrst á húsnæðisvanda þessara skóla svo hægt sé að taka í notkun þessi 360 pláss sem fyrst. Þá er það mikið áhyggjuefni hvernig framkvæmdir hafa dregist við Hagaskóla með þeim afleiðingum að fresta þurfti skólasetningu um viku og skerða kennslu í verkgreinum auk þess sem skerða á almenna kennslu um a.m.k. einn dag í mánuði. Ámælisvert er að ekki lágu fyrir upplýsingar um þessa stöðu fyrr en nokkrum dögum áður en skólastarf í borginni átti að hefjast, hvorki foreldrar, nemendur, starfsfólk né kjörnir fulltrúar voru upplýstir um þá töf sem varð á framkvæmdum við Hagaskóla. 

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 23. ágúst 2023:

    Lagt er til að flytja heimastöð Skólahljómsveitar Árbæjar og Breiðholts (SÁB) úr Breiðholtsskóla í Fellaskóla í samræmi við niðurstöður starfshóps um heimastöð Skólahljómsveitar Árbæjar og Breiðholts frá og með skólaárinu 2023-2024. Sviðsstjóra er falið að koma nauðsynlegum framkvæmdum á kjallara Fellaskóla í frekari vinnslu og kostnaðargreiningu hjá þeim aðilum sem nú vinna að undirbúningi fyrirhugaðra framkvæmda í kjallara Fellaskóla.

    Greinargerð fylgir.

    Samþykkt. SFS22080267

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Starf skólahljómsveita hefur verið eflt mikið á síðustu árum. Þessi flutningur ætti að styrkja starfið frekar ekki síst þar sem uppbygging tónlistarstarfs í Fellaskóla hefur gengið mjög vel og vonast má til að hægt sé að láta börnin njóta góðs af samlegðaráhrifum við það góða starf.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að tryggja að góðar almenningssamgöngur séu á milli svæðanna til að tryggja að börn úr ólíkum borgarhlutum komist auðveldlega á heimastöð skólahljómsveitarinnar.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs um breytingu á reglum skóla- og frístundasviðs um þjónustu félagsmiðstöðva Reykjavíkurborgar ásamt reglunum með breytingum og núgildandi reglum.

    Greinargerð fylgir.

    Samþykkt með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata gegn þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands. Vísað til borgarráðs. Breytingar á reglum taki gildi við samþykkt borgarráðs. SFS23010164

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks telja að starfsemi félagsmiðstöðva geti haft ríkt forvarnargildi. Sparnaðurinn af styttingu opnunartímans er rýr og næg tækifæri annars staðar í borgarkerfinu til að spara álíka fjárhæð. Einnig verður ekki séð að sveitarfélagið hafi haft samráð við ungmennaráð um þetta málefni en það var skylt, sbr. 2. ml. 2. mgr. 11. gr. æskulýðslaga nr. 80/2007. Að lokum skal þess getið að á veturna er útivistartími 13-16 ára lengri en sem nær til kl. 22:00, sbr. 1. mgr. 92. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Á fundi skóla- og frístundaráðs þann 12. júní 2023 var lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa ungmennaráðs Árbæjar og Holta: Lagt er til að borgarstjórn hætti við að stytta opnunartíma í félagsmiðstöðvum og sé í samskiptum við ungmennaráð borgarinnar áður en teknar eru ákvarðanir um frístundastarf unglinga. Fulltrúi Sósíalista tekur heilshugar undir tillögu fulltrúa ungmennaráðs um að ekki eigi að stytta opnunartíma í félagsmiðstöðvum og að borgaryfirvöld verði að eiga í samskiptum við ungmennaráð um fyrirhugaðar breytingar. Þá hafa einnig Samfés, landssamtök félagsmiðstöðva og ungmennahúsa, Ungmennaráð Samfés og Fulltrúaráð Samfés skorað á Reykjavíkurborg að endurskoða ákvörðun um skerðingu á opnunartíma félagsmiðstöðva. Það var gert í áskorun sem birtist í desember árið 2022 þegar hagræðingartillögur meirihlutaflokkanna í borginni voru kynntar. Í þeirri áskorun var fjallað um mikilvægi þess að auka við það öfluga og faglega forvarnarstarf sem fer fram í starfi félagsmiðstöðvanna. Fulltrúi Sósíalista tekur heilshugar undir það og getur ekki samþykkt tillögu sem felur í sér skerðingu á þjónustu við ungmenni.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram verk- og kostnaðaráætlun vegna tillagna starfshóps um aðgerðaáætlun gegn rasisma í skóla- og frístundastarfi, ódags. ásamt skýrslu starfshóps um aðgerðaáætlun gegn rasisma í skóla- og frístundastarfi, dags. í desember 2022.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:

