Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 255

Skóla- og frístundaráð

Ár 2023, 12. júní, var haldinn 255. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.15.
Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Árelía Eydís Guðmundsdóttir formaður (B), Alexandra Briem (P), Helgi Áss Grétarsson (D), Marta Guðjónsdóttir (D), Sabine Leskopf (S); Sara Björg Sigurðardóttir (S) og Trausti Breiðfjörð Magnússon (J). Eftirtaldir áheyrnarfulltrúar voru komnir til fundar í fundarherberginu Hofi: Arndís Steinþórsdóttir, skólastjórar í grunnskólum; Helgi Eiríksson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva og Úlfhildur Elísa Hróbjartsdóttir, Reykjavíkurráð ungmenna. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir. Eygló Traustadóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 7. júní 2023, þar sem tilkynnt er að Alexandra Briem taki sæti í skóla- og frístundaráði í stað Elísabetar Guðrúnar Jónsdóttur. MSS22060048

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 23. febrúar 2023, um svohljóðandi tillögu Emblu Maríu Möller Atladóttur, fulltrúa í ungmennaráði Grafarvogs, sem á fundi borgarstjórnar 14. febrúar 2023 var vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 11. apríl 2023, um tillöguna:

    Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela skóla- og frístundaráði að hefja vinnu við innleiðingu skyldunáms í fjármálalæsi í samstarfi við grunnskóla Reykjavíkurborgar. Miða skal við að kennsla hefjist í öllum grunnskólum eigi síðar en á haustmisseri 2024.

    Greinargerð fylgir.

    Frestað. MSS23020093

    Embla María Möller Atladóttir, Hallur Hrafn Garðarsson Proppé og Hulda Valdís Valdimarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Kl. 13.30 tekur Sigríður Björk Einarsdóttir sæti á fundinum.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 23. febrúar 2023, um svohljóðandi tillögu Emilíu Nætur Starradóttur, fulltrúa í ungmennaráði Árbæjar og Holta, sem á fundi borgarstjórnar 14. febrúar 2023 var vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 11. maí 2023, um tillöguna:

    Lagt er til að borgarstjórn hætti við að stytta opnunartíma í félagsmiðstöðvum og sé í samskiptum við ungmennaráð borgarinnar áður en teknar eru ákvarðanir um frístundastarf unglinga.

    Greinargerð fylgir.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:

    Lagt er til að opnunartími félagsmiðstöðva verði styttur um 15 mínútur á mánudögum og miðvikudögum en opnunartími verði ekki styttur á föstudögum. Félagsmiðstöðvar hagræði sem samsvarar því fjármagni að hafa opið í 15 mínútur með öðrum leiðum.

    Samþykkt með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata gegn þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands.

    Tillagan er samþykkt svo breytt með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata gegn þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands. MSS23020091

    Hallur Hrafn Garðarsson Proppé og Hulda Valdís Valdimarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks vilja byrja á því að þakka fyrir þá vinnu sem lögð hefur verið í tillögugerð ungmennaráðs Árbæjar og Holta. Efnislega er tillaga ungmennaráðsins tvíþætt, í fyrsta lagi að borgarstjórn hætti við að stytta opnunartíma í félagsmiðstöðvum og í öðru lagi að samráð eiga að vera haft við ungmennaráð borgarinnar þegar svona ákvarðanir eru teknar. Miðað við mikilvægi málefnisins fyrir hagsmuni unglinga er óhætt að taka undir tillögu ungmennaráðsins. Hér er sérstaklega haft í huga það ríka forvarnargildi sem félagsmiðstöðvar hafa. Sparnaðurinn af styttingu opnunartímans er rýr og næg tækifæri annars staðar í borgarkerfinu til að spara álíka fjárhæð. Einnig er sú ábending réttmæt, sbr. 2. ml. 2. mgr. 11. gr. æskulýðslaga nr. 80/2007, að sveitarfélag eigi að hafa samráð við ungmennaráð um málefni sem varða hagsmuni þeirra. Að lokum skal þess getið að á veturna er útivistartími 13-16 ára lengri en sem nær til kl. 22:00, sbr. 1. mgr. 92. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er bagalegt að meirihlutinn hafi ekki getað dregið styttri opnunartíma félagsmiðstöðva til baka. Rökin fyrir þeim aðgerðum eru hagræðingar en eins og dæmin sýna vitum við að svona niðurskurðir munu kosta samfélagið meira til lengri tíma litið. Samfés sem starfa í þágu ungs fólks um land allt hafa gagnrýnt þessar breytingar og benda á tvískinnunginn þegar meirihlutinn segist vera að vinna út frá hugmyndafræðinni Betri borg fyrir börn. Samfélagið kalli eftir auknu forvarnarstarfi og langtímaafleiðingar þess að draga þar úr muni kosta samfélagið mikið. Hinn eini sanni sparnaður felist í því að halda áfram og auka frekar við það öfluga og faglega forvarnarstarf sem fer fram í starfi félagsmiðstöðva Reykjavíkurborgar.

    Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva í skóla -og frístundaráði vill þakka ungmennaráði Árbæjar og Holta fyrir vandaða og góða tillögu um að hætt verði við að stytta opnunartíma félagsmiðstöðva í Reykjavík og ósk þeirra um samráð um aðgerðir sem snúa beint að ungmennum. Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva tekur undir þau sjónarmið sem komu fram á fundinum að niðurskurðurinn er ansi rýr í krónum talið miðað við þá þjónustu skerðingu sem verður á opnunartíma félagsmiðstöðva. Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra harmar það mjög að ekki skuli hafa verið haft samráð við ungmennaráð Reykjavíkurborgar og ekki hlustað betur á raddir þeirra. Það ber þó að virða þá viðleitni að koma til móts við tillöguna með því að stytta ekki opnun á föstudögum.

    Fylgigögn

  4. Fram fer kynning og umræða um skólaforðun í grunnskólum. SFS23060049

    Ingibjörg Íris Þorvaldsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að ráðist sé í greiningu á því hvað veldur því að nemendur skila sér ekki í skóla. Öllum börnum á að líða vel í skóla og líklegt er að staðan sé langt frá því að vera þannig miðað við stöðuna. Nauðsynlegt er að veita styrkleikum allra nemenda brautargengi og að þeir hafi þá tilfinningu að í skólanum sé verið að virkja áhugamálin. Það þarf meiri skilning á þörfum hvers nemanda fyrir sig og einnig þarf fjölbreytnin í námi að vera meiri. Aðlaga þarf námið að fólki, ekki fólkið að náminu.

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjórnarfulltrúa Flokks fólksins sem var á fundi borgarstjórnar 5. apríl 2022 vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs:

    Flokkur fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að fela skóla- og frístundasviði og velferðarsviði að framkvæma úttekt á hvort samræmdar viðmiðunarreglur um skólasókn hafi nýst grunnskólum í Reykjavík til að fylgjast með fjölda þeirra tilvika þar sem nemendur forðast skóla og til að bæta skólasókn. Vísbendingar eru um að hópur þeirra nemenda sem glíma við þennan vanda fari stækkandi. Árið 2015 tóku grunnskólar Breiðholts í notkun samræmt skólasóknarkerfi (samræmdar viðmiðunarreglur) í 1.-10. bekk til að fylgjast með fjölda mála af þessum toga og vinna markvisst gegn skólaforðun. Í kjölfarið var teymi um skólaforðun sett á laggirnar sem lagði m.a. til að önnur hverfi borgarinnar gerðu slíkt hið sama. Um var að ræða viðmiðunarkerfi sem sýndi „hættumerki“, s.s. „rauð flögg“, þegar skólasókn færi niður fyrir ákveðin skilgreind viðmiðunarmörk. Í kerfinu er ekki gerður greinarmunur á ástæðu fjarveru, vegna leyfa, veikinda eða óleyfilegra fjarvista. Fulltrúi Flokks fólksins telur að tímabært sé að skoða með markvissum hætti hvort og þá hvernig hinar samræmdu viðmiðunarreglur/viðmiðunarkerfið um skólasókn hafi nýst til að fylgjast með fjölda mála er lúta að skólaforðun og til að bæta skólasókn.

    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata gegn tveimur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá. MSS22030023