    Lagt er til að samþykkja þau verkefni sem eru áætluð á haustönn 2023 í verk- og kostnaðaráætlun vegna tillagna starfshóps um aðgerðaáætlun gegn rasisma í skóla- og frístundastarfi. Þau verkefni sem eru áætluð á árinu 2024 verði skoðuð með hliðsjón af gerð fjárhagsáætlunar.

    Samþykkt. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. SFS22080225

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Rasismi er stórt samfélagsmein sem mikilvægt er að ávarpa í skólakerfinu. Tillagan er samþykkt varðandi framkvæmd á þessu ári en tillögunnar sem varða 2024 verða teknar fyrir og kostnaðarmetnaðar fyrir það tímabil.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Verk- og kostnaðaráætlun undir þessum lið er ekki nægjanlega vel sundurliðuð og rökstudd, miðað við aðra valkosti, að hægt sé að fallast á að hagfelldast sé fyrir Reykjavíkurborg að standa með þessum hætti gegn rasisma í skóla- og frístundastarfi. Af þeim ástæðum sitja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hjá undir þessu máli.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þakkað er fyrir ítarlega skýrslu en enn er beðið eftir aðgerðaráætlun gegn rasisma í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar. Markmiðið með aðgerðaráætluninni er að hún sé til staðar þegar rasísk atvik eiga sér stað í skólaumhverfinu svo að skýrir verkferlar séu til staðar um hvernig skuli bregðast við rasískum atvikum svo það lendi ekki á börnum eða foreldrum þeirra að bregðast við kynþáttafordómum og kynþáttahyggju í skólaumhverfinu. Nú hafa skólar tekið til starfa að loknu sumarleyfi og aðgerðaráætlun liggur enn ekki fyrir, þrátt fyrir að tillaga um að móta slíka áætlun með skýrum verkferlum hafi verið samþykkt á fundi skóla- og frístundaráðs 22. mars 2022. Síðan hafa 17 mánuðir liðið og aðgerðaráætlunin er enn ekki til staðar. Ein tillaga sem er lögð hér fram felur í sér að stofnaðir verði fjórir starfshópar til að vinna áfram verklag fyrir leikskóla, grunnskóla og frístundamiðstöðvar og starfsfólk út frá drögum í skýrslu aðgerðahóps gegn rasisma. Starfshópar verði þannig skipaðir að fulltrúar geti bæði tekið þátt í umræðu á faglegum grundvelli sem og vegna persónulegrar reynslu. Þá er lagt til að fulltrúar starfshópa búi yfir fjölbreyttum tungumála- og menningarbakgrunni. Fulltrúi Sósíalista tekur fram mikilvægi þess að innan starfshópanna verði einnig fulltrúar með fjölbreyttan húðlit. 

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 6. febrúar 2023:

    Skóla- og frístundaráð felur skóla- og frístundasviði að byrja að formlega skrá rasísk atvik og rasíska orðræðu sem fer fram innan skóla borgarinnar. Mikilvægt er að vel sé haldið utan um umfang og tíðni slíkra atvika svo að hægt sé að bregðast við. 

    Greinargerð fylgir.

    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata gegn atkvæði skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. SFS23020036

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Áfram verður unnið í skólum með virðingu gagnvart öllum ásamt meðvitund um rasisma. Hins vegar er tillagan ekki nægilega útfærð varðandi framkvæmd og markmið til að efla kennara og skólastjórnendur í þeirri vegferð, algerlega óljóst er til dæmis hvernig mat á eðli atvika eða eftirfylgni ætti að vera.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um fjölgun íslenskuvera sem frestað var á fundi skóla- og frístundasviðs 22. maí 2023, ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 7. júlí 2023, varðandi tillöguna:

    Lagt er til að íslenskuverum verði fjölgað í Reykjavík þannig að eitt slíkt sé í hverju hverfi. Íslenskuver er hugsað fyrir nemendur sem koma ný inn í skólakerfi borgarinnar. Um börn með takmarkaða eða jafnvel enga skólagöngu að baki getur verið að ræða. Einhver börn koma vegna umsókna um alþjóðlega vernd eða sem börn á flótta. Þarna er um ungmenni að ræða sem þurfa á mikilli íslenskukennslu á að halda fyrstu mánuði þeirra hér svo þau dragist ekki aftur úr jafnöldrum. Íslenskuverið sinnir því hlutverki og mikilvægt er að það sé aðgengilegt börnum í öllum hverfum, í nærumhverfi þeirra. Nú starfa fjögur íslenskuver í borginni en nauðsynlegt er að þeim sé fjölgað.

    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata gegn þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands. SFS23050121

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Íslenskuverum hefur verið fjölgað og eru nú starfrækt fjögur íslenskuver í fjórum hverfum borgarinnar. Verið er að bíða eftir niðurstöðum á úttekt á Stoðdeild Birtu sem sinnir nemendum sem koma til landsins með ósk um alþjóðlega vernd. Skynsamlegast væri að bíða eftir þeirri úttekt til að meta hvar þörfin er mikilvægust til að hægt sé að bregðast við með fleiri íslenskuverum eða úræðum er svipa til Birtu. Mikið og gróskumikið starf er í grunnskólum borgarinnar sem sinna íslenskukennslu þeirra barna sem koma til landsins með annað móðurmál en íslensku ef þau komast ekki að í íslenskuveri.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Sósíalista hefði viljað sjá að unnið yrði nánar með þessa tillögu í skóla- og frístundaráði.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 22. maí 2023, ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. ágúst 2023, varðandi tillöguna:

    Lagt er til að úttekt verði gerð einu sinni í viku eða oftar eftir því sem þörf þykir yfir nokkra vikna tímabil til þess að kanna næringargildi og fjölbreytni matarins sem er í leik- og grunnskólum borgarinnar. Úttektin verði gerð til að kanna hvort máltíðirnar uppfylli viðmið um næringargildi fyrir börn. Litið verði til mismunandi aldurs barnanna þegar verið er að meta næringarþörf. Jafnframt verði skoðað hvort maturinn sé fjölbreyttur og hvernig vikumatseðlar eru settir upp með tilliti til næringar, fjölbreytni og gæða. Þegar könnunin er gerð verði litið til allra máltíða sem og hressinga. Einnig er lagt til að næringargildi verði könnuð innan sjálfstætt starfandi leik- og grunnskóla í Reykjavík. Í niðurstöðum verði tekið fram hvort að skólarnir séu með eigið eldhús og matreiðslu á staðnum eða kaupi mat frá utanaðkomandi fyrirtækjum. Skóla- og frístundasviði verði falið að móta könnunina og aðferðarfræði hennar þannig að hægt verði að fá þessar upplýsingar fram, upplýsingar sem sýna raunverulega mynd af máltíðum og hressingum innan leik- og grunnskóla og hvort að þau uppfylli opinber viðmið um næringargildi og fjölbreytni.

    Greinargerð fylgir.

    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata gegn atkvæði skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. SFS23050120