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skólaforðun hefur verið talsvert til umfjöllunar á undanförnum misserum og veruleg vinna hefur verið lögð í að greina fyrirbærið og móta verklag um aðgerðir til að mæta og draga úr vandanum. Sú vinna skilaði ítarlegu verklagi árið 2019 sem unnið hefur verið eftir síðan. Könnun sem hér hefur verið kynnt sýnir að góð vitneskja sé um verklagið í skólasamfélaginu og unnið sé eftir því. COVID faraldurinn hefur hins vegar tekið sviðið undanfarin tvö ár og því eðlilegt að skoða hvernig til hefur tekist við innleiðinguna og meta hvort þörf sé á sérstakri úttekt í því sambandi. Ljóst er að innleiðing samstarfsverkefnisins Betri borg fyrir börn skapar grundvöll fyrir markvissari vinnubrögðum við greiningu og stuðning við börn í viðkvæmri stöðu. Við lok síðasta skólaárs var nú þegar tekin ákvörðun um að safna miðlægt upplýsingum um fjölda barna með hátt fjarvistarstíg. Telur meirihluti fulltrúa í skóla- og frístundaráði mikilvægt að halda vinnunni áfram, efla virkt forvarnastarf, nýta þau gögn sem liggja fyrir og halda áfram greiningu á þeim, stuðla að frekara samtali og samvinnu foreldra og skólasamfélagsins einmitt í von um að lágmarka skólaforðun og vinna gegn henni. Tillögunni er þess vegna vísað frá.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér er lögð fram tillaga frá fulltrúa stjórnmálaflokks í minnihluta sem kom fyrst fyrir sjónir skóla- og frístundaráðs í apríl 2022, þ.e. fyrir 14 mánuðum síðan. Núna í dag, 12. júní 2023, er ákveðið að vísa tillögunni frá í kjölfar kynningar embættismanna á stöðu málefnisins, þ.e. skólaforðun í grunnskólum Reykjavíkur. Þessi vinnubrögð eru hvorki í anda lýðræðislegrar né skilvirkrar stjórnsýslu.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 8. júní 2023, um seinkun upphafs skóladags í grunnskólum Reykjavíkur. Jafnframt lagt fram minnisblað um betri svefn unglinga í Reykjavík, ódags. MSS23060023

    Erla Björnsdóttir, Ólöf Kristín Sívertsen, Anna Björg Ingadóttir og Hafdís Maria Matsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Góður svefn er undirstaða almennrar heilsu og vellíðunar og afar mikilvægt að börn og unglingar séu vel úthvíld þegar þau koma í skóla. Niðurstöður rannsóknar sem unnin var í nokkrum skólum borgarinnar, um hvort seinkuð skólabyrjun hafi áhrif á svefn barna, sýna að árangur af því að seinka upphafi skóladags er mikill. Í ljósi þessa er mikilvægt að taka samtalið og kanna leiðir til að seinka upphafi skóladags á unglingastigi. Fulltrúar meirihlutans í skóla- og frístundaráði eru sammála um mikilvægi þess að finna bestu mögulegu leiðir til þess að seinka upphafi skóladags í grunnskólum Reykjavíkur, byggt á rannsóknum, og fagna því að þessi vinna sé hafin. Markmiðið er að tillögur að útfærslu kallist á við menntastefnu Reykjavíkurborgar (látum draumana rætast), styðji við nám, lýðheilsu og góðan skólabrag, en ekki er ætlunin að lengja skóla- og frístundadag barna. Þá verði litið til þess hvort breytt fyrirkomulag skóladags geti komið til móts við hugmyndir skólastjórnenda, kennara og starfsfólks um að sinna undirbúningi ýmist fyrir eða eftir skipulagðan skóladag. Fulltrúarnir hvetja skóla- og frístundasvið til að hraða vinnunni, hugsa stórt og stefna að því að vera leiðandi í að endurskipuleggja skóladag barna til að bæta svefn.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks þakka fyrir kynningu á þeirri tilhögun að byrjun skóladags á unglingastigi verði síðar en venja stendur til. Eins og samfélagið hefur þróast virðist það fýsilegt að byrjun skóladags verði seinkað. Að mörgu er þó að huga. Rétt er hins vegar að halda áfram að þróa þessa nálgun og eftir atvikum innleiða þessar breytingar í skrefum.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Rannsóknir gefa vísbendingar um að seinkun á upphafi skóladags skili bættum svefni meðal ungmenna. Fulltrúi Sósíalista styður seinkun á upphafi skóladags og að slíkt verði innleitt sem allra fyrst. Svefntími ungmenna er mjög mikilvægt lýðheilsumál. Tengsl þess við bætta líðan og námsárangur er skýrt. Í þessu samhengi má benda á að klukkan á Íslandi er stillt á vitlaust tímabelti sem flýtir tímanum um klukkustund. Það kann að útskýra hvers vegna íslensk ungmenni fara seinna að sofa en önnur í nágrannalöndunum. Stjórnvöld skoðuðu að seinka klukkunni fyrir fáeinum árum en málið náði ekki í gegn. Helstu sérfræðingar í málefnum svefns og lýðheilsu töluðu fyrir þeirri seinkun. Fulltrúi Sósíalista tekur undir þau álit og telur brýnt að stjórnvöld seinki klukkunni. Þangað til það gerist er gott að Reykjavík bregðist við með seinkun á upphafi skóladags.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram svohljóðandi tillaga menningar- og íþróttasviðs og sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 17. maí 2023:

    Lagt er til að á menningar- og íþróttasviði verði til deild sem kennd er við útilífsborgina Reykjavík. Þrjár skipulagseiningar yrðu þá settar fram í skipuriti sviðsins þ.e. menningarborgin, íþróttaborgin og útilífsborgin. Þessar einingar ynnu þétt saman enda skarast sum málefni og þættir að vissu leiti. Horft er til að sameina núverandi starfsemi sem tilheyrir menningar- og íþróttasviði þ.e. Fjölskyldu- og húsdýragarð, Siglunes og skíðabrekkur innan borgarmarkanna og starfsemi skóla- og frístundasviðs þ.e. Miðstöð útivistar og útináms og Frístundagarðsins sem nú tilheyra frístundamiðstöðinni Brúnni. Allar þessar starfseiningar hafa það sameiginlegt að þjónusta borgarbúa tengt útivist en jafnframt að veita fræðslu til barna- og ungmenna í skóla- og frístundastarfi ásamt því að vera í samstarfi við ýmsa hagsmunaaðila, s.s. íþróttafélög og önnur félagasamtök.

    Greinargerð fylgir.

    Samþykkt. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá. Vísað til borgarráðs. SFS23050012

    Atli Steinn Árnason tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í þessari tillögu á að sameina starfsemi Fjölskyldu- og húsdýragarðsins, Siglunes, skíðabrekkur innan borgarmarka og tiltekna starfsemi skóla- og frístundasviðs. Fulltrúi Sósíalista er ekki sannfærður um að sameining þessara eininga sé til þess fallin að bæta þjónustuna, og mögulega þvert á móti. Sameiningar fela gjarnan í sér dulda niðurskurði og þjónustuskerðingu sem bitnar á íbúum borgarinnar. Líklegt er að svo sé einmitt raunin því að í tillögunni er talað um að sameiningunni fylgi “hagræði”, sem er nýyrði yfir niðurskurð.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 6. mars 2023, ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 11. maí 2023, um tillöguna:

    Lagt er til að skóla- og frístundasvið komi upp viðmiði um hámarksfjölda nemenda á hvern kennara í grunnskólum Reykjavíkur. Bera verði að fylgja slíku viðmiði eftir í starfi grunnskóla. Stutt verði við rannsóknir sem sýni fram á hvert æskilegt hlutfall sé með tilliti til sem bestrar kennslu og starfsskilyrða kennara og nemenda. Jafnframt verði málið unnið í nánu samráði við kennara og óskað eftir þeirra umsögnum og athugasemdum.Tekið verði mark á þeim niðurstöðum þegar kemur að því setja hið nýja viðmið.

    Greinargerð fylgir.

    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata gegn atkvæði skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. SFS23030035

    Fylgigögn

  9. Lögð fram skýrslan Innleiðing breytinga í skóla- og frístundastarfi í norðanverðum Grafarvogi, dags. í júní 2023. SFS23060029

    Kl. 15.53 víkur Arndís Steinþórsdóttir af fundinum.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar. Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun

    Það er gífurlega ánægjulegt að sjá hve vel hefur gengið með breytingar á skóla- og frístundastarfi í norðanverðum Grafarvogi síðustu þrjú árin. Þegar ákvörðun um breytingar var tekin var ljóst að skoðanir væru mjög mismunandi og áhyggjur miklar, og ljóst að sú ákvörðun að taka skrefið byggðist að miklu leyti á tiltrú á getu fagfólks í skólunum, og á skóla- og frístundasviði, til að innleiða breytingarnar með sem bestum hætti, í miklu samráði og þannig að upplýsingagjöf væri góð. Umferðaröryggismál í hverfinu voru tekin föstum tökum samhliða þessum breytingum og upplýsingagjöf mikil. Það er nú að skila sér í því að skipulagsbreytingarnar hafa gengið vel, vellíðan og ánægja barna mælast betri og að mörgu leyti hefur þessi breyting gengið upp eins vel og vonast hefði mátt eftir.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihlutinn virðist lítið hafa lært og engu gleymt og hrósar sér fyrir sameiningar skóla í norðanverðum Grafarvogi sem keyrðar hafa verið í gegn í mikilli andstöðu við íbúa í Staðahverfi Það virðist sem meirihlutinn líti á Grafarvoginn sem tilraunahverfi fyrir skólasameiningar. Stefna meirihlutans um sjálfbær hverfi eiga augljóslega ekki við þegar kemur að Grafarvoginum þar sem enginn grunnskóli er starfandi í Staðahverfi. 