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundasvið í samvinnu við velferðarsvið Reykjavíkurborgar eru að leggja lokahönd á útboð eldhúsumsjónarkerfis sem mun gera grunnskólunum kleift að birta næringarupplýsingar. Áætlað er að útboðið fari í loftið í haust sem þýðir að innleiðing ætti að geta hafist á fyrri hluta árs 2024. Með tilkomu þessa kerfis verður mjög fljótlegt að skoða næringarframboð í grunnskólum borgarinnar, sjá næringargildi og meta gæði þeirrar næringar sem boðið er uppá í leik og grunnskólum, ásamt frístundamiðstöðvum í borginni.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins frá fundi borgarráðs 9. febrúar 2023 sem vísað var til meðferðar skóla- og frístundaráðs ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 5. júlí 2023, varðandi tillöguna:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að skóla- og frístundasvið hefji undirbúning í samráði við leikskólasamfélagið um námslínu fyrir leiðbeinendur sem ætlað er til að styrkja þá í faglegu starfi á leikskóla. Þetta er lagt til m.a. í ljósi alvarlegrar manneklu sem ríkt hefur í leikskólum borgarinnar frá 2016. Freista þarf þess að hugsa út fyrir boxið og finna nýjar leiðir til að laða fólk til starfa í leikskólum. Önnur sveitarfélög hafa farið þessa leið og beitt fleiri nýjungum sem leitt hefur til aukinnar eftirsóknar í störfum á leikskólum. Reykjavík þarf að taka sér þessi sveitarfélög til fyrirmyndar. Ekki gengur að sýna uppgjöf í þessum málum en nú ríkir hreint neyðarástand. Fæst börn geta verið á leikskólum sínum alla fimm daga vikunnar vegna vöntunar á starfsfólki.

    Tillögunni er vísað frá. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá. MSS23020058

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Eins og fram kemur í svari sviðsins býður Reykjavíkurborg upp á margvíslega fræðslu fyrir starfsfólk sitt og má þá vísa í nýja fræðslustefnu Reykjavíkurborgar sem var samþykkt í borgarráði haustið 2022. Þar má nefna stafræna námslínu fyrir leiðbeinendur í leikskóla í gegnum viðmót sem heitir Torgið. Einnig má nefna að starfsfólk leikskóla Reykjavíkurborgar sem stundar nám í leikskólakennarafræðum hefur kost á að sækja um launað námsleyfi sem nemur allt að 17,5 dögum á önn. Þessu til viðbótar má nefna nýtt fagháskólanám í leikskólakennarafræði sem er samstarfsverkefni HÍ og HA.

    Fylgigögn

  10. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundasviðs 6. febrúar 2023, ásamt umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 16. maí 2023:

    Skóla- og frístundaráð samþykkir að koma fyrir loftgæðamæli við þá leikskóla sem standa við eða nærri stofnbrautum í Reykjavík til að tryggja að börn andi ekki að sér heilsuspillandi svifryki þegar svifryksmengun fer yfir heilsuverndarmörk.

    Greinargerð fylgir.

    Samþykkt. SFS23020045

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar meirihluta skóla og frístundaráðs fagna áhuga Sjálfstæðisflokksins á loftgæðum og tekur undir að bæta þurfi gagnaöflun í kringum húsnæði þar sem barna- og unglingastarf fer fram. Það er meirihluta borgarstjórnar mikið kappsmál að bæta loftgæði í borginni og leggja áherslu á vistvænar samgöngur í borginni sem skiptir sköpum þegar um loftgæði er að ræða.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er mikilvægt að leikskólar búi yfir öruggum og óháðum upplýsingum um það þegar svifryk fer yfir heilsuverndarmörk til að geta gert viðeigandi ráðstafanir. Óviðunandi er að leikskólastjórar sjálfir þurfi að meta ástandið út frá mælum sem eru fjarri viðkomandi leikskóla. Af þessum ástæðum er það jákvætt skref að tillaga okkar Sjálfstæðismanna, að leikskólar sem eru við stofnbrautir, hafi kost á að fá færanlega loftgæðamæla við sínar starfsstöðvar.

    Fylgigögn

  11. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 12. júní 2023:

    Lagt er til að skóla- og frístundaráð fái kynningu frá Heilbrigðiseftirlitinu á síðustu úttekt á öryggi á og við leikskóla- og grunnskólalóðir. Jafnframt er óskað eftir að ráðið fái yfirlit yfir athugasemdir sem gerðar hafa verið til að bæta öryggi leiksvæða við leik- og grunnskóla borgarinnar.