    Fylgigögn

  10. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að fræðimennirnir Hermundur Sigmundsson og Svava Þórhildur Hjaltalín verði boðuð á fund skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur mánudaginn 26. júní nk. til að fjalla um valkosti við að þróa kennslu í lestri í íslensku í leik- og grunnskólum Reykjavíkur. Komist fræðimennirnir ekki á þann ráðsfund þá er lagt til að þeim verði boðið á einhvern af fundum ráðsins næstkomandi ágúst eða september. Fullnægjandi er að annar hvor fræðimannanna geti mætt.

    Frestað með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata gegn þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands. SFS23060046

    Fylgigögn

  11. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 1. júní 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um lækkun kennsluskyldu, sbr. 24. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 6. febrúar 2023. SFS23020037

    Fylgigögn

  12. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 1. júní 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um fjölda barna á biðlista eftir skólaþjónustu sem glíma við skólaforðun, sbr. 25. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. janúar 2023. MSS22020237

    Fylgigögn

  13. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 1. júní 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um samræmdar skólasóknarreglur, sbr. 29. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. febrúar 2023. MSS23020012

    Fylgigögn

  14. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 1. júní 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um áhuga grunnskóla í Reykjavík á verkefninu Kveikjum neistann, sbr. 34. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. apríl 2023. MSS23040240

    Fylgigögn

  15. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að skóla- og frístundaráð fái kynningu frá Heilbrigðiseftirlitinu á síðustu úttekt á öryggi á og við leikskóla- og grunnskólalóðir. Jafnframt er óskað eftir að ráðið fái yfirlit yfir athugasemdir sem gerðar hafa verið til að bæta öryggi leiksvæða við leik- og grunnskóla borgarinnar.

    Frestað. SFS23060082

  16. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að skóla- og frístundasvið láti framkvæma könnun meðal grunnskólanemenda í þeim tilgangi að safna gögnum um upplifun barna af því að vera ekki í skólamat. Spurningakönnunin verði sett upp af ytri aðila, en Reykjavíkurborg hefur unnið með slíkum aðilum áður við gerð spurningakannana í grunnskólum. Mikilvægt er að upplifun barna af því að hafa ekki aðgang að máltíðum í hádeginu sé kortlögð.

    Frestað. SFS23060083

  17. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska upplýsinga um aukna myglu sem fannst fyrir skömmu í Langholtsskóla. Um hve umfangsmiklar mygluskemmdir er að ræða og hvaða afleiðingar mun ástand skólahúsnæðisins hafa á skólastarf á komandi hausti? Að lokum, til hvaða ráðstafana er fyrirhugað að grípa til í því skyni að leysa húsnæðisvanda skólans?

    SFS23060084

  18. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir stöðu ráðningarmála í leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum Reykjavíkurborgar fyrir komandi vetur. Óskað er eftir að þessar upplýsingar verði lagðar fram í ráðinu á næsta reglulega fundi skóla- og frístundaráðs.

    SFS23060085

  19. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Á fundi skóla- og frístundaráðs 22. maí sl. var kynnt staða innritunar á leikskóla í Reykjavík. Í þeirri kynningu kom m.a. fram að veikindum hafi fækkað á þeim leikskólum þar sem aðbúnaður hafi verið bættur. Þar má nefna umbætur eins og lýsingu, hljóðvist og loftgæði. Hvernig hefur hlutfall veikindafjarvista þróast í þeim leikskólum þar sem slíkar endurbætur hafa átt sér stað? Hversu margt starfsfólk starfar á þeim leikskólum sem um ræðir? Ef hlutfallið hefur lækkað, hve mikið fé hefur sparast vegna þess?

    SFS23060086

Fundi slitið kl. 16:03

Árelía Eydís Guðmundsdóttir Alexandra Briem

Helgi Áss Grétarsson Marta Guðjónsdóttir

Sabine Leskopf Sara Björg Sigurðardóttir

Trausti Breiðfjörð Magnússon

PDF útgáfa fundargerðar
Skóla- og frístundaráð 12. júní 2023 - prentvæn útgáfa