    Samþykkt. SFS23060082

    Fylgigögn

  12. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands frá fundi borgarráðs 13. júlí 2023 sem vísað var til meðferðar skóla- og frístundaráðs:

    Lagt er til að Reykjavíkurborg komi á laggirnar, í samstarfi við félagsmiðstöðvar grunnskóla, fræðslu um stéttaskiptingu og afleiðingar hennar í samfélaginu. Inni í þeirri fræðslu verði farið yfir ýmsar birtingarmyndir stéttaskiptingar og hvernig fátæktarandúð (e. aporophobia) hefur áhrif á fólk sem verður fyrir henni. Birtingarmyndum fátæktarandúðar verði einnig gerð skil í fræðslunni. Leitað verði til samtaka sem hafa þekkingu og reynslu af fátækt, stéttaskiptingu og afleiðingum þeirra til að sinna fræðslunni. Einnig verði fólki með fagþekkingu á sviði sálfræði og félagsráðgjafar falið að fræða ungmenni um áhrif stéttaskiptingar og fátæktarandúðar á andlega líðan þeirra lægst settu eða þá sem verða fyrir barðinu á andúðinni. Foreldrum ungmenna á frístundamiðstöðvum og leiðbeinendum verði einnig boðið upp á fræðslu. Nánari útfærsla skal unnin hjá skóla- og frístundasviði, í samstarfi við samtök og aðila með reynslu eða þekkingu af fátækt og stéttaskiptingu.

    Greinargerð fylgir.

    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata gegn atkvæði skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. MSS23070049

    Fylgigögn

  13. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 24. ágúst 2023, ásamt umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 23. ágúst 2023, viðauka við þjónustusamning við Tónlistarskóla FÍH vegna neðri stiga tónlistarnáms, reglur um þjónustusamninga Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla og þjónustusamningur Reykjavíkurborgar við Tónlistarskóla FÍH, dags. 21. júlí 2017:

    Lagt er til að samningur Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla FÍH vegna neðri stiga tónlistarnáms sem rann út þann 31. júlí 2023 verði framlengdur með viðauka til 31. júlí 2024, með þeim hætti að framlög til tónlistarskólans verða óbreytt frá fyrri samningi til 30. september 2023. Frá og með 1. október 2023 til 31. júlí 2024 lækki framlög til tónlistarskólans að teknu tilliti til breytinga sem orðið hafa á reglum um þjónustusamninga Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla sem tóku gildi þann 29. júní 2023. Sviðsstjóra er falið að gera samning um kennslu á neðri stigum í samræmi við endanlega útreikninga og fjárheimildir sviðsins. Jafnframt verði í viðauka vegna neðra stigs tekið tillit til breytinga sem orðið hafa á reglum um þjónustusamninga Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla. Gerður er fyrirvari um að tónlistarskólinn uppfylli skilyrði reglna um þjónustusamninga Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla og samningsbundnar skyldur tónlistarskólans samkvæmt núgildandi samningi.

    Greinargerð fylgir.

    Samþykkt. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá. Vísað til borgarráðs. SFS22050078

    Fylgigögn

  14. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 24. ágúst 2023, ásamt umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 23. ágúst 2023, viðauka við þjónustusamning við Tónstofu Valgerðar vegna neðri stiga tónlistarnáms, reglur um þjónustusamninga Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla og þjónustusamningur Reykjavíkurborgar við Tónstofu Valgerðar, dags. 18. ágúst 2017:

    Lagt er til að samningur Reykjavíkurborgar við Tónstofu Valgerðar vegna neðri stiga tónlistarnáms sem rann út þann 31. júlí 2023 verði framlengdur með viðauka frá 1. ágúst 2023 til 31. júlí 2024, með þeim hætti að framlög til tónlistarskólans verða óbreytt frá fyrri samningi. Framlög verði tímabundið óbreytt þrátt fyrir breytingu á reglum um þjónustusamninga Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla sem tóku gildi þann 29. júní 2023, sem leiða til skerðingar framlaga vegna aldurs nemenda Tónstofu Valgerðar. Vegna sérstöðu Tónstofu Valgerðar hvað varðar tónlistarnám fullorðins fólks með staðfesta fötlunargreiningu gilda, vegna skólaársins 2023 til 2024, ekki aldursviðmið reglna um þjónustusamninga Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla sem tóku gildi þann 29. júní 2023. Einnig er lagt til að hafið verði formlegt samtal við velferðarsvið Reykjavíkurborgar og ríkisvaldið um hvernig fjármögnun tónlistarnáms fullorðins fólks með fötlun verður best fyrirkomið til framtíðar. Sviðsstjóra er falið að gera samning um kennslu á neðri stigum í samræmi við endanlega útreikninga og fjárheimildir sviðsins. Jafnframt verði í viðauka vegna neðri stiga tekið tillit til breytinga sem verða á reglum um þjónustusamninga Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla eftir því sem við á vegna undanþágu fullorðins fólks með staðfesta fötlunargreiningu. Gerður er fyrirvari um að tónlistarskólinn uppfylli skilyrði reglna um þjónustusamninga Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla og samningsbundnar skyldur samkvæmt  samningi við tónlistarskólann.

    Greinargerð fylgir.

    Samþykkt. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá. Vísað til borgarráðs. SFS22050078

    Fylgigögn

  15. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 22. ágúst 2023, um hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs 2023. SFS23080132

    Fylgigögn

  16. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 22. ágúst 2023, um stöðu ráðninga á skóla- og frístundasviði 22. ágúst 2023. SFS23060085

    Jóhanna H. Marteinsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er ljóst af þeim tölum sem fyrir liggja að enn vantar að ráða í rúmlega 109 stöður á leikskólum og auk þessa stendur fyrir dyrum að ráða þurfi í rúmlega 50 stöðugildi á næstu vikum og mánuðum vegna starfsfólks sem er að hætta störfum eða er að fara í leyfi. Ljóst er að afleiðingar þessarar manneklu mun koma niður á inntöku barna í leikskóla. Bregðast þarf við þessari stöðu og leita allra leiða til að manna leikskólana sem fyrst. Einnig liggur fyrir að hefðbundið er að biðlistar myndast á frístundaheimilin þegar skólar hefjast á haustin. Bregðast þarf við þeirri stöðu með fleiri úrræðum en að manna þau með tímabundnum störfum námsmanna. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa margítrekað bent á og komið með tillögur um að með því að gera störfin á frístundaheimilum að heilsársstörfum verði betur hægt að tryggja að öll börn komist inn á frístundaheimili um leið og skólar hefjast á haustin.

    Fylgigögn

  17. Lögð fram yfirlit innkaupa yfir 1. m.kr. á skóla- og frístundasviði október – desember 2022 og janúar – mars 2023. SFS22100120

    Fylgigögn

  18. Lögð fram yfirlit ferða á skóla- og frístundasviði október – desember 2022 og janúar – mars 2023, dags. 7. júlí 2023. SFS22100121

    Kl. 16.19 víkja Arndís Steinþórsdóttir og Ragnheiður E. Stefánsdóttir af fundinum.

    Fylgigögn

  19. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 24. ágúst 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um stöðu ráðninga á skóla- og frístundasviði, sbr. 18. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 12. júní 2023. SFS23060085

    Fylgigögn

  20. Svar við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um skráningu á líkamlegu ofbeldi gagnvart starfsfólki – framlagning. SFS23040099

    Fylgigögn

  21. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 5. júlí 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um fjölda starfsfólks skóla- og frístundasviðs á miðstöðvum, sbr. 33. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 26. júní 2023. SFS23060222

    Fylgigögn

  22. Lagt fram svar menningar- og íþróttasviðs, dags. 6. júlí 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um nýtingu frístundastyrks fyrir sumarfrístundastarf, sbr. 18. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 22. maí 2023. SFS23050122

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Spurt var út í það hvers vegna ekki mætti nýta frístundastyrk borgarinnar fyrir sumarfrístund. Í svörum kemur fram að slíkt sé gert til að tryggja eftir föngum að iðkendur tengist félagslegu umhverfi yfir ákveðin lágmarkstíma. Þá er einnig talið að stutt námskeið, jafnvel þó að þau innibæru sama tímafjölda, hefðu ekki sömu áhrif og að með því að ráðstafa öllum frístundastyrknum á eitt stutt námskeið skerði það möguleika barnsins til að greiða fyrir virka þátttöku í frístundastarfi sem stendur yfir lengri tíma. Fulltrúi Sósíalista tekur það fram að fátækt og aðrar félagslegar aðstæður skerða möguleika barna til virkrar þátttöku í frístundastarfi. Mörg börn geta ekki tekið þátt í löngu skipulögðu frístundastarfi sökum fátæktar og annarra félagslegra aðstæðna og frístundastyrkur upp á 75.000 kr. er oft aðeins dropi í hafið upp í þau gjöld sem fylgja frístundastarfi. Það er því mjög útilokandi að skylda barnafjölskyldur til þess að ráðstafa frístundastyrknum einungis á námskeið sem eru 10 vikur eða lengur og þar með útiloka nýtingu styrksins yfir sumartímann. 

    Fylgigögn

  23. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 5. júlí 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um fjölda barna sem foreldrar velja að setja ekki á leikskóla, sbr. 39. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 26. júní 2023. SFS23060211

    Fylgigögn

  24. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 25. júlí 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um verklag við niðurfellingu skulda á skóla- og frístundasviði, sbr. 21. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 16. janúar 2023. SFS23010090

    Fylgigögn

  25. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 19. júlí 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um matarþjónustu í grunnskólum, sbr. 24. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 7. nóvember 2022. SFS22110035

    Fylgigögn

  26. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. júlí 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um kostnað við aðkeyptan mat í grunn- og leikskólum, sbr. 22. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 7. nóvember 2022. SFS22110033

    Fylgigögn

  27. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. júlí 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um hlutfall barna í mataráskrift í grunnskólum, sbr. 23. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 7. nóvember 2022. SFS22110031

    Fylgigögn

  28. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. ágúst 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um fjölda dagforeldra, sbr. 21. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. júlí 2023. MSS23070102

    Fylgigögn

  29. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 26. júní 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um atriði varðandi grunn- og leikskólastarf, sbr. 31. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. október 2022. MSS22100200

    Fylgigögn

  30. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 23. ágúst 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um árangursmælingar á sérkennslu í grunnskólum, sbr. 36. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. mars 2023. MSS23030036

    Fylgigögn

  31. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 24. ágúst 2023, um embættisafgreiðslu sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, eitt mál. SFS22080009

    Fylgigögn

  32. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Óskað er eftir að staða biðlista á borgarreknum leikskólum verði lögð fram á næsta reglulega fundi skóla- og frístundaráðs.

    Frestað. SFS23080172

  33. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Óskað er eftir kynningu fyrir skóla- og frístundaráð á starfsemi og hlutverki Námsflokka Reykjavíkur.

    Frestað. SFS23080173

  34. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Almennt á skóla- og frístundasvið að svara fyrirspurnum innan tveggja mánaða, sbr. svar sviðsstjóra, dags. 4. ágúst 2022 (SFS22060096). Ljóst er að þetta tímaviðmið stenst sjaldnast, sbr. t.d. fremur einfalda en ósvaraða fyrirspurn frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins sem lögð var fram 22. maí sl. á fundi ráðsins og er undir dagskrárlið 17 í fundargerð þess fundar. Óskað er upplýsinga um hver hafi verið meðaltími svara við fyrirspurnum á tímabilinu 14. júní 2022 til og með 28. ágúst 2023. Einnig er óskað eftir því að varpað sé ljósi á hvort ætlunin sé að flýta svörum sem þessum og þá hvernig.

    SFS23080162

  35. Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hversu margir foreldrar fá afslátt af leikskólagjöldum í hverjum flokki: 1. Einstæðir foreldrar. 2. Báðir foreldrar í námi. 3. Annað eða báðir foreldrar öryrkjar. 4. Annað eða báðir á endurhæfingarlífeyri TR. 5. Starfsfólk leikskóla Reykjavíkur. Hvernig og hversu oft hefur skóla- og frístundasvið kynnt fyrir foreldrum rétt á afslætti af leikskólagjöldum? Komið hefur í ljós að ekki hefur verið kynnt með fullnægjandi hætti að foreldrar á endurhæfingarlífeyri eigi rétt á afslætti af leikskólagjöldum, upplýsingar á heimasíðu borgarinnar eru misvísandi og aðeins er hægt að fá afslátt afturvirkt í einn mánuð. Hér eru foreldrar í viðkvæmri stöðu og mikilvægt að upplýsingamiðlun borgarinnar sé eins og best verður á kosið.

    SFS23080152

Fundi slitið kl. 16:32

Sabine Leskopf Alexandra Briem

Ásta Björg Björgvinsdóttir Guðný Maja Riba

Helgi Áss Grétarsson Marta Guðjónsdóttir

Sanna Magdalena Mörtudottir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 28. ágúst 2023